Þjóðin á stjórnlagaþing

Hugmyndin um að endurskoða stjórnarskránna er alls ekki ný af nálinni. Það var stuttu eftir stofnun lýðveldisins sem því verkefni var hleypt af stað að framkvæma heildstæða endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldsins. Ástæðan var fyrst og fremst sú að hér var um að ræða þýðingu á stjórnarskrá Dana sem Kristján 9. afhenti Íslendingum árið 1874 og var því aldrei um að ræða stjórnarskrá Íslendinga. Margar nefndir hafa verið skipaðar síðan 1944 en aldrei hafa þær klárað verkið.

Nú er hefur þjóðin loksins fengið spilin í sínar hendur og í þetta sinn er enginn Trampe greifi að setja fram afarkosti eins og á Þjóðfundinum 1851. 522 einstaklingar eru í framboði til stjórnlagaþings og hafa þeir ólíkan bakgrunn. Valið á milli þeirra er alls ekki létt og á fólk það oft til að velja eingöngu það fólk sem það þekkir þá þegar. Ég vil hins vegar hvetja alla til að reyna að velja sem flesta á kjörseðilinn og miða við að velja að lágmarki 10 manns.

Ýmis réttlætismál munu örugglega vera tekin á dagskrá hjá stjórnlagaþinginu en niðurstaðan mun fara eftir þeim hóp sem verður kjörinn á þingið. Kjörsókn mun hafa áhrif á það hversu alvarlega Alþingi mun taka niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Það er því mikilvægt að þeir sem sitja á þinginu endurspegli þjóðina sem best. Vil ég því hvetja alla til að hafa áhrif á hverjir komast inn og kjósa næsta laugardag.

Aðferð til að velja frambjóðendur

Mér fannst rétt að deila með ykkur þeirri aðferð sem ég mun líklegast beita til að velja þá frambjóðendur sem skipa listann minn.

Setja upp lista yfir frambjóðendur
Hægt er að prenta út lista yfir frambjóðendur eða merkja í rafræna útgáfu. Frambjodendur.is býður upp á að flokka frambjóðendur í hópana ‚já‘, ‚kannski‘ og ‚nei‘ og mun ég miða við þá flokka.

Nýta vinnu annarra
Ef eitthvað hitamál skiptir þig miklu máli er ekki svo vitlaust að athuga hvort einhver hafi safnað saman lista yfir þá sem eru á móti því. Í mínu tilviki gagnaðist rauði listinn á aðskilnaður.is mér mikið. Þeir sem eru algerlega á móti aðskilnaði geta útilokað frambjóðendur á græna listanum.

Þeir sem þú vilt kjósa
Merktu inn þá sem þú vilt örugglega kjósa með ‚já‘ og settu ‚kannski‘ við þá sem þú ert ekki öruggur um en koma til greina. Það sama gildir um að setja þá sem þú veist að þú vilt alls ekki í ‚nei‘ flokkinn.

Nota sigtið
Eitt tól sem hefur gagnast mér nokkuð vel er Sigtið. Þar er hægt að vita hvaða frambjóðendur svöruðu á ákveðinn hátt og útiloka þá. Vægi svaranna er samt mismunandi en sum svörin skipta meira máli en önnur. T.d. útilokaði ég þá sem svöruðu að þeir væru hlynntir ákvæði í stjórnarskrá um þjóðkirkju á Íslandi. Þegar ég hef farið yfir þá frambjóðendur sem koma upp við hvern svarmöguleika passa ég mig á að setja hann aftur á tóma svarið áður en ég fer á næstu spurningu. Því miður birtist takmarkaður fjöldi frambjóðenda en þetta er betra en ekkert.

Þó einhver frambjóðandi svari einhverju sem er er á útilokunarlistanum þínum er ágætt að athuga hvort önnur svör hans séu í samræmi við skoðanir þínar. Þú gætir sent frambjóðandanum tölvupóst og spurt hann nánar um málefnið. T.d. svaraði einn þeirra að hann hafi valið rangan svarmöguleika og fór hann því á ‚já‘ listann minn.

Fræðast um frambjóðendur
Eftir að hafa beitt grófri aðferð til að útiloka frambjóðendur er ágætt að byrja að fræðast um þá sem eru ekki komnir í neinn af þessum þrem flokkum. Oftast nær dugar að velja eina grein eftir frambjóðandann og sjá hvort hann sé með öllum mjalla. Ein önnur leið er að athuga stuðningssíðu hans á Facebook og sjá hvort þar sé eitthvað sem mætti flokka hann eftir. Listi yfir Facebook síður þeirra er í boði undir þessu léni.

Forgangsröðun
Nú ertu búinn að fara í gegnum fyrstu umferð í gegnum frambjóðendurna. Þá er ágætt að fara fljótt í gegnum ‚kannski‘ listann og sjá hvort einhver þeirra eigi skilið að fara yfir í ‚já‘ listann. Eina sem er eftir er að raða þeim sem eru á ‚já‘ listanum í þá röð sem þú vilt sjá þá á stjórnlagaþingi. Efstu 25 eru þeir aðilar sem þú ættir að setja á kjörseðilinn. Ef þeir eru færri, vertu óhræddur, þú mátt setja færri en 25 á kjörseðilinn. Einnig geturðu farið út í að fræðast meira um fólkið á ‚já‘ listanum með því að fara á Facebook síður þeirra og sjá hvort þar sé eitthvað sem myndi færa þá yfir á annan lista.

