Lærdómur vegna kosninganna

Niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna eru túlkaðar á marga mismunandi vegu og fer aðallega eftir því hvaða skoðun viðkomandi er haldinn hvernig þær eru túlkaðar. Sem flokksbundnum einstaklingi í Auða flokknum ætla ég að gefa mitt álit á niðurstöðunum í Reykjavík, þar sem þær virðast vera mest túlkaðar.

Fáum fyrst upp atkvæðatölur flokkanna í Reykjavík. Atkvæðatölurnar 2006 eru fengnar frá vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og tölurnar fyrir 2010 eru fengnar frá vef RÚV og stemmdar af þær sem eru á vef mbl.is.

B – Framsóknarflokkurinn
2006 = 4056 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 1629 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  2427 atkv. (59,84% fækkun)

D – Sjálfstæðisflokkurinn
2006 = 27.823 atkv. (7 fulltrúar)
2010 =20.006 atkv. (5 fulltrúar)
Mismunur =  7817 atkv.  (17,31% fækkun)

E – Reykjavíkurframboðið
2006 = Ekki til
2010 = 681 atk. (enginn fulltrúi)

F – Frjálslyndir og óháðir
2006 = 6.527 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 274 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  6253 atkv. (95,80% fækkun)

H – Framboð um heiðarleika og almannahagsmuni
2006 = Ekki til
2010 = 668 atkv. (enginn fulltrúi)

S – Samfylkingin
2006 = 17.750 (4 fulltrúar)
2010 = 11.344 atkv. (3 fulltrúar)
Mismunur =  6406 atkv. (56,47% fækkun)

V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð
2006 = 8.739 atkv. (2 fulltrúar)
2010 =  4.255 atkv. (1 fulltrúi)
Mismunur =  4484 atkv. (51,31% fækkun)

Æ – Besti flokkurinn
2006 = Ekki til
2010 =  20.666 atkv. (6 fulltrúar)

Samtals (gild atkvæði)
2006 = 64.895
2010 =  59.523

Þegar tölurnar frá 2006 og 2010 eru bornar saman kemur ýmislegt fram. Allir flokkarnir sem buðu sig fram í báðum kosningum eiga það sameiginlegt að hafa fengið færri atkvæði 2010 en þeir gerðu 2006 og fengu jafnframt færri fulltrúa þrátt fyrir að kjörsókn var minni. Mismunurinn gefur til kynna þann lágmarksfjölda sem kaus flokkinn 2006 en kaus hann ekki 2010. Afgangurinn er væntanlega óályktunarhæfur þar sem við vitum ekki hversu margar kusu flokkinn 2010 en gerðu það ekki 2006.

Hlutfallslega féll atkvæðafjöldi Frjálslyndra mest með 95,80% fækkun atkvæða á meðan atkvæðafjöldi Sjálfstæðisflokksins féll um 17,31%. Því er hægt að draga þá ályktun að af eldri flokkunum stóðst Sjálfstæðisflokkurinn ‚áhlaupið‘ best af öllum hinum í Reykjavík nema þegar kemur að fækkun borgarfulltrúa. Af nýju flokkunum er augljóst að Besti flokkurinn hlýtur vinninginn þar sem hann fékk flest atkvæði af öllum sem buðu sig fram.

Önnur túlkun þarf að bíða til betri tíma.

Gengi Auða flokksins

Sem áframhald greinar minnar þann 28. maí síðastliðinn um Auða flokkinn ákvað ég að athuga gengi hans víðsvegar á landinu. Tölurnar eru fengnar frá vef RÚV og eru eingöngu talin auð atkvæði en ekki ógild þar sem ástæður fyrir ógildingu geta verið ýmsar.

