Kynlífsfetish

Var að horfa á myndband frá SMBC Theater hópnum sem kallast Premature. Í því er JP að reyna að forðast ótímabært sáðlát (e. premature ejaculation) og reynir að hugsa um hluti í þeim tilgangi að fresta sáðláti. En þá fór ég að hugsa: gæti það verið orsakavaldur fyrir kynlífsfetish?

Reglulega heyrir maður af skrítnustu hlutum sem fólk gerir til að krydda kynlífið sitt og það vekur upp spurninguna hvort einhver hafi verið að hugsa um ákveðinn hlut til að forðast sáðlát en það ekki virkað. Síðan tengir undirmeðvitund einstaklingsins þá hugsun við hluti sem „virka“ til að ná sáðláti. Á endanum byrjar einstaklingurinn að hugsa oftar um hlutinn sem ánægjulegan fyrir kynlífið og á endanum gæti hann orðið hluti af kynlífsathöfninni, hvort sem hinn aðilinn gerir sér grein fyrir því eða ekki. Einnig gæti það orðið að fantasíu að leika eftir það sem í upphafi hafi átt að tefja sáðlát.

Tek eitt dæmi en það er frétt sem var birt fyrir stuttu um að eitt parið hefði ákveðið að stunda kynlíf í mátunarklefa í Hagkaup. Það gæti vel verið að parið hefði ekki hugsað út í að hljóð eigi auðvelt að berast út fyrir klefann (eða þau hafi reynt að hafa hljótt en mistekist) en kynlíf á svona stað gæti verið afleiðing þess að einhver hafi reynt að ímynda sér að hann væri á almannafæri til að forðast sáðlát. Síðan hafi parið, sem hefur líklegast verið ágætlega gratt þá stundina, ákveðið að leika þessa fantasíu eftir í herrafatadeild Hagkaups.

Hvaða týpa er ég?

Undanfarið hef ég verið að heyra frá kvenfólki um að ég sé ekki þeirra týpa og þá fór ég að hugsa: hvaða týpa er ég? Í tilraun til að glíma við þessa spurningu koma upp fleiri spurningar. Ein þeirra er „hvaða spurningar þarf að spyrja og hvers konar svör myndu svara þeirri spurningu?“ Í stuttu máli er óhætt að segja að þetta eru rosalega margar spurningar og ég get svo sannarlega ekki svarað þessum pælingum með einni grein.

Aðalvandamálið er að ég get ekki svarað þessari spurningu þegar um er að ræða mig sjálfan. Ástæðan er sú að ég er of hlutdrægur og myndi líklegast einbeita mér of mikið á annaðhvort jákvæðu hliðarnar eða þær neikvæðu eftir því í hvernig skapi ég er í. Svörin yrðu alls ekki fullnægjandi því þau færu einnig eftir skapinu og þeirri sjálfsmynd sem ég hef. Síðan sér fólk mann í mismunandi ljósi og ekki er maður sama týpan á öllum stundum; Vinnufélagar gætu séð mann t.d. í allt öðru ljósi en vinir manns.

Fyrst það er mat mitt að sitt sýnist hverjum hvað týpur varðar, af hverju er ég að spá hvaða týpur aðrir haldi að ég sé? Það er vegna þess sem ég kalla „innri týpa“ og „ytri týpa“. Innri týpan er sú týpa sem maður er í raun og veru en sú ytri það sem aðrir upplifa á hverjum tíma. Stundum endurspeglar ytri týpan þá innri en vandamálið felst í þeim tilvikum þegar svo er ekki. Álit annarra á týpu manns er mikilvægt til að vita hvort innri týpan nái að skila sér út til annarra. Sumir gætu haldið að maður sé oftast haldinn eiginleika X þegar innri týpan gefur til kynna Y. Með því að vita að fólk heldur að ég sé Y þá er gott að fá að vita af því svo hægt sé að leita að rót þess misskilnings.

Síðan er önnur ástæða fyrir því að ég vil vita það er sú að ég er að reyna að finna út hver ég er og þá meðal annars styrkleika og veikleika. Venjulega fer fólk þá leið að lágmarka veikleikana með því að einbeita sér að styrkleikum sínum eða lágmarka skaðann sem veikleikarnir geta valdið. Til þess að vita það þarf ég að vita hverjir styrk- og veikleikarnir eru en það fer venjulega saman við týpu manns.

