Auði flokkurinn og stefnuskrár stjórnmálaflokkanna

Nú fer að líða að sveitarstjórnarkosningum og fjölmargir flokkar bjóða sig fram í flestöllum byggðum. Allir sem bjóða sig fram eru með sín eigin stefnumál en í flokksbundnum kosningum er í boði svokölluð stefnuskrá sem á að vera sameiginlegur grundvöllur allra frambjóðenda sem vilja vera undir formerkjum listans. Þó er í því engin trygging að frambjóðandi sem er kjörinn með þeirri forsendu að fara eftir stefnuskránni fari eftir henni og gæti hann jafnvel tekið upp á því að skreppa yfir til annarra flokks sem er með allt aðra stefnuskrá en kom honum inn.

Seinast þegar ég kaus flokk í kosningum í sveitarstjórn fór mitt atkvæði til Samfylkingarinnar. Af hverju? Þegar ég lít til baka get ég með sanni sagt að ég man það ekki. Var það bara því ég sá mig knúinn til að velja eitthvað af því sem var í boði eða var eitthvað sem gerði Samfylkinguna að betri kost en alla hina flokkana? Þetta er ekki einu sinni illskásti flokkurinn að mínu mati í dag. Hvað var ég að hugsa?

Áður en lengra er haldið vil ég nefna að ég hata ekkert flokkinn algerlega og einstaka frambjóðendur eru fínir og jafnvel sumt sem flokkurinn hefur framkvæmt er ekki illt. Málið er bara það að stefnuskráin þarf mikla vinnu áður en ég væri tilbúinn til að gefa flokknum atkvæðið mitt.

Þegar fólk mætir á kjörstað og er að horfa á seðilinn blasa við nokkrir stjórnmálaflokkar sem það getur valið um. Hins vegar er einn flokkur í viðbót sem það getur kosið um en er ekki listaður á kjörseðlinum: Auði flokkurinn. Þetta er nafnið á því þegar fólk skilar auðum seðli. Í talningum á atkvæðum vantar hins vegar samanburð atkvæða þessa stjórnmálaafls við önnur. Það sem mig langar að vita er að ef Auði flokkurinn væri raunverulegur stjórnmálaflokkur, hvað hefði hann fengið?

Sumir kunna að spyrja sig: Af hverju skiptir þetta máli? Svarið við því er að leita uppi ástæðuna fyrir því af hverju fólk skilar auðum seðli. Fyrir mitt leiti er ástæðan einföld en hún er sú að ég vil ekki styðja flokkanna sem í boði er með mínu atkvæði. En af hverju sit ég þá ekki heima? Þótt að ég búi yfir fyrrnefndri skoðun tel ég mikilvægt að koma þessari skoðun á framfæri með kjöri mínu á Auða flokknum. Ef ég geri það ekki mun vera gert ráð fyrir því að mér sé sama um hver kemst til valda. Með kjöri Auða flokksins er verið að gefa til kynna að enginn flokkur sé í boði sem fengi atkvæði þessa fólks og gæti jafnvel verið merki um að þörf sé á öðrum stjórnmálaflokki.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna
Hver flokkur er með sína stefnuskrá og með sínar áherslur. Hins vegar er hinum venjulega kjósanda sama um stefnuskrár flokksins sem hann kýs heldur vill fá grófa hugmynd um hvað gerist ef flokkurinn kemst til valda. Bæklingur Samfylkingarinnar er t.d. upp á 32 blaðsíður (með for- og baksíðu) og munu líklegast fæstir nenna að lesa hvert einasta atriði sem kemur fram. Þetta er dæmi um bækling sem fer aðeins of nákvæmt í það sem á að gera.

En hvernig eiga stefnuskrár að vera? Hér eru nokkrir punktar:

  • Þær eiga að vera stuttorðar, þ.e. án málalenginga.
  • Taka á því sem skiptir máli fyrir sem flesta kjósendur.
  • Ekki festa flokkinn við ákveðna hugmynd eða útfærslu.

Einn gallinn við stefnuskrár nú til dags er að þær geta aldrei verið tæmandi og því veit ég ekki hvað flokkurinn gerir í þeim málaflokkum sem hann nefnir ekki. Ef flokkurinn óskar eftir að ræsa einhver stór mál, þá eiga þau heima á stefnuskrá. Stefnumál eins og „Vel ígrundaðar ákvarðanir“ og „Hafnarfjörður fyrir alla“ gefa kjósandanum mikilvægar vísbendingar um hvernig stjórn bæjarins verður hagað. Öll smærri mál eiga heima á öðrum vettvangi eins og í ræðum frambjóðenda eða jafnvel sýna orð í verki.

Eyðsla skattfés og Feministafélag Íslands

Enn og aftur er Feministafélag Íslands (FÍ) og undirlægjur þeirra að stuðla að eyðslu skattfés í eitthvað sem skilar litlu. Að auki er um óþarfa tímaeyðslu að ræða þar sem átakið mun án efa tefja frekari vinnslu á rannsóknarskýrslunni.

Fyrir nokkrum dögum var Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður (hah!) félagsins ráðin til fjármálaráðuneytisins til að sjá um kynjaða fjárlagagerð. Hún var ráðin án auglýsingar og sætir það furðu að hún hafi ekki krafist þess að starfið yrði auglýst svo að aðrir gætu sótt um. Það lítur út fyrir að besti einstaklingurinn hafi fengið starfið að hennar mati. Kveikjan að þessari pælingu var frétt um að það ætti að „kynjagreina“ rannsóknarskýrsluna, án efa framkvæmt af fjármálaráðuneytinu og þar af leiðandi af Katrínu.

Í fréttinni er vísað í Ólaf Arason, ráðskonu vefhóps FÍ, sem auðvitað fagnar þessu átaki. Ég man fyrir nokkrum árum að hið sama félag gagnrýndi notkun orðsins ráðherra fyrir bæði kynin og lagði jafnvel fram tillögu til stjórnarskrárnefndar, ásamt öðrum félögum, á sínum tíma til að því yrði breytt við næstu yfirferð. Ég veit ekki af hverju félagið ákvað að hafa þennan titil en ég hefði haldið að það gæti sýnt gott fordæmi og sett kynlausari titil en ráðskona á þá einstaklinga sem eru í forsvari fyrir hópana fyrst það telur sig á annað borð hafa rétt á að gagnrýna þennan meinta karllæga titil.