Sniðið er eftirfarandi:
Kjördæmi – Kjörsókn (hversu margir greiddu atkvæði) – Auð atkvæði –  Hlutfall auðra atkvæða af heildarfjölda

Höfuðborgarsvæðið:
Reykjavík – 63.019 – 3.238 – 5,14%
Kópavogur – 14.704 – 915 – 6,22%
Seltjarnarnes – 2.432 – 148 – 6,09%
Garðabær – 5.567 – 307 – 5,51%
Hafnarfjörður – 11.589 – 1.578 – 13,62%
Álftanes – 1.110 – 124 – 11,17%
Mosfellsbær – 3.939 – 268 – 6,80%
Kjósarhreppur – 149 – 2 – 1,34%

Reykjanes:
Reykjanesbær – 6.647 – 376 – 5,66%
Grindavík – 1.507 – 39 – 2,59%
Sandgerði – 911 – 0 – 0%
Garður – 793 – 0 – 0%
Vogar – 610 – 0 – 0%

Vesturland:
Akranes – 3.149 – 292 – 9,27%
Skorradalshreppur – Óhlutbundin kosning
Hvalfjarðarsveit – 384 – 10 – 2,60%
Borgarbyggð – 1.892 – 169 – 8,93%
Grundarfjörður – 554 – 8 – 1,44%
Helgafellssveit – Óhlutbundin kosning
Stykkishólmur – 729 – 26 – 3,57%
Eyja- og Miklaholtshreppur – Óhlutbundin kosning
Snæfellsbær – 983 – 0 – 0%
Dalabyggð – Óhlutbundin kosning

Vestfirðir:
Bolungarvík – 480 – 30 – 6,25%
Ísafjörður – 2.112 – 75 – 3,36%
Reykhólahreppur – Óhlutbundin kosning
Tálknafjörður – Sjálfkjörinn listi
Vesturbyggð – 508 – 37 – 7,28%
Súðavíkurhreppur – 108 – 0 – 0%
Árneshreppur – Óhlutbundin kosning
Kaldraneshreppur – Óhlutbundin kosning
Bæjarhreppur – Óhlutbundin kosning
Strandabyggð – 254 – 0 – 0%

Norðurland vestra:
Skagafjörður – 2.199 – 117 – 5,32%
Húnaþing vestra – 606 – 0 – 0%
Blönduós – 473 – 47 – 9,94%
Skagaströnd- Sjálfkjörinn listi
Skagabyggð – Óhlutbundin kosning
Húnavatnshreppur – 268 – 0 – 0%
Akrahreppur – Óhlutbundin kosning

Norðurland eystra:
Akureyri – 9.357 – 310 – 3,31%
Norðurþing – 1.645 – 85 – 5,17%
Fjallabyggð – 1.297 – 50 – 3,86%
Dalvíkurbyggð – 1.060 – 49 – 4,62%
Eyjafjarðarsveit – 517 – 0 – 0%
Arnarneshreppur og Hörgárbyggð – 352 – 10 – 2,84%
Svalbarðsstrandarhreppur – Óhlutbundin kosning
Grýtubakkahreppur – Óhlutbundin kosning
Skútustaðahreppur – 248 – 4 – 1,61%
Tjörnes – Óhlutbundin kosning
Þingeyjarsveit – 549 – 17 – 3,10%
Svalbarðshreppur – Óhlutbundin kosning
Langanesbyggð – Óhlutbundin kosning

Austurland:
Seyðisfjörður – 488 – 5 – 1,02%
Fjarðabyggð – 2.347 – 147 – 6,26%
Vopnafjörður – 462 – 7 – 1,52%
Fljótsdalshreppur – Óhlutbundin kosning
Borgarfjarðarhreppur – Óhlutbundin kosning
Breiðdalshreppur – Sjálfkjörinn listi
Djúpivogur – Sjálfkjörinn listi
Fljótsdalshérað- 1.830 – 128 – 6,99%
Hornafjörður – 1.260 – 47 – 3,73%

Suðurland:
Vestmannaeyjar – 2.465 – 71 – 2,88%
Árborg – 4.164 – 372 – 8,93%
Mýrdalshreppur – 336 – 0 – 0%
Skaftárhreppur – 288 – 0 – 0%
Ásahreppur – Óhlutbundin kosning
Rangárþing eystra – 1.001 – 22 – 2,20%
Rangárþing ytra – 915 – 53 – 5,79%
Hrunamannahreppur – 422 – 16 – 3,79%
Hveragerði – 1.336 – 87 – 6,51%
Ölfus – 1.032 – 32 – 3,10%
Grímsnes – 268 – 0 – 0%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur – 324 – 0 – 0%
Bláskógabyggð – 501 – 0 – 0%
Flóahreppur – 351 – 0 – 0%