Þrátt fyrir allar þessar pælingar er ég samt ekki nær því að svara spurningunni: „Hvaða týpa er ég?“

Veðmál Pascals

Veðmál Pascals er þriðja greinin sem ég hef fengið birta á vefriti Vantrúar. Hér er greinin endurbirt.

Margir trúaðir beita einhverri útgáfu af veðmáli Pascals í von um að sannfæra aðra um að það sé þess virði að trúa á æðri mátt. Ætlunin mín er að taka fyrir helstu rökin fyrir því að veðmálið standist enga skoðun í von um að fólk hætti að beita því sem rökum fyrir því að trúa á ákveðinn æðri mátt.

Stutta útgáfan af veðmálinu er þannig að fólk hefur óendanlega meiri ávinning af því að trúa frekar en að trúa ekki, óháð því hvort guð sé til eða ekki. Niðurstaðan er samkvæmt veðmálinu að maður hefur allt til að vinna og engu að tapa á því að trúa. Það eru fjórar mögulegar útkomur eftir að maður deyr:

1. Ef guð er til og þú trúir = Óendanleg hamingja í himnaríki.
2. Ef guð er til og þú trúir ekki = Ekkert gerist eða óendanlega slæmar afleiðingar. (fer eftir söfnuðnum)
3. Ef guð er ekki til og þú trúir = Ekkert.
4. Ef guð er ekki til og þú trúir ekki = Ekkert.

Sjónarhornsgalli

Þegar veðmálinu er beitt er einn galli sem trúaðir gera sér sjaldan grein fyrir: hinn trúlausi trúir ekki á eftirlíf. Það þýðir lítið að reyna að bera gull og græna skóga á hinn trúlausa þegar hann hefur engar forsendur til að trúa því að eftirlífið sé raunverulegt. Sama gildir um hótanir um slæmar afleiðingar ef hann óhlýðnast. Endilega hótið okkur vist á slæmum stað sem við trúum ekki á, það mun örugglega sannfæra okkur trúlausa um að trúa á ykkar eftirlíf.

Að sama skapi er erfitt að réttlæta það að hinn trúlausi ætti að verja lífi sínu á að trúa í þeirri von að hann komist til himnaríkis. Í augum þeirra eiga allir bara eitt líf og því ber að njóta. Af hverju ætti hann að tileinka það veru sem hann trúir ekki að sé til?

Segjum að hinn trúlausi kaupi rökin að hann ætti að tilbiðja æðri máttinn í þeirri von að ef hann er til, þá lendi hann í himnaríki. Væri slíkt ekki blekking sem æðri mátturinn myndi sjá í gegnum? Myndi trúaða manneskjan (sem væri að beita veðmálinu) ekki vilja að allir fylgjendur síns æðri máttar væru heiðarlegir hvað trúrækni þeirra varðar?

Fleiri en ein trúarbrögð

Segjum svo að búið sé að sannfæra trúleysingjann um að það sé eftirlíf. En hverjar eru kröfurnar (ef einhverjar) svo hægt sé að njóta þess? Nú vandast málin þar sem trúfélagsgreinarnar eru nokkuð margar. Svo dæmi sé tekið eru að minnsta kosti 33 stórar greinar út frá kaþólsku kirkjunni. Sumar greinar eru útilokandi frá öðrum svo það er ekki hægt að vera í náð beggja á sama tíma, jafnvel þótt um sé að ræða sama guðinn. Eitt besta dæmið um þetta er gyðingdómurinn og kristni þar sem ekki er hægt að afneita Jesú og upphefja hann sem son guðs á sama tíma. Hvað ef allir hafa rangt fyrir sér og ?hinn sanni? æðri máttur hefur ekki verið uppgötvaður? Hvað ef þetta líf hefur engin áhrif á stöðu manns í eftirlífinu?

Hvað ef við tökum veðmálinu?