Nokkur atriði um kjörið

  • Það tekur styttri tíma að kjósa ef þú hefur tekið saman auðkennistölur þeirra sem þú vilt kjósa fyrir fram.
  • Þér er óhætt að kjósa vinsælan frambjóðanda í fyrsta sæti.
  • Röðin sem þú raðar frambjóðendum í skiptir máli.
  • Atkvæði þitt gagnvart hverjum frambjóðanda minnkar ekki í vægi þótt þú veljir aðra á eftir honum.
  • Það gagnast ekki að skrifa frambjóðanda oftar en einu sinni á kjörseðilinn. Það mun jafnvel ógilda seinna valið og allt annað val fyrir neðan það.

Framboðsræða mín á fundi Stjórnarskrárfélagsins 20. okt. 2010

Góðu áheyrendur.

Svavar Kjarrval Lúthersson heiti ég og er frambjóðandi til stjórnlagaþings 2011. Ég vil þakka Stjórnarskrárfélaginu fyrir að veita mér þetta tækifæri til að kynna framboð mitt til stjórnlagaþings. Óhætt er að segja að baráttumálin mín séu mörg og fjölbreytt en vegna tímaskorts neyðist ég til að stikla á stóru.

Fyrst og fremst tel ég að bæta þurfi mannréttindakaflann. Bæta þarf núverandi ákvæði eins og t.d. tjáningarfrelsið sem í dag hefur 6 víðar undanþágur sem setja má með lögum. Til samanburðar vil ég nefna að Mannréttindasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna, sem Ísland skuldbatt sig til að fara eftir, gefur ekki færi á undanþágum. Einnig tel ég að uppfæra þurfi kaflann til að innihalda mörg önnur réttindi eins og þau sem tengjast stafrænu öldinni.

Breytingar á stjórnskipun ríkisins skipta mig einnig miklu máli og vil ég koma á betri skiptingu ríkisvalds. Jafnvægið milli þeirra þarf að bæta gríðarlega til að hver grein ríkisvaldsins sé ábyrg gagnvart hinum en þó án þess að tapa sjálfstæði sínu. Ein stærsta breytingin á þessu yrði aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Því væri hægt að ná með því að losna við flokksræðið og með því að ráðherrar séu ekki valdir meðal þingmanna. Hver og einn fulltrúi þjóðarinnar sé valinn beint af þjóðinni en ekki með tilstilli flokks sem mun áfram hafa völd yfir þeim einstaklingnum. Með þessu yrði hver og einn fulltrúi ábyrgari gagnvart kjósendum sínum en í dag og geta því eingöngu náð áfram á eigin verðleikum.

Eins og Ólafur Ragnar Grímsson nefndi fyrir nokkrum árum, þá er gjá milli þings og þjóðar. Mikilvægt er að fulltrúar okkar séu í raun og veru að starfa fyrir þjóðina en ekki vegna sérhagsmuna. Ríkið á ekki að vera ‚þeir‘ heldur ‚við‘. Við eigum að vita hvað er að gerast hjá þeim sem eru að vinna fyrir okkur. Með auknu gagnsæi og upplýsingaflóði má fylla vel upp í gjána í þeirri von að hún hverfi alveg eða verði svo lítil að hún skiptir varla máli.

Ég tel mikilvægt að það komi fram að þessar breytingar eru engin töframeðöl. Það mun taka bæði tíma og erfiði að leiðrétta mistök fortíðarinnar. Stjórnlagaþingið er mikilvægt skref í átt að þeim breytingum en hversu langt verður farið mun velta á því hvaða frambjóðendur þjóðin velur í verkið. Valdið er hjá þjóðinni.

Takk fyrir.

Helstu baráttumálin mín útskýrð nánar

Í framboðsyfirlýsingu minni tók ég fram helstu baráttumál mín á stjórnlagaþingi ef ég næði fram kjöri. Nú vil ég hins vegar skýra nánar þessi atriði svo þetta séu ekki eingöngu margræð stikkorð.

Fyrsta baráttumálið var betri skipting ríkisvalds en sú hugmynd var nánar útskýrð í samnefndri grein minni. Í stuttu máli felur hún í sér að aðskilja betur löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið þannig að um sé að ræða tvær mismunandi greinar ríkisvaldsins. Í greininni var þó lítið fjallað um dómsvaldið en í því tilfelli þarf aðeins sterkari tengingu á milli. Til að þrískipting valdsins gangi upp sbr. hugmyndafræðina þarf að vera jafnvægi milli allra greina valdsins en tengslin við dómsvaldið eru þannig að það hefur yfirhöndina. Hugmyndin er þó ekki að gefa hinum vald til að breyta dómum eða hafa óeðlileg áhrif á þá heldur gefa þeim aðhald svo þeir dæmi ekki út í bláinn eða eftir eigin geðþótta.

