Stjórnarsamstarf og hjarðhegðun þingmanna

Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að nokkrir þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum ætla sér „ekki að styðja ríkisstjórnina áfram“ nema eitthvað sé gert í Magma málinu. Í annarri frétt og þriðju frétt er þetta svo ítrekað. Ætlaði ég mér að láta nægja að vísa á þessar þrjár fréttir en í dag komu fram persónulegt álit Ragnheiðar Elínar, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um að ríkisstjórnin sé óstarfhæf og því sé fyrir bestu að boða til kosninga.

Eins mikið og ég fyrirlít Vinstri græna og Samfylkinguna er ég samt á móti því að boða til Alþingiskosninga um leið og eitthvað ósætti er í ríkisstjórn. Að mínu mati á ekki að vera neitt afl þar sem samið er um niðurstöður atkvæðagreiðslna fyrir fram eða ákveðnum málum ýtt fram yfir önnur vegna þess að ákveðinn flokkur vill það. Þegar maður heyrir fréttir um að ákveðnir þingmenn ætli sér að hætta að styðja ríkisstjórnina eru þeir að gefa til kynna eftirfarandi: „Ég gef málum ríkisstjórnarinnar stuðning minn þótt ég persónulega hefði kosið gegn þeim. Fyrst þið eruð á móti máli X, þá hætti ég að gefa ykkur atkvæði mitt án umhugsunar.“ Ef þeir hefðu kosið áfram eins og venjulega væru þetta bara orðin tóm og engin tæki mark á þeim.

Er eitthvað sem öskrar hærra en hjarðhegðun en svona yfirlýsingar? Þótt núverandi skipulag sé ekki hið besta í stöðunni hefði ég að minnsta kosti búist við meiru sjálfstæði í þingmönnum. Þessi hjarðhegðun er það sterk að hún getur sannfært þingmenn um að greiða atkvæði á móti sinni sannfæringu. Ef ætlunin var að kjósa sauði sem fylgja hjörðinni með forystufólk flokkanna sem sauðahirða hefði fólk alveg eins getað kosið vélmenni á þing.

Á tímabilinu sem kallast  „korter fyrir þinglok“, sem í raun spannar nokkrar vikur, eru þingmenn skikkaðir til þess að greiða atkvæði með öllum þeim málum sem eru rennd í gegn. Ef þeir gera það ekki fá þeir óformlegt tiltal frá ónefndu fólki. Frumvörp sem hlutu einróma atkvæðagreiðslu fengu hana ekki vegna þess að allir voru sammála því sem það átti að færa, heldur vegna fyrrgreindrar hjarðhegðunar. Bara sem dæmi má nefna þessar illa ígrunduðu breytingar á höfundalögum (sem ég mótmælti til þingmanna og kom með rökstuðning) og ein hjúskaparlög (sem ég er fylgjandi).

En af hverju er ég að mótmæla hjarðhegðun þingmanna þegar það er ‚augljóst‘ að málin ná í gegn hvort sem er án hennar? Fyrir atkvæðagreiðslu mála geta þingmenn ekki ályktað með afgerandi hætti hvað aðrir ætla að kjósa nema viðkomandi hafi gefið til kynna með afar augljósum hætti hvernig atkvæði hans mun liggja í málinu. Ef hver þingmaður gerir ráð fyrir því að allir aðrir muni greiða atkvæði með frumvarpi (nema annað komi í ljós) mun það enda með því að (nær) öll mál hljóta einróma samþykki ef hann byggir atkvæði sitt á því hvernig hann heldur að málið endar. Ef hjarðhegðunin væri ekki til staðar hefði verið möguleiki að slæma frumvarpið næði ekki í gegn. Í staðinn ætti hver og einn þingmaður að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu; Til þess eru þeir kosnir!

Sumir kunna að spyrja sig hvað sé að hjarðhegðun þegar kemur að málum eins og einum hjúskaparlögum. Í fyrsta lagi eiga kjósendur skilið að vita hvað fulltrúi þeirri á þinginu finnst um ákveðið málefni og væri ágætt fyrir kjósendur að vita af hverju þeir ættu að kjósa þennan þingmann fram yfir næsta dróna á listanum. Ef þingmaðurinn þorir ekki að kjósa í samræmi við sannfæringu sína er léttilega hægt að efast um réttmæti þess að hann ætti heima á Alþingi. Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að fá sneiðmynd af áliti þingmanna og/eða þingflokka gagnvart þeim málefnum sem mér finnst skipta máli. Ef ég væri meðlimur ákveðins flokks og sé þingmann sem hefur öndverða skoðun í málefni sem mér er annt um, þá kýs ég hann alls ekki næst þegar hann býður sig fram í prófkjöri. Og að lokum vil ég sjá þingmenn ræða málin á þingpalli út frá sannfæringu sinni með það að markmiði að sannfæra sína eigin flokksmenn, og jafnvel þingmenn í öðrum flokkum, um að greiða atkvæði á sama veg og hann sjálfur. Eins og Alþingi er núna fer mestallur ræðutíminn í að tala til kórsins eða skammast í öðrum þingflokkum. Til hvers að ræða málin með eldheitri sannfæringu þegar stjórnin er þegar búnir að semja um atkvæðagreiðslurnar?

Einhverjir eru haldnir þeirri hugsjón að ríkisstjórn án hjarðhegðunar (ahemm! ég meina: einróma í öllum málum) geti ekki komið neinu í gegn. Samkvæmt mínum skilningi er ríkisstjórnin hluti af framkvæmdavaldinu og á því, stjórnarskrárlega séð, ekki að hafa bein ítök yfir löggjafarvaldinu. Fræðilegt hlutverk ríkisstjórnar er að sjá um og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu í samræmi við lög Alþingis. Þegar framkvæmdavaldið semur sínar eigin reglur (lög) og kemur þeim í gegn á Alþingi vegna stöðu ráðherra í löggjafarvaldinu eru of mikil völd sett á hendur fárra einstaklinga. Ástæðan er einfaldlega sú að eftirlitsaðilarnir sjá um að setja sér reglurnar og það ástand er afar hættulegt. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið eru hér rosalega samtvinnuð og bjóða hér upp á þá spillingu sem hefur viðgengist á Íslandi í a.m.k. nokkra tugi ára. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna er bara nýtt andlit á gömlu skipulagi sem þeir ætla sér að viðhalda.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.