Nú hefur fyrrverandi trúleysinginn tekið veðmálinu og byrjar að rækja ákveðna trú sem hann telur að sé líklegust til að koma á góðan stað í eftirlífinu – ef það er til. Líf hans mun nú snúast um það að lifa af, eins og áður, en núna þarf hann að finna tíma til að gera það sem trúin krefst af honum. Sum trúarbrögð krefjast þess að fólk verji aukatíma sínum í að breiða út boðskapinn til annarra eða í aðrar athafnir.

Ekki nóg með að þau krefjist þess að maður geri eitthvað, heldur fara þau líka út í það að banna manni að gera hluti. Ef þetta væru hlutir sem trúleysingjum langar að gera, þá þyrfti þeir ekkert að trúa til þess að gera þá. Trúin væri sem sagt byrjuð að stjórna lífi fyrrverandi trúleysingjans og eyða þeim dýrmæta tíma sem hann hefur í þessu lífi vegna fáránlegs veðmáls sem stenst enga skoðun.

Fer þjóðkirkjan enn eftir konungstilskipunum?

Ég hef verið að lesa gamlar tilskipanir um málefni tengd þjóðkirkjunni og ýmislegt forvitnilegt hefur komið í ljós. Þess ber að geta að þessar tilskipanir hafa enn lagagildi.

Kristniréttur Árna biskups Þorlákssonar:

11. Um forræði biskups á kirkjum ok eignum þeirra.
Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera.

Löngu hætt að framkvæma þetta.

Erindisbréf handa biskupum:

14. Enn fremur skulu meðhjálparar vera viðstaddir, þegar biskup eða prófastur koma, og skulu þeir allir spurðir, hvernig ástandið sé í söfnuðinum, hvort þar tíðkist nokkrir sérstakir ósiðir eða guðleysi, hvernig hver um sig ræki embætti sitt, og fái stoð til þess eða sæti tálmunum, og skal biskup eða prófastur eigi láta undir höfuð leggjast að áminna menn í því efni.

Áminna presta ef guðleysi tíðkast… hmmm…

Tilskipun um húsvitjanir:

4. Til meðhjálpara skulu útveljast þeir upprigtugustu, bestu og umhyggjusömustu menn í hverri sókn, og ber engum, hvort þeir eru hreppstjórar eða virðingarmenn frá þessu embætti undantakast, þá þeir eru þar til af prestinum útséðir, ekki heldur byrjar þeim þar fyrir að uppástanda, að fríast frá öðrum verslegum útréttingum.

Ég ætla að velja…forsætisráðherra og dóms- og mannréttindamálaráðherra. Þau yrðu fljót að afnema þetta ef það myndi reyna á þessi lög.

Þetta var annars bara hluti af því sem ég fann. Til hvers eru þessi lög annars enn í gildi ef það er varla farið eftir þeim? Af hverju er ekki nú þegar búið að fara í almennilega tiltekt á þeim?

Réttindi að forgörðum

Um daginn fékk ég að vita að margir þeirra sem leitað var hjá í tengslum við BitTorrent mál þann 1. desember síðastliðinn voru kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglunni og spurðu þeir mig ráða. Eitt aðalráðið sem ég gaf var að nýta réttinn til að þegja (svokallaður þagnarréttur) og það kom mér á óvart að þeir hafi ekki vitað af þeim rétt.

Í framhaldinu leit ég á lagaumhverfið í kringum þann rétt og verð að segja að það er ekki nógu gott. Hvergi er sagt beinum orðum að þagnarrétturinn sé eitthvað sem fólk hefur í skýrslutökum. Það er auðvitað viðurkennt að hann sé við lýði í dómsal en það efast ég ekki. 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu gefur þann rétt en hann er þó ekki nefndur berum orðum í greininni sjálfri heldur í gegnum túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur (því miður í þessu tilviki) ekki lagagildi hér á landi. Það næsta sem kemst þessum rétti í skýrslutökum er 64. mgr. laga um meðferð sakamála (lög nr. 88/2008). Það er samt ekki tilgangur greinarinnar að fara yfir það.

Því miður er það þannig að fólk hér á landi veit oftast ekki af þagnarréttinum eða öðrum réttindum eins og má sjá á nýlegri frétt á vefnum visir.is. Ekki nóg með að maðurinn hafi talað við lögregluna, heldur samþykkti hann húsleit þrátt fyrir að dómari hafi hafnað beiðni um húsleitarheimild. Hvað ef lögreglan hefði fundið eitthvað ólöglegt við leitina? Leitin hefði verið fullkomlega lögleg þar sem eigandinn leyfði þeim að leita!

