Hvaða týpa er ég?

Undanfarið hef ég verið að heyra frá kvenfólki um að ég sé ekki þeirra týpa og þá fór ég að hugsa: hvaða týpa er ég? Í tilraun til að glíma við þessa spurningu koma upp fleiri spurningar. Ein þeirra er „hvaða spurningar þarf að spyrja og hvers konar svör myndu svara þeirri spurningu?“ Í stuttu máli er óhætt að segja að þetta eru rosalega margar spurningar og ég get svo sannarlega ekki svarað þessum pælingum með einni grein.

Aðalvandamálið er að ég get ekki svarað þessari spurningu þegar um er að ræða mig sjálfan. Ástæðan er sú að ég er of hlutdrægur og myndi líklegast einbeita mér of mikið á annaðhvort jákvæðu hliðarnar eða þær neikvæðu eftir því í hvernig skapi ég er í. Svörin yrðu alls ekki fullnægjandi því þau færu einnig eftir skapinu og þeirri sjálfsmynd sem ég hef. Síðan sér fólk mann í mismunandi ljósi og ekki er maður sama týpan á öllum stundum; Vinnufélagar gætu séð mann t.d. í allt öðru ljósi en vinir manns.

Fyrst það er mat mitt að sitt sýnist hverjum hvað týpur varðar, af hverju er ég að spá hvaða týpur aðrir haldi að ég sé? Það er vegna þess sem ég kalla „innri týpa“ og „ytri týpa“. Innri týpan er sú týpa sem maður er í raun og veru en sú ytri það sem aðrir upplifa á hverjum tíma. Stundum endurspeglar ytri týpan þá innri en vandamálið felst í þeim tilvikum þegar svo er ekki. Álit annarra á týpu manns er mikilvægt til að vita hvort innri týpan nái að skila sér út til annarra. Sumir gætu haldið að maður sé oftast haldinn eiginleika X þegar innri týpan gefur til kynna Y. Með því að vita að fólk heldur að ég sé Y þá er gott að fá að vita af því svo hægt sé að leita að rót þess misskilnings.

Síðan er önnur ástæða fyrir því að ég vil vita það er sú að ég er að reyna að finna út hver ég er og þá meðal annars styrkleika og veikleika. Venjulega fer fólk þá leið að lágmarka veikleikana með því að einbeita sér að styrkleikum sínum eða lágmarka skaðann sem veikleikarnir geta valdið. Til þess að vita það þarf ég að vita hverjir styrk- og veikleikarnir eru en það fer venjulega saman við týpu manns.

Þrátt fyrir allar þessar pælingar er ég samt ekki nær því að svara spurningunni: „Hvaða týpa er ég?“

Að lýsa fólki

Af hverju þarf fólk oft að lýsa öðrum á svo klisjukenndan hátt? Svo virðist vera að ef ég bæði einhvern um að lýsa nýju kærustunni væri eitt það fyrsta sem hann myndi byrja á væri að nefna að hún sé falleg, fyndin og skemmtileg. Þetta eru nær gagnslausar lýsingar þar sem sitt sýnist hverjum. Ef ég myndi hitta hana gæti mér þess vegna fundist hún ljót, ófyndin og leiðinleg. Hvað ef hann gleymir að nefna að hún sé falleg? Á ég þá að gera ráð fyrir að honum finnst hún ljót eða í meðallagi?

Það væri skemmtilegt, en þó ekki skilyrði, ef fólk myndi leggja aðeins meira á sig hvað þetta varðar. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég á erfitt með að lýsa sjálfum mér og öðrum fyrir fólki; Ég vil helst ekki nota þessi klisjukenndu lýsingarorð og á því til að gefast strax upp ef einhver spyr.

Hvernig myndir þú lýsa sjálfum/sjálfri þér fyrir öðrum?

Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu

Alþingi tók í gær slæma ákvörðun sem í sjálfu sér kemur ekki á óvart. Í raun og veru voru þær í það minnsta tvær: Að samþykkja Icesave frumvarpið og að fella niður breytingartillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrrnefnda ákvörðunin er örugglega útrædd á öðrum stöðum á netinu en sú seinni þarfnast meiri pælingar.

Svo mikill er hrokinn í ríkisstjórninni núna að hún telur sig geta tekið hvaða ákvörðun sem er í skjóli kosningar sem fór fram árið 2009. Ekki misskilja mig en þetta er eitthvað sem hefur plagað ríkisstjórnir á Íslandi í nokkuð mörg kjörtímabil. Hugmyndin virðist vera sú að þegar kosið er á Alþingi sé fólk því að fela hverjum þeim sem endar í ríkisstjórn umboð til að sjá um málefni þjóðarinnar og skiptir ekki máli hvaða mál enda á borðinu. En það er rangt.

