Persónukjör og landið eitt kjördæmi

Meðal baráttumála minna er að koma á því skipulagi að Ísland sé eitt kjördæmi og þar að auki að kosið sé inn á Alþingi með persónukjöri líkt og til stjórnlagaþings. Ég geri mér grein fyrir því að þessar hugmyndir eru róttækar miðað við núverandi skipulag en hins vegar eru sterk réttlætisrök með því.

Ýmis rök eru fyrir persónukjöri en meðal þeirra helstu er að losna við flokkakerfið. Ef einhver vill bjóða sig fram á þing og er ekki sammála stefnum þáríkjandi flokka hefur hann þrjá kosti: Finna þann flokk sem passar best við hans skoðun, stofna nýjan flokk eða sleppa þessu. Þetta veldur því að einstaklingar sem hafa nýstárlegar skoðanir komast alls ekki að nema beygja sig undir skoðanir annarra sem í framhaldinu rýrir möguleika hans á að hafa áhrif á þinginu. Annar gallinn við flokkakerfið eru hin svokölluðu pakkakaup; Til að velja manneskju A kemst maður ekki hjá því að velja manneskju B, og C, og D, og svo framvegis. Þetta er eins og að neyðast til að kaupa vasaljós til að fá batteríið. Persónukjör leysir slíkt þar sem kjósendur geta valið þær manneskjur sem þeir persónulega vilja á þing.

Persónukjör hefur auðvitað líka galla. Til dæmis getur verið erfitt að velja úr öllum þeim sem eru í framboði, sérstaklega ef þeir eru margir. Hins vegar hefur almenningur þegar farið í málið eins og sést á þeim tólum sem hafa verið sniðin til að velja frambjóðendur á stjórnlagaþingið 2011. Slíkar aðferðir er hægt að fínpússa og á endanum verður ágætlega auðvelt fyrir fólk að velja frambjóðendur sem eru þeim að skapi.

Sumir vilja meina að persónukjör valdi því að erfitt eða jafnvel ómögulegt verði að mynda ríkisstjórn. Þá vil ég varpa þeirri spurningu af hverju það þarf að velja í ríkisstjórn út frá Alþingi? Eitt helsta vandamálið á Alþingi er hjarðhegðun þar sem þingmenn berjast um ráðherrastólinn og hlýða forystumönnum sinna flokka í þeirri von að komast í lúxusinn sem fylgir því að vera ráðherra. Af hverju ekki að kjósa framkvæmdavaldið óháð Alþingi? Út á það gengur aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Annað sem skiptir mig miklu máli er að landið verði eitt kjördæmi. Sumir segja að það muni halla á landsbyggðina en svo þarf ekki að vera. Alveg eins og fólk á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að kjósa einhvern á sama svæði, af hverju ætti það sama ekki gilda um val kjósenda á landsbyggðinni? Eiga störf Alþingis að ganga út á landsbyggðina? Í fyrstu umræðunni um frumvarp vegna fjárlaga 2011 voru margir þingmenn á suðvesturhorninu sem mótmæltu niðurskurði á landsbyggðinni. Það er ekki eins og landsbyggðin sé í algleymingi hjá þeim sem búa þar ekki. Miðað við dreifingu fólks á landinu munu örugglega einhverjir úr landsbyggðinni vera kjörnir á Alþingi í hverjum kosningum og vera þar fyrir hönd síns landshluta.

Núverandi kjördæmaskipulag er óréttlæt í eðli sínu með því einu að skipta landinu í svæði. Segjum að ég sé þingmaður fyrir Reykjaneskjördæmi og hef unnið mér inn nóg fylgi til að vera þingmaður á Alþingi. En hvað ef ég flyt til Reykjavíkur eða jafnvel lengra út á land? Nú væri ég kominn í allt annað kjördæmi og þyrfti þá að byrja upp á nýtt. Fólkið sem studdi mig áður má ekki gera það lengur nema það flytji lögheimili sitt í sama kjördæmi og ég er í. Ef landið væri eitt kjördæmi og með persónukjöri væri þetta ekkert vandamál.

Persónukjör og fækkun kjördæma í eitt er löngu tímabært hér á landi og vil ég fá tækifæri til að leggja það fram á stjórnlagaþingi.

– Svavar Kjarrval
Frambjóðandi #5086

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.