Til hvers að hjálpa lögreglunni?
Sumir myndu spyrja á móti: „Ég hef ekkert að fela svo að hvers vegna ekki?“ og halda síðan að þeir hafi afgreitt málið. En málið er nær lengra en það. Gallinn er að fólk getur aldrei verið fullvisst um að ekkert ólöglegt sé á staðnum því það er aldrei að vita hvort annað fólk hafi skilið eitthvað ólöglegt eftir sem að lögreglan finnur. Reyndu síðan að segja lögreglunni að þú vissir ekki af hlutnum og athugaðu hvort hún trúi þér (spoiler: líklegast ekki).

Önnur rök sem ég hef heyrt með því að leyfa lögreglunni að leita sé til að tefja ekki lögregluna svo hún geti farið í önnur gagnlegri verk í staðinn fyrir að hanga í manni fyrir að neita að verða við beiðni lögreglunnar. Þau rök eru fáránleg þar sem leitin er miklu tímafrekari en tíminn sem það tekur að neita. Ef lögreglan myndi í alvörunni telja að það skipti svo miklu máli að leita í bílnum þínum eða húsinu, þá fengi hún leitarheimild. Síðan hey, hvernig væri að lögreglan myndi gera eitthvað gagnlegra en að biðja þig (sem ert væntanlega saklaus af því athæfi sem hún er að athuga með) um að leyfa sér að snúa öllu við í þínu lífi bara til að spara smá tíma. Sá tími sem það tæki að leita hjá þér gæti farið í að halda áfram leitinni annars staðar.

Af hverju að nýta þagnarréttinn?
Þagnarrétturinn er best þekktur í tengslum við 5. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar og aðallega í tengslum við hina frægu setningu „I plead the fifth“. Þagnarrétturinn er sá að allir eiga rétt á að sakfella ekki sjálfa sig. Það má því ekki neyða neinn til að játa glæp, hvort sem það er vitandi eða óafvitandi. Sá réttur er í gildi hér á Íslandi þó hann sé veikur.

Þá kemur aftur sú staðhæfing að maður hafi ekkert að fela og ætti því að vera óhætt að ræða við lögregluna. Þar er gallinn sá að það hafa allir eitthvað að fela. Sá sem segist hafa ekkert að fela er að ljúga. Við veljum öll hluti sem við segjum og hvað við ætlum ekki að segja. Með því að velja að segja ekki eitthvað er aðilinn að fela það. Næst þegar þú ræðir við einhvern ókunnugan, taktu eftir því hvort þú velur að halda aftur af staðreyndum um þig eða eitthvað annað. Þá ættirðu að komast að því að þú hefur víst eitthvað að fela.

Lög landsins og reglugerðir og allur sá pakki er flókinn og veit ég ekki um eina einustu persónu sem ég þekki ágætlega sem hefur aldrei brotið nein lög. Það er ómögulegt að fara í gegnum lífið án þess að brjóta nokkur lög í því ferli. Fólk ætti ekki að vera svo öruggt með sig að halda að það geti talað við rannsóknarlögreglumann í nokkrar klukkustundir án þess að hjálpa honum að sakfella sig. Það sem þú segir í skýrslutökum (sem er annað orð yfir yfirheyrslu) er eingöngu notað gegn þér í dómsmáli en ekki með þér. Jafnvel þó þú sért saklaus af hinu meinta broti er samt hægt að sakfella þig byggt á einhverri vanhugsaðri yfirlýsingu sem þú lést frá þér og virðist saklaus á þeim tíma sem þú gafst hana. Til hvers að hjálpa lögreglunni að sakfella þig? Sjáðu hvaða sönnunargögn lögreglan hefur gegn þér og svaraðu fyrir þig í fyrsta lagi þegar málið fer fyrir dómstólana, ef málið fer svo langt.

