Hópkvörtun vegna athæfis Hópkaupa

Þann 19. desember fékk ég tölvupóst frá aðila sem var að kynna þjónustu sem kallast Netkrónur og um að ég hafi fengið „[i]nnborgun upp á 1000,00 Netkrónur“ á kennitöluna mína. Umsjón netkrónanna fer fram í gegnum vef Hópkaupar en rekstur fyrirbærisins fer fram hjá öðru fyrirtæki. Því var augljóst að Hópkaup hefur miðlað persónuupplýsingum til þriðja aðila.

Nú hef ég oft kvartað yfir ruslpóstsendingum en þetta atvik er samt frábrugðið af þeirri einföldu ástæðu að Hópkaup hafði áður verið úrskurðað í órétti fyrir samskonar athæfi áður. Það var enginn annar aðili en Persónuvernd sem úrskurðaði í því máli og Hópkaup hefði átt að gera sér grein fyrir því að sömu bannforsendur og í fyrri úrskurði ættu enn við. Augljóslega hefur Hópkaup ekki tekið úrskurð Persónuverndar alvarlega.

Skilmálum Hópkaupa var breytt lítillega í kjölfar úrskurðarins en ást Hópkaupa á að fá samþykki (í skilningi persónuverndarlaga) var ekki mikil þar sem Hópkaup vildi greinilega ekki að viðskiptavinir sínir fengju veður af afþökkunarvalmöguleikanum utan almennra skilmála sinna. Þótt fólk lesi skilmálana fær það að vita að ef athugasemdir eru gerðar um meðferð persónuupplýsinga verður aðgangi viðkomandi eytt.

Hinn einfaldi möguleiki á vef Hópkaupa til þess að samþykkja og/eða afþakka markaðssetningu eða miðlun netfangs viðkomandi er heldur ekki að finna. Hafi slík úrræði verið raunverulega fyrir hendi að merkja við slíkar undanþágur hefði netfanginu mínu ekki verið miðlað enda hefðu forsvarsmenn Hópkaupa beitt slíkri merkingu á meðan fyrri kvörtun mín var til afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Eins og það er orðað í kvörtuninni sem nú hefur verið lögð fram voru slík úrræði eingöngu fræðileg en ekki í eiginlegri framkvæmd.

Í þetta sinn vildi ég sýna Hópkaupum að ég er ekki sá eini sem lætur mér svona hluti varða og að þetta sé ekki bara einn leiðindarpúki sem hægt er að losna við með einu skítamixi. Þegar ég lét vita af óánægju minni minntist ég á í athugasemd við stöðuuppfærsluna að ég óskaði eftir meðkvartendum. Nokkrir buðu sig fram og fengu afrit af texta kvörtunarinnar til samþykktar. Var kvörtunin svo lögð fram á borð Persónuverndar í gær og er hægt að nálgast hana hér að neðan.

 

Kvörtunin: Persónuvernd – Ólögmæt miðlun Hópkaupa á netföngum og ólögmæt vinnsla DCG – staðfesting á móttöku

Nokkurra orða breyting varð að stórum mistökum

Þessi grein eftir mig, titluð „Nokkurra orða breyting varð að stórum mistökum“, var birt í Fréttablaðinu og á visir.is í dag:

Þann 10. apríl síðastliðinn tóku upplýsingalög aftur gildi hér á landi þegar rannsóknarnefnd um fall sparisjóðanna lauk störfum. Næst þegar Alþingi gefur út þingsályktun um að setja á fót rannsóknarnefnd munu þau aftur detta út. Hvernig má það vera? Í lögum um rannsóknarnefndir má finna eftirfarandi ákvæði (1.-2. málsliður 14. gr.):

„Ákvæði upplýsingalaga og ákvæði 18.–21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda ekki á meðan rannsóknarnefnd er að störfum. Sama gildir um ákvæði stjórnsýslulaga, nema sérstaklega sé til þeirra vísað í þessum lögum.“

Með þessu ákvæði eru upplýsingalög, greinar 18-21 í persónuverndarlögum og langflestar greinar stjórnsýslulaga ógildar á meðan rannsóknarnefndir eru að störfum. Þetta þýðir að með þingsályktun getur Alþingi tekið úr sambandi afar mikilvæg réttindi sem gerir borgurum og fjölmiðlum kleift að stunda aðhald gagnvart hinu opinbera og sækja rétt sinn.

Góðu og slæmu fréttirnar eru þær að hér var ekki um viljaverk að ræða. Góði hluti þeirra að allir héldu áfram að veita upplýsingar í samræmi við anda upplýsingalaga og persónuverndarlaga og stjórnsýslan hélt áfram eins og ekkert hefði úr skorist. Réttarkerfið er sett upp þannig að í stað þess að allir séu réttlausir er horfið til svokallaðra óskráðra meginregla en það vekur samt upp lagalega óvissu. Slæmi hluti fréttanna er sá að mistökin komust í gegnum Alþingi og svo virðist vera að enginn hafi minnst á þau opinberlega áður en þau urðu að lögum.