Annar vinkill sem ég vil minnast á er hið undarlega val á manneskju sem á að vera í forsvari þessa fögnuðar félagsins. Eðlilegra hefði verið að talskona félagsins myndi sjá um samskipti þess utan við. Það er ekkert í fréttinni sem gefur til kynna af hverju hann henti betur fyrir utan að hann er karlmaður. Nú veit ég ekki hvort blaðamaður eða einhver innan FÍ sá um að velja hann sem talsmann félagsins í þessu tilviki en það vekur upp grunsemdir þegar einstaklingur í forsvari fyrir vefhópinn sé valinn til að gegna hlutverki talsmanns þegar það er talskona í boði.

Almennt um Feministafélag Íslands
Feministafélag Íslands virðist vera félag þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Því virðist vera sama um hvers kyns óréttlæti sem það veldur á meðan félagar þess halda að með því náist kynjajafnrétti á endanum. Af hverju ætti ég að treysta félagi sem hefur m.a. þetta á stefnuskrá sinni?:

  • Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Þetta eru atriði sem eru listuð undir helstu markmið félagsins. Engin atriði í þessum helstu markmiðum snúast sérstaklega um að bæta og styrkja hlut karla sem gefur til kynna að stefnuskráin hallast meira í átt að kvenrétti en jafnrétti. Hér eru jafnvel tillögur að endurorðun sem félagið getur notað og þar breyti ég einvörðungu því feitletraða hér að ofan. FÍ er velkomið að nota þessar tillögur.

  • Að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og jafna hlutfall kynja í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að koma á jafnvægi kynja í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Nú er loksins komið eitthvað sem er talsvert nær jafnrétti en áður þótt ég myndi ekki skrifa undir án þessa að endurorða meira. Þó ég telji mig ekki vera sammála útværum skoðunum FÍ er ég samt sem áður ekki karlremba. Það eru félög eins og FÍ sem valda því að ég vil ekki kalla mig feminista og því gríp ég stundum til hugtaksins jafnréttissinni. Það hugtak getur náð yfir meira en jafnrétti kynja heldur einnig yfir baráttu margra annarra hópa sem vilja njóta sama réttar og aðrir en sem dæmi má nefna jafnrétti vegna þjóðernis, búsetu og lífsskoðana.

Miðað við það sem ég hef séð af starfsemi félagsins virðist eini tilgangur félagsins vera að stunda forsjárhyggju, eitthvað sem Vinstri Grænir eru duglegir við að gera. Einnig styrkir félagið framapot stjórnenda þess til að koma að fáránlegum málum eins og að endurnefna götur í miðbæ Reykjavíkur, ýtt áfram af fyrrverandi formanni FÍ, í stað þess að reyna að redda fjármálum borgarinnar. Einhverra hluta vegna virðist forgangsröðun sumra meðlima FÍ ekki vera á réttu róli.

Ofkurteisi

Eitt af því sem ég tek reglulega eftir í verslunum er að eftir að ég hef greitt fyrir vörurnar er að afgreiðslufólkið spyr þá oftar en ekki: „má bjóða þér afritið?“. Ekki veit ég hvernig þetta byrjaði en að mínu mati eitthvað sem lengir málið að óþörfu. Ég er ánægður með að sumir spyrja einfaldlega „viltu afritið?“.

Í fljótu bragði dettur mér í hug tvær ástæður fyrir þessu: Sú fyrsta er að starfsfólkið er vant á það að vera kurteist við viðskiptavinina og einhverra hluta vegna dettur því í hug að lengra mál hljómi kurteisara. Önnur ástæðan er orðið „þér“ sem lætur spurninguna hljóma kurteisari þótt sú sé ekki raunin. Sumir skipta út „þér“ fyrir „yður“ en ég rekst sjaldan á það.

Það er allt í lagi að sýna kurteisi við viðskiptavinina en það er einnig hægt að fara of langt. Að spyrja hvort maður megi bjóða einhverjum afritið er algerlega óþarft aukaskref í þessum samskiptum. Ef við hugsum um þetta röklega séð gætu samskiptin verið svona;

Má bjóða þér… – Vill ekki afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Má bjóða þér… – Vill afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Viltu afritið? – Vill ekki afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Viltu afritið? – Vill afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Bæði afgreiðslufólkið og viðskiptavinirnar vita að efri tvö samskiptin hljóma fáránlega og er því ríkjandi sú stytting að svarið sem fylgir fyrri spurningunni er í raun svarið við þeirri seinni.

Mig langar að vita hvernig þetta hófst. Var einhver viðskiptavinurinn svo móðgaður yfir því að hafa verið spurður hvort hann vilji afritið að afgreiðslufólk spyr núna um leyfi til að bjóða honum það?

Skattar

Skattar eru oft til umræðu þessa dagana, aðallega vegna skattahækkana sem munu eiga sér stað ef Steingrímur J. Sigfússon fær einhverju ráðið. Ætla ég því að grípa tækifærið og ræða aðeins um eðli skatta.

Tilgangur skatta, að mínu mati, er eftirfarandi:
1. Fjármagna viðhald á kerfi sem sér um að staðla samskipti samfélagsþegna þess til að einfalda þau og svo þau fari sanngjarnlega fram.
2. Svo hið opinbera hafi fé til þess að veita almenningi nauðsynlega grunnþjónustu. Hún takmarkast við þá þjónustu sem hver og einn þegn landsins þarf á að halda en væri alltof dýr ef hver og einn útvegar hana sjálfstætt.
3. Leysa úr deilimálum sem aðilar samfélagsins eiga við hvern annan.

Þessir liðir eiga að falla undir þá grunnhugmynd að hér sé um að ræða útgjöld fyrir vörur og þjónustu sem samfélagið í heild sinni þarf á að halda. Hver og einn liður gæti auðvitað verið nánar skilgreindur en ég ákvað að binda ekki hendur mínar við of nákvæmar skilgreiningar. Þeir sem eru vel að sér í stjórnsýslunni sjá að liðirnir eru að vísa í löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið.

Hvert og eitt vald á samt eingöngu að ganga eins langt og er hagkvæmt fyrir samfélagið þegar lengra er litið. Löggjafarvaldið á t.d. ekki að semja lög um allt sem gæti farið fram á milli þegnanna eða stjórna öllu sem gerist í lífi þeirra. Sömuleiðis á enginn armur ríkisins að koma fram við alla á jafnræðisgrundvelli.

Til hvers er ég að nefna þetta?
Svarið er nokkuð einfalt: Skattfé er of oft notað í hluti sem hið opinbera ætti ekki að skipta sér að. Dæmi eru um að skattfé sé notað til þess að flytja fé frá einstaklingi A til félags/fyrirtækis B, hvort sem A, eða þjóðin í heild, hefur hag af því eða ekki. Sömuleiðis er skatturinn notaður til þess að stýra neyslu einstaklinga á ákveðnum vöruflokkum, oftast í þeim tilgangi að letja fólk frá því að kaupa vörur í ákveðnum vöruflokkum.