Við, ríkið
Í umræðum síðastliðin ár hefur bilið milli ríkisins og afgangnum af þjóðinni farið stækkandi. Kjósendur munu þá missa trúna á að ríkið sé að starfa fyrir þjóðina og óhlýðnast boðum þess (t.d. lögum). Háir skattar valda því að fólk er tregt til að tilkynna tekjur sínar til ríkisins og vinna svarta vinnu. Hið augljósa er að ríkið á að vinna fyrir okkur, ekki sjálft sig, og ákvarðanir þess eiga að vera teknar með almannahag í huga en ekki hag fárra útvaldra.

Ríkið á heldur ekki að vera sér fyrirbæri sem enginn nema innanbúðarfólk veit hvað er að gerast í. Sjálfgefna staðan á að vera sú að ríkið á að vera opið og gagnsætt. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar fyrir almenning nema augljósir (og sanngjarnir) hagsmunir séu gegn opinberun þeirra. Núna situr ríkið á heilu fjöllunum af upplýsingum sem eiga heima hjá almenningi og eru stundum seld afnot af þeim gegn gjaldi. Söfnun þeirra var greidd með almannafé en þær eru samt ekki aðgengilegar eða aðgengið sé bundið ósanngjörnum kvöðum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Eitt skilyrði fyrir trúfrelsi er að öll trúfélög starfi á jafnræðisgrundvelli og engu trúfélagi sé úthýst eða sett á hærri stall en önnur. Þjóðkirkjan er einmitt trúfélag sem fær gríðarlega fjármuni og önnur fríðindi frá ríkinu umfram önnur trúfélög. Réttlátt væri ef meðlimir hvers trúfélags sæju sjálfir um að styrkja það í stað þess að það sé gert með framlögum af hálfu ríkisins. Trúarbrögð byggjast á meðlimum, ekki kirkjum. Ef meðlimirnir vilja kirkjur, þá geta þeir greitt fyrir þær úr eigin vasa.

Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu
Sumir hafa tjáð þá skoðun að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar sé nokkuð góður en ég tel að hann gangi ekki nógu langt. Við skoðun á honum koma í ljós afar margar undantekningar og stundum er jafnvel gefin heimild til að setja inn fleiri undantekningar í lögum. Jafnvel þótt það sé skýrt tekið fram að það verði að ríkja mikilvæg ástæða fyrir hverri undantekningu er ekki hægt að sjá að farið sé eftir því í lögum landsins. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsið hefur 6 víðar undanþágur (3. mgr. 73. gr.). Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eru engar undantekningar nefndar.

Fyrir utan að skerpa á núverandi réttindum vil ég leggja fram fleiri tillögur að réttindum. T.d. vil ég sjá ýmis réttindi tengd stafrænu öldinni, t.d. það sem kallast network neutrality. Einnig vil ég sjá ýmis réttindi gagnvart dómskerfinu. Sum þeirra eru skilgreind nú þegar í almennum hegningarlögum en ég vil sjá sum þeirra í stjórnarskránni. Stjórnarskrár annarra ríkja innihalda margar hugmyndir að sjálfsögðum réttindum.

Hlusta á hugmyndir annarra
Stjórnlagaþingið á ekki eingöngu að byggjast á því að koma með sínar hugmyndir og berjast fyrir því að þær komist í gegn. Það skiptir miklu máli að hlusta á rök og hugmyndir annarra á stjórnlagaþinginu. Síðan má ekki gleyma því að það var þjóðin sem kaus mann á þingið og því vil ég einnig hlusta á það sem almenningur hefur að segja. Jafnvel þeir sem komast ekki á þing gætu haft hugmyndir sem eru vel þess virði að íhuga. Þótt ég komist ekki á þingið mun ég samt sem áður reyna að miðla minni sýn til stjórnlagaþingmanna.

Betri skipting ríkisvalds

Eitt baráttumálið mitt á stjórnlagaþinginu er betri skipting ríkisvalds. Áður en við spáum í skiptingu ríkisvalds þarf að skilgreina hvað það er. Ríkisvald er hugtak yfir þau valdamörk sem fulltrúar þjóðarinnar hafa yfir málefnum hennar. Löggjafarvaldið hefur t.d. völd til að ákveða hvað má og hvað ekki sem það gerir með setningu laga. Framkvæmdavaldið hefur umboð til að framkvæma þau lög sem löggjafarvaldið setur. Dómsvaldið sér um að leysa ágreiningsmál í ljósi þeirra laga sem gilda. Öllum þessum hlutum ríkisvaldsins eru sett takmörk sem eru útlistuð í plaggi sem (venjulega) er stjórnarskrá þeirrar þjóðar. Þáttur stjórnarskrár er að tryggja að allar þessar greinar ríkisvaldsins hafi ekki of mikil völd með því að veita aðhald milli þeirra.

Stjórnarskrá Íslands er langt frá því að vera fullkomin hvað þetta varðar. Eitt augljósasta dæmið er hve samofið löggjafarvaldið er framkvæmdavaldinu sem veldur því að aðhaldið sem á að vera til staðar er meira og minna horfið. Ástæðan fyrir kverkataki framkvæmdavaldsins á Alþingi er sú að ríkisstjórnin er mynduð af þingmönnum. Fólkið í ráðherrastöðum lifir með meiri lúxus en hitt fólkið á þinginu. Þráin til að komast í ráðherrastöðu er nógu sterk til að halda þingmanninum stilltum og góðum í þeirri von að hann komist í lúxusinn síðar. Þar sem ráðherrastöðurnar eru (oftast nær) ákveðnar af þeim flokkum sem mynda meiri hluta þingsins, þá hafa þeir flokkar bæði framkvæmdavaldið og meiri hluta atkvæða á Alþingi.