Sagan byrjaði þegar forsætisnefnd Alþingis setti fram frumvarp um rannsóknarnefndir desember 2010 og þar hljóðaði þetta svo (þingskjal 426 á 139. löggjafarþingi):
„Ákvæði upplýsingalaga og ákvæði 18.–21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda ekki um störf rannsóknarnefndar. Sama gildir um ákvæði stjórnsýslulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nema sérstaklega sé til þeirra vísað í þessum lögum.“ (Parturinn með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var fjarlægður síðar í ferlinu.)

Þar var hugmyndin sú að afgreiðsla beiðna um upplýsingar frá rannsóknarnefndum gætu tafið rannsóknir og jafnvel skaðað rannsóknarhagsmuni. Í febrúarmánuði 2011 kemur allsherjarnefnd Alþingis fram með sitt álit ásamt breytingartillögum. Í umfjöllun um frumvarpið vill nefndin að aðilar mála sem rannsóknarnefndir hafa til skoðunar hafi rétt samkvæmt lögum að biðja um upplýsingarnar eftir að þær hafi lokið störfum.

Hins vegar leggur nefndin til eftirfarandi breytingartillögu (þingskjal 895 á 139. löggjafarþingi):
„Í stað orðanna ,,um störf rannsóknarnefndar“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: á meðan rannsóknarnefnd er að störfum.“

Raunáhrif tillögunnar voru að í stað þess að takmarka rétt þeirra sem voru undir rannsókn eingöngu, var því breytt þannig að enginn hér á landi hefði þann rétt, og ekki eingöngu gagnvart rannsóknarnefndum. Ekki bætir úr skák að hið breytta frumvarp fór aftur til nefndarinnar og lagði hún til frekari breytingar á þessum sama hluta frumvarpsins án þess að hún hafi uppgötvað mistökin.

Í lagatúlkun er almenna reglan sú að lagatextinn er það sem gildir. Greinargerðir frumvarpa og nefndarálit eru eingöngu til skýringar sem þýðir að jafnvel þótt ætlan allsherjarnefndar hafi verið önnur, þá er raunin sú að um tíma voru engin upplýsingalög í gildi, heldur ekki nokkur ákvæði persónuverndarlaga og þar að auki voru langflestar greinar stjórnsýslulaga ógildar.

Stundum þarf bara ein mistök í einni línu til þess að skaða rétt okkar með afdrifaríkum hætti.

Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við KFUM og KFUK

Þann 1. apríl síðastliðinn fékk ég svar við beiðni minni þar sem ég bað um eintak af samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins við KFUM og KFUK. Þessi samningur var í sjálfu sér óþarfur þar sem upphæðin var þegar útbýtt á grundvelli fjárlaga 2014. Tilgangurinn er líklegast sá að undirbúa þann farveg að hafa árlega samninga. Það leysir samt ekki úr því að ríkið er hér að styrkja samtök sem hafa trúboð til barna sem meginstefnu starfs síns.

Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við KFUM og KFUK

Upplýsingabeiðni um kirkjueignir – innanríkisráðuneytið

Þann 25. febrúar 2013 sendi ég upplýsingabeiðni til innanríkisráðuneytisins þar sem ég óskaði eftir gögnum um kirkjujarðasamninginn 1997, útfærsluna 1998 og þar að auki eintak af „öllum samningum og samkomulögum sem eru í gildi milli ráðuneytisins og Þjóðkirkjunnar, ásamt undirstofnunum hennar“.

Beiðnin:

„Í krafti upplýsingalaga og annara viðeigandi laga óska ég eftir því að fá eintak af lista yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við embætti biskups Íslands (Þjóðkirkjuna) sem undirritaður var 10. janúar 1997. Þá óska ég sérstaklega eftir þeim skjölum sem tengjast mati ríkisins á verðmæti fyrrgreindra jarða og kirkjueigna sem framkvæmt var skv. 15. gr. laga 94/1976.

Einnig óska ég eftir öllum skjölum sem liggja fyrir á ráðuneytinu varðandi fyrrnefndan samning ríkisins frá 10. janúar 1997 og sömuleiðis samning milli sömu aðila undirritaðan 4. september 1998. Þá eru meðtalin þau skjöl sem notuð voru við samningaumræðurnar, eins og dagbókarfærslur, vinnugögn, fundargerðir, minnisblöð og önnur samskipti milli málsaðila. Þá tekur beiðnin einnig til skjala sem gagnaðili hefur lagt fram. Sérstaklega er beðið um skjal sem Þorvaldur Karl Helgason segir að samninganefnd Þjóðkirkjunnar hafi lagt fram sem á að innihalda „ítarlega úttekt á þessum eignum, sem ekki var mótmælt af hálfu ríkisins“.

