Þegar ég lít yfir farinn veg hef ég tekið eftir því að ég hef alltaf verið í vandræðum með smátal (e. small-talk). Fyrir þá sem ekki vita er smátal sá hluti samtalsins þar sem ekkert umræðuefni er í gangi og hefur engan sérstakan tilgang. Tilgangur þess er að virka sem fylling milli umræðuefna eða til að ræsa og enda samtalið.
Vandræðin mín byggjast aðallega á tvennu: Of langt smátal og að komast út úr því. Þegar ég ræði við einhvern sem ég þekki ekki eða þekki lítið, þá á smátalið til með að vera of langt fyrir minn smekk. Eftir smá stund fer mér að líða verr því mér finnst eins og samtalið muni áfram vera innihaldslaust. Á ég þá til með að reyna að enda samtalið eins fljótt og ég get en reyni þó að undirbúa ágæta lendingu. En ef ég þekki manneskjuna og smátalið er orðið of langt og engin létt leið til að enda það, þá verð ég oft uppiskroppa með fyllingarefni.
Alla ævi mína hef ég verið langt frá því að vera félagslyndur og byrjaði því að læra smátal langt eftir 20 ára aldurinn. Á þeim tíma hef ég tekið eftir mörgu fáránlegu sem fólk tekur upp. Eitt dæmi um það er að spyrja hvernig mann líður þegar það er enginn augljós tilgangur með því. Fólk er svo vant að heyra ‘vel’ og ‘ágætt’ að setur enga merkingu í svarið. Ef ég myndi svara ‘Ágúst’ myndu sumir líklegast ekki taka eftir því og halda áfram með smátalið. Sumir jafnvel ljúga þegar þeir svara þessari spurningu og hef ég jafnvel gert það sjálfur. Þá hef ég svarað að mér líði vel eða ágætlega en í raun og veru liðið illa. Hins vegar er ég hættur þeirri vitleysu og haft það að stefnu að svara heiðarlega. Ef mér líður illa, þá segi ég það.
Venjulega þegar fólk biður mig um eitthvað byrjar það oft samtalið á smátali sem er aðferð til að þykjast hafa meiri áhuga á mér en það hefur í raun eða mýkja mig svo það virðist ekki vera heimtufrekt. Þegar manneskjan gerir þetta aftur og aftur fer þetta að verða þreytt, sérstaklega þegar öll samskiptin enda á því að biðja mig um eitthvað. Það væri óskandi ef fólk hefði raunverulegan áhuga á mér en ætli ég sé bara ekki of ófélagslyndur til þess.
Þetta er alger vítahringur.