Þegar skipting ríkisvalds er ákveðin þarf að ákveða í hverju valdið felst og hvaða mörk eru á því. Einnig þarf að passa að ein grein þess hafi ekki óeðlilega mikil völd miðað við hinar. Samkvæmt hugmyndafræðinni á hver grein ríkisvalds að sæta eftirliti a.m.k. einnar annarrar greinar. Þá skiptir máli að hver þeirra sé nógu sjálfstæð til að sjá um sín mál en sé slegin á puttana reyni hún að ganga of langt. Þetta jafnvægi á að vera skilgreint í stjórnarskrá.

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár Íslands er með beinum orðum ritað að Alþingis og forseti Íslands deila löggjafarvaldinu og einnig að forsetinn deili framkvæmdavaldinu með stjórnvöldum. Það þarf því ekki að fara langt til að sjá þessi óljósu mörk ríkisvalds og geta komið upp efasemdir hvort hann sé í hlutverki löggjafarvaldsins eða framkvæmdavaldsins í stjórnarathöfnum (dæmi: 24. gr. stjórnarskrárinnar). Einnig voru efasemdir um hvort forseti gæti nýtt málsskotsréttinn án atbeina ráðherra á sínum tíma.

Varðandi aðgerðir til að ná fram betri skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds eru til nokkrar leiðir. Ein þeirra er að festa forsetann í sessi sem höfuð framkvæmdavaldsins og láta hann ekki lengur deila löggjafarvaldinu með Alþingi. Síðan gæti hann annaðhvort ráðið ráðherra sjálfur (Alþingismenn og dómarar ekki gjaldgengir) eða tekið við embættishlutverki ráðherra eins og þau eru núna. Önnur leið er að losna við forsetaembættið og láta ráðherra vera kosna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó ég sé meira fylgjandi fyrrnefndu leiðinni er ég ekki búinn að útiloka þá seinni ef hún er vel útfærð. Aðskilnaður forseta frá löggjafarvaldinu þarf ekki að fela í sér að málsskotsrétturinn falli sjálfkrafa niður. Hann getur verið hluti af aðhaldi framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Einhverjir hafa verið með áhyggjur af fjárlögum ef aðskilnaður þessara greina ríkisvaldsins er framkvæmdur. Ef ráðherrar gætu ekki flutt mál á Alþingi væri enginn til að flytja fjárlögin hvert ár. Í umræðu Alþingis um skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram athyglisverð hugmynd sem myndi leysa þetta vandamál. Ef framkvæmdavaldið vill koma á lagabreytingum ætti það að koma þörfum sínum á framfæri við þá þingnefnd sem sér um venjulega um málaflokkinn og hún semur frumvarpið ef hún telur tilefni til þess. Kosturinn við slíkt skipulag er að nefndin er í betri aðstöðu til að beita gagnrýninni hugsun á því sem kemur frá framkvæmdavaldinu og hafa sjálfstætt vald til að meta það hvort þörf sé á lagabreytingu og hvernig það ætti að vera framkvæmt.

Undanfarna áratugi hefur ríkt nokkuð metnaðarleysi af hálfu Alþingis í garð lagafrumvarpa þar sem gagnrýnin er takmörkuð við þau frumvörp sem valda stærstu hneykslismálunum. Orku stjórnarandstöðunnar er oftast beitt í slíkum málum á meðan önnur frumvörp eru gagnrýnislaust gerð að lögum vegna ofríki flokksmaskínunnar. Til hvers að eyða tíma í að gagnrýna frumvarp sem nær í gegn hvort sem er vegna ítaka stjórnarflokkanna? Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds mun ná langt í að afnema þetta óréttlæti þar sem engin stjórn og stjórnarandstaða verður á Alþingi. Ekki er hægt að koma í veg fyrir bandalag flokka að neinu ráði en samstarf þeirra mun snúast frekar um málefni en ráðherrastöður.

Stjórnlagaþing mun hafa tækifæri á að breyta stjórnskipulaginu til hins betra hvað þetta varðar.

Framboð til stjórnlagaþings

Ég vil hér með tilkynna ætlað framboð mitt til stjórnlagaþingsins 2011. Stjórnarskráin er grunnplagg allrar þjóðarinnar og því mikilvægt að hér sé vel að verki staðið og það sé gert án mikilla hagsmunaárekstra. Með framboði mínu á stjórnlagaþingið set ég markið á að framfylgja þeirri hugsjón.

Umræðan síðastliðnu ár hefur sýnt fram á að stjórnarskráin er langt frá því að vera gallalaus og þá má sérstaklega nefna samblöndun löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Einnig þarf að tryggja að nýja stjórnarskráin sé tekin alvarlega og ekki ýtt til hliðar eftir hentisemi. Heiti ég því að reyna mitt besta til að gera góða stjórnarskrá.