Jafnframt óska ég eftir eintaki af öllum samningnum og samkomulögum sem eru í gildi milli ráðuneytisins og Þjóðkirkjunnar, ásamt undirstofnunum hennar.

Sé beiðni minni að skjölum synjað í heild eða að hluta til óska ég eftir rökstuðningi fyrir synjuninni með vísan í viðkomandi lagaheimildir. Af gefinni reynslu í samskiptum mínum við ráðuneytið vil ég minna á ákvæði upplýsingalaga um málshraða.

Til að minnka pappírsnotkun kýs ég að fá skjölin á stafrænu formi sé það möguleiki.“

Að fá upplýsingarnar var alls ekki auðvelt þar sem ráðuneytið þrjóskaðist nokkuð við. Til að tryggja að málið yrði örugglega skráð, hringdi ég á eftir beiðninni og bað skjalavörð um að láta mig fá málsnúmerið um leið og málið væri skráð inn, sem var gjört. Samkvæmt upplýsingalögum fær ráðuneytið sjö daga til þess að taka afstöðu til beiðnarinnar og er lagalega skylt að svara henni á þeim tíma, annað hvort með afhendingu gagnanna eða synjun. Því leit ég svo á að mánuður var meira en sanngjarn tími til þess að bíða þar til ég myndi ítreka beiðnina. Þegar sá tími var liðinn hringdi ég reglulega í ráðuneytið þar sem ég spurði um stöðu málsins og kvartaði einnig reglulega vegna tafa á afgreiðslu beiðnarinnar.

Það var ekki fyrr en í júní, næstum 4 mánuðum síðan ráðuneytið fékk beiðnina, sem ég skilaði inn kæru til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Í júlímánuði fæ ég síðan A4 umslag með bréfi þar sem beðist er velvirðingar á töfinni ásamt skjölum sem falla undir beiðnina. Af hverju ráðuneytið gat ekki svarað beiðninni fyrr, þarf hver og einn að svara. Það var samt ekki fyrr en núna nýlega að ég fékk mér prentara og gat skannað þau inn.

Svarið við upplýsingabeiðninni ásamt skjölunum, skannað inn:
Upplýsingabeiðni – innanríkisráðuneytið – svarað 10. júlí 2013

Skjölin sem fengust vegna þessarar beiðni voru ekki eins ríkuleg og ég bjóst við. Eins og beiðnin var orðuð bjóst ég við að fá aðgang að meiri flóru gagna eða fleiri blaðsíðum en 75. Séu skjölin skoðuð er nokkuð stór hluti þeirra ýmis drög að samningi um prestssetursjarðir sem undirritaður var árið 2006. Hlutfall skjala sem snúa að jarðasamningunum 1997 og 1998 er nokkuð lítið, þrátt fyrir að um sé að ræða samning sem hefur kostað íslenska ríkið fleiri tugi milljarða frá árinu 1997.

Í bréfinu til mín er vísað til tilvist skjala í skjalasafni ráðuneytisins en þess ber að geta að í lögum er gert ráð fyrir að ráðuneyti haldi skjölum í skjalasafni sínum í 30 ár og skili þeim síðan til Þjóðskjalasafns Íslands. Af þeirri ástæðu geri ég ráð fyrir að ráðuneytið eigi að hafa skjöl um málið sem ná að minnsta kosti til ársins 1983. Þá er einnig getið þess að ráðuneytið þurfi að gæta að því að skjölin verði ekki fyrir óleyfilegri grisjun eða eyðileggingu. Ef við gerum ráð fyrir að ráðuneytið hafi reynt að rækja þá skyldu er fátækleiki skjalanna skýrður aðallega sem annaðhvort það að ráðuneytið hafi ekki látið mig fá öll skjölin sem ég bað um eða það hefur ekki talið sig þurfa að skrá mikið niður. Hið síðarnefnda myndi benda til málamyndagjörnings og/eða afar lélegrar skjalfestingar.

Svarið inniheldur þá staðhæfingu að ráðuneytið var ekki með lista yfir jarðirnar sem samningarnir 1997 og 1998 náðu yfir og hafði einnig enga lista yfir verðmæti þeirra. Svar fjármálaráðuneytisins við annarri upplýsingabeiðni minni, dagsett 10. janúar 2013, innihélt einnig sambærilega staðhæfingu. Hvorugt ráðuneytið segist því hafa haft undir höndum lista yfir það um hvaða jarðir var að ræða og þar að auki engar tölur um verðmæti.

