Aðferð til að velja frambjóðendur

Mér fannst rétt að deila með ykkur þeirri aðferð sem ég mun líklegast beita til að velja þá frambjóðendur sem skipa listann minn.

Setja upp lista yfir frambjóðendur
Hægt er að prenta út lista yfir frambjóðendur eða merkja í rafræna útgáfu. Frambjodendur.is býður upp á að flokka frambjóðendur í hópana ‚já‘, ‚kannski‘ og ‚nei‘ og mun ég miða við þá flokka.

Nýta vinnu annarra
Ef eitthvað hitamál skiptir þig miklu máli er ekki svo vitlaust að athuga hvort einhver hafi safnað saman lista yfir þá sem eru á móti því. Í mínu tilviki gagnaðist rauði listinn á aðskilnaður.is mér mikið. Þeir sem eru algerlega á móti aðskilnaði geta útilokað frambjóðendur á græna listanum.

Þeir sem þú vilt kjósa
Merktu inn þá sem þú vilt örugglega kjósa með ‚já‘ og settu ‚kannski‘ við þá sem þú ert ekki öruggur um en koma til greina. Það sama gildir um að setja þá sem þú veist að þú vilt alls ekki í ‚nei‘ flokkinn.

Nota sigtið
Eitt tól sem hefur gagnast mér nokkuð vel er Sigtið. Þar er hægt að vita hvaða frambjóðendur svöruðu á ákveðinn hátt og útiloka þá. Vægi svaranna er samt mismunandi en sum svörin skipta meira máli en önnur. T.d. útilokaði ég þá sem svöruðu að þeir væru hlynntir ákvæði í stjórnarskrá um þjóðkirkju á Íslandi. Þegar ég hef farið yfir þá frambjóðendur sem koma upp við hvern svarmöguleika passa ég mig á að setja hann aftur á tóma svarið áður en ég fer á næstu spurningu. Því miður birtist takmarkaður fjöldi frambjóðenda en þetta er betra en ekkert.

Þó einhver frambjóðandi svari einhverju sem er er á útilokunarlistanum þínum er ágætt að athuga hvort önnur svör hans séu í samræmi við skoðanir þínar. Þú gætir sent frambjóðandanum tölvupóst og spurt hann nánar um málefnið. T.d. svaraði einn þeirra að hann hafi valið rangan svarmöguleika og fór hann því á ‚já‘ listann minn.

Fræðast um frambjóðendur
Eftir að hafa beitt grófri aðferð til að útiloka frambjóðendur er ágætt að byrja að fræðast um þá sem eru ekki komnir í neinn af þessum þrem flokkum. Oftast nær dugar að velja eina grein eftir frambjóðandann og sjá hvort hann sé með öllum mjalla. Ein önnur leið er að athuga stuðningssíðu hans á Facebook og sjá hvort þar sé eitthvað sem mætti flokka hann eftir. Listi yfir Facebook síður þeirra er í boði undir þessu léni.

Forgangsröðun
Nú ertu búinn að fara í gegnum fyrstu umferð í gegnum frambjóðendurna. Þá er ágætt að fara fljótt í gegnum ‚kannski‘ listann og sjá hvort einhver þeirra eigi skilið að fara yfir í ‚já‘ listann. Eina sem er eftir er að raða þeim sem eru á ‚já‘ listanum í þá röð sem þú vilt sjá þá á stjórnlagaþingi. Efstu 25 eru þeir aðilar sem þú ættir að setja á kjörseðilinn. Ef þeir eru færri, vertu óhræddur, þú mátt setja færri en 25 á kjörseðilinn. Einnig geturðu farið út í að fræðast meira um fólkið á ‚já‘ listanum með því að fara á Facebook síður þeirra og sjá hvort þar sé eitthvað sem myndi færa þá yfir á annan lista.

Nokkur atriði um kjörið

  • Það tekur styttri tíma að kjósa ef þú hefur tekið saman auðkennistölur þeirra sem þú vilt kjósa fyrir fram.
  • Þér er óhætt að kjósa vinsælan frambjóðanda í fyrsta sæti.
  • Röðin sem þú raðar frambjóðendum í skiptir máli.
  • Atkvæði þitt gagnvart hverjum frambjóðanda minnkar ekki í vægi þótt þú veljir aðra á eftir honum.
  • Það gagnast ekki að skrifa frambjóðanda oftar en einu sinni á kjörseðilinn. Það mun jafnvel ógilda seinna valið og allt annað val fyrir neðan það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.