Um leið og skattur er settur á er mjög erfitt fyrir hið opinbera að afnema hann. Tel ég að ástæðan sé sú að um leið og einn skattur er afnuminn mun fólk byrja að efast um tilgang og æskileika annarra skatta. Um leið og málstaður hefur runnið sitt gildi vill alltaf svo til að einhver kemur upp á ræðupúlt og mælir með því að féð sé notað í annað en það málefni sem skatturinn var settur á fyrir og er hann þá endurskýrður. Síðan er fólk að kvarta yfir því að hópur einstaklinga mótmælir „smá aukaskatti“ og það kæmi varla á óvart ef kvartararnir sé sama fólkið og hefur hag af honum.

Sumum er alveg sama um álagningu skatts ef skatturinn lendir ekki á því sjálfu. Það virðist því miður vera ástæða þess að fólk er ekki gjarnt á að mótmæla þeim. Ef lagður yrði 1% auka tekjuskattur á þá sem hétu Jónharður væru mjög fáir sem myndu mótmæla honum. Um leið og skatturinn yrði víkkaður svo hann yrði settur á alla sem hétu Jón eða hefðu nöfn sem byrjuðu á Jón myndi ástandið vera allt annað. Afgangurinn af liðinu sem hefðu nöfn sem byrja á Jón myndu flykkjast inn og byrja að mótmæla. Almennt séð er fólki sama þar til óréttlætið lendir á því sjálfu. Óréttlæti er óréttlæti, sama á hverjum það lendir.

Áhrif skatta
Allir skattar koma öllum við þar sem hann gildir. Hver einasti skattur hefur áhrif á samfélagið í heild, hvort sem það er tilvist hans eða innheimta. Hátekjuskattur hefur t.d. áhrif á þá sem eru undir tekjumörkunum með því að letja fólk frá því að afla nóg til þess að fara yfir þau. Því er t.d. verið að refsa fólki fyrir að taka að sér meiri vinnu til þess að greiða niður skuldir. Einnig er verið að letja fólk frá því að afla meiri tekna af öðrum ástæðum, t.d. til þess að fjárfesta sem myndi annars halda efnahagnum gangandi. Sömuleiðis er algengara að fólk vinni svart svo það haldi meira af tekjum sínum vegna þess að því finnst það hafa greitt nógu mikið í skatta þá þegar.

Alþingisheimur virðist vera á öndverðri skoðun þegar kemur að fjárlögum eftir því í hvaða tilgangi skatturinn er settur. Tilgátan hjá þeim er greinilega sú að neysluskattar hafi þau áhrif að minnka neyslu vörunnar á meðan aðrir skattar hafi engin áhrif. Það virðist vera ríkjandi skoðun á Alþingi að allir skattar utan neysluskatts hafi engin áhrif á hegðun fólks. Þegar ræða á hækkun eða lækkun tekjuskatts er gert ráð fyrir því hver breytingin sé miðuð við þá upphæð sem tekjuskatturinn skilaði árið áður. Þeim virðist bara ekki detta það í hug að lækkun tekjuskatts gæti aukið þá upphæð sem skilast inn vegna hans.

Lærðu stjórnvöld af fyrri kreppu?
Þær skattahækkanir sem Steingrímur er að mæla með munu líklega auka á vandann, ef eitthvað. Efnahagurinn byggir á því að fólk treysti því að hann sé stöðugur og í gangi. Þegar kreppan skall á hér á landi, og annars staðar, á 20. öldinni var gripið til þess ráðs að ráða fólk í ýmis verk á vegum hins opinbera sem jók ráðstöfunarfé heimilanna. Fyrir þetta fé keypti fólk vörur og þjónustu sem þýddi að tekjur fyrirtækjanna jukust og í framhaldinu réðu þau fólk til starfa. Á endanum lagaðist efnahagurinn.

Í dag er staðan þannig að núna er verið að skera niður hjá hinu opinbera sem þýðir að stofnanir forðast það að ráða fólk í vinnu auk þess sem skattahækkanir eiga sér stað. Þau ættu að hafa lært af fyrri aðgerðum og aukið við sig í stað þess að draga saman. Önnur leið sem hægt væri að fara er að lækka skatta til að auka ráðstöfunarfé, aðallega tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt, og þá um meira en 5%. Fólk gæti notað féð sem það fær aukalega til þess að greiða niður skuldir eða nota sem auka neyslufé. Í báðum tilvikum flyst fé á milli handa sem eykur væntanlega flæði fés almennt. Verðtryggingin er ekki efni þessarar greinar en mig grunar að úr henni þurfi að bæta samhliða skattalækkuninni.

Aukaskattar
Aukaskattar eru einnig slæmir af annarri ástæðu, flókin skil á sköttum. Hver einasti sérskattur mun auka flækjustig skattakerfisins til muna og því ómögulegt fyrir hinn venjulega einstakling að gera sér grein fyrir honum. Í sumum tilfellum þarf fólk að ráða aðra í vinnu til þess að telja fram skattana fyrir það og sum fyrirtæki eru með heilan her af bókurum í þeim tilgangi að standa rétt í skilum á sköttum.

Í einhverjum tilvikum eru til heilu bækurnar um það hvernig eigi að standa í skilum á einum flokki skatta og nefni ég þá sérstaklega virðisaukaskattinn. Það kemur varla á óvart því það eru ótal undantekningar á því hvort eitthvað teljist til virðisaukaskattar eða ekki. Ef eitthvað telst til virðisaukaskatts eykst flækjustigið enn þá meira þar sem þá þarf að ákvarða í hvaða virðisaukaskattsþrep viðskiptin falla undir.

Einfaldara skattkerfi
Eftir að hafa heyrt allt þetta, hvernig er hægt að einfalda skattkerfið? Svarið er eins einfalt og lausnin: Einfaldari skattar. Hugmyndin er sú að bara fáeinir skattar væru í gildi og hver þeirra væri upp á flata prósentu. Ef undantekningar eru nauðsynlegar eða eðlilegar, hafa þær fáar og einfaldar. Hvernig myndi þér lítast á það að greiða x% í tekjuskatt og ekkert meira. Það tæki væntanlega bara nokkrar mínútur á ári að klára skattframtalið. Skattkerfið yrði það einfalt að hægt yrði að spara stórar fjárhæðir á ári sem færi annars í að halda utan um það flókna kerfi sem er við lýði.