Hæsta hlutfall auðra atkvæða er í Hafnarfirði (13,62%) og eru 11 fulltrúar í bæjarstjórn. Þetta þýðir að Auði flokkurinn hefði náð a.m.k. einu sæti í Hafnarfirði ef hann væri alvöru stjórnmálaflokkur. Í fámennum kjördæmum eru 5 fulltrúar sem þýðir að Auði flokkurinn hefði þurft 20% atkvæða til að fá inn fulltrúa í þeim. En skoðum núna Reykjavík en þar eru 15 fulltrúar í borgarráði og er þá miðað við 6,67% atkvæða á hvern þeirra. Hlutfall auðra seðla þar var 5,14% og hefði hann því ekki fengið fulltrúa inn þar.

Þótt flokkurinn hafi fengið nokkuð góða kosningu hefði hann bara fengið inn einn fulltrúa og það í Hafnarfirði. Oddviti flokksins hefði örugglega sagt að hann hefði beðið afhroð en væri í sókn eftir Alþingiskosningarnar en þar fékk hann 3,2% greiddra atkvæða eða jafngildi tveggja þingsæta.

Auði flokkurinn og stefnuskrár stjórnmálaflokkanna

Nú fer að líða að sveitarstjórnarkosningum og fjölmargir flokkar bjóða sig fram í flestöllum byggðum. Allir sem bjóða sig fram eru með sín eigin stefnumál en í flokksbundnum kosningum er í boði svokölluð stefnuskrá sem á að vera sameiginlegur grundvöllur allra frambjóðenda sem vilja vera undir formerkjum listans. Þó er í því engin trygging að frambjóðandi sem er kjörinn með þeirri forsendu að fara eftir stefnuskránni fari eftir henni og gæti hann jafnvel tekið upp á því að skreppa yfir til annarra flokks sem er með allt aðra stefnuskrá en kom honum inn.

Seinast þegar ég kaus flokk í kosningum í sveitarstjórn fór mitt atkvæði til Samfylkingarinnar. Af hverju? Þegar ég lít til baka get ég með sanni sagt að ég man það ekki. Var það bara því ég sá mig knúinn til að velja eitthvað af því sem var í boði eða var eitthvað sem gerði Samfylkinguna að betri kost en alla hina flokkana? Þetta er ekki einu sinni illskásti flokkurinn að mínu mati í dag. Hvað var ég að hugsa?

Áður en lengra er haldið vil ég nefna að ég hata ekkert flokkinn algerlega og einstaka frambjóðendur eru fínir og jafnvel sumt sem flokkurinn hefur framkvæmt er ekki illt. Málið er bara það að stefnuskráin þarf mikla vinnu áður en ég væri tilbúinn til að gefa flokknum atkvæðið mitt.

Þegar fólk mætir á kjörstað og er að horfa á seðilinn blasa við nokkrir stjórnmálaflokkar sem það getur valið um. Hins vegar er einn flokkur í viðbót sem það getur kosið um en er ekki listaður á kjörseðlinum: Auði flokkurinn. Þetta er nafnið á því þegar fólk skilar auðum seðli. Í talningum á atkvæðum vantar hins vegar samanburð atkvæða þessa stjórnmálaafls við önnur. Það sem mig langar að vita er að ef Auði flokkurinn væri raunverulegur stjórnmálaflokkur, hvað hefði hann fengið?

