Einhverra hluta vegna fer reglulega í gang umræða um svokallaða tölvufíkn og þá sérstaklega tölvufíkn barna og unglinga (sem ég mun vísa til sameiginlega sem barna). Eins og önnur fíkn á þessi tölvufíkn rætur að rekja til þess vanda að barnið sé háð tölvunni það mikið að það hafi slæm áhrif á lifnaðarhætti þess. Aukist fíknin gæti hún orðið til þess að barnið vanræki grunnþarfir sínar eins og að borða, sofa eða álíka mikilvæga hluti.
Hugtakið tölvufíkn er tiltölulega nýtt í sjálfu sér og því er ekki búið að skilgreina það með fullnægjandi hætti. Hætta er því á að fólk haldi að aðrir séu haldnir tölvufíkn þótt það þurfi ekki að vera málið. Það er mjög algengt að fólk túlki hin svokölluðu einkenni afar vítt og haldi að þau eigi við sjálft sig eða einhvern annan. Einnig er hætta á að fólk misskilji aðstæðurnar vegna ákveðinna fordóma sem það býr við vegna tölvunotkunar.
Áður en fólk fer að oftúlka einkenni þarf alltaf að skoða einkennin með gagnrýni í huga. Ef einhver einkennana felast í líkamlegum sársauka væri það betri nýting á fjármunum að gera tilraun til að leysa það vandamál en að sækja tíma hjá sálfræðingi. Varðandi andleg einkenni væri ekki svo vitlaust að reyna að skoða lausnir á þeim á eigin vegum en þó með bakhjarli sem er tilbúinn til að aðstoða mann ef manni bregður af leið.
Sumir sálfræðingar myndu einfaldlega ráðleggja foreldrum þeirra barna sem eiga þegar við tölvufíkn að stríða að aftengja bara tölvuna og láta barnið „frelsast“. Í þeim tilvikum tel ég betra að hætta að sækja tíma hjá þeim sálfræðingi eða leita til einhvers annars. Það er engin trygging að barnið muni losna við fíknina ef það yrði í raun framkvæmt. Það eru margar aðrir leiðir til að komast í tölvur og gæti þetta bara endað á því að barnið ver tíma sínum annars staðar þar sem það kemst í tölvur. Þegar barnið flytur út gæti það alveg lent í sama farinu og mun ekki „njóta“ eins mikillar aðstoðar foreldra sinna þar sem þau hafa ekki eins mikil völd til að framfylgja tölvubanninu.
Annað sem ég hef tekið eftir er að ein algengasta aðferðin til að takmarka notkun barna á tölvum er að takmarka tímann sem hvert barn ver í tölvunni. Þegar ég heyri þetta hugsa ég alltaf til kommúnismans þar sem allt var skammtað og enginn fékk meira. Þá hugsa ég lengra og þá um hversu áhrifarík þessi aðferð er og hvort hún sé eitthvað sem hægt er að mæla með. Fræðilega séð getur hún virkað en það færi eftir því hvernig henni er beitt og hversu langt er gengið við að framfylgja henni. Bæði þessi atriði fara eftir uppeldinu á því heimili og nánasta umhverfi.
Meðferðarúrræði
* Barnið þarf að meðtaka að um fíkn sé að ræða áður en ráðist er á vandann.
– Það mun vera opnara fyrir frekari meðferðarúrræðum og mun sjá tilgang þeirra. Sé það ekki gert mun sálræna fíknin aldrei hverfa og fara frekar í dvala. Barnið mun þrá mikla tölvunotkun innst með sér en gera lítið til að tjá sig um það. Einhverjir munu hafa nægan viljastyrkt til að standast freistingarnar en það er ekki einfalt.
* Gerið lista yfir þau einkenni sem af fíkninni hlýst, bæði jákvæð og slæm, í samráði við barnið.
– Listinn þarf að vera sem ítarlegastur svo hægt sé að takast á við hvert atriði og leysa það. Ekki búast við því að finna bestu lausnina fyrir hvert atriði. Róm var ekki byggð á einum degi svo ekki búast við skjótum árangri.
* Ekki koma algerlega í veg fyrir tölvunotkun barnsins.