Kjánalegar málvillur

Eitt af því sem maður rekst undarlega oft á eru málvillur að ýmsu tagi en sér í lagi kjánaleg röðun setninga innan málsgreinar. Fólk skilur oftast nær hvað sé átt við en þegar hugsað er út í þær frá setningarfræðilegu sjónarmiði eru þær nokkuð rangar. Þær röðunarvillur sem ég hef rekist á snúast oft um að tengdar setningar eru ekki hafðar við hlið þeirrar setningar sem þær eiga við. Mun ég styrkja mál mitt með dæmum.

Áður en ég fer lengra vil ég nefna að það sem margir þekkja sem setningar kallast í raun málsgreinar og er hver málsgrein samansett af mörgum setningum og endar hún (oftast) á punkti. Það sem er skáletrað hér fyrir framan er ein málsgrein. Einnig vil ég taka fram að ég hef aldrei ýjað að því að hafa fullkomna stafsetningu og málfar; Ég er einnig stundum sekur um mistök að því leiti við og við.

Morgunblaðið er oft að koma með klaufalega setningaröðun í fréttum varðandi dóma;
Frétt um dómsúrskurð í Hæstarétti þar sem Hæstiréttur stytti fangelsisdóm:
„Maðurinn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi en Hæstiréttur sýknaði hann af tveimur ákæruatriðum.“
– 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi? Ekki margir sem myndu vilja húka þar svo lengi.
Frétt um mann sem dæmdur var fyrir vörslu barnakláms:
„Karlmaður um fertugt hefur verið dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu barnakláms í Héraðsdómi Reykjavíkur.“
– Héraðsdómur Reykjavíkur er greinilega syndabæli.

Aðrir íslenskir fréttamiðlar eru einnig sekir um svona villur;
Frétt Stöðvar 2 um hækkun grunnlauna grunnskólakennara:
„Þar af hækka grunnlaun kennara um 25 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. júní næstkomandi.“
– 25 þúsund króna hækkun grunnlauna á mánuði er rosalega góð. Ég hefði verið mjög ánægður með slík kjör. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að fjarlægja „á mánuði“ en það hefði mátt setja það annars staðar í málsgreinina. Þessi villa á rót að rekja til yfirlýsinga fólks um að „hafa X krónur á mánuði“ en er fyrir mistök notuð um hækkun launa.

Þessi texti er dómkrafa SMÁÍS, STEF, FHF og Framleiðendafélagsins – SÍK:
„Að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa.“
– Er eingöngu verið að meina efnið sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarréttinn að efninu án samþykkis rétthafa? Það hefði verið skemmtilegt að sjá þá sanna það.

Svona villur eru einum of algengar og er líklegast hægt að rekja þær til fljótfærnis textahöfundar eða hann sjái ekkert að textanum eftir að hafa komið textanum fyrir á föstu formi. Þessar villur finnast víða og stundum þarf að lesa textann yfir nokkuð nákvæmlega til að koma auga á þessar villur. Svo sýnist vera að þesar villur séu algengari eftir því sem upplýsingum er þjappað meira saman. Þótt hægt sé að færa rök fyrir því að meiningin sé augljós í hverju tilviki er þetta samt sem áður leiðinlegt að sjá þær.

Ofmat greindarvísitölu

Þessi hálfkláraða grein um greindarvísitölur (IQs) er búin að hanga í kerfinu síðan 2008 og ákvað ég að birta hana hér nær óbreytta. Þetta er gert í tilefni af grein á Slashdot.org: „Why a High IQ Doesn’t Make You’re Smart“ sem birt var um daginn.

Tilgangur greindarvísitölu er að mæla greind einstaklinga miðað við þá sem eru á sama aldri. Niðurstaða hvers prófs á því að vera nákvæmari eftir því sem að fleiri einstaklingar á sama aldri hafa tekið það. Síðan þarf að taka til greina hversu nákvæmar upplýsingar liggja fyrir um fyrri þátttöku og hvernig þær eru notaðar til að reikna út greindarvísitölu núverandi þátttakanda. Eitt af því sem einkennir þessi próf er að oftast fylgir ekki sú aðferð sem höfundar prófanna nota til að meta hvert svar og ákvarða hvernig það hefur áhrif á niðurstöðuna. Það veldur því að mistök í útreikningi eða aðferðafræði gætu valdið niðurstöðum sem ættu sér ekki samsvörum við það sem viðkomandi svaraði.

Áhrif Internetsins
Með útbreiðslu Internetsins er fólk vanara að sjá þrautir og ýmsa orðaleiki. Því má finna í ýmsum prófum spurningar sem ættu frekar heima á slíkum vefjum og líkast því að vera orð fyrir orð. Hvort að slíkt megi rekja til greindar viðkomandi þátttakanda eða ekki er tvírætt.

Fyrst þyrfti að meta hversu líklegt það væri að viðkomandi gæti rekist á not fyrir þá greind í lífi sínu. Eins og fyrsta spurningin í ‘Mensa Workout’ er „Sally likes 225 but not 224; she likes 900 but not 800; she likes 144 but not 145. Which does she like?“ og síðan eru gefin svörin ‘1600’ og ‘1700’. Þetta er frekar einföld spurning fyrir einhvern sem hefur farið í stærðfræðinám en aðeins erfiðari fyrir einhvern sem hefur ekki haft þann kost. Til að svara spurningunni þarf þátttakandinn að fatta tengslin á milli talnanna 225, 900 og 144 og þau tengsl mega ekki eiga við tölurnar 224, 800 og 145.

Burtséð frá því, þá eru nokkrir gallar sem varpa rýrð á niðurstöðuna. Sá alvarlegasti er að þátttakandinn getur giskað á rétta svarið og eru þá helmingslíkur á réttu svari en við þær aðstæður veldur rétt ágiskun hærri niðurstöðu en viðkomandi ‘á skilið’. Þegar fleiri og fleiri greindarvísitölupróf innihalda sömu spurningarnar er líklegra að svarið sé vegna minni þátttakandans frekar en greind. Þegar þessi spurning var sett orðrétt í Google mátti finna um það bil 128 þúsund niðurstöður þó ekki allar sem innihalda próf.

Hugur höfunda prófanna
Spurningarnar og svörin við þeim eru samin á mismunandi hátt eftir prófum en það mætti segja að í spurningin endurspeglar greind þess sem semur þær. Nokkuð margar spurningar byggjast á því að finna munstur og sumar af þeim byggjast á því að fatta hvaða tákn kemur í miðjuna eða á eftir því seinasta. Sama gildir um hina svokölluðu orðalista þar sem á að finna hvað passar ekki við hitt.

En hvað ef þátttakandinn tekur eftir munstri sem að höfundur spurningarinnar sá ekki fyrir? Það gæti jafnvel verið að sama munstrið megi finna sem svarmöguleika án þess að höfundurinn hafi fattað það. Slíkar spurningar eru þar af leiðandi langt frá því að geta sýnt fram á raunverulega greind. Það eru ekki allir sammála um allt og jafnvel gætt misskilnings svo að svarmöguleikarnir gætu hafa verið gallaðir.