Helstu baráttumál mín, nái ég kjöri á stjórnlagaþing:
* Betri skiptingu ríkisvalds.
* Ríkið á að vera ‚við‘ en ekki ‚þeir‘.
* Aðskilnað ríkis og kirkju.
* Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu.
* Hlusta á hugmyndir annarra sem eru á þinginu og einnig á almenning.

Þessa stundina er ég að safna meðmælendum svo framboð mitt er ekki enn formlega skráð.

Stjórnarsamstarf og hjarðhegðun þingmanna

Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að nokkrir þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum ætla sér „ekki að styðja ríkisstjórnina áfram“ nema eitthvað sé gert í Magma málinu. Í annarri frétt og þriðju frétt er þetta svo ítrekað. Ætlaði ég mér að láta nægja að vísa á þessar þrjár fréttir en í dag komu fram persónulegt álit Ragnheiðar Elínar, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um að ríkisstjórnin sé óstarfhæf og því sé fyrir bestu að boða til kosninga.

Eins mikið og ég fyrirlít Vinstri græna og Samfylkinguna er ég samt á móti því að boða til Alþingiskosninga um leið og eitthvað ósætti er í ríkisstjórn. Að mínu mati á ekki að vera neitt afl þar sem samið er um niðurstöður atkvæðagreiðslna fyrir fram eða ákveðnum málum ýtt fram yfir önnur vegna þess að ákveðinn flokkur vill það. Þegar maður heyrir fréttir um að ákveðnir þingmenn ætli sér að hætta að styðja ríkisstjórnina eru þeir að gefa til kynna eftirfarandi: „Ég gef málum ríkisstjórnarinnar stuðning minn þótt ég persónulega hefði kosið gegn þeim. Fyrst þið eruð á móti máli X, þá hætti ég að gefa ykkur atkvæði mitt án umhugsunar.“ Ef þeir hefðu kosið áfram eins og venjulega væru þetta bara orðin tóm og engin tæki mark á þeim.

Er eitthvað sem öskrar hærra en hjarðhegðun en svona yfirlýsingar? Þótt núverandi skipulag sé ekki hið besta í stöðunni hefði ég að minnsta kosti búist við meiru sjálfstæði í þingmönnum. Þessi hjarðhegðun er það sterk að hún getur sannfært þingmenn um að greiða atkvæði á móti sinni sannfæringu. Ef ætlunin var að kjósa sauði sem fylgja hjörðinni með forystufólk flokkanna sem sauðahirða hefði fólk alveg eins getað kosið vélmenni á þing.

Á tímabilinu sem kallast  „korter fyrir þinglok“, sem í raun spannar nokkrar vikur, eru þingmenn skikkaðir til þess að greiða atkvæði með öllum þeim málum sem eru rennd í gegn. Ef þeir gera það ekki fá þeir óformlegt tiltal frá ónefndu fólki. Frumvörp sem hlutu einróma atkvæðagreiðslu fengu hana ekki vegna þess að allir voru sammála því sem það átti að færa, heldur vegna fyrrgreindrar hjarðhegðunar. Bara sem dæmi má nefna þessar illa ígrunduðu breytingar á höfundalögum (sem ég mótmælti til þingmanna og kom með rökstuðning) og ein hjúskaparlög (sem ég er fylgjandi).

En af hverju er ég að mótmæla hjarðhegðun þingmanna þegar það er ‚augljóst‘ að málin ná í gegn hvort sem er án hennar? Fyrir atkvæðagreiðslu mála geta þingmenn ekki ályktað með afgerandi hætti hvað aðrir ætla að kjósa nema viðkomandi hafi gefið til kynna með afar augljósum hætti hvernig atkvæði hans mun liggja í málinu. Ef hver þingmaður gerir ráð fyrir því að allir aðrir muni greiða atkvæði með frumvarpi (nema annað komi í ljós) mun það enda með því að (nær) öll mál hljóta einróma samþykki ef hann byggir atkvæði sitt á því hvernig hann heldur að málið endar. Ef hjarðhegðunin væri ekki til staðar hefði verið möguleiki að slæma frumvarpið næði ekki í gegn. Í staðinn ætti hver og einn þingmaður að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu; Til þess eru þeir kosnir!

Sumir kunna að spyrja sig hvað sé að hjarðhegðun þegar kemur að málum eins og einum hjúskaparlögum. Í fyrsta lagi eiga kjósendur skilið að vita hvað fulltrúi þeirri á þinginu finnst um ákveðið málefni og væri ágætt fyrir kjósendur að vita af hverju þeir ættu að kjósa þennan þingmann fram yfir næsta dróna á listanum. Ef þingmaðurinn þorir ekki að kjósa í samræmi við sannfæringu sína er léttilega hægt að efast um réttmæti þess að hann ætti heima á Alþingi. Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að fá sneiðmynd af áliti þingmanna og/eða þingflokka gagnvart þeim málefnum sem mér finnst skipta máli. Ef ég væri meðlimur ákveðins flokks og sé þingmann sem hefur öndverða skoðun í málefni sem mér er annt um, þá kýs ég hann alls ekki næst þegar hann býður sig fram í prófkjöri. Og að lokum vil ég sjá þingmenn ræða málin á þingpalli út frá sannfæringu sinni með það að markmiði að sannfæra sína eigin flokksmenn, og jafnvel þingmenn í öðrum flokkum, um að greiða atkvæði á sama veg og hann sjálfur. Eins og Alþingi er núna fer mestallur ræðutíminn í að tala til kórsins eða skammast í öðrum þingflokkum. Til hvers að ræða málin með eldheitri sannfæringu þegar stjórnin er þegar búnir að semja um atkvæðagreiðslurnar?

