Nethleranir og lögin

Eftir að Edward Snowden, sú mæta hetja, hóf að ljóstra upp um njósnir NSA á jarðarbúum, fór ég að vera meira var um friðhelgi einkalífs míns á netinu. Þó var ég var um það áður, eins og með því að hefja notkun á OpenPGP.

Það góða við þessar uppljóstranir, fyrir utan að staðfesta það sem hefur þegar verið gert, er að fólk er núna meira vart um að netnotkun þeirra gæti verið hleruð. Áður fyrr heyrði maður varla píp í almenningi um að einhver gæti hlerað netnotkun þeirra, enda ættu lögin að verja okkur gegn slíku. En þar voru meginmistök fólks fólgin, að treysta um of á lögin. Það túlkar lögin eins og aðrir myndu framkvæma þau með sömu hugmyndafræði og það sjálft. Lagagreinar á að túlka eftir því hvernig aðrir myndi framkvæma og jafnvel fólk sem maður heldur að muni snúa út úr merkingu þeirra eftir bestu getu.

Í lögum vantar oft til dæmis viðurlög hvað gerist ef einhver brýtur gegn lögunum, sé skyldan á ríkinu að framkvæma eitthvað. Þó hættan sé alltaf að einhver fari í mál við ríkið vegna vanrækslu á lagalegri skyldu eru mögulegar bætur það lágar að ríkið vill frekar taka áhættuna. Einnig eru til aðrar óskrifaðar réttarreglur sem ríkið myndi án efa vísa til ef til þess kæmi að einhver biður um að eitthvað sé framkvæmt sem ríkið vill ekki gera. Hér þarf því að samþætta eftirlit með framkvæmd ríkisins með lögum og sjá til þess að ríkið hafi hagsmuni af því að framkvæma þau á réttan hátt.

Önnur hlerun kom í ljós þegar gögn fengin með innbroti í gagnagrunn Vodafones fóru út á netið. Þá gerði fólk sér (vonandi) grein fyrir að fjarskiptalög voru þverbrotin enda geymdi Vodafone miklu meira af gögnum en það hafði lagalega heimild fyrir. Fólk var sannfært að fyrirtæki færu eftir lögunum þegar kom að friðhelgi einkalífsins en komst svo að því, á sérlega slæman máta, að svo var ekki. Umræðan á þeim tíma var ruglandi og var fólk jafnvel á öðru máli þegar túlka átti lagagreinina sem fjallaði um heimild Vodafone á að geyma þau SMS-skeyti sem fóru í dreifingu. Sumir voru á því að geyma mætti innihald SMS-skeytanna í 6 mánuði en aðrir að það mætti ekki geyma þau eftir að þau væru komin til viðtakanda. Þessi mismunandi sjónarhorn sýna það að hugmyndir fólks um heimildir laga eru ekki þau sömu og afar frábrugðin.

Almenningur þarf hins vegar að taka meiri þátt í að verja friðhelgi síns eigin einkalífs. Svo ég nefni dæmi eru flest pósthólf ódulkóðuð og liggja tölvupóstar þar næstum á glámbekk. Ef einhver kemst inn á tölvuna sem hýsir hann mun sá aðili líklegast hafa frjálsar hendur við að afrita hann. Tugir þúsunda SMS-skeyta er ekkert miðað við ef þessi óprúttni aðili hefði komist í pósthólf viðskiptavina Vodafone og dreift tölvupóstunum sem voru þar, eða jafnvel sýnishorn af þeim. Er það, að gefnu óbreyttu öryggisástandi, bara tímaspursmál hvenær það gerist. Það er ein ástæðan fyrir því að ég reyni að hvetja fólk til þess að nota OpenPGP dulkóðunaraðferðina. Sú aðferð tryggir, eftir bestu getu, að milliliðirnir á milli sendanda og viðtakanda geta ekki lesið innihald tölvupósta sem fara þeirra á milli. Ef einhver brytist inn á pósthólfið þitt og sæi eingöngu dulkóðaðan tölvupóst, gæti hann lítið gert við þær upplýsingar.

Hér á landi, og í ýmsum öðrum ríkjum, eru til staðar flokkar sem vinna samkvæmt píratahugsjóninni og munu þeir án efa fá meira vægi núna í umræðunni um friðhelgi einkalífsins. Þá verður vonandi meiri áhersla á að hlusta á fólk sem hefur tillögur að breyttu orðalagi í lagasetningarferlinu, jafnvel þótt merkingin virðist við fyrstu sýn ekki breytast mikið. Njósnastofnanir eins og NSA nýttu sér svona orðalagsgalla og almennt orðaðar heimildir til þess að gera það sem þær voru staðnar að. Við skulum ekki endurtaka þessi sömu mistök í lagasetningu og fylgjast betur með því sem er að gerast á Alþingi.