Einn af þeim sem ég ráðlagði fyrir skýrslutökuna lét mig vita eftir skýrslutökuna að lögreglan hafði ekkert á hann og það leit út fyrir að þeir vonuðu að hann myndi sakfella sjálfan sig í skýrslutökunni. Hann gaf þeim ekki það tækifæri þar sem hann nýtti sér þagnarréttinn. Það borgar sig að nýta hann!

Frumvarp til laga um afnám sóknargjalda o.fl.

Í gær kláraði ég gerð frumvarps sem ég kom á framfæri við Hreyfinguna. Þessa stundina veit ég ekki hvort þau muni leggja það fram eða ekki en ég vona það svo sannarlega. Frumvarpið felst í því að afnema sóknargjöld ásamt því að leggja niður þrjá sjóði sem þjóðkirkjan ræður ein yfir.

Það sem ég vildi samt koma á framfæri var hversu lítill tími fór í það miðað við þann sparnað sem það hefur í för með sér. Ein kvöldstund fór í að finna allar lagagreinar þar sem minnst er á sóknargjöld og meta hverju þyrfti að breyta til að ná því fram. Síðan fór önnur kvöldstund í að skrifa frumvarpið og greinargerðina. Tvær kvöldstundir af mínum tíma í eitthvað sem gæti sparað ríkissjóð um 2,5 milljarða á ári. Ég er jafnvel óvanur frumvarpsgerð og dágóður tími fór í að yfirfara frumvarpið svo það yrði „á lagasniði“. Hvað í fjandanum er starfsfólkið í ráðuneytunum að gera?

Læt drögin fylgja í PDF svo þið getið metið vinnu mína. Ef þú ert þingmaður, endilega leggðu frumvarpið fram.

Frumvarp til laga – afnám sóknargjalda

Að lýsa fólki

Af hverju þarf fólk oft að lýsa öðrum á svo klisjukenndan hátt? Svo virðist vera að ef ég bæði einhvern um að lýsa nýju kærustunni væri eitt það fyrsta sem hann myndi byrja á væri að nefna að hún sé falleg, fyndin og skemmtileg. Þetta eru nær gagnslausar lýsingar þar sem sitt sýnist hverjum. Ef ég myndi hitta hana gæti mér þess vegna fundist hún ljót, ófyndin og leiðinleg. Hvað ef hann gleymir að nefna að hún sé falleg? Á ég þá að gera ráð fyrir að honum finnst hún ljót eða í meðallagi?

Það væri skemmtilegt, en þó ekki skilyrði, ef fólk myndi leggja aðeins meira á sig hvað þetta varðar. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég á erfitt með að lýsa sjálfum mér og öðrum fyrir fólki; Ég vil helst ekki nota þessi klisjukenndu lýsingarorð og á því til að gefast strax upp ef einhver spyr.

Hvernig myndir þú lýsa sjálfum/sjálfri þér fyrir öðrum?

Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu

Alþingi tók í gær slæma ákvörðun sem í sjálfu sér kemur ekki á óvart. Í raun og veru voru þær í það minnsta tvær: Að samþykkja Icesave frumvarpið og að fella niður breytingartillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrrnefnda ákvörðunin er örugglega útrædd á öðrum stöðum á netinu en sú seinni þarfnast meiri pælingar.

Svo mikill er hrokinn í ríkisstjórninni núna að hún telur sig geta tekið hvaða ákvörðun sem er í skjóli kosningar sem fór fram árið 2009. Ekki misskilja mig en þetta er eitthvað sem hefur plagað ríkisstjórnir á Íslandi í nokkuð mörg kjörtímabil. Hugmyndin virðist vera sú að þegar kosið er á Alþingi sé fólk því að fela hverjum þeim sem endar í ríkisstjórn umboð til að sjá um málefni þjóðarinnar og skiptir ekki máli hvaða mál enda á borðinu. En það er rangt.

Á endanum munu koma mál sem eru svo stór að það hefur stórvirk áhrif á meirihluta þjóðarinnar og jafnvel alla. Þegar slíkt kemur upp ætti það að vera eðlilegt og jafnvel skylda að þau mál séu borin undir þjóðina. Tilgangur ríkisvaldsins er fyrst og fremst að sjá um daglegan rekstur ríkisins og afgreiðslu minniháttar mála svo ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hvert einasta smámál sem kemur upp. En Icesave er ekkert smámál og ætti það að vera eðlileg skylda ríkisvaldsins að leita álits hjá þjóðinni.

