Fer þjóðkirkjan enn eftir konungstilskipunum?

Ég hef verið að lesa gamlar tilskipanir um málefni tengd þjóðkirkjunni og ýmislegt forvitnilegt hefur komið í ljós. Þess ber að geta að þessar tilskipanir hafa enn lagagildi.

Kristniréttur Árna biskups Þorlákssonar:

11. Um forræði biskups á kirkjum ok eignum þeirra.
Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera.

Löngu hætt að framkvæma þetta.

Erindisbréf handa biskupum:

14. Enn fremur skulu meðhjálparar vera viðstaddir, þegar biskup eða prófastur koma, og skulu þeir allir spurðir, hvernig ástandið sé í söfnuðinum, hvort þar tíðkist nokkrir sérstakir ósiðir eða guðleysi, hvernig hver um sig ræki embætti sitt, og fái stoð til þess eða sæti tálmunum, og skal biskup eða prófastur eigi láta undir höfuð leggjast að áminna menn í því efni.

Áminna presta ef guðleysi tíðkast… hmmm…

Tilskipun um húsvitjanir:

4. Til meðhjálpara skulu útveljast þeir upprigtugustu, bestu og umhyggjusömustu menn í hverri sókn, og ber engum, hvort þeir eru hreppstjórar eða virðingarmenn frá þessu embætti undantakast, þá þeir eru þar til af prestinum útséðir, ekki heldur byrjar þeim þar fyrir að uppástanda, að fríast frá öðrum verslegum útréttingum.

Ég ætla að velja…forsætisráðherra og dóms- og mannréttindamálaráðherra. Þau yrðu fljót að afnema þetta ef það myndi reyna á þessi lög.

Þetta var annars bara hluti af því sem ég fann. Til hvers eru þessi lög annars enn í gildi ef það er varla farið eftir þeim? Af hverju er ekki nú þegar búið að fara í almennilega tiltekt á þeim?

Réttindi að forgörðum

Um daginn fékk ég að vita að margir þeirra sem leitað var hjá í tengslum við BitTorrent mál þann 1. desember síðastliðinn voru kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglunni og spurðu þeir mig ráða. Eitt aðalráðið sem ég gaf var að nýta réttinn til að þegja (svokallaður þagnarréttur) og það kom mér á óvart að þeir hafi ekki vitað af þeim rétt.

Í framhaldinu leit ég á lagaumhverfið í kringum þann rétt og verð að segja að það er ekki nógu gott. Hvergi er sagt beinum orðum að þagnarrétturinn sé eitthvað sem fólk hefur í skýrslutökum. Það er auðvitað viðurkennt að hann sé við lýði í dómsal en það efast ég ekki. 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu gefur þann rétt en hann er þó ekki nefndur berum orðum í greininni sjálfri heldur í gegnum túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur (því miður í þessu tilviki) ekki lagagildi hér á landi. Það næsta sem kemst þessum rétti í skýrslutökum er 64. mgr. laga um meðferð sakamála (lög nr. 88/2008). Það er samt ekki tilgangur greinarinnar að fara yfir það.

Því miður er það þannig að fólk hér á landi veit oftast ekki af þagnarréttinum eða öðrum réttindum eins og má sjá á nýlegri frétt á vefnum visir.is. Ekki nóg með að maðurinn hafi talað við lögregluna, heldur samþykkti hann húsleit þrátt fyrir að dómari hafi hafnað beiðni um húsleitarheimild. Hvað ef lögreglan hefði fundið eitthvað ólöglegt við leitina? Leitin hefði verið fullkomlega lögleg þar sem eigandinn leyfði þeim að leita!

Til hvers að hjálpa lögreglunni?
Sumir myndu spyrja á móti: „Ég hef ekkert að fela svo að hvers vegna ekki?“ og halda síðan að þeir hafi afgreitt málið. En málið er nær lengra en það. Gallinn er að fólk getur aldrei verið fullvisst um að ekkert ólöglegt sé á staðnum því það er aldrei að vita hvort annað fólk hafi skilið eitthvað ólöglegt eftir sem að lögreglan finnur. Reyndu síðan að segja lögreglunni að þú vissir ekki af hlutnum og athugaðu hvort hún trúi þér (spoiler: líklegast ekki).