Á endanum munu koma mál sem eru svo stór að það hefur stórvirk áhrif á meirihluta þjóðarinnar og jafnvel alla. Þegar slíkt kemur upp ætti það að vera eðlilegt og jafnvel skylda að þau mál séu borin undir þjóðina. Tilgangur ríkisvaldsins er fyrst og fremst að sjá um daglegan rekstur ríkisins og afgreiðslu minniháttar mála svo ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hvert einasta smámál sem kemur upp. En Icesave er ekkert smámál og ætti það að vera eðlileg skylda ríkisvaldsins að leita álits hjá þjóðinni.

Við skulum bera stjórnarhætti ríkisins við stjórnarhætti sem taldir eru eðlilegir í íslenskum fyrirtækjum. Árlega er haldinn svokallaður aðalfundur þar sem stjórn fyrirtækisins er kosin og hefur hún umboð hluthafa að næstu kosningu sem er þá endurnýjað ef hluthafar samþykkja það. Öðru hvoru koma upp stórmál hjá fyrirtækinu milli aðalfunda sem krefjast aukningu á hlutafé eða stórra breytinga. Þá er það talið eðlilegt að stofna til annars hluthafafundar sem snýst einvörðungu um það mál.

Og hvernig er þetta núna hjá íslenska ríkinu? Á fjögurra ára fresti er kosin stjórn (Alþingi) í þjóðaratkvæðagreiðslu (hluthafafundur) og hún hefur umboð þjóðarinnar (hluthafa) að næstu kosningum. Þessi stjórn hefur (nær) ótakmarkað umboð til að sjá um mál þjóðarinnar og kallar aldrei til þjóðaratkvæðagreiðslu nema hún sé neydd til þess.

Hvernig þætti ykkur að vera hluthafar í fyrirtæki með stjórn sem ræður sér sjálf og getur spanderað fé ykkar án þess að þið fáið nokkru um það ráðið?

Ég vil banna bindi á Alþingi

Í gær bar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona í Sjálfstæðisflokknum, upp þá fyrirspurn hvort Ögmundi Jónassyni þætti rétt að banna búrkur. Þykir henni (og fleirum) rétt að banna þær vegna þess að þær séu tákn um kúgun í garð kvenmanna. Ögmundur tók að mínu mati rétta afstöðu í þessu máli og vildi ekki banna þær af þeirri einföldu ástæðu að slíkt bann leysir ekkert.

Ekki veit ég hversu margir á Íslandi klæðast búrkum en ég efast um að þeir séu nokkuð margir. Óháð því hversu margir þeir eru, þá myndi slíkt bann samt ganga á rétt þeirra sem vilja ganga í búrkum. Að sama skapi er það ekkert grín eða spurning með fjölda þegar einhver er neyddur til að ganga í ákveðnum fötum.

Það er nokkuð ‘fyndið’ að Þorgerður Katrín skuli minnast á að banna búrkur vegna kúgunar kvenna og að það sé gegn kvenfrelsi. Hvað um karlfrelsi í sal Alþingis? Alþingi sjálft var sjálft með skyldu til að klæðast ákveðnum fatnaði í þingsal. Nú er ekki lengur skylda að vera með bindi en þau eru tákn um kúgun gagnvart karlkyns þingmönnum og því myndi ég vilja banna þau. Væri slík beiðni ekki fáránleg? Það þætti mér. Ekki sé ég að Þorgerður Katrín hafi kvartað yfir þessari skyldu (opinberlega) síðan hún hóf þingmennsku árið 1999.

Hvers konar lausn væri bann á búrkum? Maður sem væri í raun og veru að neyða konu sína til að vera með búrku myndi í staðinn halda henni heima í stað þess að hleypa henni út án búrku. Segjum að ekkert svoleiðis eigi sér stað, þá er samt búið að lögleiða öðruvísi kúgun. Hún er þá farin úr „þú skalt vera í þessum og þessum klæðnaði‟ og í „þú mátt ekki vera í þessum og þessum klæðnaði‟. Rosalegt frelsi þar.

Ein pælingin sem Tinna Gígja hafði á sínum tíma var hver viðurlögin við slíku banni ættu að vera. Á að refsa konunni fyrir það að vera kúguð? Þær sem klæðast búrkunni af fúsum og frjálsum vilja er þá refsað fyrir fataval sitt. Að banna búrkur blákalt kemur niður á konunum sem eru með þær en ráðast ekki á rót vandans – kúguninni sjálfri. Betri aðferð til að leysa þetta væri sú að vinna í að gefa fólkinu val um það hvort það klæðist búrku eða ekki. Slíkt væri vænlegra til árangurs.