Er ekki lengur flokksbundinn Auða flokknum

Nú hef ég greitt atkvæði í öllum sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum síðan ég fékk kosningarétt og í öll skipti nema eitt hef ég skilað auðu. Merkingin á bakvið auða atkvæðið er sú að einstaklingurinn sýni að hann hafi fullan áhuga á að kjósa en enginn þeirra sem eru í boði eiga, að mati kjósandans, það skilið að hljóta atkvæði hans.

En núna er loksins kominn stjórnmálaflokkur sem ég mun styðja með atkvæði mínu: Píratar.

Í fleiri ár vissi ég af erlendum samtökum pírata erlendis og óskaði eftir að álíka flokkur myndi bjóða sig fram hér. Því varð ég nokkuð ánægður þegar ég heyrði frásagnir um að stofna ætti slíkan flokk hér á landi. Ekki nóg með það, ég reyndi að aðstoða eftir því sem minn einhverfi líkami leyfði mér og varð stofnmeðlimur. Síðan þá hef ég mætt á marga fundi og kynnst ágætum fjölda af vel þenkjandi fólki. Það kom mér annars ekkert á óvart að sjá marga sem ég hafði kynnst áður á lífsleiðinni.

Rætur pírata eru þær að verið er að mótmæla ígripum „hagsmunaaðila“ sem hafa hingað til fengið sitt í gegn með óheiðarlegum hætti og réttur hins almenna borgara laut almennt lægra haldi. Píratar um allan heim eru að reyna að sporna við þeirri óhappaþróun síðastliðnu áratugi með því að veita borgurum eitt besta vopn sem hægt er að beita: réttinn til að fá upplýsingar og miðla þeim áfram. Með þeim getur almenningur fengið tækifæri til að taka upplýstari ákvarðanir en áður og haft meiri að segja um ákvarðanir sem varða hann sjálfan.

Ætlun mín var þó eingöngu að hjálpa til í stöðu sem nyti ekki mikillar athygli og hafði ekki áhuga á framboði. Einn daginn tók ég á móti tímamótandi símtali þar sem ég var hvattur til að setja nafn mitt í kosningu fyrir framboðslista, sem ég gerði. Og núna er ég í 6. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Pírata. Þróunin getur verið nokkuð hröð. Fyrir nokkrum mánuðum hafði ég engan áhuga á neinum einstökum stjórnmálaflokki og núna er ég í framboði fyrir einn þeirra.

Framselja má íslenskum ríkisborgurum til útlanda, og ekkert gert í því

Breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vöktu bæði gleði og ollu líka vonbrigðum. Gleðin fólst í að upplýsingarétturinn var færður úr annari kynslóðinni í þá þriðju. Hin vonbrigðin fólust í algerri endurvakningu tjáningarfrelsisákvæðisins (14. gr.) í það ástand sem stjórnlagaráð sendi frá sér og hin varðandi framsaldsheimildir. Sé breytingartillagan samþykkt mun vera heimilt að skerða tjáningarfrelsið „til verndar börnum“. Þetta orðalag fær mig til að skjálfa enda er gríðarlega margt réttlætt með beitingu slíkra raka, hvað þá þegar það er leyft beint í stjórnarskránni. Ef því hefði verið breytt til baka og barnaundanþágan fjarlægð hefði ég verið ánægður.

Síðan er það eitt sem minnkar traust mitt á nefndum Alþingis en það virðist vera áhugaleysi þeirra á að lesa umsagnir almennings eða í það minnsta trega þeirra til að taka mark á þeim. Þrátt fyrir að hafa bent stjórnlagaráði á þetta tiltekna atriði ásamt því að hafa tekið það fram í umsögnum um frumvarp stjórnlagaráðs og nú seinast vegna frumvarps stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þá virtist enginn hafa áhuga á að bæta úr þessum augljósa og hættulega galla.

Hver er téður galli? Núverandi stjórnarskrá, frumvarp stjórnlagaráðs og frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar koma ekki í veg fyrir framsal íslenskra ríkisborgara til útlanda. Ég er ekki einn um að slíkt framsal sé mögulegt stjórnskipunarlega séð, enda nefndi Björg Thorarensen það fram í bók sinni um mannréttindakafla núverandi stjórnarskrár að stjórnarskráin kæmi ekki í veg fyrir slíkt. Hvorki stjórnlagaráð né nefndir Alþingis lögðu fram tillögur um að bæta úr þessu. Þó engin vernd sé í stjórnarskránni er slík vernd í almennum lögum en gildir þó ekki um framsal meðal nokkurra Norðurlanda. Í sömu lögum er valkvæmt hvort ráðherra heimili endurframsal eða ekki.