Önnur rök sem ég hef heyrt með því að leyfa lögreglunni að leita sé til að tefja ekki lögregluna svo hún geti farið í önnur gagnlegri verk í staðinn fyrir að hanga í manni fyrir að neita að verða við beiðni lögreglunnar. Þau rök eru fáránleg þar sem leitin er miklu tímafrekari en tíminn sem það tekur að neita. Ef lögreglan myndi í alvörunni telja að það skipti svo miklu máli að leita í bílnum þínum eða húsinu, þá fengi hún leitarheimild. Síðan hey, hvernig væri að lögreglan myndi gera eitthvað gagnlegra en að biðja þig (sem ert væntanlega saklaus af því athæfi sem hún er að athuga með) um að leyfa sér að snúa öllu við í þínu lífi bara til að spara smá tíma. Sá tími sem það tæki að leita hjá þér gæti farið í að halda áfram leitinni annars staðar.

Af hverju að nýta þagnarréttinn?
Þagnarrétturinn er best þekktur í tengslum við 5. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar og aðallega í tengslum við hina frægu setningu „I plead the fifth“. Þagnarrétturinn er sá að allir eiga rétt á að sakfella ekki sjálfa sig. Það má því ekki neyða neinn til að játa glæp, hvort sem það er vitandi eða óafvitandi. Sá réttur er í gildi hér á Íslandi þó hann sé veikur.

Þá kemur aftur sú staðhæfing að maður hafi ekkert að fela og ætti því að vera óhætt að ræða við lögregluna. Þar er gallinn sá að það hafa allir eitthvað að fela. Sá sem segist hafa ekkert að fela er að ljúga. Við veljum öll hluti sem við segjum og hvað við ætlum ekki að segja. Með því að velja að segja ekki eitthvað er aðilinn að fela það. Næst þegar þú ræðir við einhvern ókunnugan, taktu eftir því hvort þú velur að halda aftur af staðreyndum um þig eða eitthvað annað. Þá ættirðu að komast að því að þú hefur víst eitthvað að fela.

Lög landsins og reglugerðir og allur sá pakki er flókinn og veit ég ekki um eina einustu persónu sem ég þekki ágætlega sem hefur aldrei brotið nein lög. Það er ómögulegt að fara í gegnum lífið án þess að brjóta nokkur lög í því ferli. Fólk ætti ekki að vera svo öruggt með sig að halda að það geti talað við rannsóknarlögreglumann í nokkrar klukkustundir án þess að hjálpa honum að sakfella sig. Það sem þú segir í skýrslutökum (sem er annað orð yfir yfirheyrslu) er eingöngu notað gegn þér í dómsmáli en ekki með þér. Jafnvel þó þú sért saklaus af hinu meinta broti er samt hægt að sakfella þig byggt á einhverri vanhugsaðri yfirlýsingu sem þú lést frá þér og virðist saklaus á þeim tíma sem þú gafst hana. Til hvers að hjálpa lögreglunni að sakfella þig? Sjáðu hvaða sönnunargögn lögreglan hefur gegn þér og svaraðu fyrir þig í fyrsta lagi þegar málið fer fyrir dómstólana, ef málið fer svo langt.

Einn af þeim sem ég ráðlagði fyrir skýrslutökuna lét mig vita eftir skýrslutökuna að lögreglan hafði ekkert á hann og það leit út fyrir að þeir vonuðu að hann myndi sakfella sjálfan sig í skýrslutökunni. Hann gaf þeim ekki það tækifæri þar sem hann nýtti sér þagnarréttinn. Það borgar sig að nýta hann!

Frumvarp til laga um afnám sóknargjalda o.fl.

Í gær kláraði ég gerð frumvarps sem ég kom á framfæri við Hreyfinguna. Þessa stundina veit ég ekki hvort þau muni leggja það fram eða ekki en ég vona það svo sannarlega. Frumvarpið felst í því að afnema sóknargjöld ásamt því að leggja niður þrjá sjóði sem þjóðkirkjan ræður ein yfir.

Það sem ég vildi samt koma á framfæri var hversu lítill tími fór í það miðað við þann sparnað sem það hefur í för með sér. Ein kvöldstund fór í að finna allar lagagreinar þar sem minnst er á sóknargjöld og meta hverju þyrfti að breyta til að ná því fram. Síðan fór önnur kvöldstund í að skrifa frumvarpið og greinargerðina. Tvær kvöldstundir af mínum tíma í eitthvað sem gæti sparað ríkissjóð um 2,5 milljarða á ári. Ég er jafnvel óvanur frumvarpsgerð og dágóður tími fór í að yfirfara frumvarpið svo það yrði „á lagasniði“. Hvað í fjandanum er starfsfólkið í ráðuneytunum að gera?