Bingójátning 2013

Þann 15. mars síðastliðinn skilaði ég inn játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég játaði að hafa tekið þátt í framkvæmd ólögmæts bingóhalds. Fyrir tveim dögum, þann 9. júlí 2013, barst mér bréf með afstöðu ríkissaksóknara til þessa máls.

Það er afstaða ríkissaksóknara að „umrædd háttsemi kæranda, og eftir atvikum annarra sem stóðu að páskabingóinu, verði fyrst og fremst virt sem liður [í] stjórnarskrárvörðum rétti manna til tjáningar- og fundafrelsis, sbr. 73. gr. og 74. gr. stjórnarskrárinnar“.

Áður en ég lagði fram játninguna hugsaði ég út í mögulegar afleiðingar þess ef málið hefði lent fyrir dómstólum með ákæru. Líkurnar voru nokkuð lágar en áhætta sem ég var reiðubúinn til þess að horfast í augu við og reka málið áfram til enda, jafnvel með málarekstri fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem hefði líklegast dæmt mér í vil.

Þrátt fyrir að málið hafði ekki verið lokið á þann hátt er ég ánægður með útkomuna, enda er það núna yfirlýst mat bæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara að stjórnarskrárvarinn réttur fólks til tjáningar- og fundafrelsis vegur þyngra en rétturinn til að banna bingóhald á grundvelli helgidagafriðs. Vegna jafnræðisreglunnar á þetta mat einnig við um aðrar tegundir af skemmtanahaldi en bingó óháð því hvort peningar séu í spilinu eða ekki. Augljóslega á þetta mat eingöngu við um atburði sem annars hefðu verið leyfðir á þessum tilteknum helgidögum.

Vil samt setja fyrirvara um að það er samt ekki algerlega afgreitt þegar um er að ræða staði sem reiða sig á starfsleyfi eða önnur opinber leyfi. Þó ég telji að það sama gildir í slíkum tilvikum er samt sem áður gríðarlega mikil hætta á að fyrsti aðilinn sem heldur slíka skemmtun gæti lent í leyfissviptingu ef lögreglan telur þessa afstöðu ríkissaksóknara ekki eiga við um leyfisskylda starfsemi.

Hér eru helstu skjöl málsins svo almenningur hafi tækifæri til að meta niðurstöðuna á eigin forsendum:

Bingójátningarmálið 2013

Kæra vegna framkvæmd alþingiskosninganna 2013

Þrír umboðsmenn Pírata, þar á meðal ég, komum saman í gær og ræddum um okkar reynslu á talningarstað þann 27. apríl síðastliðinn. Við ræddum um framkvæmdina á talningarstaðnum og athuguðum hvort hún stæðist lög. Við vissum af ýmsum atriðum áður en töldum þau vera lítilvæg þar til við bárum saman bækur okkar. Þar komum við auga á grafalvarleg atriði er varða framkvæmdirnar og sáum ekki annan siðferðislegan kost en að leggja fram kæru, hvort sem það væri í okkar eigin nafni eða Pírata.

Helstu atriðin voru þau að verklagið var mismunandi á milli kjördæma og í mörgum tilfellum jafnvel gegn lögum. Í Suðurkjördæmi voru dyrnar jafnvel opnaðar nokkrum sinnum, í hvert skipt í að minnsta kosti stundarfjórðung, þrátt fyrir ákvæði laga um kosningar til Alþingis um að meðhöndlum atkvæða fyrir lok kjörstaða skuli vera fyrir luktum dyrum. Í sama kjördæmi voru atkvæði jafnvel talin fyrir lok kjörstaða þrátt fyrir ákvörðun Hæstaréttar Íslands um að það væri stranglega bannað. Þá voru lyklar jafnvel festir við kjörkassana í flutningi þeirra á talningarstað, sem er skýrt brot á kosningalögum.

Þá var vikið að ófullnægjandi innsiglum en í besta falli eru þau alger brandara þar sem þau eru nokkuð einföld í framleiðslu. Auk þess er nokkuð auðvelt að fjarlægja þau án þess að þau skilji eftir sjáanleg ummerki. Í nokkuð mörgum tilvikum í Suðurkjördæmi var alls ekkert innsigli yfir raufinni á kassanum, sem enn og aftur er skýrt brot á kosningalögum.