– Fráhvarfseinkenni myndast fyrst og fremst vegna snöggrar aftengingar. Það er fyrir bestu að koma í veg fyrir þau. Þráin mun bara safnast upp á tímabilinu þar til barnið fær skyndilega nóg og er tilbúið til að ganga lengra en áður til að uppfylla þörfina. Sé ekki farið gætilega í sakirnar er mögulegt að barnið vinni sér inn enn verri fíkn og verði verra statt.
* Ef það eru líkamleg einkenni vegna fíkninnar er gott að gera tilraun til að leysa þau.
– Verki í tengslum við tölvunotkun má leysa með því að bæta aðstöðuna sem barnið er í við tölvuna. Verki í úlnliðum eða í baki er hægt að bæta úr með réttri líkamsstöðu við tölvuna. Það eru til mörg ráð til að leysa úr líkamlegum einkennum, það þarf eingöngu að spyrja réttan aðila.
* Þau einkenni sem felast í gleymsku eða vanrækslu (andleg einkenni) eru leysanleg án aðstoðar sálfræðings.
– Í staðinn fyrir að klippa alveg á tölvunotkunina og líta á hana sem einu orsök vandamálanna ætti frekar að vinna í því að ráðast á gleymskuna og vanræksluna án þess að setja áherslu á að minnka tölvunotkun. Þar sem barnið er þegar í tölvunni er mögulegt að finna forrit sem minnir barnið á þær skyldur sem það þarf að gera. Þegar barnið hefur viðurkennt að þetta sé vandamál ætti það að vera gjarnara á að framkvæma í samræmi við þær ábendingar sem það fær. Til að koma í veg fyrir að barnið sé of upptekið um kvöldmatarleytið til að borða er hægt að passa að barnið geri ekki neitt í tölvunni sem það getur ekki horfið frá án fyrirvara.
* Takmarkið þörf barnsins á tölvunni og Internetinu.
– Það getur verið frábært að fá heimaverkefnin sín í tölvupósti eða á Internetinu en það er meðal þeirra ástæða sem barnið réttlætir tölvunotkun sína. Eitt og sér er þetta saklaust en sameinað öðrum ástæðum getur þetta styrkt þá áráttu að vera meira í tölvunni. Ef hægt er að finna leið til að draga úr þörfinni með því að fækka ástæðum eða draga úr þeim væri fræðilega séð hægt að minnka tölvuþörfina. Passa þarf þó vel að fylla upp í þann tíma sem sparaðist með einhverjum ótölvutengdu svo barnið finni einfaldlega ekki eitthvað annað í staðinn. Þær stundir sem barnið „hefur ekkert að gera í tölvunni“ fela í sér kjörið tækifæri til að finna einhverja ótölvutengda afþreyingu þar sem það er miklu móttækilegra fyrir uppástungum. Þar að auki ýtir það undir þá hugmynd að það er hægt að gera skemmtilega hluti án þess að vera í tölvunni.
* Leysa þarf úr þessum svokallaða vanda með barninu en ekki gegn því.
– Vilji barnsins til að leysa vandamálið skiptir öllu og erfiðara að leysa það eftir því sem mótstaðan er meiri. Áherslan ætti ekki að vera sú að minnka tölvunotkunina, heldur passa að aðrir hlutir líði ekki fyrir það. Gera þarf þó greinarmun á því hvort barnið hefði hvort sem er ekki gert það sem á að gera. Ef barnið vill ekki heimsækja ákveðinn ættingja á ekki að líta á það sjálfkrafa sem orsök tölvufíknar.
* Ef barnið hefur lítið annað að gera en að vera í tölvunni, finnið eitthvað skemmtilegt.
– Það er mikilvægt að barnið sé ánægt þær stundir sem það er frá tölvunni. Ef það fer frá tölvunni, sem það skemmtir sér í, og yfir í eitthvað leiðinlegt mun það ekki sjá árangur eða tilgang í minnkandi tölvunotkun. Það er allavega ekki hvetjandi að hugsa til þess að maður sé að gera líf sitt leiðinlegra. Barnið má ekki halda að það sé að stuðla að leiðinlegra lífi með því að minnka tölvuveru sína. Það gæti tekið einhverjar misheppnaðar tilraunir til að finna eitthvað sem barnið vill frekar gera en að hanga í tölvunni en það skiptir máli að gefast ekki upp. Ekki öllum börnum finnst skemmtilegt að vera sífellt með sömu manneskjunni svo að samvera þess með öðru fólki ætti einnig að vera fjölbreytt.
