Frí faðmlög

Í dag fór ég á Laugaveginn ásamt fríðu föruneyti (tveim dúllum) og buðum við vegfarendum upp á frí faðmlög. Alþjóðlega átakið ber nafnið „Free hugs“ og hófst það árið 2004 í Ástralíu en hefur það breiðst út til annarra landa. Það er regla að það má ekki stunda markaðsetningu samhliða átakinu þar sem faðmlögin eiga að vera merki um góðmennsku í þeim tilgangi að láta öðrum líða betur.

Við lögðum af stað frá Lækjartorgi rétt fyrir klukkan tvö í dag og fórum upp Laugaveginn og buðum fólki upp á faðmlög. Á leiðinni fórum við í litla jólaþorpið þar sem tekið var vel á móti okkur. Þaðan var ferðinni haldið áfram um Laugaveginn þar til við nálguðumst Hlemm en þá var klukkan að nálgast þrjú. Fórum við þá að leggja af stað tilbaka og byrjuðum þá að fara inn í búðir. Almennt tóku viðskiptavinir þeirra og starfsfólkið vel á móti okkur. Klukkan var síðan um hálf sex þegar við vorum komin aftur á Lækjartorgið. Átakið mun halda áfram að ári liðnu – eða jafnvel fyrr.

Þetta var nokkuð ánægjuleg reynsla og var skemmtilegt að sjá viðbrögð fólks þegar því var boðið upp á frí faðmlög. Sumir brostu út að eyrum og föðmuðu okkur og einhverjir föðmuðu okkur oftar en einu sinni á ferðalagi okkar. Yfirgnæfandi meirihluti vegfarenda tók boði okkar um faðmlög en sumir tóku ekki við því. Þeir vita ekki hverju þeir eru að missa af. 😀

Faðmlög eru dýrmæt, jafnvel þótt þau séu ókeypis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.