Mjög greindur einstaklingur á ákveðnu sviði þarf ekki að vita eða muna allt þegar kemur að því að prófa greindarvísitöluna hans. Líffræðingur gæti jafnvel ‘klúðrað’ spurningu sem byggir á líffræði vegna þess að hann veit betur en höfundurinn eða jafnvel vegna annars munsturs sem hann getur fundið vegna yfirburðarþekkingar sinnar. Ef ein spurning á ákveðnu sviði gæti verið mælikvarði allrar þekkingar sem viðkomandi hefur á sviðinu, þá væri hvert próf í skóla einungis ein spurning að lengd.

Útvistun (outsourcing)

Þetta er nokkuð vinsælt í viðskiptaheiminum núna og hef ég tekið eftir kostum þess undanfarið. Útvistun snýst fyrst og fremst um að láta aðra sjá um eitthvað fyrir mann svo maður þurfi ekki að gera það sjálfur. Helsta ástæðan fyrir því að þetta er valið er til þess að minnka sitt eigið álag. Fræðilega séð er hægt að flokka þetta á ýmsa vegu en þar sem ég er ekki sérfræðingur í þessu mun ég ekki fara að gefa upp tæmandi lista.

Nokkrar tegundir útvistunar
Fyrsti flokkurinn sem ég hugsaði um var fyrirtækjaleg útvistun, þ.e. að fyrirtækið ræður önnur fyrirtæki eða verktaka til að sjá um hlutinn fyrir sig. Ábyrgðin er s.s. komin út fyrir fyrirtækið. Í raun og veru er erfitt að komast hjá því þar sem útvistun þarf ekki endilega að byggjast á því að fyrirtækið hafi frumkvæðið að því. Bara með því að kaupa venjulega hluti eins og skriffæri er fyrirtækið nú þegar búið að nýta sér útvistun þar sem annar aðili sér um að hanna og framleiða hlutina.

Annar flokkurinn er útvistun innan fyrirtækis, þ.e. fyrirtækið dreifir verkum yfir á marga hluta þess. Í stað þess að allar deildir sjái um starfsmannahald er einni þeirra falið að sjá um það hlutverk. Allar deildir sjá síðan um ákveðið hlutverk sem síðan skapar eina heild – fyrirtækið.

Þriðji flokkurinn er persónuleg útvistun. Í því tilviki er það persóna sem sér um að útvista. Einfalt dæmi um útvistun er að geyma peninga okkar í banka, kaupa í matinn eða kjósa. Í báðum tilvikum erum við að úthluta verkum til annarra sem sjá um allt umstangið í kringum það að framkvæma verkið.

Ástæður útvistunar
Útvistun er eitthvað sem er ekki hægt að komast hjá þar sem allt er hægt að flokka sem útvistun sem við gerum ekki sjálf. Við sem manneskjur getum einfaldlega ekki séð um öll málefni okkar persónulega vegna þekkingarskorts. Tíminn gæti verið til staðar en stundum getur þekkingarskorturinn valdið því að við einfaldlega verðum að útvista verkum.

Ein ástæðan er tímaskortur en þekkingin er til staðar. Stundum þarf að framkvæma margt á sama tíma sem er of erfitt eða ómögulegt fyrir einn aðila. Jafnvel þótt þekkingin sé til staðar er einfaldlega enginn tími til þess. Þetta á sérstaklega við þegar framkvæma þarf sama verkið á mörgum stöðum.

Önnur ástæðan til þess að útvista verki er bæði þekkingar- og tímaskortur. Sum málefni eru þannig að við getum einfaldlega ekki gert þau á mannsæmandi hátt og þar að auki gæti það tekið of langan tíma að sanka að sér nægilegri þekkingu til að gera hlutina á eigin vegum. Fínt dæmi um þetta er að setja tæki í viðgerð vegna þess að manneskjan kann ekki að gera við það. Hver og einn þarf að vega og meta hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að sanka að þér nægri þekkingu til að gera það persónulega.

Þriðja ástæðan er sú að bæði þekkingin og tíminn gæti verið til staðar en það sé önnur ástæða fyrir því að við útvistum verkum. Ástæðurnar fyrir því gætu verið af persónulegum eða ópersónulegum toga. Sá sem þarf að gera verkið framkvæmir ekki verkið sjálfur af sálrænum ástæðum, t.d. þegar losna þarf við köngullær og viðkomandi er haldinn óstjórnlegri hræðslu við þær. Einnig geta ástæðurnar verið af lagalegum toga og má sem nefna dæmi einhver sem missir fjárræði og þarf að láta annan aðila sjá um þau fyrir sig.

Persónulegt dæmi
Fyrir nokkrum árum var ég með vefhýsingarþjónustu þar sem ég sá um að hýsa vefi fyrir annað fólk og sá um mestallt sjálfur. Því miður tók ég eftir því að ábyrgðartilfinningin mín var það sterk að ég hafði sífelldar áhyggjur af því hvort allt virkaði allt rétt og vel þótt þjónustan væri nokkuð stöðug. Þetta hélt áfram jafnvel eftir að ég hætti í þeim bransa en þó ekki í eins miklum mæli þar sem ég var einungis að hýsa fyrir sjálfan mig og vel valda aðila.

Sumarið 2008 tók ég afdrífaríka ákvörðun um að byrja að útvista hýsingunni. Tölvupóstinn flutti ég yfir á Google Apps og gat því loksins hætt að hafa áhyggjur af því hvort póstþjónninn væri uppi á öllum tímum. Fyrir vefhýsingar varð fyrirtækið 1984 ehf. fyrir valinu þar sem ég leigi sýndarvél hjá þeim. Þeir sjá síðan um að sýndarvélin sé í gangi og tengd við Internetið. Þótt ég beri ábyrgð á því að allt sé uppi innan sýndarvélarinnar er þó þungu fargi létt af mér. Fyrirtækið Pingdom sendir mér tilkynningar í tölvupósti ef vefirnir eru niðri hjá mér og treysti ég því að þjónustan þeirra tilkynni mér um niðritíma um leið og um hans er vart.

Í mínu dæmi er þekkingin og tíminn til staðar en ég myndi frekar vilja gera eitthvað annað við tímann en að hafa áhyggjur af uppitíma þessara þjónusta. Á sama tíma gæti ég sagt að tímaskortur ráði því að ég geti ekki gert það samtímis öðru því sem mig langar að gera. Satt að segja er bæði rétt og þar að auki eru þessar ástæður jafngildar.