Í Reykjavíkurkjördæmunum voru atkvæðaseðlarnir ekki taldir úr kjörkössunum áður en þeim er blandað saman eins og tilgreint er í 99. gr. kosningalaga. Það var hins vegar gert í Suðurkjördæmi. Þetta uppgjör var framkvæmt í Reykjavíkurkjördæmi Norður en ekki fyrr en yfirkjörstjórnin taldi að talningu væri lokið. Þar kom í ljós að það vantaði yfir 300 atkvæði og þá var komist að því að það gleymdist að hella úr einum kjörkassanum og við tók flokkun og talning á innihaldi hans. Flokkunarfólkið var farið heim og þurftu því aðrir starfsmenn ásamt yfirkjörstjórn að sjá um flokkunina. Slíkt hefði ekki gerst ef uppgjörið hefði farið fram jafnóðum eins og kosningalög gera ráð fyrir. Rökfræðilega er ekki hægt að framkvæma slíka könnun á áreiðanlegan hátt nema með talningu úr kjörkössum. Það er auðvitað fræðilega hægt að framkvæma grófa könnun eftir á en samanburður við kjörbækur undirkjörstjórna yrði ekki eins áreiðanlegur og lögin kveða á um. Ef atkvæðaseðlar týnast er engin leið að vita frá hvaða kjörstað vantaði atkvæði, sérstaklega fjöldi þeirra er mikill, ef eina uppgjörið fer fram eftir að talningu er lokið.

Það var því niðurstaða hópsins að það sé betra upp á kosningaframkvæmdina í framtíðinni að verklagið sé í samræmi við lög í öllum kjördæmum og að það séu til betri varnir gegn kosningasvindli og kosningamistökum. Enn fremur þarf að bæta lögin sjálf og framkvæma í samræmi við þær breytingar.

Tvö réttindamál komin í ferli

Ræsti tvö réttindamál í dag.

Fyrra málið er ræst með óvenjulegu móti. Þar sendi ég játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að ég hafi tekið þátt í bingóstarfsemi föstudaginn langa, en slík starfsemi er ólögleg á þeim degi. Framfylgni laganna af hálfu lögreglu er nokkuð mismunandi eftir landshlutum og eftir því hver kvartar. Með játningunni neyðist lögreglan til að rannsaka málið af alvöru og taka ákvörðun hvort hægt sé að sækja mig til saka eða ekki fyrir það sem ég gerði. Óháð úrslitum málsins er komin betri sýn á hvað getur kallað á aðgerðir lögreglu og hvað ekki.

Hitt málið snýr að því að ég vil gera tilraun til þess að fella út ‚Lúthersson‘ úr nafninu mínu þannig að það verði eingöngu Svavar Kjarrval. Í því máli notfæri ég mér svokallaðan Blævar-dóm en það var niðurstaðan sú að nafngjafir falla undir stjórnarskrárákvæðið um friðhelgi einkalífs og því ekki hægt að takmarka þær nema undir þröngum skilyrðum sem ég tel að eigi ekki við í þessu máli.

 

Vantrúarbingó - játning til lögreglu

 

Nafnbreyting (fella út kenninafn)

 

Þar sem Þjóðskrá Íslands hefur ekkert eyðublað fyrir það sem ég vildi gera ákvað ég að rita yfirlýsingu með upplýsingunum sem stofnunin myndi biðja um ef þetta væri eðlileg beiðni.

Er ekki lengur flokksbundinn Auða flokknum

Nú hef ég greitt atkvæði í öllum sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum síðan ég fékk kosningarétt og í öll skipti nema eitt hef ég skilað auðu. Merkingin á bakvið auða atkvæðið er sú að einstaklingurinn sýni að hann hafi fullan áhuga á að kjósa en enginn þeirra sem eru í boði eiga, að mati kjósandans, það skilið að hljóta atkvæði hans.

En núna er loksins kominn stjórnmálaflokkur sem ég mun styðja með atkvæði mínu: Píratar.

Í fleiri ár vissi ég af erlendum samtökum pírata erlendis og óskaði eftir að álíka flokkur myndi bjóða sig fram hér. Því varð ég nokkuð ánægður þegar ég heyrði frásagnir um að stofna ætti slíkan flokk hér á landi. Ekki nóg með það, ég reyndi að aðstoða eftir því sem minn einhverfi líkami leyfði mér og varð stofnmeðlimur. Síðan þá hef ég mætt á marga fundi og kynnst ágætum fjölda af vel þenkjandi fólki. Það kom mér annars ekkert á óvart að sjá marga sem ég hafði kynnst áður á lífsleiðinni.

Rætur pírata eru þær að verið er að mótmæla ígripum „hagsmunaaðila“ sem hafa hingað til fengið sitt í gegn með óheiðarlegum hætti og réttur hins almenna borgara laut almennt lægra haldi. Píratar um allan heim eru að reyna að sporna við þeirri óhappaþróun síðastliðnu áratugi með því að veita borgurum eitt besta vopn sem hægt er að beita: réttinn til að fá upplýsingar og miðla þeim áfram. Með þeim getur almenningur fengið tækifæri til að taka upplýstari ákvarðanir en áður og haft meiri að segja um ákvarðanir sem varða hann sjálfan.