Einhverjir eru haldnir þeirri hugsjón að ríkisstjórn án hjarðhegðunar (ahemm! ég meina: einróma í öllum málum) geti ekki komið neinu í gegn. Samkvæmt mínum skilningi er ríkisstjórnin hluti af framkvæmdavaldinu og á því, stjórnarskrárlega séð, ekki að hafa bein ítök yfir löggjafarvaldinu. Fræðilegt hlutverk ríkisstjórnar er að sjá um og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu í samræmi við lög Alþingis. Þegar framkvæmdavaldið semur sínar eigin reglur (lög) og kemur þeim í gegn á Alþingi vegna stöðu ráðherra í löggjafarvaldinu eru of mikil völd sett á hendur fárra einstaklinga. Ástæðan er einfaldlega sú að eftirlitsaðilarnir sjá um að setja sér reglurnar og það ástand er afar hættulegt. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið eru hér rosalega samtvinnuð og bjóða hér upp á þá spillingu sem hefur viðgengist á Íslandi í a.m.k. nokkra tugi ára. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna er bara nýtt andlit á gömlu skipulagi sem þeir ætla sér að viðhalda.

Lærdómur vegna kosninganna

Niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna eru túlkaðar á marga mismunandi vegu og fer aðallega eftir því hvaða skoðun viðkomandi er haldinn hvernig þær eru túlkaðar. Sem flokksbundnum einstaklingi í Auða flokknum ætla ég að gefa mitt álit á niðurstöðunum í Reykjavík, þar sem þær virðast vera mest túlkaðar.

Fáum fyrst upp atkvæðatölur flokkanna í Reykjavík. Atkvæðatölurnar 2006 eru fengnar frá vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og tölurnar fyrir 2010 eru fengnar frá vef RÚV og stemmdar af þær sem eru á vef mbl.is.

B – Framsóknarflokkurinn
2006 = 4056 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 1629 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  2427 atkv. (59,84% fækkun)

D – Sjálfstæðisflokkurinn
2006 = 27.823 atkv. (7 fulltrúar)
2010 =20.006 atkv. (5 fulltrúar)
Mismunur =  7817 atkv.  (17,31% fækkun)

E – Reykjavíkurframboðið
2006 = Ekki til
2010 = 681 atk. (enginn fulltrúi)

F – Frjálslyndir og óháðir
2006 = 6.527 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 274 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  6253 atkv. (95,80% fækkun)

H – Framboð um heiðarleika og almannahagsmuni
2006 = Ekki til
2010 = 668 atkv. (enginn fulltrúi)

S – Samfylkingin
2006 = 17.750 (4 fulltrúar)
2010 = 11.344 atkv. (3 fulltrúar)
Mismunur =  6406 atkv. (56,47% fækkun)

V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð
2006 = 8.739 atkv. (2 fulltrúar)
2010 =  4.255 atkv. (1 fulltrúi)
Mismunur =  4484 atkv. (51,31% fækkun)

Æ – Besti flokkurinn
2006 = Ekki til
2010 =  20.666 atkv. (6 fulltrúar)

Samtals (gild atkvæði)
2006 = 64.895
2010 =  59.523

Þegar tölurnar frá 2006 og 2010 eru bornar saman kemur ýmislegt fram. Allir flokkarnir sem buðu sig fram í báðum kosningum eiga það sameiginlegt að hafa fengið færri atkvæði 2010 en þeir gerðu 2006 og fengu jafnframt færri fulltrúa þrátt fyrir að kjörsókn var minni. Mismunurinn gefur til kynna þann lágmarksfjölda sem kaus flokkinn 2006 en kaus hann ekki 2010. Afgangurinn er væntanlega óályktunarhæfur þar sem við vitum ekki hversu margar kusu flokkinn 2010 en gerðu það ekki 2006.

Hlutfallslega féll atkvæðafjöldi Frjálslyndra mest með 95,80% fækkun atkvæða á meðan atkvæðafjöldi Sjálfstæðisflokksins féll um 17,31%. Því er hægt að draga þá ályktun að af eldri flokkunum stóðst Sjálfstæðisflokkurinn ‚áhlaupið‘ best af öllum hinum í Reykjavík nema þegar kemur að fækkun borgarfulltrúa. Af nýju flokkunum er augljóst að Besti flokkurinn hlýtur vinninginn þar sem hann fékk flest atkvæði af öllum sem buðu sig fram.

Önnur túlkun þarf að bíða til betri tíma.

Gengi Auða flokksins

Sem áframhald greinar minnar þann 28. maí síðastliðinn um Auða flokkinn ákvað ég að athuga gengi hans víðsvegar á landinu. Tölurnar eru fengnar frá vef RÚV og eru eingöngu talin auð atkvæði en ekki ógild þar sem ástæður fyrir ógildingu geta verið ýmsar.