Hvers vegna að útvista?
Ein helsta ástæðan er, að mínu mati, til þess að minnka áhyggjur og eigin ábyrgð. Sá sem tekur að sér verkið ber ábyrgð gagnvart þér að verkið sé framkvæmt á þann hátt sem þú getur undir eðlilegum kringumstæðum búist við. Þegar við kaupum vörur eða þjónustu erum við um leið að útvista öllu framleiðsluferlinu og flutningi hennar til seljanda hennar. Fyrirtækin keppast síðan um að auglýsa að það sem þeir selja uppfylli kröfur okkar sem við gerum til þeirra. Um leið eru þau að reyna að byggja upp traust svo við fáum þá tilfinningi að þau ábyrgist gæði þess sem þau eru að selja.

Mannfólkið getur bara lifað í takmarkaðan tíma og því er það nauðsynlegt að útvista stórum hluta lífs okkar til annarra svo við getum reynt að reynt að njóta þess tíma sem við höfum.

Niðurhalsstefna Símans og Vodafone

Eftir að ég rakst á ásakanir um að stefna Símans um erlent niðurhal væri fáránleg, þá gat ég ekki staðist það að skrifa um það. Að mínu mati er stefna Símans miklu betri en sú sem Vodafone er með.

1. Síminn núllstillir ekki niðurhalið um hver mánaðarmót
Vodafone er með þá stefnu að tölur um erlent niðurhal núllstillist um hver mánaðarmót en á móti er Síminn með þá stefnu að miða alltaf við seinustu 30 daga. Munurinn sem um ræðir felst í viðurlögunum ef viðskiptavinurinn fer yfir það takmark. Skýri það í öðrum lið.

2. Viðurlög ef farið er yfir takmörk í erlendu niðurhali
Hér er stór sanngirnismunur þar sem Síminn fær stóran plús fram yfir Vodafone. Hjá Símanum er hraði viðskiptavinar frá útlöndum lækkaður þar til niðurhalsmagn seinustu 30 daga er neðar en 40 GB. Aðra sögu er að segja um Vodafone. Þar er allt erlent niðurhal skorið niður. Viðskiptavinurinn fær ekkert aðgengi út fyrir landið þar til mánuðurinn er liðinn. Ímyndaðu þér ef þú ferð yfir takmarkið, jafnvel örlítið yfir það, þegar það eru margir dagar eftir af mánuðnum. Það er svo lítið af innlendu afþreyingarefni að það er alveg eins hægt að sleppa því að nota Internetið.

3. Af hverju stefna Símans er betri varðandi hraða til og frá útlöndum
Það sem Vodafone er að gera er að hver sem ætlar að nýta þessi inniföldu 40 GB (áður 80 GB) mun auðvitað niðurhala þeim á seinustu dögum mánaðarins. Þetta veldur því, séu nógu margir sem hugsa þannig, að erlend umferð verður miklu verri fyrir vikið þá dagana. Stefna Símans er að því leiti miklu betri þar sem hún hvetur viðskiptavinina til þess að viðhalda ákveðnu meðaltali á umferð þ.e. að umferð seinustu 30 daga fari ekki yfir 40 GB. Jafnvel þótt farið sé yfir 40 gígabætin mun umferð elsta dagsins í viðmiðinu hverfa og sé hún þá fyrir neðan takmarkið mun fullur hraði vera mögulegur þar til farið er yfir takmarkið aftur.

4. Stefna Símans er ekki fullkomin
Auðvitað er hún ekki gallalaus. Ef viðskiptavinurinn ákveður að niðurhala rosalega miklu frá útlöndum á einum degi mun kerfið ekki fyrirgefa það fyrr en sá dagur er farinn úr viðmiðinu. En samt er stefna Símans betri en hjá Vodafone að þessu leyti. Síminn klippir ekki algerlega á erlenda umferð eins og Vodafone gerir svo að það er vel hægt að niðurhala frá útlöndum á þessu tímabili. Ef viðskiptavinurinn nær í 40 gígabæti á fyrsta degi mánaðarins, hjá hvorum aðilanum væri betra að vera? Svarið er augljóslega „hjá Símanum“.

Þessi rantur nær ekki yfir aðra netþjónustuaðila en Símann og Vodafone. Það getur vel verið að einhverjir aðrir bjóði upp á betri kjör en rétt skal vera rétt.

Aðhald í fjármálum

Jafnvel þótt útgjöldin mín séu fá yfir mánuðinn má þar enn finna óþarfa. Því miður er ég ekki í vinnu vegna skólagöngu minnar. Nú bætist við hið slæma efnahagsástand og því mikilvægt fyrir mig að sýna meira aðhald í fjármálum en áður. Því hef ég tekið eftirfarandi ákvörðun sem gildir þar til fjármálin mín batna:

„Ég, Svavar Kjarrval, hef ákveðið að stofna ekki til nýrra útgjalda ef ég get forðast þau. Einnig mun ég ítrekað leita leiða til að fækka útgjaldaliðum eins og kostur er og leita ódýrari leiða til að ná sömu markmiðum ef ég þarf að annað borð að greiða fyrir eitthvað.“

Í framhaldi af þessu mun ég skila debetkortinu mínu í bankann á næstu dögum. Þó mun ég halda kreditkortinu upp á það ef eitthvað kemur upp á.

Einnig hef ég furðað mig yfir því að fólk hafi tekið hin svokölluðu myntkörfulán þegar íslenska krónan var sterk gagnvart þeim gjaldmiðli. Það er varla verri tími til að taka lán í erlendum gjaldmiðli. Tökum dæmi…

Siggi tekur 10 evru lán hjá Jóni og gengið á evrunni á þeim tíma er 50 krónur á móti hverri evru. Til einföldunar gerum við ráð fyrir því að myntbreytingin sé ókeypis og það séu engin önnur gjöld tengd láninu eins og lántökugjöld eða vextir. Jóni er nákvæmlega sama um gengi krónunnar og vill bara fá 10 evrurnar til baka. Siggi þarf samt að nota lánið til að greiða fjárhæð í íslenskum krónum og þarf því að taka lánspeninginn og breyta fyrst í íslenskar krónur. Nú hækkar evran gagnvart íslensku krónunni og er hver evra jafngild 100 krónum. Þetta veldur því að Siggi þarf að umbreyta 1000 krónum í evrur til að greiða Jóni. Upphæðin hefði auðvitað verið hærra ef við tökum vexti og önnur gjöld með í dæmið.