Ætlun mín var þó eingöngu að hjálpa til í stöðu sem nyti ekki mikillar athygli og hafði ekki áhuga á framboði. Einn daginn tók ég á móti tímamótandi símtali þar sem ég var hvattur til að setja nafn mitt í kosningu fyrir framboðslista, sem ég gerði. Og núna er ég í 6. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Pírata. Þróunin getur verið nokkuð hröð. Fyrir nokkrum mánuðum hafði ég engan áhuga á neinum einstökum stjórnmálaflokki og núna er ég í framboði fyrir einn þeirra.

Dagur einhverfra í dag

Í dag, 2. apríl, er dagur einhverfra og hefur Mamiko Dís gefið út lagið Skrýtin í tilefni dagsins.

Texti lagsins er nokkuð áhugaverður og snertir á mikilvægu atriði sem einstaklingar á einhverfurófinu þurfa að ganga í gegnum. Margir setja á sig andlega grímu sem gengur út á það að fela fyrir öðrum hvernig maður hagar sér náttúrulega. Tilgangurinn er einfaldur: að blekkja aðra til að halda að maður sé eins og allir aðrir.

Eitt af því sem fólk á einhverfurófinu er hrætt við er að vera álitið öðruvísi en annað fólk og fá mikla neikvæða athygli. Sumir á einhverfurófinu forðast af þeirri ástæðu að gera hluti sem gætu leitt til athygli því hún gæti orðið slæm, og stundum gengur það svo langt að viðkomandi reynir að einangra sig frá öllum samskiptum við aðra.

Hluti af boðskap lagsins er að kynna fyrir fólki að það er í lagi að vera skrítið. Væru allir eins myndi lífið vera nokkuð leiðinlegt. Ef eitthvað, þá þurfum við meira skrítið fólk og þótt því sé erfitt að trúa, þá eru margir sem laðast að því sem er öðruvísi. Alveg eins og fólk sækist í sjaldgæfa hluti, þá gildir það sama um persónueinkenni. Samkvæmt því græðir fólk félagslega á því að vera skrítið.

Eftir hverju ertu að bíða, vertu skrítin(n) frá og með núna!

Framselja má íslenskum ríkisborgurum til útlanda, og ekkert gert í því

Breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vöktu bæði gleði og ollu líka vonbrigðum. Gleðin fólst í að upplýsingarétturinn var færður úr annari kynslóðinni í þá þriðju. Hin vonbrigðin fólust í algerri endurvakningu tjáningarfrelsisákvæðisins (14. gr.) í það ástand sem stjórnlagaráð sendi frá sér og hin varðandi framsaldsheimildir. Sé breytingartillagan samþykkt mun vera heimilt að skerða tjáningarfrelsið „til verndar börnum“. Þetta orðalag fær mig til að skjálfa enda er gríðarlega margt réttlætt með beitingu slíkra raka, hvað þá þegar það er leyft beint í stjórnarskránni. Ef því hefði verið breytt til baka og barnaundanþágan fjarlægð hefði ég verið ánægður.

Síðan er það eitt sem minnkar traust mitt á nefndum Alþingis en það virðist vera áhugaleysi þeirra á að lesa umsagnir almennings eða í það minnsta trega þeirra til að taka mark á þeim. Þrátt fyrir að hafa bent stjórnlagaráði á þetta tiltekna atriði ásamt því að hafa tekið það fram í umsögnum um frumvarp stjórnlagaráðs og nú seinast vegna frumvarps stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þá virtist enginn hafa áhuga á að bæta úr þessum augljósa og hættulega galla.

Hver er téður galli? Núverandi stjórnarskrá, frumvarp stjórnlagaráðs og frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar koma ekki í veg fyrir framsal íslenskra ríkisborgara til útlanda. Ég er ekki einn um að slíkt framsal sé mögulegt stjórnskipunarlega séð, enda nefndi Björg Thorarensen það fram í bók sinni um mannréttindakafla núverandi stjórnarskrár að stjórnarskráin kæmi ekki í veg fyrir slíkt. Hvorki stjórnlagaráð né nefndir Alþingis lögðu fram tillögur um að bæta úr þessu. Þó engin vernd sé í stjórnarskránni er slík vernd í almennum lögum en gildir þó ekki um framsal meðal nokkurra Norðurlanda. Í sömu lögum er valkvæmt hvort ráðherra heimili endurframsal eða ekki.