Í umsögn minni lagði ég fram þá tillögu að framsal ætti að vera algerlega bannað til ríkja sem viðhafa dauðarefsingu. Nú veit ég ekki hvort hugmyndin sé fengin úr minni umsögn eða einhvers annars en það er gott að hún er komin. En það er einn galli á gjöf Njarðar: ákvæðið gildir eingöngu um útlendinga. Í staðinn fyrir að tilgreina að slík framsöl séu algerlega bönnuð, fyrir alla, er ákvæðinu skellt í greinina um útlendinga og tiltekið sérstaklega að eingöngu sé átt við þá. Af hverju mega Íslendingar ekki njóta þessarar verndar líka?

Það væri afar fróðlegt annars að vita af hverju tillögur mínar um bann á framsali íslenskra ríkisborgara er hafnað. Aðallega hvort ástæðan sé sú að þau trúi mér ekki, umsagnir mínar hafi verið illa lesnar eða alls ekki lesnar. Ef svarið var á þá leið að fólkið í nefndinni var of upptekið, þá var greinilega ekki kominn tími á að afgreiða frumvarpið úr nefndinni. Ég meina, þetta var nokkuð skýrt tekið fram í umsögninni minni. Til hvers er maður að skrifa umsagnir ef þær eru svo hunsaðar?

Gamalt erindi frá innanríkisráðuneytinu

Var rétt í þessu að taka á móti bréfi frá innanríkisráðuneytinu vegna erindis sem ég sendi 2. nóvember 2011. Já, árið er ritað rétt, tvö þúsund og ellefu. Titill þess tengist innihaldi annars bréfs sem ég sendi afrit af til innanríkisráðuneytisins.

Forsagan er þessi tölvupóstur sem ég sendi kl. 16:18 þann 2. nóvember 2011:

Daginn.

Í 1. gr. reglugerðar 1025/2011 er sagt að nafnasvæði þjóðskrár sé 31 stafbil. Vil ég minna ráðuneytið á að skv. álitum Umboðsmanns Alþingis stenst sú takmörkun ekki lög (mál 931/1993 og mál 5334/2008).

Vil ég því formlega áminna ráðherra fyrir að samþykkja reglugerð sem brýtur í bága við landslög.

Svar óskast.

Með kveðju,
Svavar Kjarrval

Þetta er bréfið sem ég fékk nú í dag:

Innanríkisráðuneytinu barst tölvupóstur á netfangið postur@irr.is þann 2. nóvember sl., þar sem þú áminnir ráðherra fyrir að samþykkja reglugerð, sem að þínu mati, brýtur í bága við lög. Málið fór strax á þann farveg að þann 23. nóvember 2012 sendi starfsmaður ráðuneytisins þér tölvupóst þar sem sagði að ábendingunni yrði komið á framfæri. Vegna jólahátíðarinnar og mikilla anna í ráðuneytinu biðjumst við velvirðingar á að afgreiðsla erindisins, hefur dregist á langinn. Úr því verður bætt, við fyrstu[sic] hentugleika.

Erindið hefur greinilega týnst svo lengi í kerfinu að starfsmaðurinn sem samdi bréfið gerði ekki ráð fyrir öðru en að það hafi verið frá 2012. Þetta stenst annars við það sem ég hef heyrt um að málakerfi ráðuneytanna hafa ekki þann möguleika að raða erindum eftir því hversu langt síðan þau eru.

En annars sendi ég einfalda upplýsingabeiðni þann 14. nóvember s.l. Ég ætla þá ekki að gera ráð fyrir að hún verði afgreidd fyrr en 2014.

Ögmundur og klámforsjárhyggjan

Í viðtali í Harmageddon nefndi Ögmundur innanríkisráðherra að tilgangurinn með klámfrumvarpinu væri að vernda börnin gegn því að sjá klám. Hugsið-um-börnin-afsökunin notuð að fullu enda eru ekki margir sem vilja taka þann slag. Einnig á það að sporna gegn eftirspurn eftir klámi þar sem mansali er beitt.

Hið fyrra er örugglega hægt að bregðast við með endurbættum barnaverndarlögum og það gengur ekki svo langt að hindra aðgengi sjálfráða einstaklinga að því sem kallað er klám. Í seinna tilvikinu, að í staðinn fyrir að mæla með smíði frumvarps þar sem efni framleitt með mansali er bannað, þá fer hann út í það sem hann skilgreinir sem klám og biður nefnd að breyta skilgreiningunni á klám og mæla með auknum heimildum lögreglu til að stöðva það.

Hvernig er annars hægt að dæma hvort klám sé unnið af einhverjum sem gerir það af nauðung eða ekki? Er ætlunin að nota hugtök klámiðnarins og ákveða að einhver sem gerir hitt eða þetta getur ekki verið að gera það með fúsum og frjálsum vilja? Eða er ætlunin að banna það sem telst mainstream klám eða eingöngu tilteknar tegundir myndbanda eins og þegar einhver er augljóslega í kynferðislegri stöðu sem hann vildi ekki vera í? Hvernig á að skilgreina hvað sé nauðung og hvað ekki? Þetta er því miður óljóst á þessari stundu.