Smátal

Þegar ég lít yfir farinn veg hef ég tekið eftir því að ég hef alltaf verið í vandræðum með smátal (e. small-talk). Fyrir þá sem ekki vita er smátal sá hluti samtalsins þar sem ekkert umræðuefni er í gangi og hefur engan sérstakan tilgang. Tilgangur þess er að virka sem fylling milli umræðuefna eða til að ræsa og enda samtalið.

Vandræðin mín byggjast aðallega á tvennu: Of langt smátal og að komast út úr því. Þegar ég ræði við einhvern sem ég þekki ekki eða þekki lítið, þá á smátalið til með að vera of langt fyrir minn smekk. Eftir smá stund fer mér að líða verr því mér finnst eins og samtalið muni áfram vera innihaldslaust. Á ég þá til með að reyna að enda samtalið eins fljótt og ég get en reyni þó að undirbúa ágæta lendingu. En ef ég þekki manneskjuna og smátalið er orðið of langt og engin létt leið til að enda það, þá verð ég oft uppiskroppa með fyllingarefni.

Alla ævi mína hef ég verið langt frá því að vera félagslyndur og byrjaði því að læra smátal langt eftir 20 ára aldurinn. Á þeim tíma hef ég tekið eftir mörgu fáránlegu sem fólk tekur upp. Eitt dæmi um það er að spyrja hvernig mann líður þegar það er enginn augljós tilgangur með því. Fólk er svo vant að heyra ‘vel’ og ‘ágætt’ að setur enga merkingu í svarið. Ef ég myndi svara ‘Ágúst’ myndu sumir líklegast ekki taka eftir því og halda áfram með smátalið. Sumir jafnvel ljúga þegar þeir svara þessari spurningu og hef ég jafnvel gert það sjálfur. Þá hef ég svarað að mér líði vel eða ágætlega en í raun og veru liðið illa. Hins vegar er ég hættur þeirri vitleysu og haft það að stefnu að svara heiðarlega. Ef mér líður illa, þá segi ég það.

Venjulega þegar fólk biður mig um eitthvað byrjar það oft samtalið á smátali sem er aðferð til að þykjast hafa meiri áhuga á mér en það hefur í raun eða mýkja mig svo það virðist ekki vera heimtufrekt. Þegar manneskjan gerir þetta aftur og aftur fer þetta að verða þreytt, sérstaklega þegar öll samskiptin enda á því að biðja mig um eitthvað. Það væri óskandi ef fólk hefði raunverulegan áhuga á mér en ætli ég sé bara ekki of ófélagslyndur til þess.

Þetta er alger vítahringur.

Persónukjör og landið eitt kjördæmi

Meðal baráttumála minna er að koma á því skipulagi að Ísland sé eitt kjördæmi og þar að auki að kosið sé inn á Alþingi með persónukjöri líkt og til stjórnlagaþings. Ég geri mér grein fyrir því að þessar hugmyndir eru róttækar miðað við núverandi skipulag en hins vegar eru sterk réttlætisrök með því.

Ýmis rök eru fyrir persónukjöri en meðal þeirra helstu er að losna við flokkakerfið. Ef einhver vill bjóða sig fram á þing og er ekki sammála stefnum þáríkjandi flokka hefur hann þrjá kosti: Finna þann flokk sem passar best við hans skoðun, stofna nýjan flokk eða sleppa þessu. Þetta veldur því að einstaklingar sem hafa nýstárlegar skoðanir komast alls ekki að nema beygja sig undir skoðanir annarra sem í framhaldinu rýrir möguleika hans á að hafa áhrif á þinginu. Annar gallinn við flokkakerfið eru hin svokölluðu pakkakaup; Til að velja manneskju A kemst maður ekki hjá því að velja manneskju B, og C, og D, og svo framvegis. Þetta er eins og að neyðast til að kaupa vasaljós til að fá batteríið. Persónukjör leysir slíkt þar sem kjósendur geta valið þær manneskjur sem þeir persónulega vilja á þing.

Persónukjör hefur auðvitað líka galla. Til dæmis getur verið erfitt að velja úr öllum þeim sem eru í framboði, sérstaklega ef þeir eru margir. Hins vegar hefur almenningur þegar farið í málið eins og sést á þeim tólum sem hafa verið sniðin til að velja frambjóðendur á stjórnlagaþingið 2011. Slíkar aðferðir er hægt að fínpússa og á endanum verður ágætlega auðvelt fyrir fólk að velja frambjóðendur sem eru þeim að skapi.