Í umsögn minni lagði ég fram þá tillögu að framsal ætti að vera algerlega bannað til ríkja sem viðhafa dauðarefsingu. Nú veit ég ekki hvort hugmyndin sé fengin úr minni umsögn eða einhvers annars en það er gott að hún er komin. En það er einn galli á gjöf Njarðar: ákvæðið gildir eingöngu um útlendinga. Í staðinn fyrir að tilgreina að slík framsöl séu algerlega bönnuð, fyrir alla, er ákvæðinu skellt í greinina um útlendinga og tiltekið sérstaklega að eingöngu sé átt við þá. Af hverju mega Íslendingar ekki njóta þessarar verndar líka?

Það væri afar fróðlegt annars að vita af hverju tillögur mínar um bann á framsali íslenskra ríkisborgara er hafnað. Aðallega hvort ástæðan sé sú að þau trúi mér ekki, umsagnir mínar hafi verið illa lesnar eða alls ekki lesnar. Ef svarið var á þá leið að fólkið í nefndinni var of upptekið, þá var greinilega ekki kominn tími á að afgreiða frumvarpið úr nefndinni. Ég meina, þetta var nokkuð skýrt tekið fram í umsögninni minni. Til hvers er maður að skrifa umsagnir ef þær eru svo hunsaðar?

Gamalt erindi frá innanríkisráðuneytinu

Var rétt í þessu að taka á móti bréfi frá innanríkisráðuneytinu vegna erindis sem ég sendi 2. nóvember 2011. Já, árið er ritað rétt, tvö þúsund og ellefu. Titill þess tengist innihaldi annars bréfs sem ég sendi afrit af til innanríkisráðuneytisins.

Forsagan er þessi tölvupóstur sem ég sendi kl. 16:18 þann 2. nóvember 2011:

Daginn.

Í 1. gr. reglugerðar 1025/2011 er sagt að nafnasvæði þjóðskrár sé 31 stafbil. Vil ég minna ráðuneytið á að skv. álitum Umboðsmanns Alþingis stenst sú takmörkun ekki lög (mál 931/1993 og mál 5334/2008).

Vil ég því formlega áminna ráðherra fyrir að samþykkja reglugerð sem brýtur í bága við landslög.

Svar óskast.

Með kveðju,
Svavar Kjarrval

Þetta er bréfið sem ég fékk nú í dag:

Innanríkisráðuneytinu barst tölvupóstur á netfangið postur@irr.is þann 2. nóvember sl., þar sem þú áminnir ráðherra fyrir að samþykkja reglugerð, sem að þínu mati, brýtur í bága við lög. Málið fór strax á þann farveg að þann 23. nóvember 2012 sendi starfsmaður ráðuneytisins þér tölvupóst þar sem sagði að ábendingunni yrði komið á framfæri. Vegna jólahátíðarinnar og mikilla anna í ráðuneytinu biðjumst við velvirðingar á að afgreiðsla erindisins, hefur dregist á langinn. Úr því verður bætt, við fyrstu[sic] hentugleika.

Erindið hefur greinilega týnst svo lengi í kerfinu að starfsmaðurinn sem samdi bréfið gerði ekki ráð fyrir öðru en að það hafi verið frá 2012. Þetta stenst annars við það sem ég hef heyrt um að málakerfi ráðuneytanna hafa ekki þann möguleika að raða erindum eftir því hversu langt síðan þau eru.

En annars sendi ég einfalda upplýsingabeiðni þann 14. nóvember s.l. Ég ætla þá ekki að gera ráð fyrir að hún verði afgreidd fyrr en 2014.

Ögmundur og klámforsjárhyggjan

Í viðtali í Harmageddon nefndi Ögmundur innanríkisráðherra að tilgangurinn með klámfrumvarpinu væri að vernda börnin gegn því að sjá klám. Hugsið-um-börnin-afsökunin notuð að fullu enda eru ekki margir sem vilja taka þann slag. Einnig á það að sporna gegn eftirspurn eftir klámi þar sem mansali er beitt.

Hið fyrra er örugglega hægt að bregðast við með endurbættum barnaverndarlögum og það gengur ekki svo langt að hindra aðgengi sjálfráða einstaklinga að því sem kallað er klám. Í seinna tilvikinu, að í staðinn fyrir að mæla með smíði frumvarps þar sem efni framleitt með mansali er bannað, þá fer hann út í það sem hann skilgreinir sem klám og biður nefnd að breyta skilgreiningunni á klám og mæla með auknum heimildum lögreglu til að stöðva það.