Læt drögin fylgja í PDF svo þið getið metið vinnu mína. Ef þú ert þingmaður, endilega leggðu frumvarpið fram.

Frumvarp til laga – afnám sóknargjalda

Að lýsa fólki

Af hverju þarf fólk oft að lýsa öðrum á svo klisjukenndan hátt? Svo virðist vera að ef ég bæði einhvern um að lýsa nýju kærustunni væri eitt það fyrsta sem hann myndi byrja á væri að nefna að hún sé falleg, fyndin og skemmtileg. Þetta eru nær gagnslausar lýsingar þar sem sitt sýnist hverjum. Ef ég myndi hitta hana gæti mér þess vegna fundist hún ljót, ófyndin og leiðinleg. Hvað ef hann gleymir að nefna að hún sé falleg? Á ég þá að gera ráð fyrir að honum finnst hún ljót eða í meðallagi?

Það væri skemmtilegt, en þó ekki skilyrði, ef fólk myndi leggja aðeins meira á sig hvað þetta varðar. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég á erfitt með að lýsa sjálfum mér og öðrum fyrir fólki; Ég vil helst ekki nota þessi klisjukenndu lýsingarorð og á því til að gefast strax upp ef einhver spyr.

Hvernig myndir þú lýsa sjálfum/sjálfri þér fyrir öðrum?

Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu

Alþingi tók í gær slæma ákvörðun sem í sjálfu sér kemur ekki á óvart. Í raun og veru voru þær í það minnsta tvær: Að samþykkja Icesave frumvarpið og að fella niður breytingartillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrrnefnda ákvörðunin er örugglega útrædd á öðrum stöðum á netinu en sú seinni þarfnast meiri pælingar.

Svo mikill er hrokinn í ríkisstjórninni núna að hún telur sig geta tekið hvaða ákvörðun sem er í skjóli kosningar sem fór fram árið 2009. Ekki misskilja mig en þetta er eitthvað sem hefur plagað ríkisstjórnir á Íslandi í nokkuð mörg kjörtímabil. Hugmyndin virðist vera sú að þegar kosið er á Alþingi sé fólk því að fela hverjum þeim sem endar í ríkisstjórn umboð til að sjá um málefni þjóðarinnar og skiptir ekki máli hvaða mál enda á borðinu. En það er rangt.

Á endanum munu koma mál sem eru svo stór að það hefur stórvirk áhrif á meirihluta þjóðarinnar og jafnvel alla. Þegar slíkt kemur upp ætti það að vera eðlilegt og jafnvel skylda að þau mál séu borin undir þjóðina. Tilgangur ríkisvaldsins er fyrst og fremst að sjá um daglegan rekstur ríkisins og afgreiðslu minniháttar mála svo ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hvert einasta smámál sem kemur upp. En Icesave er ekkert smámál og ætti það að vera eðlileg skylda ríkisvaldsins að leita álits hjá þjóðinni.

Við skulum bera stjórnarhætti ríkisins við stjórnarhætti sem taldir eru eðlilegir í íslenskum fyrirtækjum. Árlega er haldinn svokallaður aðalfundur þar sem stjórn fyrirtækisins er kosin og hefur hún umboð hluthafa að næstu kosningu sem er þá endurnýjað ef hluthafar samþykkja það. Öðru hvoru koma upp stórmál hjá fyrirtækinu milli aðalfunda sem krefjast aukningu á hlutafé eða stórra breytinga. Þá er það talið eðlilegt að stofna til annars hluthafafundar sem snýst einvörðungu um það mál.

Og hvernig er þetta núna hjá íslenska ríkinu? Á fjögurra ára fresti er kosin stjórn (Alþingi) í þjóðaratkvæðagreiðslu (hluthafafundur) og hún hefur umboð þjóðarinnar (hluthafa) að næstu kosningum. Þessi stjórn hefur (nær) ótakmarkað umboð til að sjá um mál þjóðarinnar og kallar aldrei til þjóðaratkvæðagreiðslu nema hún sé neydd til þess.