Sumir vilja meina að persónukjör valdi því að erfitt eða jafnvel ómögulegt verði að mynda ríkisstjórn. Þá vil ég varpa þeirri spurningu af hverju það þarf að velja í ríkisstjórn út frá Alþingi? Eitt helsta vandamálið á Alþingi er hjarðhegðun þar sem þingmenn berjast um ráðherrastólinn og hlýða forystumönnum sinna flokka í þeirri von að komast í lúxusinn sem fylgir því að vera ráðherra. Af hverju ekki að kjósa framkvæmdavaldið óháð Alþingi? Út á það gengur aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Annað sem skiptir mig miklu máli er að landið verði eitt kjördæmi. Sumir segja að það muni halla á landsbyggðina en svo þarf ekki að vera. Alveg eins og fólk á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að kjósa einhvern á sama svæði, af hverju ætti það sama ekki gilda um val kjósenda á landsbyggðinni? Eiga störf Alþingis að ganga út á landsbyggðina? Í fyrstu umræðunni um frumvarp vegna fjárlaga 2011 voru margir þingmenn á suðvesturhorninu sem mótmæltu niðurskurði á landsbyggðinni. Það er ekki eins og landsbyggðin sé í algleymingi hjá þeim sem búa þar ekki. Miðað við dreifingu fólks á landinu munu örugglega einhverjir úr landsbyggðinni vera kjörnir á Alþingi í hverjum kosningum og vera þar fyrir hönd síns landshluta.

Núverandi kjördæmaskipulag er óréttlæt í eðli sínu með því einu að skipta landinu í svæði. Segjum að ég sé þingmaður fyrir Reykjaneskjördæmi og hef unnið mér inn nóg fylgi til að vera þingmaður á Alþingi. En hvað ef ég flyt til Reykjavíkur eða jafnvel lengra út á land? Nú væri ég kominn í allt annað kjördæmi og þyrfti þá að byrja upp á nýtt. Fólkið sem studdi mig áður má ekki gera það lengur nema það flytji lögheimili sitt í sama kjördæmi og ég er í. Ef landið væri eitt kjördæmi og með persónukjöri væri þetta ekkert vandamál.

Persónukjör og fækkun kjördæma í eitt er löngu tímabært hér á landi og vil ég fá tækifæri til að leggja það fram á stjórnlagaþingi.

– Svavar Kjarrval
Frambjóðandi #5086

Betri skipting ríkisvalds

Eitt baráttumálið mitt á stjórnlagaþinginu er betri skipting ríkisvalds. Áður en við spáum í skiptingu ríkisvalds þarf að skilgreina hvað það er. Ríkisvald er hugtak yfir þau valdamörk sem fulltrúar þjóðarinnar hafa yfir málefnum hennar. Löggjafarvaldið hefur t.d. völd til að ákveða hvað má og hvað ekki sem það gerir með setningu laga. Framkvæmdavaldið hefur umboð til að framkvæma þau lög sem löggjafarvaldið setur. Dómsvaldið sér um að leysa ágreiningsmál í ljósi þeirra laga sem gilda. Öllum þessum hlutum ríkisvaldsins eru sett takmörk sem eru útlistuð í plaggi sem (venjulega) er stjórnarskrá þeirrar þjóðar. Þáttur stjórnarskrár er að tryggja að allar þessar greinar ríkisvaldsins hafi ekki of mikil völd með því að veita aðhald milli þeirra.

Stjórnarskrá Íslands er langt frá því að vera fullkomin hvað þetta varðar. Eitt augljósasta dæmið er hve samofið löggjafarvaldið er framkvæmdavaldinu sem veldur því að aðhaldið sem á að vera til staðar er meira og minna horfið. Ástæðan fyrir kverkataki framkvæmdavaldsins á Alþingi er sú að ríkisstjórnin er mynduð af þingmönnum. Fólkið í ráðherrastöðum lifir með meiri lúxus en hitt fólkið á þinginu. Þráin til að komast í ráðherrastöðu er nógu sterk til að halda þingmanninum stilltum og góðum í þeirri von að hann komist í lúxusinn síðar. Þar sem ráðherrastöðurnar eru (oftast nær) ákveðnar af þeim flokkum sem mynda meiri hluta þingsins, þá hafa þeir flokkar bæði framkvæmdavaldið og meiri hluta atkvæða á Alþingi.

Þegar skipting ríkisvalds er ákveðin þarf að ákveða í hverju valdið felst og hvaða mörk eru á því. Einnig þarf að passa að ein grein þess hafi ekki óeðlilega mikil völd miðað við hinar. Samkvæmt hugmyndafræðinni á hver grein ríkisvalds að sæta eftirliti a.m.k. einnar annarrar greinar. Þá skiptir máli að hver þeirra sé nógu sjálfstæð til að sjá um sín mál en sé slegin á puttana reyni hún að ganga of langt. Þetta jafnvægi á að vera skilgreint í stjórnarskrá.

