Tanntaka

Um hádegisbilið fór ég til tannlæknis og átti að taka úr mér neðri endajaxlinn til vinstri. Daginn áður sagði tannsi við mig að aðgerðin ætti bara að taka í mesta lagi um 30 mínútur svo ég var ekki að búast við því að þetta væri mikið mál. Áður en ég gerði það fór ég á Subway þar sem mig grunaði að ég mætti ekki borða í smá tíma en vildi vera viss. Eftir aðgerðina var ég mjög þakklátur fyrir að hafa borðað áður.

Aðgerðin hófst á því að ég settist í stólinn sem var hallaður aftur. Það tók síðan enga stund fyrir tannsa að grípa í sprautuna, stinga í tannholdið og sprauta deyfingarlyfinu – á þrem stöðum. Þá grunaði mig að aðgerðin yrði nær sársaukalaus þar sem staðurinn væri deyfður í klessu en ég hafði svo rangt fyrir mér. Það sem ég þurfi að þola var bor, sogrör, töng og ýmis önnur tól. Aðgerðin var svo sársaukafull að ég hefði ekki viljað ímynda mér hana án deyfingarinnar. Það sem átti að taka minna en hálftíma endaði svo í 50 mínútum og var ég bara glaður með að þessum parti er lokið. Fyrir aðgerðina óskaði ég eftir því að eiga tönnina en hún var í mörgum molum svo ég var ekkert að ýta frekar eftir því. Tannlæknirinn nefndi síðan að þetta hefði verið ein erfiðasta tönn sem hann hefur þurft að taka út.

Nú þarf ég að taka tvær töflur af pensillíni á 8 klst. fresti. Kjálkinn minn er aumur, það blæðir enn þar sem tönnin var tekin og verkjalyf virka í of stuttan tíma. Sem betur fer er munnurinn ekki eins daufur og fyrr í dag. Þegar ég fór aftur í skólann eftir aðgerðina var ég mjög veiklulegur og nennti ekki að gera mikið vegna sársauka. Þetta þýðir að á næstu dögum er ráðlagt að pirra mig ekki. Líðan mín er s.s. langt frá því að vera fullkomin. Ef ég mun hafa lyst á einhverjum mat mun ég ekki láta neitt annað upp í mig nema það sé mjúkt og þurfi ekki að tyggja mikið. Það var jafnvel sársaukafullt að borða mjúka dósaspaghettíið sem var í kvöldmatinn. Vonandi verður kjálkinn betri á næstu dögum svo ég geti borðað almennilegri mat…

Ein athugasemd við “Tanntaka”

  1. úff, vel kunnugur tanntöku, hehe, en það er búið að rífa átta tennur úr mér, en töngin var nóg á mig hehe, ég vona að þú jafnar þig sem fyrst 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.