Rétti tíminn til að taka lán er þegar íslenska krónan er veik gagnvart gjaldmiðlinum. Ef þetta hefði verið öfugt í dæminu á undan hefði Siggi eingöngu þurft að borga 500 krónur til baka þegar hann fékk lán að jafngildi 1000 króna að þávirði. Því miður er erfiðara að fá slík lán á þeim tímum en þau eru talsvert hagstæðari gagnvart lántakandum ef íslenska krónan styrkist gagnvart þeim gjaldmiðli síðar. Af þessari ástæðu skil ég bara ekki af hverju maður er að heyra af því að fjármálaráðgjafar hafi verið að mæla með slíkum lánum þegar krónan var sterk.

Fyrirvari: Ég er ekki lærður viðskiptafræðingur eða með aðrar tengdar gráður. Hverjar aðstæður eru öðruvísi svo ég mun hvorki bera ábyrgð á því hvernig fólk fer eftir þessum ráðgjöf minni eða afleiðingum þess.

„Tölvufíkn“

Einhverra hluta vegna fer reglulega í gang umræða um svokallaða tölvufíkn og þá sérstaklega tölvufíkn barna og unglinga (sem ég mun vísa til sameiginlega sem barna). Eins og önnur fíkn á þessi tölvufíkn rætur að rekja til þess vanda að barnið sé háð tölvunni það mikið að það hafi slæm áhrif á lifnaðarhætti þess. Aukist fíknin gæti hún orðið til þess að barnið vanræki grunnþarfir sínar eins og að borða, sofa eða álíka mikilvæga hluti.

Hugtakið tölvufíkn er tiltölulega nýtt í sjálfu sér og því er ekki búið að skilgreina það með fullnægjandi hætti. Hætta er því á að fólk haldi að aðrir séu haldnir tölvufíkn þótt það þurfi ekki að vera málið. Það er mjög algengt að fólk túlki hin svokölluðu einkenni afar vítt og haldi að þau eigi við sjálft sig eða einhvern annan. Einnig er hætta á að fólk misskilji aðstæðurnar vegna ákveðinna fordóma sem það býr við vegna tölvunotkunar.

Áður en fólk fer að oftúlka einkenni þarf alltaf að skoða einkennin með gagnrýni í huga. Ef einhver einkennana felast í líkamlegum sársauka væri það betri nýting á fjármunum að gera tilraun til að leysa það vandamál en að sækja tíma hjá sálfræðingi. Varðandi andleg einkenni væri ekki svo vitlaust að reyna að skoða lausnir á þeim á eigin vegum en þó með bakhjarli sem er tilbúinn til að aðstoða mann ef manni bregður af leið.

Sumir sálfræðingar myndu einfaldlega ráðleggja foreldrum þeirra barna sem eiga þegar við tölvufíkn að stríða að aftengja bara tölvuna og láta barnið „frelsast“. Í þeim tilvikum tel ég betra að hætta að sækja tíma hjá þeim sálfræðingi eða leita til einhvers annars. Það er engin trygging að barnið muni losna við fíknina ef það yrði í raun framkvæmt. Það eru margar aðrir leiðir til að komast í tölvur og gæti þetta bara endað á því að barnið ver tíma sínum annars staðar þar sem það kemst í tölvur. Þegar barnið flytur út gæti það alveg lent í sama farinu og mun ekki „njóta“ eins mikillar aðstoðar foreldra sinna þar sem þau hafa ekki eins mikil völd til að framfylgja tölvubanninu.

Annað sem ég hef tekið eftir er að ein algengasta aðferðin til að takmarka notkun barna á tölvum er að takmarka tímann sem hvert barn ver í tölvunni. Þegar ég heyri þetta hugsa ég alltaf til kommúnismans þar sem allt var skammtað og enginn fékk meira. Þá hugsa ég lengra og þá um hversu áhrifarík þessi aðferð er og hvort hún sé eitthvað sem hægt er að mæla með. Fræðilega séð getur hún virkað en það færi eftir því hvernig henni er beitt og hversu langt er gengið við að framfylgja henni. Bæði þessi atriði fara eftir uppeldinu á því heimili og nánasta umhverfi.

Meðferðarúrræði
* Barnið þarf að meðtaka að um fíkn sé að ræða áður en ráðist er á vandann.
– Það mun vera opnara fyrir frekari meðferðarúrræðum og mun sjá tilgang þeirra. Sé það ekki gert mun sálræna fíknin aldrei hverfa og fara frekar í dvala. Barnið mun þrá mikla tölvunotkun innst með sér en gera lítið til að tjá sig um það. Einhverjir munu hafa nægan viljastyrkt til að standast freistingarnar en það er ekki einfalt.

* Gerið lista yfir þau einkenni sem af fíkninni hlýst, bæði jákvæð og slæm, í samráði við barnið.
– Listinn þarf að vera sem ítarlegastur svo hægt sé að takast á við hvert atriði og leysa það. Ekki búast við því að finna bestu lausnina fyrir hvert atriði. Róm var ekki byggð á einum degi svo ekki búast við skjótum árangri.

* Ekki koma algerlega í veg fyrir tölvunotkun barnsins.
– Fráhvarfseinkenni myndast fyrst og fremst vegna snöggrar aftengingar. Það er fyrir bestu að koma í veg fyrir þau. Þráin mun bara safnast upp á tímabilinu þar til barnið fær skyndilega nóg og er tilbúið til að ganga lengra en áður til að uppfylla þörfina. Sé ekki farið gætilega í sakirnar er mögulegt að barnið vinni sér inn enn verri fíkn og verði verra statt.

* Ef það eru líkamleg einkenni vegna fíkninnar er gott að gera tilraun til að leysa þau.
– Verki í tengslum við tölvunotkun má leysa með því að bæta aðstöðuna sem barnið er í við tölvuna. Verki í úlnliðum eða í baki er hægt að bæta úr með réttri líkamsstöðu við tölvuna. Það eru til mörg ráð til að leysa úr líkamlegum einkennum, það þarf eingöngu að spyrja réttan aðila.

* Þau einkenni sem felast í gleymsku eða vanrækslu (andleg einkenni) eru leysanleg án aðstoðar sálfræðings.
– Í staðinn fyrir að klippa alveg á tölvunotkunina og líta á hana sem einu orsök vandamálanna ætti frekar að vinna í því að ráðast á gleymskuna og vanræksluna án þess að setja áherslu á að minnka tölvunotkun. Þar sem barnið er þegar í tölvunni er mögulegt að finna forrit sem minnir barnið á þær skyldur sem það þarf að gera. Þegar barnið hefur viðurkennt að þetta sé vandamál ætti það að vera gjarnara á að framkvæma í samræmi við þær ábendingar sem það fær. Til að koma í veg fyrir að barnið sé of upptekið um kvöldmatarleytið til að borða er hægt að passa að barnið geri ekki neitt í tölvunni sem það getur ekki horfið frá án fyrirvara.