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár Íslands er með beinum orðum ritað að Alþingis og forseti Íslands deila löggjafarvaldinu og einnig að forsetinn deili framkvæmdavaldinu með stjórnvöldum. Það þarf því ekki að fara langt til að sjá þessi óljósu mörk ríkisvalds og geta komið upp efasemdir hvort hann sé í hlutverki löggjafarvaldsins eða framkvæmdavaldsins í stjórnarathöfnum (dæmi: 24. gr. stjórnarskrárinnar). Einnig voru efasemdir um hvort forseti gæti nýtt málsskotsréttinn án atbeina ráðherra á sínum tíma.

Varðandi aðgerðir til að ná fram betri skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds eru til nokkrar leiðir. Ein þeirra er að festa forsetann í sessi sem höfuð framkvæmdavaldsins og láta hann ekki lengur deila löggjafarvaldinu með Alþingi. Síðan gæti hann annaðhvort ráðið ráðherra sjálfur (Alþingismenn og dómarar ekki gjaldgengir) eða tekið við embættishlutverki ráðherra eins og þau eru núna. Önnur leið er að losna við forsetaembættið og láta ráðherra vera kosna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó ég sé meira fylgjandi fyrrnefndu leiðinni er ég ekki búinn að útiloka þá seinni ef hún er vel útfærð. Aðskilnaður forseta frá löggjafarvaldinu þarf ekki að fela í sér að málsskotsrétturinn falli sjálfkrafa niður. Hann getur verið hluti af aðhaldi framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Einhverjir hafa verið með áhyggjur af fjárlögum ef aðskilnaður þessara greina ríkisvaldsins er framkvæmdur. Ef ráðherrar gætu ekki flutt mál á Alþingi væri enginn til að flytja fjárlögin hvert ár. Í umræðu Alþingis um skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram athyglisverð hugmynd sem myndi leysa þetta vandamál. Ef framkvæmdavaldið vill koma á lagabreytingum ætti það að koma þörfum sínum á framfæri við þá þingnefnd sem sér um venjulega um málaflokkinn og hún semur frumvarpið ef hún telur tilefni til þess. Kosturinn við slíkt skipulag er að nefndin er í betri aðstöðu til að beita gagnrýninni hugsun á því sem kemur frá framkvæmdavaldinu og hafa sjálfstætt vald til að meta það hvort þörf sé á lagabreytingu og hvernig það ætti að vera framkvæmt.

Undanfarna áratugi hefur ríkt nokkuð metnaðarleysi af hálfu Alþingis í garð lagafrumvarpa þar sem gagnrýnin er takmörkuð við þau frumvörp sem valda stærstu hneykslismálunum. Orku stjórnarandstöðunnar er oftast beitt í slíkum málum á meðan önnur frumvörp eru gagnrýnislaust gerð að lögum vegna ofríki flokksmaskínunnar. Til hvers að eyða tíma í að gagnrýna frumvarp sem nær í gegn hvort sem er vegna ítaka stjórnarflokkanna? Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds mun ná langt í að afnema þetta óréttlæti þar sem engin stjórn og stjórnarandstaða verður á Alþingi. Ekki er hægt að koma í veg fyrir bandalag flokka að neinu ráði en samstarf þeirra mun snúast frekar um málefni en ráðherrastöður.

Stjórnlagaþing mun hafa tækifæri á að breyta stjórnskipulaginu til hins betra hvað þetta varðar.

Stjórnarsamstarf og hjarðhegðun þingmanna

Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að nokkrir þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum ætla sér „ekki að styðja ríkisstjórnina áfram“ nema eitthvað sé gert í Magma málinu. Í annarri frétt og þriðju frétt er þetta svo ítrekað. Ætlaði ég mér að láta nægja að vísa á þessar þrjár fréttir en í dag komu fram persónulegt álit Ragnheiðar Elínar, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um að ríkisstjórnin sé óstarfhæf og því sé fyrir bestu að boða til kosninga.

Eins mikið og ég fyrirlít Vinstri græna og Samfylkinguna er ég samt á móti því að boða til Alþingiskosninga um leið og eitthvað ósætti er í ríkisstjórn. Að mínu mati á ekki að vera neitt afl þar sem samið er um niðurstöður atkvæðagreiðslna fyrir fram eða ákveðnum málum ýtt fram yfir önnur vegna þess að ákveðinn flokkur vill það. Þegar maður heyrir fréttir um að ákveðnir þingmenn ætli sér að hætta að styðja ríkisstjórnina eru þeir að gefa til kynna eftirfarandi: „Ég gef málum ríkisstjórnarinnar stuðning minn þótt ég persónulega hefði kosið gegn þeim. Fyrst þið eruð á móti máli X, þá hætti ég að gefa ykkur atkvæði mitt án umhugsunar.“ Ef þeir hefðu kosið áfram eins og venjulega væru þetta bara orðin tóm og engin tæki mark á þeim.