Síðan ætti Ögmundur að gera sér grein fyrir því að fólk hefur mismunandi skilgreiningu á orðinu klám og hefur hann líklegast vitað það allan tímann. Í viðtalinu virtist hann fullviss hvað hann telji vera kynlíf og hvað teljist klám en þykist samt ætla að vera hlutlaus í því máli. Í núverandi lagaframkvæmd er rætt um erótík og klám þar sem hið fyrra er leyfilegt en hið síðarnefnda ekki. Mörkin hafa tekið breytingum seinustu áratugi eftir dómum Hæstaréttar hverju sinni. Ögmundur valdi að skilgreina mansalsvandamálið í þennan efnisflokk líklegast því klám er talið tabú og þannig byrja ritskoðunartillögur alltaf. Þegar öll ritskoðunartólin eru komin byrjar fólk venjulega að hugsa „af hverju ekki að hindra annað sem telst ólöglegt á þennan hátt?“.

Með baráttu gegn slíkum ritskoðunartilburðum er verið að koma í veg fyrir að þau tól séu til staðar. Einnig eru mýmörg dæmi um það að til dæmis netsíur sem eingöngu eiga að sía barnaklám, er einnig viljandi síað annað efni sem kemur barnaklámi ekkert við og líklegast ratað inn á ritskoðunarlistann af pólítískum ástæðum. Þá stendur eftirfarandi í grein DV þar sem vitnað er í minnisblað Ögmundar:

Hópnum er gert að taka til sérstakrar skoðunar möguleg úrræði sem heimila lögreglu að knýja eiganda, hýsingaraðila eða fjarskiptafyrirtæki til að loka á dreifingu efnis, þ.m.t. efnis sem hýst er erlendis og/eða hýsingaraðili er óþekktur.

Þegar þessum hugmyndum er mótmælt ásakar hann aðra um þöggun umræðunnar, sem er auðvitað alls ekki málið, heldur er eingöngu mótmælt ritskoðuninni sjálfri en ekki umræðunni. Ögmundur þvertekur fyrir það að fyrirhugað frumvarp sé ritskoðun og sakar þá sem mótmæla því að vera í hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn. Svo virðist vera að hindrun á tjáningu sem Ögmundi líkar er ritskoðun en slíkt eigi ekki við um efnið sem hann er ósáttur með. Ritskoðun er ritskoðun, sama hver sé tilgangur hennar eða markmið. Sé ritskoðun með þessari aðferðafræði samþykkt er komið verkferli og sé ég alveg fyrir mér að innan nokkurra ára munu rétthafasamtökin heimta lokun á fleiri síðum og nefna að slíkt sé ekki erfitt þar sem tólin til þess séu til staðar.

Þetta lyktar meira að segja allt af pólítískum leik hans í von um meiri umfjöllun. Nú hefur hann fengið mikið af viðtalsbeiðnum og fréttir birtar þar sem hann er í forsvari fyrir eitthvað mál sem ákveðnir þjóðfélagshópar elska líklegast. Hann hefur örugglega haft nægan fjölda tækifæra á kjörtímabilinu til að koma verkefninu af stað og jafnvel fylgja því eftir á Alþingi, en einhverra hluta vegna er það eingöngu sett af stað núna rétt fyrir kosningar. Þá er auðvitað ágætt að íhuga að ráðstefnan sem hann hélt um klám var haldin 16. október 2012, fyrir 3 mánuðum síðan, en það er ekki fyrr en núna sem hann útdeilir verkefninu. Það er ekki svo mikið mál að deila út slíku verkefni sé málið eins mikilvægt og ráðherra telur það vera. Þetta er líklegast kosningaspil og ég er því miður hræddur um að hann muni fylgja þeim tillögum refsiréttarnefndar ef hann heldur áfram sem innanríkisráðherra eftir kosningar núna í ár, enda er pólítískt erfitt fyrir hann að hunsa tillögu nefndar sem hann skipaði sjálfur að eigin frumkvæði.

Vinsælar rökvillur hjá Ögmundi virðast vera persónuníð, strámaður og afvegaleiðing. Þið getið örugglega fundið fleiri ef þið leitið.

Make-overs

Sumir kannast eflaust við hugtakið make-over en það er oftast notað þegar breyta á einhverju gríðarlega, aðallega útliti fólks. Ég hef farið í gegnum slíkt ferli og dugði þetta make-over bara í nokkra daga. Mig grunar að fæst make-over dugi í mikið lengri tíma en það. Þá langar mig að fara yfir nokkra punkta til þess að auka líkurnar á að slík make-over takist.