Hvernig er annars hægt að dæma hvort klám sé unnið af einhverjum sem gerir það af nauðung eða ekki? Er ætlunin að nota hugtök klámiðnarins og ákveða að einhver sem gerir hitt eða þetta getur ekki verið að gera það með fúsum og frjálsum vilja? Eða er ætlunin að banna það sem telst mainstream klám eða eingöngu tilteknar tegundir myndbanda eins og þegar einhver er augljóslega í kynferðislegri stöðu sem hann vildi ekki vera í? Hvernig á að skilgreina hvað sé nauðung og hvað ekki? Þetta er því miður óljóst á þessari stundu.

Síðan ætti Ögmundur að gera sér grein fyrir því að fólk hefur mismunandi skilgreiningu á orðinu klám og hefur hann líklegast vitað það allan tímann. Í viðtalinu virtist hann fullviss hvað hann telji vera kynlíf og hvað teljist klám en þykist samt ætla að vera hlutlaus í því máli. Í núverandi lagaframkvæmd er rætt um erótík og klám þar sem hið fyrra er leyfilegt en hið síðarnefnda ekki. Mörkin hafa tekið breytingum seinustu áratugi eftir dómum Hæstaréttar hverju sinni. Ögmundur valdi að skilgreina mansalsvandamálið í þennan efnisflokk líklegast því klám er talið tabú og þannig byrja ritskoðunartillögur alltaf. Þegar öll ritskoðunartólin eru komin byrjar fólk venjulega að hugsa „af hverju ekki að hindra annað sem telst ólöglegt á þennan hátt?“.

Með baráttu gegn slíkum ritskoðunartilburðum er verið að koma í veg fyrir að þau tól séu til staðar. Einnig eru mýmörg dæmi um það að til dæmis netsíur sem eingöngu eiga að sía barnaklám, er einnig viljandi síað annað efni sem kemur barnaklámi ekkert við og líklegast ratað inn á ritskoðunarlistann af pólítískum ástæðum. Þá stendur eftirfarandi í grein DV þar sem vitnað er í minnisblað Ögmundar:

Hópnum er gert að taka til sérstakrar skoðunar möguleg úrræði sem heimila lögreglu að knýja eiganda, hýsingaraðila eða fjarskiptafyrirtæki til að loka á dreifingu efnis, þ.m.t. efnis sem hýst er erlendis og/eða hýsingaraðili er óþekktur.

Þegar þessum hugmyndum er mótmælt ásakar hann aðra um þöggun umræðunnar, sem er auðvitað alls ekki málið, heldur er eingöngu mótmælt ritskoðuninni sjálfri en ekki umræðunni. Ögmundur þvertekur fyrir það að fyrirhugað frumvarp sé ritskoðun og sakar þá sem mótmæla því að vera í hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn. Svo virðist vera að hindrun á tjáningu sem Ögmundi líkar er ritskoðun en slíkt eigi ekki við um efnið sem hann er ósáttur með. Ritskoðun er ritskoðun, sama hver sé tilgangur hennar eða markmið. Sé ritskoðun með þessari aðferðafræði samþykkt er komið verkferli og sé ég alveg fyrir mér að innan nokkurra ára munu rétthafasamtökin heimta lokun á fleiri síðum og nefna að slíkt sé ekki erfitt þar sem tólin til þess séu til staðar.

Þetta lyktar meira að segja allt af pólítískum leik hans í von um meiri umfjöllun. Nú hefur hann fengið mikið af viðtalsbeiðnum og fréttir birtar þar sem hann er í forsvari fyrir eitthvað mál sem ákveðnir þjóðfélagshópar elska líklegast. Hann hefur örugglega haft nægan fjölda tækifæra á kjörtímabilinu til að koma verkefninu af stað og jafnvel fylgja því eftir á Alþingi, en einhverra hluta vegna er það eingöngu sett af stað núna rétt fyrir kosningar. Þá er auðvitað ágætt að íhuga að ráðstefnan sem hann hélt um klám var haldin 16. október 2012, fyrir 3 mánuðum síðan, en það er ekki fyrr en núna sem hann útdeilir verkefninu. Það er ekki svo mikið mál að deila út slíku verkefni sé málið eins mikilvægt og ráðherra telur það vera. Þetta er líklegast kosningaspil og ég er því miður hræddur um að hann muni fylgja þeim tillögum refsiréttarnefndar ef hann heldur áfram sem innanríkisráðherra eftir kosningar núna í ár, enda er pólítískt erfitt fyrir hann að hunsa tillögu nefndar sem hann skipaði sjálfur að eigin frumkvæði.

Vinsælar rökvillur hjá Ögmundi virðast vera persónuníð, strámaður og afvegaleiðing. Þið getið örugglega fundið fleiri ef þið leitið.