Er eitthvað sem öskrar hærra en hjarðhegðun en svona yfirlýsingar? Þótt núverandi skipulag sé ekki hið besta í stöðunni hefði ég að minnsta kosti búist við meiru sjálfstæði í þingmönnum. Þessi hjarðhegðun er það sterk að hún getur sannfært þingmenn um að greiða atkvæði á móti sinni sannfæringu. Ef ætlunin var að kjósa sauði sem fylgja hjörðinni með forystufólk flokkanna sem sauðahirða hefði fólk alveg eins getað kosið vélmenni á þing.

Á tímabilinu sem kallast  „korter fyrir þinglok“, sem í raun spannar nokkrar vikur, eru þingmenn skikkaðir til þess að greiða atkvæði með öllum þeim málum sem eru rennd í gegn. Ef þeir gera það ekki fá þeir óformlegt tiltal frá ónefndu fólki. Frumvörp sem hlutu einróma atkvæðagreiðslu fengu hana ekki vegna þess að allir voru sammála því sem það átti að færa, heldur vegna fyrrgreindrar hjarðhegðunar. Bara sem dæmi má nefna þessar illa ígrunduðu breytingar á höfundalögum (sem ég mótmælti til þingmanna og kom með rökstuðning) og ein hjúskaparlög (sem ég er fylgjandi).

En af hverju er ég að mótmæla hjarðhegðun þingmanna þegar það er ‚augljóst‘ að málin ná í gegn hvort sem er án hennar? Fyrir atkvæðagreiðslu mála geta þingmenn ekki ályktað með afgerandi hætti hvað aðrir ætla að kjósa nema viðkomandi hafi gefið til kynna með afar augljósum hætti hvernig atkvæði hans mun liggja í málinu. Ef hver þingmaður gerir ráð fyrir því að allir aðrir muni greiða atkvæði með frumvarpi (nema annað komi í ljós) mun það enda með því að (nær) öll mál hljóta einróma samþykki ef hann byggir atkvæði sitt á því hvernig hann heldur að málið endar. Ef hjarðhegðunin væri ekki til staðar hefði verið möguleiki að slæma frumvarpið næði ekki í gegn. Í staðinn ætti hver og einn þingmaður að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu; Til þess eru þeir kosnir!

Sumir kunna að spyrja sig hvað sé að hjarðhegðun þegar kemur að málum eins og einum hjúskaparlögum. Í fyrsta lagi eiga kjósendur skilið að vita hvað fulltrúi þeirri á þinginu finnst um ákveðið málefni og væri ágætt fyrir kjósendur að vita af hverju þeir ættu að kjósa þennan þingmann fram yfir næsta dróna á listanum. Ef þingmaðurinn þorir ekki að kjósa í samræmi við sannfæringu sína er léttilega hægt að efast um réttmæti þess að hann ætti heima á Alþingi. Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að fá sneiðmynd af áliti þingmanna og/eða þingflokka gagnvart þeim málefnum sem mér finnst skipta máli. Ef ég væri meðlimur ákveðins flokks og sé þingmann sem hefur öndverða skoðun í málefni sem mér er annt um, þá kýs ég hann alls ekki næst þegar hann býður sig fram í prófkjöri. Og að lokum vil ég sjá þingmenn ræða málin á þingpalli út frá sannfæringu sinni með það að markmiði að sannfæra sína eigin flokksmenn, og jafnvel þingmenn í öðrum flokkum, um að greiða atkvæði á sama veg og hann sjálfur. Eins og Alþingi er núna fer mestallur ræðutíminn í að tala til kórsins eða skammast í öðrum þingflokkum. Til hvers að ræða málin með eldheitri sannfæringu þegar stjórnin er þegar búnir að semja um atkvæðagreiðslurnar?

Einhverjir eru haldnir þeirri hugsjón að ríkisstjórn án hjarðhegðunar (ahemm! ég meina: einróma í öllum málum) geti ekki komið neinu í gegn. Samkvæmt mínum skilningi er ríkisstjórnin hluti af framkvæmdavaldinu og á því, stjórnarskrárlega séð, ekki að hafa bein ítök yfir löggjafarvaldinu. Fræðilegt hlutverk ríkisstjórnar er að sjá um og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu í samræmi við lög Alþingis. Þegar framkvæmdavaldið semur sínar eigin reglur (lög) og kemur þeim í gegn á Alþingi vegna stöðu ráðherra í löggjafarvaldinu eru of mikil völd sett á hendur fárra einstaklinga. Ástæðan er einfaldlega sú að eftirlitsaðilarnir sjá um að setja sér reglurnar og það ástand er afar hættulegt. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið eru hér rosalega samtvinnuð og bjóða hér upp á þá spillingu sem hefur viðgengist á Íslandi í a.m.k. nokkra tugi ára. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna er bara nýtt andlit á gömlu skipulagi sem þeir ætla sér að viðhalda.