Við skulum bera stjórnarhætti ríkisins við stjórnarhætti sem taldir eru eðlilegir í íslenskum fyrirtækjum. Árlega er haldinn svokallaður aðalfundur þar sem stjórn fyrirtækisins er kosin og hefur hún umboð hluthafa að næstu kosningu sem er þá endurnýjað ef hluthafar samþykkja það. Öðru hvoru koma upp stórmál hjá fyrirtækinu milli aðalfunda sem krefjast aukningu á hlutafé eða stórra breytinga. Þá er það talið eðlilegt að stofna til annars hluthafafundar sem snýst einvörðungu um það mál.

Og hvernig er þetta núna hjá íslenska ríkinu? Á fjögurra ára fresti er kosin stjórn (Alþingi) í þjóðaratkvæðagreiðslu (hluthafafundur) og hún hefur umboð þjóðarinnar (hluthafa) að næstu kosningum. Þessi stjórn hefur (nær) ótakmarkað umboð til að sjá um mál þjóðarinnar og kallar aldrei til þjóðaratkvæðagreiðslu nema hún sé neydd til þess.

Hvernig þætti ykkur að vera hluthafar í fyrirtæki með stjórn sem ræður sér sjálf og getur spanderað fé ykkar án þess að þið fáið nokkru um það ráðið?

Ég vil banna bindi á Alþingi

Í gær bar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona í Sjálfstæðisflokknum, upp þá fyrirspurn hvort Ögmundi Jónassyni þætti rétt að banna búrkur. Þykir henni (og fleirum) rétt að banna þær vegna þess að þær séu tákn um kúgun í garð kvenmanna. Ögmundur tók að mínu mati rétta afstöðu í þessu máli og vildi ekki banna þær af þeirri einföldu ástæðu að slíkt bann leysir ekkert.

Ekki veit ég hversu margir á Íslandi klæðast búrkum en ég efast um að þeir séu nokkuð margir. Óháð því hversu margir þeir eru, þá myndi slíkt bann samt ganga á rétt þeirra sem vilja ganga í búrkum. Að sama skapi er það ekkert grín eða spurning með fjölda þegar einhver er neyddur til að ganga í ákveðnum fötum.

Það er nokkuð ‘fyndið’ að Þorgerður Katrín skuli minnast á að banna búrkur vegna kúgunar kvenna og að það sé gegn kvenfrelsi. Hvað um karlfrelsi í sal Alþingis? Alþingi sjálft var sjálft með skyldu til að klæðast ákveðnum fatnaði í þingsal. Nú er ekki lengur skylda að vera með bindi en þau eru tákn um kúgun gagnvart karlkyns þingmönnum og því myndi ég vilja banna þau. Væri slík beiðni ekki fáránleg? Það þætti mér. Ekki sé ég að Þorgerður Katrín hafi kvartað yfir þessari skyldu (opinberlega) síðan hún hóf þingmennsku árið 1999.

Hvers konar lausn væri bann á búrkum? Maður sem væri í raun og veru að neyða konu sína til að vera með búrku myndi í staðinn halda henni heima í stað þess að hleypa henni út án búrku. Segjum að ekkert svoleiðis eigi sér stað, þá er samt búið að lögleiða öðruvísi kúgun. Hún er þá farin úr „þú skalt vera í þessum og þessum klæðnaði‟ og í „þú mátt ekki vera í þessum og þessum klæðnaði‟. Rosalegt frelsi þar.

Ein pælingin sem Tinna Gígja hafði á sínum tíma var hver viðurlögin við slíku banni ættu að vera. Á að refsa konunni fyrir það að vera kúguð? Þær sem klæðast búrkunni af fúsum og frjálsum vilja er þá refsað fyrir fataval sitt. Að banna búrkur blákalt kemur niður á konunum sem eru með þær en ráðast ekki á rót vandans – kúguninni sjálfri. Betri aðferð til að leysa þetta væri sú að vinna í að gefa fólkinu val um það hvort það klæðist búrku eða ekki. Slíkt væri vænlegra til árangurs.