Kirkjujarðapælingar

Nokkrar fréttir hafa verið birtar í kjölfar færslu minnar sem innihélt svar við upplýsingabeiðni minni varðandi kirkjujarðirnar sem samið var um 1997. Mér þykir nokkuð gott að Morgunblaðið, mbl.is og Smugan hafi sýnt áhuga á málinu. Umfjöllun miðlanna, séu þær réttar, koma bæði á óvart og ekki á óvart. Til dæmis hafa tölur um 29 milljarða greiðslur (að núvirði) ekki verið teknar saman áður og setur upphæðirnar í samhengi.

Og þá eru hin svokölluðu félagsgjöld (sóknargjöld) ekki tekin inn en þær greiðslur (þær eru skilgreindar í útfærslu annars samnings frá 1998 sem á að vera nánari útfærsla samningsins 1997). Samtals hafa sóknargjöld í fjárlögum 1998 til 2013 verið um 27 milljarðar (ekki núvirt) en þá eru tekin inn sóknargjöld til allra trúfélaga. Það er augljóst að sóknargjöld til annarra trúfélaga voru til málamynda enda gat ríkið ekki réttlætt greiðslu þeirra til Þjóðkirkjunnar eingöngu og því eru sóknargjöld til annarra afleiðing þess. Eitt besta dæmið um það er að á hverju ári sem bráðabirgðaákvæði er sett til að lækka greiðsluna er eingöngu samið við Þjóðkirkjuna en ekki hin trúfélögin. Annað dæmi um að þetta séu ekki félagsgjöld er að fólk skráð utan trúfélaga þarf samt sem áður að greiða jafnmikið í ríkissjóð og einhver sem greiðir sóknargjöld og hefur nákvæmlega sömu tekjur. Séu þau í alvöru félagsgjöld ætti fólk utan trúfélaga að fá endurgreiðslu sem þeim nemur eða sóknargjöld skilgreind sem nefskattur sem eingöngu fólk skráð í slík félög ætti að greiða. Því er augljóst að sóknargjöld eru ríkisstyrkir en ekki félagsgjöld nema ríkið vilji játa brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Það hefur lengi verið augljóst að jarðasamningurinn var nokkuð óhagstæður fyrir ríkið, það hefði fólk átt að sjá áður en hann var samþykktur á Alþingi á sínum tíma. Enginn þingmannanna sem greiddu atkvæði kusu að hafna honum þrátt fyrir að sumir hafi talað fyrir því að hann væri afar óhagstæður fyrir ríkið. Einhverjir sem töluðu sérstaklega á móti honum enduðu á því að samþykkja hann, sem hljómar rosalega mótsagnakennt, og meðal þeirra var núverandi forsætisráðherra. Af hverju atkvæðin fóru samt á þann veg yrði bara ágiskun af minni hálfu.

Eftir því sem málið er rannsakað meir og meir koma upp fleiri og fleiri spurningar, sem ég ætla að reyna að bera hér fram í pælingarformi:

 1. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu hefði þurft að rannsaka eignarhald og sögu þeirra jarða sem samkomulagið náði yfir. Af hverju var það ekki gert? Er ekki eðlilegt að ríkið, áður en það kaupir jörð, viti örugglega hver á jörðina með réttu? Með allan þennan fjölda jarða, sem ekki er vitað nákvæmlega hverjar voru, hverjar voru líkurnar á að ríkið var að kaupa jörð sem það átti þá þegar? Hvað um einfaldlega að staðfesta að kirkjan ætti löglega það sem hún var að selja? Engin afsöl fylgdu gildistöku samningsins sem þýðir að eignarhaldið er enn óljóst.
 2. Samkvæmt þágildandi lögum um fasteignamat (lög nr. 94/1976) átti slíkt mat að fylgja öllum jörðum (með nokkrum undantekningum). Af hverju var ekki leitað í þá skrá og í það minnsta fengið út virði jarðanna sem höfðu slíkt mat? Í það minnsta hefði slík uppfletting verið góð byrjun á slíku mati, enda voru slík fasteignamöt lögbundin á sínum tíma.
  Í sömu lögum er sú skylda á hinu opinbera að nota skrána (í 15. gr.) í öllum verðmætaviðskiptum þegar slíkt á við. Jafnvel þótt það lægi ekki fyrir vegna einstakra jarða bar ríkinu skylda að sjá til þess að eitthvað verðmætamat yrði framkvæmt, í það minnsta af siðferðislegum ástæðum. Slíkt er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða svo háar skuldbindingar.
 3. Af hverju fór ríkið ekki þá leið að semja um fasta upphæð sem yrði greidd öll í einu eða í áföngum? Óháð upphæðinni sem um ræðir í samningnum, þá er rökrétt að ætla að á endanum greiðir ríkið kirkjunni miklu meira en virði jarðanna. Hvort það sé búið að gera það nú þegar eða ekki er óvíst, enda fylgja engar upplýsingar um hvaða tekjur ríkið hafði af samningnum, ef einhverjar.
 4. Pæling 3 leiðir af sér spurninguna: Hvaða hag hafði ríkið af þessum samningi?
  Ekkert sem lagt var fram við meðferð samningsins á Alþingi benti til þess að ríkissjóður myndi bera fjárhagslegan hag af þessum samningi. Það vekur auðvitað upp spurningar af hverju fjármálaráðuneytið gagnrýndi ekki samninginn á þeim forsendum og á forsendum upplýsingaskorts. Það er rétt að ráðuneytið nefndi að ekki lægju öll gögn fyrir en hér er um að ræða svo stórar breytur að þær ættu skilið sérstaka gagnrýni. Af hverju samþykkti Alþingi samninginn á sínum tíma þegar það var augljóst að það hallaði á hag ríkisins í honum?
  Samkvæmt útreikningum Jóhönnu Sigurðardóttur sem hún gerði varðandi samninginn, og nefndi í ræðu sinni um samninginn nefndi hún að 20 jarðir hafi selst á árunum 1984-1996 og fengist 71 milljón króna fyrir þær. Samt sem áður voru árlegar greiðslur áætlaðar miklu hærri sem þýðir að það er öruggt að hagnaðurinn sé langt frá því talinn vera í jarðasölu eingöngu. Auk þess er rökrétt að ætla að takmarkaður fjöldi jarða gæti ekki staðið einar og sér undir greiðslunum, nema virðið væri það hátt að ríkið gæti selt þær á nógu háu verði að það geti lagt söluverðið í sjóð og greitt úr honum og þar að auki fengið hagnað sjálft þegar rekstrarkostnaður væri tekinn með.
  En hvað um leigutekjur eða jafnvel aðrar tekjulindir? Ekkert er minnst á slíkt í greinargerð frumvarpsins eða í umsögn fjárlagastofu. Þær komu heldur ekki fram í þeim skjölum sem fjárlagastofa hafði undir höndum, sbr. þau skjöl sem ég fékk vegna téðrar upplýsingabeiðni.
 5. Segjum að virðið sé það mikið að tekjurnar dekki greiðslur vegna samningsins nokkuð auðveldlega. Af hverju gerði kirkjan þá þennan samning? Þá hefði verið augljóst að hún hefði frekar átt að sleppa ríkinu og einfaldlega afla teknanna sjálf af jörðunum, t.d. með sölu þeirra, leigu eða nýtingu. Hún sagðist enn eiga jarðirnar sem þá voru „í umsjá ríkisins“ síðan 1907 og hefði hún getað höfðað dómsmál til að fá þær aftur formlega.
  Slíkt tekjufyrirkomulag var reynt árið 1907 með prestlaunasjóði þar sem selja átti jarðir kirkjunnar, laun prestanna greidd af vöxtum sjóðsins og landsjóður greiddi það sem vantaði upp í þau. Allir sjóðir tengdir því fyrirkomulagi fóru endanlega á hausinn árið 1919. Árið 1997 var greinilega ákveðið að gera aðra tilraun en í það skipti var ákveðið að sleppa formlegheitunum að hafa sérstakan sjóð um launagreiðslurnar og nota í stað ríkissjóð, enda er það augljóst að jafnvel jarðasala seinustu 12 áranna á undan hefði aldrei staðið undir launagreiðslum nema fyrir nokkra mánuði, hvað þá undir fyrirkomulagi að standa undir launagreiðslunum á vöxtunum einum.
  Þetta bendir til þess að málin voru ekki augljós á þeim tíma, hvort sem það varðaði eignarhald eða möguleika jarðanna til að standa undir slíku fyrirkomulagi. Jarðirnar virðast hafa verið aukaafurð í samkomulaginu og að um væri að ræða málamyndarsamkomulag árið 1997 til að tryggja stöðu og völd Þjóðkirkjunnar sem ríkiskirkju.
 6. Nú höfum við þann kost að geta metið stöðuna aftur í tímann. Nú er komið á 15. ár frá því að samningurinn var samþykktur og tími til að endurskoða hann skv. samningsákvæðum þaraðlútandi. Ríkið hlýtur að hafa framkvæmt, eða er að framkvæma, mat á því hvort það hafi hagnast af þessum samningi eða tapað og um hversu stórar fjárhæðir er að ræða. Það væri afar áhugavert að sjá þær tölur. Hins vegar hef ég mínar efasemdir þar sem jarðalistinn er ekki einu sinni á borði fjármálaráðuneytisins og ríkið hefur enn ekki hugmynd hvert virði þeirra er eða jafnvel nákvæmlega um hvaða jarðir er að ræða, þrátt fyrir að hafa átt þær með formlegum hætti í næstum 15 ár.