Lærdómur vegna kosninganna

Niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna eru túlkaðar á marga mismunandi vegu og fer aðallega eftir því hvaða skoðun viðkomandi er haldinn hvernig þær eru túlkaðar. Sem flokksbundnum einstaklingi í Auða flokknum ætla ég að gefa mitt álit á niðurstöðunum í Reykjavík, þar sem þær virðast vera mest túlkaðar.

Fáum fyrst upp atkvæðatölur flokkanna í Reykjavík. Atkvæðatölurnar 2006 eru fengnar frá vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og tölurnar fyrir 2010 eru fengnar frá vef RÚV og stemmdar af þær sem eru á vef mbl.is.

B – Framsóknarflokkurinn
2006 = 4056 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 1629 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  2427 atkv. (59,84% fækkun)

D – Sjálfstæðisflokkurinn
2006 = 27.823 atkv. (7 fulltrúar)
2010 =20.006 atkv. (5 fulltrúar)
Mismunur =  7817 atkv.  (17,31% fækkun)

E – Reykjavíkurframboðið
2006 = Ekki til
2010 = 681 atk. (enginn fulltrúi)

F – Frjálslyndir og óháðir
2006 = 6.527 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 274 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  6253 atkv. (95,80% fækkun)

H – Framboð um heiðarleika og almannahagsmuni
2006 = Ekki til
2010 = 668 atkv. (enginn fulltrúi)

S – Samfylkingin
2006 = 17.750 (4 fulltrúar)
2010 = 11.344 atkv. (3 fulltrúar)
Mismunur =  6406 atkv. (56,47% fækkun)

V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð
2006 = 8.739 atkv. (2 fulltrúar)
2010 =  4.255 atkv. (1 fulltrúi)
Mismunur =  4484 atkv. (51,31% fækkun)

Æ – Besti flokkurinn
2006 = Ekki til
2010 =  20.666 atkv. (6 fulltrúar)

Samtals (gild atkvæði)
2006 = 64.895
2010 =  59.523

Þegar tölurnar frá 2006 og 2010 eru bornar saman kemur ýmislegt fram. Allir flokkarnir sem buðu sig fram í báðum kosningum eiga það sameiginlegt að hafa fengið færri atkvæði 2010 en þeir gerðu 2006 og fengu jafnframt færri fulltrúa þrátt fyrir að kjörsókn var minni. Mismunurinn gefur til kynna þann lágmarksfjölda sem kaus flokkinn 2006 en kaus hann ekki 2010. Afgangurinn er væntanlega óályktunarhæfur þar sem við vitum ekki hversu margar kusu flokkinn 2010 en gerðu það ekki 2006.

Hlutfallslega féll atkvæðafjöldi Frjálslyndra mest með 95,80% fækkun atkvæða á meðan atkvæðafjöldi Sjálfstæðisflokksins féll um 17,31%. Því er hægt að draga þá ályktun að af eldri flokkunum stóðst Sjálfstæðisflokkurinn ‚áhlaupið‘ best af öllum hinum í Reykjavík nema þegar kemur að fækkun borgarfulltrúa. Af nýju flokkunum er augljóst að Besti flokkurinn hlýtur vinninginn þar sem hann fékk flest atkvæði af öllum sem buðu sig fram.

Önnur túlkun þarf að bíða til betri tíma.

Gengi Auða flokksins

Sem áframhald greinar minnar þann 28. maí síðastliðinn um Auða flokkinn ákvað ég að athuga gengi hans víðsvegar á landinu. Tölurnar eru fengnar frá vef RÚV og eru eingöngu talin auð atkvæði en ekki ógild þar sem ástæður fyrir ógildingu geta verið ýmsar.

Sniðið er eftirfarandi:
Kjördæmi – Kjörsókn (hversu margir greiddu atkvæði) – Auð atkvæði –  Hlutfall auðra atkvæða af heildarfjölda

Höfuðborgarsvæðið:
Reykjavík – 63.019 – 3.238 – 5,14%
Kópavogur – 14.704 – 915 – 6,22%
Seltjarnarnes – 2.432 – 148 – 6,09%
Garðabær – 5.567 – 307 – 5,51%
Hafnarfjörður – 11.589 – 1.578 – 13,62%
Álftanes – 1.110 – 124 – 11,17%
Mosfellsbær – 3.939 – 268 – 6,80%
Kjósarhreppur – 149 – 2 – 1,34%

Reykjanes:
Reykjanesbær – 6.647 – 376 – 5,66%
Grindavík – 1.507 – 39 – 2,59%
Sandgerði – 911 – 0 – 0%
Garður – 793 – 0 – 0%
Vogar – 610 – 0 – 0%