Sumir kunna að spyrja sig: Af hverju skiptir þetta máli? Svarið við því er að leita uppi ástæðuna fyrir því af hverju fólk skilar auðum seðli. Fyrir mitt leiti er ástæðan einföld en hún er sú að ég vil ekki styðja flokkanna sem í boði er með mínu atkvæði. En af hverju sit ég þá ekki heima? Þótt að ég búi yfir fyrrnefndri skoðun tel ég mikilvægt að koma þessari skoðun á framfæri með kjöri mínu á Auða flokknum. Ef ég geri það ekki mun vera gert ráð fyrir því að mér sé sama um hver kemst til valda. Með kjöri Auða flokksins er verið að gefa til kynna að enginn flokkur sé í boði sem fengi atkvæði þessa fólks og gæti jafnvel verið merki um að þörf sé á öðrum stjórnmálaflokki.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna
Hver flokkur er með sína stefnuskrá og með sínar áherslur. Hins vegar er hinum venjulega kjósanda sama um stefnuskrár flokksins sem hann kýs heldur vill fá grófa hugmynd um hvað gerist ef flokkurinn kemst til valda. Bæklingur Samfylkingarinnar er t.d. upp á 32 blaðsíður (með for- og baksíðu) og munu líklegast fæstir nenna að lesa hvert einasta atriði sem kemur fram. Þetta er dæmi um bækling sem fer aðeins of nákvæmt í það sem á að gera.

En hvernig eiga stefnuskrár að vera? Hér eru nokkrir punktar:

  • Þær eiga að vera stuttorðar, þ.e. án málalenginga.
  • Taka á því sem skiptir máli fyrir sem flesta kjósendur.
  • Ekki festa flokkinn við ákveðna hugmynd eða útfærslu.

Einn gallinn við stefnuskrár nú til dags er að þær geta aldrei verið tæmandi og því veit ég ekki hvað flokkurinn gerir í þeim málaflokkum sem hann nefnir ekki. Ef flokkurinn óskar eftir að ræsa einhver stór mál, þá eiga þau heima á stefnuskrá. Stefnumál eins og „Vel ígrundaðar ákvarðanir“ og „Hafnarfjörður fyrir alla“ gefa kjósandanum mikilvægar vísbendingar um hvernig stjórn bæjarins verður hagað. Öll smærri mál eiga heima á öðrum vettvangi eins og í ræðum frambjóðenda eða jafnvel sýna orð í verki.

Eyðsla skattfés og Feministafélag Íslands

Enn og aftur er Feministafélag Íslands (FÍ) og undirlægjur þeirra að stuðla að eyðslu skattfés í eitthvað sem skilar litlu. Að auki er um óþarfa tímaeyðslu að ræða þar sem átakið mun án efa tefja frekari vinnslu á rannsóknarskýrslunni.

Fyrir nokkrum dögum var Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður (hah!) félagsins ráðin til fjármálaráðuneytisins til að sjá um kynjaða fjárlagagerð. Hún var ráðin án auglýsingar og sætir það furðu að hún hafi ekki krafist þess að starfið yrði auglýst svo að aðrir gætu sótt um. Það lítur út fyrir að besti einstaklingurinn hafi fengið starfið að hennar mati. Kveikjan að þessari pælingu var frétt um að það ætti að „kynjagreina“ rannsóknarskýrsluna, án efa framkvæmt af fjármálaráðuneytinu og þar af leiðandi af Katrínu.

Í fréttinni er vísað í Ólaf Arason, ráðskonu vefhóps FÍ, sem auðvitað fagnar þessu átaki. Ég man fyrir nokkrum árum að hið sama félag gagnrýndi notkun orðsins ráðherra fyrir bæði kynin og lagði jafnvel fram tillögu til stjórnarskrárnefndar, ásamt öðrum félögum, á sínum tíma til að því yrði breytt við næstu yfirferð. Ég veit ekki af hverju félagið ákvað að hafa þennan titil en ég hefði haldið að það gæti sýnt gott fordæmi og sett kynlausari titil en ráðskona á þá einstaklinga sem eru í forsvari fyrir hópana fyrst það telur sig á annað borð hafa rétt á að gagnrýna þennan meinta karllæga titil.

Annar vinkill sem ég vil minnast á er hið undarlega val á manneskju sem á að vera í forsvari þessa fögnuðar félagsins. Eðlilegra hefði verið að talskona félagsins myndi sjá um samskipti þess utan við. Það er ekkert í fréttinni sem gefur til kynna af hverju hann henti betur fyrir utan að hann er karlmaður. Nú veit ég ekki hvort blaðamaður eða einhver innan FÍ sá um að velja hann sem talsmann félagsins í þessu tilviki en það vekur upp grunsemdir þegar einstaklingur í forsvari fyrir vefhópinn sé valinn til að gegna hlutverki talsmanns þegar það er talskona í boði.