* Tryggið að persónan hafi áhuga á make-over
Þetta er afar mikilvægt þar sem samvinna er lykillinn. Hversu skemmtilegt er að draga einhvern frá búð til annarrar búðar sem virðist svo ekki hafa mikinn áhuga á því sem er verið að gera og hlustar með hálfum hug á öll þau ráð sem koma fram? Ekkert svo skemmtilegt. Það er miklu líklegra að ég hlusti á ráðleggingar einhvers ef ég er móttækilegur fyrir þeim frá upphafi.

* Takið smá skref yfir lengri tíma.
Það virðist vera algengt að make-overið fari fram á einum degi eða á nokkrum dögum. En hversu oft verða þau til þess að þeir sem fara í gegnum make-over viðhaldi því? Líklegast í afar fáum tilfellum. Í mínu tilfelli voru það aðallega þrjár ástæður: Mér fannst ég ekki vera ég, nýja útlitið krafðist gríðarlegs viðhalds, og ég sá ekki mikinn tilgang í því.

Ef breytingarnar eru of snöggar fær maður það á tilfinninguna að maður sé að þykjast vera eitthvað sem maður er ekki. Á endanum fær maður nóg og hristir af sér breytingarnar og fer í eiginlega sama farið og áður. Því skiptir máli að breytingarnar fari fram á lengri tíma en nokkrum dögum, helst á mikið lengri tíma en það. Markmiðið á að vera að þróa útlitið en ekki skipta því út.

Viðhaldið getur líka reynst manni ofviða, sérstaklega ef það eykst mikið eftir á. Setja hitt og þetta krem á þennan stað á þessum tíma dags, vera í þessari samsetningu fata en ekki hinni. Upplýsingaflóðið er svo mikið á stuttum tíma að allt endar í hrærigraut. Þegar maður er óvanur að gera eitthvað tekur það langan tíma en minnkar síðan eftir því sem á tímann líður. Þetta gildir um nær allt sem maður tekur sér fyrir hendur. Að byrja á mörgu í einu lætur mann halda að viðhaldið verði svona mikið til frambúðar, sérstaklega ef make-over fólkið lætur mann ekki vita af því. Þá er freistingin að gefast upp nokkuð mikil, sérstaklega ef maður sér ekki tilgang með því sem maður er að gera. Árangurinn verður sjaldan sýnilegur næsta dag og þarf hver og einn að gera sér grein fyrir því að það gæti tekið nokkra daga, ef ekki vikur eða mánuði, áður en hann verður sýnilegur.

* Af hverju?
Við þurfum að gera okkur grein fyrir að make-over kostar peninga og vinnu. Eðlilega þarf mér að finnast að það sé tilgangur með þessu make-over, af hverju ætti ég annars að fara í gegnum það? Það er ekki nóg að segja að fólki muni líka við mann vegna breytinga á yfirborðinu, sérstaklega ef mér finnst ég ekki vera ég sjálfur. Líkar þeim þá við mig eða gervi-mig?

Þetta helst saman við ráðið um að taka þetta í smáskrefum. Er viðkomandi andfúll? Sannfærið hann um að (meiri) munnhirða er betri fyrir heilsuna. Er hann útsettur í bólum? Sannfærið hann um að hrein húð sé góð húð og heilsusamlegra. Ef þetta er gert í smáum og rólegum skrefum er miklu líklegra að árangurinn haldist. Þá skiptir máli að veita hrós þegar útlitið þróast til hins betra. Athugasemdir eins og „vá, þú ert myndarlegri núna en fyrir nokkrum vikum.“ geta skipt miklu máli upp á að hvetja einhvern til þess að halda áfram að bæta útlit sitt.

En einnig skiptir máli að sannfæra viðkomandi að breytingarnar séu persónulega góðar fyrir hann eða hana. Hann/hún á ekki að fara í alla þessa vinnu til þess eins að þóknast öðrum, heldur í þeim tilgangi að bæta sitt eigið líkams- og hugarástand. Margir segja að maður eigi að vera sátt(ur) við eigin líkama en það þýðir ekki að þróun til hins betra sé eitthvað slæm.

* Verið raunsæ
Ég er ekki að fara að breytast yfir í einhvern með fullkominn líkama á næstunni. Það myndi taka nokkuð langan tíma og mun mögulega aldrei gerast. Þegar fólk gerir sér grein fyrir því og er sátt við þann möguleika að það gerist líklega ekki, þá er ástandið orðið mun betra. Það er ekkert að því að vinna að því markmiði á meðan ekki er gengið of langt í framkvæmdinni. Setjið raunhæf markmið og vinnið að þeim og það er allt í lagi ef það mistekst á meðan þróunin er til hins betra. Haldið áfram og ekki gefast upp þrátt fyrir að hlutir fari ekki nákvæmlega eins og þið áætluðuð.