Sniðið er eftirfarandi:
Kjördæmi – Kjörsókn (hversu margir greiddu atkvæði) – Auð atkvæði –  Hlutfall auðra atkvæða af heildarfjölda

Höfuðborgarsvæðið:
Reykjavík – 63.019 – 3.238 – 5,14%
Kópavogur – 14.704 – 915 – 6,22%
Seltjarnarnes – 2.432 – 148 – 6,09%
Garðabær – 5.567 – 307 – 5,51%
Hafnarfjörður – 11.589 – 1.578 – 13,62%
Álftanes – 1.110 – 124 – 11,17%
Mosfellsbær – 3.939 – 268 – 6,80%
Kjósarhreppur – 149 – 2 – 1,34%

Reykjanes:
Reykjanesbær – 6.647 – 376 – 5,66%
Grindavík – 1.507 – 39 – 2,59%
Sandgerði – 911 – 0 – 0%
Garður – 793 – 0 – 0%
Vogar – 610 – 0 – 0%

Vesturland:
Akranes – 3.149 – 292 – 9,27%
Skorradalshreppur – Óhlutbundin kosning
Hvalfjarðarsveit – 384 – 10 – 2,60%
Borgarbyggð – 1.892 – 169 – 8,93%
Grundarfjörður – 554 – 8 – 1,44%
Helgafellssveit – Óhlutbundin kosning
Stykkishólmur – 729 – 26 – 3,57%
Eyja- og Miklaholtshreppur – Óhlutbundin kosning
Snæfellsbær – 983 – 0 – 0%
Dalabyggð – Óhlutbundin kosning

Vestfirðir:
Bolungarvík – 480 – 30 – 6,25%
Ísafjörður – 2.112 – 75 – 3,36%
Reykhólahreppur – Óhlutbundin kosning
Tálknafjörður – Sjálfkjörinn listi
Vesturbyggð – 508 – 37 – 7,28%
Súðavíkurhreppur – 108 – 0 – 0%
Árneshreppur – Óhlutbundin kosning
Kaldraneshreppur – Óhlutbundin kosning
Bæjarhreppur – Óhlutbundin kosning
Strandabyggð – 254 – 0 – 0%

Norðurland vestra:
Skagafjörður – 2.199 – 117 – 5,32%
Húnaþing vestra – 606 – 0 – 0%
Blönduós – 473 – 47 – 9,94%
Skagaströnd- Sjálfkjörinn listi
Skagabyggð – Óhlutbundin kosning
Húnavatnshreppur – 268 – 0 – 0%
Akrahreppur – Óhlutbundin kosning

Norðurland eystra:
Akureyri – 9.357 – 310 – 3,31%
Norðurþing – 1.645 – 85 – 5,17%
Fjallabyggð – 1.297 – 50 – 3,86%
Dalvíkurbyggð – 1.060 – 49 – 4,62%
Eyjafjarðarsveit – 517 – 0 – 0%
Arnarneshreppur og Hörgárbyggð – 352 – 10 – 2,84%
Svalbarðsstrandarhreppur – Óhlutbundin kosning
Grýtubakkahreppur – Óhlutbundin kosning
Skútustaðahreppur – 248 – 4 – 1,61%
Tjörnes – Óhlutbundin kosning
Þingeyjarsveit – 549 – 17 – 3,10%
Svalbarðshreppur – Óhlutbundin kosning
Langanesbyggð – Óhlutbundin kosning

Austurland:
Seyðisfjörður – 488 – 5 – 1,02%
Fjarðabyggð – 2.347 – 147 – 6,26%
Vopnafjörður – 462 – 7 – 1,52%
Fljótsdalshreppur – Óhlutbundin kosning
Borgarfjarðarhreppur – Óhlutbundin kosning
Breiðdalshreppur – Sjálfkjörinn listi
Djúpivogur – Sjálfkjörinn listi
Fljótsdalshérað- 1.830 – 128 – 6,99%
Hornafjörður – 1.260 – 47 – 3,73%

Suðurland:
Vestmannaeyjar – 2.465 – 71 – 2,88%
Árborg – 4.164 – 372 – 8,93%
Mýrdalshreppur – 336 – 0 – 0%
Skaftárhreppur – 288 – 0 – 0%
Ásahreppur – Óhlutbundin kosning
Rangárþing eystra – 1.001 – 22 – 2,20%
Rangárþing ytra – 915 – 53 – 5,79%
Hrunamannahreppur – 422 – 16 – 3,79%
Hveragerði – 1.336 – 87 – 6,51%
Ölfus – 1.032 – 32 – 3,10%
Grímsnes – 268 – 0 – 0%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur – 324 – 0 – 0%
Bláskógabyggð – 501 – 0 – 0%
Flóahreppur – 351 – 0 – 0%

Hæsta hlutfall auðra atkvæða er í Hafnarfirði (13,62%) og eru 11 fulltrúar í bæjarstjórn. Þetta þýðir að Auði flokkurinn hefði náð a.m.k. einu sæti í Hafnarfirði ef hann væri alvöru stjórnmálaflokkur. Í fámennum kjördæmum eru 5 fulltrúar sem þýðir að Auði flokkurinn hefði þurft 20% atkvæða til að fá inn fulltrúa í þeim. En skoðum núna Reykjavík en þar eru 15 fulltrúar í borgarráði og er þá miðað við 6,67% atkvæða á hvern þeirra. Hlutfall auðra seðla þar var 5,14% og hefði hann því ekki fengið fulltrúa inn þar.

