Niðurhalsstefna Símans og Vodafone

Eftir að ég rakst á ásakanir um að stefna Símans um erlent niðurhal væri fáránleg, þá gat ég ekki staðist það að skrifa um það. Að mínu mati er stefna Símans miklu betri en sú sem Vodafone er með.

1. Síminn núllstillir ekki niðurhalið um hver mánaðarmót
Vodafone er með þá stefnu að tölur um erlent niðurhal núllstillist um hver mánaðarmót en á móti er Síminn með þá stefnu að miða alltaf við seinustu 30 daga. Munurinn sem um ræðir felst í viðurlögunum ef viðskiptavinurinn fer yfir það takmark. Skýri það í öðrum lið.

2. Viðurlög ef farið er yfir takmörk í erlendu niðurhali
Hér er stór sanngirnismunur þar sem Síminn fær stóran plús fram yfir Vodafone. Hjá Símanum er hraði viðskiptavinar frá útlöndum lækkaður þar til niðurhalsmagn seinustu 30 daga er neðar en 40 GB. Aðra sögu er að segja um Vodafone. Þar er allt erlent niðurhal skorið niður. Viðskiptavinurinn fær ekkert aðgengi út fyrir landið þar til mánuðurinn er liðinn. Ímyndaðu þér ef þú ferð yfir takmarkið, jafnvel örlítið yfir það, þegar það eru margir dagar eftir af mánuðnum. Það er svo lítið af innlendu afþreyingarefni að það er alveg eins hægt að sleppa því að nota Internetið.

3. Af hverju stefna Símans er betri varðandi hraða til og frá útlöndum
Það sem Vodafone er að gera er að hver sem ætlar að nýta þessi inniföldu 40 GB (áður 80 GB) mun auðvitað niðurhala þeim á seinustu dögum mánaðarins. Þetta veldur því, séu nógu margir sem hugsa þannig, að erlend umferð verður miklu verri fyrir vikið þá dagana. Stefna Símans er að því leiti miklu betri þar sem hún hvetur viðskiptavinina til þess að viðhalda ákveðnu meðaltali á umferð þ.e. að umferð seinustu 30 daga fari ekki yfir 40 GB. Jafnvel þótt farið sé yfir 40 gígabætin mun umferð elsta dagsins í viðmiðinu hverfa og sé hún þá fyrir neðan takmarkið mun fullur hraði vera mögulegur þar til farið er yfir takmarkið aftur.

4. Stefna Símans er ekki fullkomin
Auðvitað er hún ekki gallalaus. Ef viðskiptavinurinn ákveður að niðurhala rosalega miklu frá útlöndum á einum degi mun kerfið ekki fyrirgefa það fyrr en sá dagur er farinn úr viðmiðinu. En samt er stefna Símans betri en hjá Vodafone að þessu leyti. Síminn klippir ekki algerlega á erlenda umferð eins og Vodafone gerir svo að það er vel hægt að niðurhala frá útlöndum á þessu tímabili. Ef viðskiptavinurinn nær í 40 gígabæti á fyrsta degi mánaðarins, hjá hvorum aðilanum væri betra að vera? Svarið er augljóslega „hjá Símanum“.

Þessi rantur nær ekki yfir aðra netþjónustuaðila en Símann og Vodafone. Það getur vel verið að einhverjir aðrir bjóði upp á betri kjör en rétt skal vera rétt.

3 athugasemdir við “Niðurhalsstefna Símans og Vodafone”

  1. Starfsmaður Símans útskýrði þetta þannig fyrir mér í síma að þeir skoðuðu bara síðustu 7 daga og athuguðu hvort að erlent gagnamagn hefðu farið yfir 10 GB á því tímabili. Kostur við þannig kerfi er að þú þarft aldrei að bíða mjög lengi eftir að tengingin þín fengi fullan hraða aftur, oftast bara 1-2 daga. Galli við þetta kerfi er ef við segjum t.d. að viðskiptavinurinn fer erlendis í 3 fyrstu vikur mánaðar, þá getur sá hinn sami aðeins sótt 10 GB þann mánuðinn í staðinn fyrir 40 GB ef hann væri hjá Vodafone.

    Þetta símtal var í maí fyrr á þessu ári, þeir hafa ekki sent mér neinar upplýsingar um það væri búið að breyta þessu neitt svo ég geri ráð fyrir þetta sé enn svona.

    Sjálfum þætti mér sniðugast ef Síminn gæti t.d. breytt þessu kerfi þannig að setja hámarkið í t.d. 20 GB á 7 dögum og annað hámark sem 40 GB á síðustu 28 dögum. Frekar pirrandi að ætla sér að sækja erlendar skrár sem ná samtals yfir 10GB og þurfa þess vegna að sækja þær í mörgum pörtum yfir mánuðinn.

  2. Ég er hjá Símanum og sé ekki betur en að þetta sé 40 GB yfir seinustu 30 daga. Viðskiptavinir Símans fá meira að segja aðgang að vefsíðu sem birtir þetta sundurliðað niður á dag og niður á klukkutíma.

    Ég hef farið rétt svo yfir 40 GB takmarkið og sé ekki betur en að þetta virki eins og þetta er auglýst.

  3. Gæti verið að þeir séu búnir að breyta þessu, enda veit ég um marga sem kvörtuðu yfir þessu 10 GB kerfi hjá þeim í vor þegar ég var að spá í þessu öllu saman. Ég hef svosem nánast ekkert sótt erlendis í allt sumar þannig ég hef sjálfur ekki fundið fyrir neinni breytingu, en það er samt gott að vita.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.