* Agi skiptir máli og að kunna sér hóf.
– Þegar um fíkni er að ræða borgar sig aldrei að neita sér algerlega um það sem maður er háður. Ef það er gert eru komin sama orsök og um aftengingu væri að ræða með viðeigandi fráhvarfseinkennum. Þeir sem hafa síðan ekki viljastyrkinn til að framfylgja „banninu“ og vilja ekki láta aðra verða fyrir vonbrigðum gætu jafnvel reynt að fela það fyrir þeim nánustu. Réttara væri að minnka notkunina í samráði við þá sem maður þekkir en ekki hætta henni að fullu. Þótt maður hafi verið háður einhverju á maður ekki að skammast sín fyrir það að neyta hlutarins í hófi.
—
Áður en farið er út í meðferð gegn „tölvufíkn“ þarf samt að íhuga nokkur atriði. Er tölvunotkun verri en önnur afþreying? Foreldrar hvetja börnin sín oft til að lesa bækur, spila spil og þesskonar hluti. Þegar hin svokölluðu einkenni eru lesin má alveg finna að þau eiga við ýmsa „heilbrigða leiki“ og útiveru. Ég hef alveg lent í því að leika mér úti þegar ég var ungur þegar foreldrarnir hafa kallað mig í mat og beðið foreldrana um að „bíða aðeins“. Á það sama ekki við um tölvunotkun? Ef litið er yfir sum „einkenni“ tölvufíknar er léttilega hægt að yfirfæra það á „heilbrigt líferni“.
Sumir hafa áhuga á fótbolta, sumir hafa áhuga á skák og sumir hafa áhuga á tölvum. Þeir sem komast langt á sínu áhugasviði hafa það sameiginlegt að hafa varið óvenjulega miklum tíma í að æfa sig og verða betri. Kosturinn og ókosturinn við tölvunotkun er hvað hún er fjölbreytt. Þeir sem hafa vítt áhugasvið geta því fundið margt áhugavert við það eitt að nota tölvuna. Sumir hunsa fjölbreytileika tölvunnar og halda því að tölvunotendur séu bara að framkvæma einhæfa afþreyingu.
Ekki öll tölvunotkun kveikir eða þjálfar huga þeirra sem nota þær. Til þess þarf hún að reyna á mann. Leikir geta alveg þjálfað fólk á mörgum sviðum en það er eingöngu á meðan þeir reyna á þau. Það er hægt að finna margt skapandi og þjálfandi í flestöllu sem við kemur tölvum, það þarf bara að finna það sem er við hæfi hvers og eins.
Fólk sér tölvunotendur almennt sem eitthvað ófélagslynt fólk sem hefur engin samskipti við neina nema tölvuna. Í raun er möguleiki á að þessir sömu aðilar séu að viðhalda samskiptum við talsvert fleiri en venjuleg manneskja gerir á hverjum degi. Það getur verið fjölbreytt félagslíf á Internetinu og á helst ekki að horfa framhjá þeirri staðreynd. Þessir sömu einstaklingar þurfa samt bara smá hjálp í að þjálfa sig fyrir samskipti í „alvöru lífinu“ (e. „real life“) og þeir ættu ekkert að vera mikið verri en venjulegt fólk eftir smá aðlögunartíma.
Að lokum þarf maður einnig að hugsa um framtíðina. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er tækninni að fara fram og er hún að ráðast inn á flest svið. Flestöll störf munu þá vera innt af hendi með aðstoð tækninnar sem gerir hana meira og meira ómissandi. Eru áhyggjur okkar af „of mikilli“ tölvunotkun ekki bara hræðsla við þá óumflýjanlegu framtíð sem við eigum eftir að upplifa að áhrif tækninnar eru að aukast? Að neita því væri eins og að halda því fram að galdrar sjái til þess að bílar komist af stað. Einhverjir verða að vera bakvið þessar uppfinningar og þær verða til vegna fólks sem hefur þekkinguna til að búa þær til.
Fín grein hjá þér um“ of mikla “ tölvunotkun.