Hvernig þætti ykkur að vera hluthafar í fyrirtæki með stjórn sem ræður sér sjálf og getur spanderað fé ykkar án þess að þið fáið nokkru um það ráðið?

Ég vil banna bindi á Alþingi

Í gær bar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona í Sjálfstæðisflokknum, upp þá fyrirspurn hvort Ögmundi Jónassyni þætti rétt að banna búrkur. Þykir henni (og fleirum) rétt að banna þær vegna þess að þær séu tákn um kúgun í garð kvenmanna. Ögmundur tók að mínu mati rétta afstöðu í þessu máli og vildi ekki banna þær af þeirri einföldu ástæðu að slíkt bann leysir ekkert.

Ekki veit ég hversu margir á Íslandi klæðast búrkum en ég efast um að þeir séu nokkuð margir. Óháð því hversu margir þeir eru, þá myndi slíkt bann samt ganga á rétt þeirra sem vilja ganga í búrkum. Að sama skapi er það ekkert grín eða spurning með fjölda þegar einhver er neyddur til að ganga í ákveðnum fötum.

Það er nokkuð ‘fyndið’ að Þorgerður Katrín skuli minnast á að banna búrkur vegna kúgunar kvenna og að það sé gegn kvenfrelsi. Hvað um karlfrelsi í sal Alþingis? Alþingi sjálft var sjálft með skyldu til að klæðast ákveðnum fatnaði í þingsal. Nú er ekki lengur skylda að vera með bindi en þau eru tákn um kúgun gagnvart karlkyns þingmönnum og því myndi ég vilja banna þau. Væri slík beiðni ekki fáránleg? Það þætti mér. Ekki sé ég að Þorgerður Katrín hafi kvartað yfir þessari skyldu (opinberlega) síðan hún hóf þingmennsku árið 1999.

Hvers konar lausn væri bann á búrkum? Maður sem væri í raun og veru að neyða konu sína til að vera með búrku myndi í staðinn halda henni heima í stað þess að hleypa henni út án búrku. Segjum að ekkert svoleiðis eigi sér stað, þá er samt búið að lögleiða öðruvísi kúgun. Hún er þá farin úr „þú skalt vera í þessum og þessum klæðnaði‟ og í „þú mátt ekki vera í þessum og þessum klæðnaði‟. Rosalegt frelsi þar.

Ein pælingin sem Tinna Gígja hafði á sínum tíma var hver viðurlögin við slíku banni ættu að vera. Á að refsa konunni fyrir það að vera kúguð? Þær sem klæðast búrkunni af fúsum og frjálsum vilja er þá refsað fyrir fataval sitt. Að banna búrkur blákalt kemur niður á konunum sem eru með þær en ráðast ekki á rót vandans – kúguninni sjálfri. Betri aðferð til að leysa þetta væri sú að vinna í að gefa fólkinu val um það hvort það klæðist búrku eða ekki. Slíkt væri vænlegra til árangurs.

Smátal

Þegar ég lít yfir farinn veg hef ég tekið eftir því að ég hef alltaf verið í vandræðum með smátal (e. small-talk). Fyrir þá sem ekki vita er smátal sá hluti samtalsins þar sem ekkert umræðuefni er í gangi og hefur engan sérstakan tilgang. Tilgangur þess er að virka sem fylling milli umræðuefna eða til að ræsa og enda samtalið.

Vandræðin mín byggjast aðallega á tvennu: Of langt smátal og að komast út úr því. Þegar ég ræði við einhvern sem ég þekki ekki eða þekki lítið, þá á smátalið til með að vera of langt fyrir minn smekk. Eftir smá stund fer mér að líða verr því mér finnst eins og samtalið muni áfram vera innihaldslaust. Á ég þá til með að reyna að enda samtalið eins fljótt og ég get en reyni þó að undirbúa ágæta lendingu. En ef ég þekki manneskjuna og smátalið er orðið of langt og engin létt leið til að enda það, þá verð ég oft uppiskroppa með fyllingarefni.