Þótt flokkurinn hafi fengið nokkuð góða kosningu hefði hann bara fengið inn einn fulltrúa og það í Hafnarfirði. Oddviti flokksins hefði örugglega sagt að hann hefði beðið afhroð en væri í sókn eftir Alþingiskosningarnar en þar fékk hann 3,2% greiddra atkvæða eða jafngildi tveggja þingsæta.

Auði flokkurinn og stefnuskrár stjórnmálaflokkanna

Nú fer að líða að sveitarstjórnarkosningum og fjölmargir flokkar bjóða sig fram í flestöllum byggðum. Allir sem bjóða sig fram eru með sín eigin stefnumál en í flokksbundnum kosningum er í boði svokölluð stefnuskrá sem á að vera sameiginlegur grundvöllur allra frambjóðenda sem vilja vera undir formerkjum listans. Þó er í því engin trygging að frambjóðandi sem er kjörinn með þeirri forsendu að fara eftir stefnuskránni fari eftir henni og gæti hann jafnvel tekið upp á því að skreppa yfir til annarra flokks sem er með allt aðra stefnuskrá en kom honum inn.

Seinast þegar ég kaus flokk í kosningum í sveitarstjórn fór mitt atkvæði til Samfylkingarinnar. Af hverju? Þegar ég lít til baka get ég með sanni sagt að ég man það ekki. Var það bara því ég sá mig knúinn til að velja eitthvað af því sem var í boði eða var eitthvað sem gerði Samfylkinguna að betri kost en alla hina flokkana? Þetta er ekki einu sinni illskásti flokkurinn að mínu mati í dag. Hvað var ég að hugsa?

Áður en lengra er haldið vil ég nefna að ég hata ekkert flokkinn algerlega og einstaka frambjóðendur eru fínir og jafnvel sumt sem flokkurinn hefur framkvæmt er ekki illt. Málið er bara það að stefnuskráin þarf mikla vinnu áður en ég væri tilbúinn til að gefa flokknum atkvæðið mitt.

Þegar fólk mætir á kjörstað og er að horfa á seðilinn blasa við nokkrir stjórnmálaflokkar sem það getur valið um. Hins vegar er einn flokkur í viðbót sem það getur kosið um en er ekki listaður á kjörseðlinum: Auði flokkurinn. Þetta er nafnið á því þegar fólk skilar auðum seðli. Í talningum á atkvæðum vantar hins vegar samanburð atkvæða þessa stjórnmálaafls við önnur. Það sem mig langar að vita er að ef Auði flokkurinn væri raunverulegur stjórnmálaflokkur, hvað hefði hann fengið?

Sumir kunna að spyrja sig: Af hverju skiptir þetta máli? Svarið við því er að leita uppi ástæðuna fyrir því af hverju fólk skilar auðum seðli. Fyrir mitt leiti er ástæðan einföld en hún er sú að ég vil ekki styðja flokkanna sem í boði er með mínu atkvæði. En af hverju sit ég þá ekki heima? Þótt að ég búi yfir fyrrnefndri skoðun tel ég mikilvægt að koma þessari skoðun á framfæri með kjöri mínu á Auða flokknum. Ef ég geri það ekki mun vera gert ráð fyrir því að mér sé sama um hver kemst til valda. Með kjöri Auða flokksins er verið að gefa til kynna að enginn flokkur sé í boði sem fengi atkvæði þessa fólks og gæti jafnvel verið merki um að þörf sé á öðrum stjórnmálaflokki.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna
Hver flokkur er með sína stefnuskrá og með sínar áherslur. Hins vegar er hinum venjulega kjósanda sama um stefnuskrár flokksins sem hann kýs heldur vill fá grófa hugmynd um hvað gerist ef flokkurinn kemst til valda. Bæklingur Samfylkingarinnar er t.d. upp á 32 blaðsíður (með for- og baksíðu) og munu líklegast fæstir nenna að lesa hvert einasta atriði sem kemur fram. Þetta er dæmi um bækling sem fer aðeins of nákvæmt í það sem á að gera.

En hvernig eiga stefnuskrár að vera? Hér eru nokkrir punktar:

  • Þær eiga að vera stuttorðar, þ.e. án málalenginga.
  • Taka á því sem skiptir máli fyrir sem flesta kjósendur.
  • Ekki festa flokkinn við ákveðna hugmynd eða útfærslu.

Einn gallinn við stefnuskrár nú til dags er að þær geta aldrei verið tæmandi og því veit ég ekki hvað flokkurinn gerir í þeim málaflokkum sem hann nefnir ekki. Ef flokkurinn óskar eftir að ræsa einhver stór mál, þá eiga þau heima á stefnuskrá. Stefnumál eins og „Vel ígrundaðar ákvarðanir“ og „Hafnarfjörður fyrir alla“ gefa kjósandanum mikilvægar vísbendingar um hvernig stjórn bæjarins verður hagað. Öll smærri mál eiga heima á öðrum vettvangi eins og í ræðum frambjóðenda eða jafnvel sýna orð í verki.