Almennt um Feministafélag Íslands
Feministafélag Íslands virðist vera félag þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Því virðist vera sama um hvers kyns óréttlæti sem það veldur á meðan félagar þess halda að með því náist kynjajafnrétti á endanum. Af hverju ætti ég að treysta félagi sem hefur m.a. þetta á stefnuskrá sinni?:

  • Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Þetta eru atriði sem eru listuð undir helstu markmið félagsins. Engin atriði í þessum helstu markmiðum snúast sérstaklega um að bæta og styrkja hlut karla sem gefur til kynna að stefnuskráin hallast meira í átt að kvenrétti en jafnrétti. Hér eru jafnvel tillögur að endurorðun sem félagið getur notað og þar breyti ég einvörðungu því feitletraða hér að ofan. FÍ er velkomið að nota þessar tillögur.

  • Að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og jafna hlutfall kynja í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að koma á jafnvægi kynja í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Nú er loksins komið eitthvað sem er talsvert nær jafnrétti en áður þótt ég myndi ekki skrifa undir án þessa að endurorða meira. Þó ég telji mig ekki vera sammála útværum skoðunum FÍ er ég samt sem áður ekki karlremba. Það eru félög eins og FÍ sem valda því að ég vil ekki kalla mig feminista og því gríp ég stundum til hugtaksins jafnréttissinni. Það hugtak getur náð yfir meira en jafnrétti kynja heldur einnig yfir baráttu margra annarra hópa sem vilja njóta sama réttar og aðrir en sem dæmi má nefna jafnrétti vegna þjóðernis, búsetu og lífsskoðana.

Miðað við það sem ég hef séð af starfsemi félagsins virðist eini tilgangur félagsins vera að stunda forsjárhyggju, eitthvað sem Vinstri Grænir eru duglegir við að gera. Einnig styrkir félagið framapot stjórnenda þess til að koma að fáránlegum málum eins og að endurnefna götur í miðbæ Reykjavíkur, ýtt áfram af fyrrverandi formanni FÍ, í stað þess að reyna að redda fjármálum borgarinnar. Einhverra hluta vegna virðist forgangsröðun sumra meðlima FÍ ekki vera á réttu róli.

Lokaverkefnið mitt í tölvunarfræði

Hér er rannsóknarskýrslan sem ég sendi inn vegna lokaverkefnisins míns í tölvunarfræði hjá Háskólanum í Reykjavík.

Stutt lýsing:
Í þessu verkefni var málheildin Íslenskur Orðasjóður, sem samanstendur af u.þ.b. 250 milljón orðmyndum, mörkuð og þáttuð á vélrænan hátt. Þess konar greining hefur ekki verið framkvæmd áður á jafn stóru safni íslenskra setninga.

Research report – final

Nokkur ráð vegna samskipta við yfirvöld

Því miður er eitthvað um að fólk klúðri samskiptum við hið opinbera með því að nefna eitthvað sem hefði ekki átt að vera nefnt eða gert eitthvað sem hefði betur verið látið ógert. Í mörgum tilvikum valda þessi mistök miklum skaða. Í tilefni af þessu tók ég saman nokkrar ráð sem gætu gagnast fólki. Sum þeirra eru fengin frá erlendum samtökum en ættu að duga ágætlega hér á landi.

1. Haltu ró þinni og vertu kurteis.
Miklu máli skiptir að æsingur hafi ekki áhrif á samskipti þín við yfirvöld. Skiptir það sérstaklega máli þegar þau fara fram í eigin persónu eins og t.d. við lögregluna. Ef þú ert sýnilega æstur munu yfirvöld líta á þig sem andstæðing og líklegra að málið fari lengra.

Bréf og skjöl ættirðu ekki að skrifa á meðan adrenalínið flæðir um líkamann. Oftast nær færðu upp í 2 vikur til að svara og það er ágætt að nota nokkra daga til að slaka á áður en þú semur svarbréfið. Ef þú ert hræddur um að gleyma einhverju máttu auðvitað taka punkta. Mundu samt að fara yfir þá svo bréfið sýnist ekki of tilfinningaþrungið.