Alla ævi mína hef ég verið langt frá því að vera félagslyndur og byrjaði því að læra smátal langt eftir 20 ára aldurinn. Á þeim tíma hef ég tekið eftir mörgu fáránlegu sem fólk tekur upp. Eitt dæmi um það er að spyrja hvernig mann líður þegar það er enginn augljós tilgangur með því. Fólk er svo vant að heyra ‘vel’ og ‘ágætt’ að setur enga merkingu í svarið. Ef ég myndi svara ‘Ágúst’ myndu sumir líklegast ekki taka eftir því og halda áfram með smátalið. Sumir jafnvel ljúga þegar þeir svara þessari spurningu og hef ég jafnvel gert það sjálfur. Þá hef ég svarað að mér líði vel eða ágætlega en í raun og veru liðið illa. Hins vegar er ég hættur þeirri vitleysu og haft það að stefnu að svara heiðarlega. Ef mér líður illa, þá segi ég það.

Venjulega þegar fólk biður mig um eitthvað byrjar það oft samtalið á smátali sem er aðferð til að þykjast hafa meiri áhuga á mér en það hefur í raun eða mýkja mig svo það virðist ekki vera heimtufrekt. Þegar manneskjan gerir þetta aftur og aftur fer þetta að verða þreytt, sérstaklega þegar öll samskiptin enda á því að biðja mig um eitthvað. Það væri óskandi ef fólk hefði raunverulegan áhuga á mér en ætli ég sé bara ekki of ófélagslyndur til þess.

Þetta er alger vítahringur.

Persónukjör og landið eitt kjördæmi

Meðal baráttumála minna er að koma á því skipulagi að Ísland sé eitt kjördæmi og þar að auki að kosið sé inn á Alþingi með persónukjöri líkt og til stjórnlagaþings. Ég geri mér grein fyrir því að þessar hugmyndir eru róttækar miðað við núverandi skipulag en hins vegar eru sterk réttlætisrök með því.

Ýmis rök eru fyrir persónukjöri en meðal þeirra helstu er að losna við flokkakerfið. Ef einhver vill bjóða sig fram á þing og er ekki sammála stefnum þáríkjandi flokka hefur hann þrjá kosti: Finna þann flokk sem passar best við hans skoðun, stofna nýjan flokk eða sleppa þessu. Þetta veldur því að einstaklingar sem hafa nýstárlegar skoðanir komast alls ekki að nema beygja sig undir skoðanir annarra sem í framhaldinu rýrir möguleika hans á að hafa áhrif á þinginu. Annar gallinn við flokkakerfið eru hin svokölluðu pakkakaup; Til að velja manneskju A kemst maður ekki hjá því að velja manneskju B, og C, og D, og svo framvegis. Þetta er eins og að neyðast til að kaupa vasaljós til að fá batteríið. Persónukjör leysir slíkt þar sem kjósendur geta valið þær manneskjur sem þeir persónulega vilja á þing.

Persónukjör hefur auðvitað líka galla. Til dæmis getur verið erfitt að velja úr öllum þeim sem eru í framboði, sérstaklega ef þeir eru margir. Hins vegar hefur almenningur þegar farið í málið eins og sést á þeim tólum sem hafa verið sniðin til að velja frambjóðendur á stjórnlagaþingið 2011. Slíkar aðferðir er hægt að fínpússa og á endanum verður ágætlega auðvelt fyrir fólk að velja frambjóðendur sem eru þeim að skapi.

Sumir vilja meina að persónukjör valdi því að erfitt eða jafnvel ómögulegt verði að mynda ríkisstjórn. Þá vil ég varpa þeirri spurningu af hverju það þarf að velja í ríkisstjórn út frá Alþingi? Eitt helsta vandamálið á Alþingi er hjarðhegðun þar sem þingmenn berjast um ráðherrastólinn og hlýða forystumönnum sinna flokka í þeirri von að komast í lúxusinn sem fylgir því að vera ráðherra. Af hverju ekki að kjósa framkvæmdavaldið óháð Alþingi? Út á það gengur aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Annað sem skiptir mig miklu máli er að landið verði eitt kjördæmi. Sumir segja að það muni halla á landsbyggðina en svo þarf ekki að vera. Alveg eins og fólk á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að kjósa einhvern á sama svæði, af hverju ætti það sama ekki gilda um val kjósenda á landsbyggðinni? Eiga störf Alþingis að ganga út á landsbyggðina? Í fyrstu umræðunni um frumvarp vegna fjárlaga 2011 voru margir þingmenn á suðvesturhorninu sem mótmæltu niðurskurði á landsbyggðinni. Það er ekki eins og landsbyggðin sé í algleymingi hjá þeim sem búa þar ekki. Miðað við dreifingu fólks á landinu munu örugglega einhverjir úr landsbyggðinni vera kjörnir á Alþingi í hverjum kosningum og vera þar fyrir hönd síns landshluta.