Vesturland:
Akranes – 3.149 – 292 – 9,27%
Skorradalshreppur – Óhlutbundin kosning
Hvalfjarðarsveit – 384 – 10 – 2,60%
Borgarbyggð – 1.892 – 169 – 8,93%
Grundarfjörður – 554 – 8 – 1,44%
Helgafellssveit – Óhlutbundin kosning
Stykkishólmur – 729 – 26 – 3,57%
Eyja- og Miklaholtshreppur – Óhlutbundin kosning
Snæfellsbær – 983 – 0 – 0%
Dalabyggð – Óhlutbundin kosning

Vestfirðir:
Bolungarvík – 480 – 30 – 6,25%
Ísafjörður – 2.112 – 75 – 3,36%
Reykhólahreppur – Óhlutbundin kosning
Tálknafjörður – Sjálfkjörinn listi
Vesturbyggð – 508 – 37 – 7,28%
Súðavíkurhreppur – 108 – 0 – 0%
Árneshreppur – Óhlutbundin kosning
Kaldraneshreppur – Óhlutbundin kosning
Bæjarhreppur – Óhlutbundin kosning
Strandabyggð – 254 – 0 – 0%

Norðurland vestra:
Skagafjörður – 2.199 – 117 – 5,32%
Húnaþing vestra – 606 – 0 – 0%
Blönduós – 473 – 47 – 9,94%
Skagaströnd- Sjálfkjörinn listi
Skagabyggð – Óhlutbundin kosning
Húnavatnshreppur – 268 – 0 – 0%
Akrahreppur – Óhlutbundin kosning

Norðurland eystra:
Akureyri – 9.357 – 310 – 3,31%
Norðurþing – 1.645 – 85 – 5,17%
Fjallabyggð – 1.297 – 50 – 3,86%
Dalvíkurbyggð – 1.060 – 49 – 4,62%
Eyjafjarðarsveit – 517 – 0 – 0%
Arnarneshreppur og Hörgárbyggð – 352 – 10 – 2,84%
Svalbarðsstrandarhreppur – Óhlutbundin kosning
Grýtubakkahreppur – Óhlutbundin kosning
Skútustaðahreppur – 248 – 4 – 1,61%
Tjörnes – Óhlutbundin kosning
Þingeyjarsveit – 549 – 17 – 3,10%
Svalbarðshreppur – Óhlutbundin kosning
Langanesbyggð – Óhlutbundin kosning

Austurland:
Seyðisfjörður – 488 – 5 – 1,02%
Fjarðabyggð – 2.347 – 147 – 6,26%
Vopnafjörður – 462 – 7 – 1,52%
Fljótsdalshreppur – Óhlutbundin kosning
Borgarfjarðarhreppur – Óhlutbundin kosning
Breiðdalshreppur – Sjálfkjörinn listi
Djúpivogur – Sjálfkjörinn listi
Fljótsdalshérað- 1.830 – 128 – 6,99%
Hornafjörður – 1.260 – 47 – 3,73%

Suðurland:
Vestmannaeyjar – 2.465 – 71 – 2,88%
Árborg – 4.164 – 372 – 8,93%
Mýrdalshreppur – 336 – 0 – 0%
Skaftárhreppur – 288 – 0 – 0%
Ásahreppur – Óhlutbundin kosning
Rangárþing eystra – 1.001 – 22 – 2,20%
Rangárþing ytra – 915 – 53 – 5,79%
Hrunamannahreppur – 422 – 16 – 3,79%
Hveragerði – 1.336 – 87 – 6,51%
Ölfus – 1.032 – 32 – 3,10%
Grímsnes – 268 – 0 – 0%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur – 324 – 0 – 0%
Bláskógabyggð – 501 – 0 – 0%
Flóahreppur – 351 – 0 – 0%

Hæsta hlutfall auðra atkvæða er í Hafnarfirði (13,62%) og eru 11 fulltrúar í bæjarstjórn. Þetta þýðir að Auði flokkurinn hefði náð a.m.k. einu sæti í Hafnarfirði ef hann væri alvöru stjórnmálaflokkur. Í fámennum kjördæmum eru 5 fulltrúar sem þýðir að Auði flokkurinn hefði þurft 20% atkvæða til að fá inn fulltrúa í þeim. En skoðum núna Reykjavík en þar eru 15 fulltrúar í borgarráði og er þá miðað við 6,67% atkvæða á hvern þeirra. Hlutfall auðra seðla þar var 5,14% og hefði hann því ekki fengið fulltrúa inn þar.

Þótt flokkurinn hafi fengið nokkuð góða kosningu hefði hann bara fengið inn einn fulltrúa og það í Hafnarfirði. Oddviti flokksins hefði örugglega sagt að hann hefði beðið afhroð en væri í sókn eftir Alþingiskosningarnar en þar fékk hann 3,2% greiddra atkvæða eða jafngildi tveggja þingsæta.