2. Þú hefur réttinn til að þegja.
Þetta er auðvitað íslensk þýðing á enska frasanum „You have the right to remain silent“. Gildir þetta ekki bara um samskipti við lögregluna, heldur líka við önnur yfirvöld. Þótt þú sért beðinn um eitthvað þarf ekki alltaf að þýða að þú verðir að verða við því.

Hins vegar eru aðstæður þar sem er betra að verða við slíkum beiðnum eins og t.d. ef lögreglan biður þig um ökuskírteinið þitt á meðan þú ert að keyra. Lögreglan hefur hvort sem er aðgang að upplýsingunum á því (það eru jú yfirvöld sem gefa þau út) og ættir þú ekki að hafa neinu að tapa með því að sýna það. Ef þú ert farþegi ertu ekki skyldugur til að hafa ökuskírteini.

3. Gættu þín hvað þú segir.
Ef þú hefur horft mikið á CSI þáttaraðirnar ættirðu að hafa tekið eftir því að fólk segir eitthvað óvart sem kastar grun á það. Það lendir síðan undir rannsókn sem gæti eyðilagt æru þess varanlega og síðan kemur í ljós í þættinum að einhver annar framdi glæpinn. Þumalputtareglan er að hugsa út í afleiðingar þess sem maður er að fara að segja og hvernig það gæti verið túlkað. Þú hefur alltaf réttinn á að fá þér lögmann en ekki slaka á vörninni á meðan þú býður eftir komu hans.

Sumir halda að með því að kalla hluti eitthvað annað séu þeir saklausir af því að brjóta lögin. Eins og t.d. þegar einhverjir bjóða vörur eða fríðindi í skiptum fyrir lágmarksframlag. Í augum laganna er hér verið að ræða um viðskipti og er yfirvöldum nákvæmlega sama hvað aðrir kalla það. Það er undarlega algengt að einhverjir grípi til slíkra réttlætinga í samskiptum við hið opinbera í von um að bjarga sér í þeirri von að komast sem fyrst úr þessum aðstæðum.

4. Ekki samþykkja leitir.
Í samskiptum við lögregluna skiptir miklu máli að þú samþykkir ekki hvað sem er. Þá á ég sérstaklega við ef þú ert spurður hvort lögreglan megi leita í bílnum þínum. Sem betur fer er þetta ekki algengt á Íslandi en þetta er við lýði í Bandaríkjunum. Þumalputtareglan er að ef lögreglan þarf að spyrja þig um eitthvað hefurðu engu á að tapa með því að neita beiðninni. Þú þarft ekki að útskýra af hverju. Í Bandaríkjunum er fólk stundum gabbað til að verða við slíkum beiðnum með loforðum um að sleppa við sektir.

Jafnvel þótt þú hafir ekkert að fela ættirðu samt að neita slíkri beiðni. Þú hefur litla sem enga hugmynd um hvað fólk hefur skilið eftir í bílnum eða húsinu án þinnar vitneskju. Þér mun vera kennt um allt ólöglegt sem finnst við leitina. Þeir bera síðan enga ábyrgð á því að taka til eftir að þeir hafa lokið leitinni.

Ef einhver bankar hjá þér og segist hafa leitarheimild, biddu strax um lögmann til að gæta réttar þíns á meðan leitinni stendur. Farðu yfir leitarheimildina til að passa að allar upplýsingar séu réttar. T.d. hvort um sé að ræða rétt hús og/eða íbúð.

5. Má ég fara?
Ef samskipti við lögregluna á götunni eru að dragast á langinn, ekki vera hræddur um að spyrja hvort þú megir fara. Þú gætir notað „ertu að halda mér hér eða er ég frjáls ferða minna“. Ef þú ert frjáls ferða þinna, kveddu lögregluþjóninn og farðu burt. Ef svarið er á annan veg, spurðu hver sé ástæðan fyrir því.

Ef þér er haldið gegn vilja þínum, biddu strax um lögmann.