Núverandi kjördæmaskipulag er óréttlæt í eðli sínu með því einu að skipta landinu í svæði. Segjum að ég sé þingmaður fyrir Reykjaneskjördæmi og hef unnið mér inn nóg fylgi til að vera þingmaður á Alþingi. En hvað ef ég flyt til Reykjavíkur eða jafnvel lengra út á land? Nú væri ég kominn í allt annað kjördæmi og þyrfti þá að byrja upp á nýtt. Fólkið sem studdi mig áður má ekki gera það lengur nema það flytji lögheimili sitt í sama kjördæmi og ég er í. Ef landið væri eitt kjördæmi og með persónukjöri væri þetta ekkert vandamál.

Persónukjör og fækkun kjördæma í eitt er löngu tímabært hér á landi og vil ég fá tækifæri til að leggja það fram á stjórnlagaþingi.

– Svavar Kjarrval
Frambjóðandi #5086

Þjóðin á stjórnlagaþing

Hugmyndin um að endurskoða stjórnarskránna er alls ekki ný af nálinni. Það var stuttu eftir stofnun lýðveldisins sem því verkefni var hleypt af stað að framkvæma heildstæða endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldsins. Ástæðan var fyrst og fremst sú að hér var um að ræða þýðingu á stjórnarskrá Dana sem Kristján 9. afhenti Íslendingum árið 1874 og var því aldrei um að ræða stjórnarskrá Íslendinga. Margar nefndir hafa verið skipaðar síðan 1944 en aldrei hafa þær klárað verkið.

Nú er hefur þjóðin loksins fengið spilin í sínar hendur og í þetta sinn er enginn Trampe greifi að setja fram afarkosti eins og á Þjóðfundinum 1851. 522 einstaklingar eru í framboði til stjórnlagaþings og hafa þeir ólíkan bakgrunn. Valið á milli þeirra er alls ekki létt og á fólk það oft til að velja eingöngu það fólk sem það þekkir þá þegar. Ég vil hins vegar hvetja alla til að reyna að velja sem flesta á kjörseðilinn og miða við að velja að lágmarki 10 manns.

Ýmis réttlætismál munu örugglega vera tekin á dagskrá hjá stjórnlagaþinginu en niðurstaðan mun fara eftir þeim hóp sem verður kjörinn á þingið. Kjörsókn mun hafa áhrif á það hversu alvarlega Alþingi mun taka niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Það er því mikilvægt að þeir sem sitja á þinginu endurspegli þjóðina sem best. Vil ég því hvetja alla til að hafa áhrif á hverjir komast inn og kjósa næsta laugardag.

Spurningar frá Samtökunum ’78

Seinustu daga hef ég frétt af því að ýmsir frambjóðendur til stjórnlagaþings hafa fengið sendar spurningar frá Samtökunum ’78 en þótt leitt að ég skuli ekki enn hafa fengið þær. Hjörtur Smárason, frambjóðandi 9618, var svo elskulegur að senda þær áfram á mig svo ég geti svarað þeim jafnvel áður en formlega eintakið bærist. Spurningarnar eru þrjár sem ég mun svara hér opinberlega;

1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?
Viðhorf mín eru þannig að ég lít ekki til hinsegins fólks sem hinsegin og er það jafnvel orðalag sem mig langar helst ekki að nota. Ég lít á allt fólk sem manneskjur sem eiga sín réttindi og skoðanir.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?
Hugmyndir mínar fyrir téða grein eru þannig að mig langar helst að sleppa þessari upptalningu svo ekki þurfi að bæta sífellt inn atriðum sem verja á gegn mismunun. Reynist það ekki fýsilegt skal ég glaður styðja það að bæta inn kynhneigð í upptalninguna.

Síðan vil ég bæta við að spurningin er nokkuð leiðandi og hefði verið hægt að orða hana á betri hátt.

3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?
Já, ég er nokkuð jákvæður. Ég er fylgjandi því að allar manneskjur hafi jafnan rétt og ‚hinsegin fólk‘ er þar engin undantekning.