* Takmarkið þörf barnsins á tölvunni og Internetinu.
– Það getur verið frábært að fá heimaverkefnin sín í tölvupósti eða á Internetinu en það er meðal þeirra ástæða sem barnið réttlætir tölvunotkun sína. Eitt og sér er þetta saklaust en sameinað öðrum ástæðum getur þetta styrkt þá áráttu að vera meira í tölvunni. Ef hægt er að finna leið til að draga úr þörfinni með því að fækka ástæðum eða draga úr þeim væri fræðilega séð hægt að minnka tölvuþörfina. Passa þarf þó vel að fylla upp í þann tíma sem sparaðist með einhverjum ótölvutengdu svo barnið finni einfaldlega ekki eitthvað annað í staðinn. Þær stundir sem barnið „hefur ekkert að gera í tölvunni“ fela í sér kjörið tækifæri til að finna einhverja ótölvutengda afþreyingu þar sem það er miklu móttækilegra fyrir uppástungum. Þar að auki ýtir það undir þá hugmynd að það er hægt að gera skemmtilega hluti án þess að vera í tölvunni.

* Leysa þarf úr þessum svokallaða vanda með barninu en ekki gegn því.
– Vilji barnsins til að leysa vandamálið skiptir öllu og erfiðara að leysa það eftir því sem mótstaðan er meiri. Áherslan ætti ekki að vera sú að minnka tölvunotkunina, heldur passa að aðrir hlutir líði ekki fyrir það. Gera þarf þó greinarmun á því hvort barnið hefði hvort sem er ekki gert það sem á að gera. Ef barnið vill ekki heimsækja ákveðinn ættingja á ekki að líta á það sjálfkrafa sem orsök tölvufíknar.

* Ef barnið hefur lítið annað að gera en að vera í tölvunni, finnið eitthvað skemmtilegt.
– Það er mikilvægt að barnið sé ánægt þær stundir sem það er frá tölvunni. Ef það fer frá tölvunni, sem það skemmtir sér í, og yfir í eitthvað leiðinlegt mun það ekki sjá árangur eða tilgang í minnkandi tölvunotkun. Það er allavega ekki hvetjandi að hugsa til þess að maður sé að gera líf sitt leiðinlegra. Barnið má ekki halda að það sé að stuðla að leiðinlegra lífi með því að minnka tölvuveru sína. Það gæti tekið einhverjar misheppnaðar tilraunir til að finna eitthvað sem barnið vill frekar gera en að hanga í tölvunni en það skiptir máli að gefast ekki upp. Ekki öllum börnum finnst skemmtilegt að vera sífellt með sömu manneskjunni svo að samvera þess með öðru fólki ætti einnig að vera fjölbreytt.

* Agi skiptir máli og að kunna sér hóf.
– Þegar um fíkni er að ræða borgar sig aldrei að neita sér algerlega um það sem maður er háður. Ef það er gert eru komin sama orsök og um aftengingu væri að ræða með viðeigandi fráhvarfseinkennum. Þeir sem hafa síðan ekki viljastyrkinn til að framfylgja „banninu“ og vilja ekki láta aðra verða fyrir vonbrigðum gætu jafnvel reynt að fela það fyrir þeim nánustu. Réttara væri að minnka notkunina í samráði við þá sem maður þekkir en ekki hætta henni að fullu. Þótt maður hafi verið háður einhverju á maður ekki að skammast sín fyrir það að neyta hlutarins í hófi.

Áður en farið er út í meðferð gegn „tölvufíkn“ þarf samt að íhuga nokkur atriði. Er tölvunotkun verri en önnur afþreying? Foreldrar hvetja börnin sín oft til að lesa bækur, spila spil og þesskonar hluti. Þegar hin svokölluðu einkenni eru lesin má alveg finna að þau eiga við ýmsa „heilbrigða leiki“ og útiveru. Ég hef alveg lent í því að leika mér úti þegar ég var ungur þegar foreldrarnir hafa kallað mig í mat og beðið foreldrana um að „bíða aðeins“. Á það sama ekki við um tölvunotkun? Ef litið er yfir sum „einkenni“ tölvufíknar er léttilega hægt að yfirfæra það á „heilbrigt líferni“.

Sumir hafa áhuga á fótbolta, sumir hafa áhuga á skák og sumir hafa áhuga á tölvum. Þeir sem komast langt á sínu áhugasviði hafa það sameiginlegt að hafa varið óvenjulega miklum tíma í að æfa sig og verða betri. Kosturinn og ókosturinn við tölvunotkun er hvað hún er fjölbreytt. Þeir sem hafa vítt áhugasvið geta því fundið margt áhugavert við það eitt að nota tölvuna. Sumir hunsa fjölbreytileika tölvunnar og halda því að tölvunotendur séu bara að framkvæma einhæfa afþreyingu.

Ekki öll tölvunotkun kveikir eða þjálfar huga þeirra sem nota þær. Til þess þarf hún að reyna á mann. Leikir geta alveg þjálfað fólk á mörgum sviðum en það er eingöngu á meðan þeir reyna á þau. Það er hægt að finna margt skapandi og þjálfandi í flestöllu sem við kemur tölvum, það þarf bara að finna það sem er við hæfi hvers og eins.

Fólk sér tölvunotendur almennt sem eitthvað ófélagslynt fólk sem hefur engin samskipti við neina nema tölvuna. Í raun er möguleiki á að þessir sömu aðilar séu að viðhalda samskiptum við talsvert fleiri en venjuleg manneskja gerir á hverjum degi. Það getur verið fjölbreytt félagslíf á Internetinu og á helst ekki að horfa framhjá þeirri staðreynd. Þessir sömu einstaklingar þurfa samt bara smá hjálp í að þjálfa sig fyrir samskipti í „alvöru lífinu“ (e. „real life“) og þeir ættu ekkert að vera mikið verri en venjulegt fólk eftir smá aðlögunartíma.

Að lokum þarf maður einnig að hugsa um framtíðina. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er tækninni að fara fram og er hún að ráðast inn á flest svið. Flestöll störf munu þá vera innt af hendi með aðstoð tækninnar sem gerir hana meira og meira ómissandi. Eru áhyggjur okkar af „of mikilli“ tölvunotkun ekki bara hræðsla við þá óumflýjanlegu framtíð sem við eigum eftir að upplifa að áhrif tækninnar eru að aukast? Að neita því væri eins og að halda því fram að galdrar sjái til þess að bílar komist af stað. Einhverjir verða að vera bakvið þessar uppfinningar og þær verða til vegna fólks sem hefur þekkinguna til að búa þær til.