6. Ekki vera of öruggur með sjálfan þig.
Það er fátt sem öskrar sekur meira en „sannaðu það!“ því það er lítið annað en endurorðun á „ég er sekur en þú hefur ekki sannanir undir höndunum“. Þótt það sé ekki hrein játning munu yfirvöld reyna enn frekar að reyna að sanna sekt þína, sérstaklega ef þetta er sagt á hrokafullan þátt. Þess vegna borgar sig að hemja skap sitt og hugsa áður en maður tjáir sig.

Lögreglan er líklegri til að stoppa þig ef bíllinn ber merki um að þú sért vandræðagemlingur. T.d. eru stuðaramerki sem tjá stuðning þinn á einhverju vafasömu eða ólöglegu hvatning fyrir lögguna til að stoppa þig. Ef þú vilt forðast slíkt er betra að losna við allt sem sýnist grunsamlegt, hversu saklaust sem það er í raun.

7. Ekki veita nýjar upplýsingar.
Með öðrum orðum: yfirvöldum kemur ekki allt við. Haltu upplýsingagjöf í lágmarki ef þú þarft að svara yfirvöldum. Forðastu að veita nýjar upplýsingar án þess að ígrunda hvort hægt sé að nota þær gegn þér eða ekki. Það er samt þitt að meta hvort sé betra að veita þær eða ekki.

Ráðin eru meðal annars frá myndböndunum 10 Rules for Dealing with Police og BUSTED: The Citizen’s Guide to Surviving Police Encounters.

Fyrirvari: Ég er ekki lögfræðingur og tek enga ábyrgð á framkvæmd þessara ráða.

Ofkurteisi

Eitt af því sem ég tek reglulega eftir í verslunum er að eftir að ég hef greitt fyrir vörurnar er að afgreiðslufólkið spyr þá oftar en ekki: „má bjóða þér afritið?“. Ekki veit ég hvernig þetta byrjaði en að mínu mati eitthvað sem lengir málið að óþörfu. Ég er ánægður með að sumir spyrja einfaldlega „viltu afritið?“.

Í fljótu bragði dettur mér í hug tvær ástæður fyrir þessu: Sú fyrsta er að starfsfólkið er vant á það að vera kurteist við viðskiptavinina og einhverra hluta vegna dettur því í hug að lengra mál hljómi kurteisara. Önnur ástæðan er orðið „þér“ sem lætur spurninguna hljóma kurteisari þótt sú sé ekki raunin. Sumir skipta út „þér“ fyrir „yður“ en ég rekst sjaldan á það.

Það er allt í lagi að sýna kurteisi við viðskiptavinina en það er einnig hægt að fara of langt. Að spyrja hvort maður megi bjóða einhverjum afritið er algerlega óþarft aukaskref í þessum samskiptum. Ef við hugsum um þetta röklega séð gætu samskiptin verið svona;

Má bjóða þér… – Vill ekki afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Má bjóða þér… – Vill afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Viltu afritið? – Vill ekki afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Viltu afritið? – Vill afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Bæði afgreiðslufólkið og viðskiptavinirnar vita að efri tvö samskiptin hljóma fáránlega og er því ríkjandi sú stytting að svarið sem fylgir fyrri spurningunni er í raun svarið við þeirri seinni.

Mig langar að vita hvernig þetta hófst. Var einhver viðskiptavinurinn svo móðgaður yfir því að hafa verið spurður hvort hann vilji afritið að afgreiðslufólk spyr núna um leyfi til að bjóða honum það?

Breytingar á formi bloggsins

Ein ástæðan fyrir því að ég hef ekki sett neitt á bloggið undanfarið er aðallega sú að þegar ég vil fjalla um eitthvað, þá vil ég helst taka vel ígrundaða afstöðu og að kynningin á henni sé nokkuð ítarleg. Sá galli fylgir því að þegar ég hef mikið að gera er hætta á „óvirknistímabili“ og virðist þá eins og bloggið sé algerlega yfirgefið þó sú sé ekki raunin. Þetta gæti orsakað það að hlutir gleymast og endar með því að ekkert er fjallað um þá.

Til að leysa þetta hef ég ákveðið að birta líka styttri pælingar sem gætu verið nokkur orð og upp í 2-3 efnisgreinar. Hvert það mun leiða mun tíminn leiða í ljós.