Þann 19. desember fékk ég tölvupóst frá aðila sem var að kynna þjónustu sem kallast Netkrónur og um að ég hafi fengið „[i]nnborgun upp á 1000,00 Netkrónur“ á kennitöluna mína. Umsjón netkrónanna fer fram í gegnum vef Hópkaupar en rekstur fyrirbærisins fer fram hjá öðru fyrirtæki. Því var augljóst að Hópkaup hefur miðlað persónuupplýsingum til þriðja aðila.
Nú hef ég oft kvartað yfir ruslpóstsendingum en þetta atvik er samt frábrugðið af þeirri einföldu ástæðu að Hópkaup hafði áður verið úrskurðað í órétti fyrir samskonar athæfi áður. Það var enginn annar aðili en Persónuvernd sem úrskurðaði í því máli og Hópkaup hefði átt að gera sér grein fyrir því að sömu bannforsendur og í fyrri úrskurði ættu enn við. Augljóslega hefur Hópkaup ekki tekið úrskurð Persónuverndar alvarlega.
Skilmálum Hópkaupa var breytt lítillega í kjölfar úrskurðarins en ást Hópkaupa á að fá samþykki (í skilningi persónuverndarlaga) var ekki mikil þar sem Hópkaup vildi greinilega ekki að viðskiptavinir sínir fengju veður af afþökkunarvalmöguleikanum utan almennra skilmála sinna. Þótt fólk lesi skilmálana fær það að vita að ef athugasemdir eru gerðar um meðferð persónuupplýsinga verður aðgangi viðkomandi eytt.
Hinn einfaldi möguleiki á vef Hópkaupa til þess að samþykkja og/eða afþakka markaðssetningu eða miðlun netfangs viðkomandi er heldur ekki að finna. Hafi slík úrræði verið raunverulega fyrir hendi að merkja við slíkar undanþágur hefði netfanginu mínu ekki verið miðlað enda hefðu forsvarsmenn Hópkaupa beitt slíkri merkingu á meðan fyrri kvörtun mín var til afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Eins og það er orðað í kvörtuninni sem nú hefur verið lögð fram voru slík úrræði eingöngu fræðileg en ekki í eiginlegri framkvæmd.
Í þetta sinn vildi ég sýna Hópkaupum að ég er ekki sá eini sem lætur mér svona hluti varða og að þetta sé ekki bara einn leiðindarpúki sem hægt er að losna við með einu skítamixi. Þegar ég lét vita af óánægju minni minntist ég á í athugasemd við stöðuuppfærsluna að ég óskaði eftir meðkvartendum. Nokkrir buðu sig fram og fengu afrit af texta kvörtunarinnar til samþykktar. Var kvörtunin svo lögð fram á borð Persónuverndar í gær og er hægt að nálgast hana hér að neðan.
Kvörtunin: Persónuvernd – Ólögmæt miðlun Hópkaupa á netföngum og ólögmæt vinnsla DCG – staðfesting á móttöku