Afgreiðsla skriflegra fyrirspurna á Alþingi

Eftir að hafa athugað stöðuna á stjórnsýslufyrirspurn sem ég var með hjá ráðuneyti einu og það hafði ekki tilkynnt mér um tafir á afgreiðslu þess datt mér í hug að kíkja á fyrirspurnir þingmanna á Alþingi og hversu dugleg ráðuneytin eru að svara þeim. Við það nýtti ég mér þau gögn sem ég hafði áður fengið aðgang að hjá Alþingi.

Svarfrestir fyrirspurna almennt
Samkvæmt lögum um þingsköp (nr. 55/1991) í 6. mgr. 57. gr. stendur:

Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið og skal það prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Takist ráðherra ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests sem ákveðinn er í þessari grein skal hann gera forseta Alþingis skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars til Alþingis.

Þetta þýðir að ráðherra hefur 15 virka daga til að svara fyrirspurnum, sem við skulum þýða yfir í 3 vikur (21 dag), til einföldunar. Það ætti ekki að koma að sök vegna takmarkaðs fjölda frídaga. Seinasta málsliðnum um að tilgreina skuli um ástæðu tafa og hvenær svars skuli vænta var bætt við í lok löggjafarþingsins árið 2011. Einnig var á sama tíma svarfrestinum breytt úr 10 virkum dögum í 15.

Framkvæmd
Hvernig er annars farið eftir þessu ákvæði á þessu löggjafarþingi (sem hófst núna í haust)? Samkvæmt gögnum Alþingis hafa á þessari stundu verið lagðar fram 145 skriflegar fyrirspurnir og af þeim hefur 97 verið svarað en 48 er ósvarað.

Af þeim fyrirspurnum til skriflegs svars sem hefur verið svarað (97 talsins) var 26 af þeim svarað innan lögmæltra tímamarka. Þetta þýðir að 71 fyrirspurn (um 73%) til skriflegs svars var útbýtt eftir að frestinum lauk. Þessi 15 virkra daga frestur er því frekar undantekning heldur en reglan. Eingöngu bárust tilkynningar um tafir vegna 9 þessara fyrirspurna sem er nokkuð lítið.

Bið eftir skriflegum fyrirspurnum sem hefur verið svarað:

  • Dagar = Fjöldi
  • 0-6 = 2
  • 7-13 = 6
  • 14-20 = 17
  • 21-27 = 25
  • 28-34 = 22
  • 35-41 = 7
  • 42-48 = 10
  • 49-55 = 6
  • 56-62 = 1
  • 63-69 = 0
  • 70-76 = 0
  • 77-83  = 1

Bið eftir skriflegum fyrirspurnum sem ekki hefur verið svarað:

  • Dagar = Fjöldi
  • 0-6 = 4
  • 7-13 = 2
  • 14-20 = 5
  • 21-27 = 16
  • 28-34 = 5
  • 35-41 = 1
  • 42-48 = 3
  • 49-55 = 2
  • 56-62 = 2
  • 63-69 = 1
  • 70-76 = 0
  • 77-83  = 3
  • 84-90 = 1
  • 91-97 = 2

Eins og kemur fram hér að ofan eru 14 fyrirspurnir sem hafa ekki hefur verið svarað skriflega þrátt fyrir að það séu liðnar 6 vikur eða lengur frá framlagningu þeirra. Af þeim fyrirspurnum hafa 4 tilkynningar borist um tafir. Það hlutfall er nokkuð lítið en eðlilega hefði átt að berast tilkynning um tafir vegna þeirra allra.

Hvað tefur?
Ástæður tafanna geta verið margvíslegar og getur það hæglega farið eftir efni fyrirspurnanna. Síðan er sá möguleiki að skráning Alþingis á þeim hafi misfarist, ráðherra hunsi fyrirspurnina viljandi, þingmaður dragi fyrirspurnina til baka eða jafnvel að þingmaðurinn fái óformlegt svar. Í þingsköpum er einnig getið þess að sé skipt um ráðherra í embætti falla allar fyrirspurnir til embættisins sjálfkrafa niður. Orsakir svaraleysisins geta verið margar og þarf hver og einn að túlka þær.

Samkvæmt tölfræðiupplýsingum sem ég setti upp eru margar skriflegar fyrirspurnir lagðar fram á hverju löggjafarþingi sem er ekki svarað. Það virðist því vera fastur liður á hverju löggjafarþingi að slíkt gerist. Vinnubrögðin eru því ekki einni ákveðinni ríkisstjórn að kenna en samt eitthvað sem má stórbæta. Til dæmis með betri skráningu á fyrirspurnum og betra aðhaldi með vinnslu þeirra.