Framboð til stjórnlagaþings

Ég vil hér með tilkynna ætlað framboð mitt til stjórnlagaþingsins 2011. Stjórnarskráin er grunnplagg allrar þjóðarinnar og því mikilvægt að hér sé vel að verki staðið og það sé gert án mikilla hagsmunaárekstra. Með framboði mínu á stjórnlagaþingið set ég markið á að framfylgja þeirri hugsjón.

Umræðan síðastliðnu ár hefur sýnt fram á að stjórnarskráin er langt frá því að vera gallalaus og þá má sérstaklega nefna samblöndun löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Einnig þarf að tryggja að nýja stjórnarskráin sé tekin alvarlega og ekki ýtt til hliðar eftir hentisemi. Heiti ég því að reyna mitt besta til að gera góða stjórnarskrá.

Helstu baráttumál mín, nái ég kjöri á stjórnlagaþing:
* Betri skiptingu ríkisvalds.
* Ríkið á að vera ‚við‘ en ekki ‚þeir‘.
* Aðskilnað ríkis og kirkju.
* Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu.
* Hlusta á hugmyndir annarra sem eru á þinginu og einnig á almenning.

Þessa stundina er ég að safna meðmælendum svo framboð mitt er ekki enn formlega skráð.

Stjórnarsamstarf og hjarðhegðun þingmanna

Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að nokkrir þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum ætla sér „ekki að styðja ríkisstjórnina áfram“ nema eitthvað sé gert í Magma málinu. Í annarri frétt og þriðju frétt er þetta svo ítrekað. Ætlaði ég mér að láta nægja að vísa á þessar þrjár fréttir en í dag komu fram persónulegt álit Ragnheiðar Elínar, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um að ríkisstjórnin sé óstarfhæf og því sé fyrir bestu að boða til kosninga.

Eins mikið og ég fyrirlít Vinstri græna og Samfylkinguna er ég samt á móti því að boða til Alþingiskosninga um leið og eitthvað ósætti er í ríkisstjórn. Að mínu mati á ekki að vera neitt afl þar sem samið er um niðurstöður atkvæðagreiðslna fyrir fram eða ákveðnum málum ýtt fram yfir önnur vegna þess að ákveðinn flokkur vill það. Þegar maður heyrir fréttir um að ákveðnir þingmenn ætli sér að hætta að styðja ríkisstjórnina eru þeir að gefa til kynna eftirfarandi: „Ég gef málum ríkisstjórnarinnar stuðning minn þótt ég persónulega hefði kosið gegn þeim. Fyrst þið eruð á móti máli X, þá hætti ég að gefa ykkur atkvæði mitt án umhugsunar.“ Ef þeir hefðu kosið áfram eins og venjulega væru þetta bara orðin tóm og engin tæki mark á þeim.

Er eitthvað sem öskrar hærra en hjarðhegðun en svona yfirlýsingar? Þótt núverandi skipulag sé ekki hið besta í stöðunni hefði ég að minnsta kosti búist við meiru sjálfstæði í þingmönnum. Þessi hjarðhegðun er það sterk að hún getur sannfært þingmenn um að greiða atkvæði á móti sinni sannfæringu. Ef ætlunin var að kjósa sauði sem fylgja hjörðinni með forystufólk flokkanna sem sauðahirða hefði fólk alveg eins getað kosið vélmenni á þing.

Á tímabilinu sem kallast  „korter fyrir þinglok“, sem í raun spannar nokkrar vikur, eru þingmenn skikkaðir til þess að greiða atkvæði með öllum þeim málum sem eru rennd í gegn. Ef þeir gera það ekki fá þeir óformlegt tiltal frá ónefndu fólki. Frumvörp sem hlutu einróma atkvæðagreiðslu fengu hana ekki vegna þess að allir voru sammála því sem það átti að færa, heldur vegna fyrrgreindrar hjarðhegðunar. Bara sem dæmi má nefna þessar illa ígrunduðu breytingar á höfundalögum (sem ég mótmælti til þingmanna og kom með rökstuðning) og ein hjúskaparlög (sem ég er fylgjandi).

En af hverju er ég að mótmæla hjarðhegðun þingmanna þegar það er ‚augljóst‘ að málin ná í gegn hvort sem er án hennar? Fyrir atkvæðagreiðslu mála geta þingmenn ekki ályktað með afgerandi hætti hvað aðrir ætla að kjósa nema viðkomandi hafi gefið til kynna með afar augljósum hætti hvernig atkvæði hans mun liggja í málinu. Ef hver þingmaður gerir ráð fyrir því að allir aðrir muni greiða atkvæði með frumvarpi (nema annað komi í ljós) mun það enda með því að (nær) öll mál hljóta einróma samþykki ef hann byggir atkvæði sitt á því hvernig hann heldur að málið endar. Ef hjarðhegðunin væri ekki til staðar hefði verið möguleiki að slæma frumvarpið næði ekki í gegn. Í staðinn ætti hver og einn þingmaður að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu; Til þess eru þeir kosnir!

Sumir kunna að spyrja sig hvað sé að hjarðhegðun þegar kemur að málum eins og einum hjúskaparlögum. Í fyrsta lagi eiga kjósendur skilið að vita hvað fulltrúi þeirri á þinginu finnst um ákveðið málefni og væri ágætt fyrir kjósendur að vita af hverju þeir ættu að kjósa þennan þingmann fram yfir næsta dróna á listanum. Ef þingmaðurinn þorir ekki að kjósa í samræmi við sannfæringu sína er léttilega hægt að efast um réttmæti þess að hann ætti heima á Alþingi. Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að fá sneiðmynd af áliti þingmanna og/eða þingflokka gagnvart þeim málefnum sem mér finnst skipta máli. Ef ég væri meðlimur ákveðins flokks og sé þingmann sem hefur öndverða skoðun í málefni sem mér er annt um, þá kýs ég hann alls ekki næst þegar hann býður sig fram í prófkjöri. Og að lokum vil ég sjá þingmenn ræða málin á þingpalli út frá sannfæringu sinni með það að markmiði að sannfæra sína eigin flokksmenn, og jafnvel þingmenn í öðrum flokkum, um að greiða atkvæði á sama veg og hann sjálfur. Eins og Alþingi er núna fer mestallur ræðutíminn í að tala til kórsins eða skammast í öðrum þingflokkum. Til hvers að ræða málin með eldheitri sannfæringu þegar stjórnin er þegar búnir að semja um atkvæðagreiðslurnar?

Einhverjir eru haldnir þeirri hugsjón að ríkisstjórn án hjarðhegðunar (ahemm! ég meina: einróma í öllum málum) geti ekki komið neinu í gegn. Samkvæmt mínum skilningi er ríkisstjórnin hluti af framkvæmdavaldinu og á því, stjórnarskrárlega séð, ekki að hafa bein ítök yfir löggjafarvaldinu. Fræðilegt hlutverk ríkisstjórnar er að sjá um og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu í samræmi við lög Alþingis. Þegar framkvæmdavaldið semur sínar eigin reglur (lög) og kemur þeim í gegn á Alþingi vegna stöðu ráðherra í löggjafarvaldinu eru of mikil völd sett á hendur fárra einstaklinga. Ástæðan er einfaldlega sú að eftirlitsaðilarnir sjá um að setja sér reglurnar og það ástand er afar hættulegt. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið eru hér rosalega samtvinnuð og bjóða hér upp á þá spillingu sem hefur viðgengist á Íslandi í a.m.k. nokkra tugi ára. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna er bara nýtt andlit á gömlu skipulagi sem þeir ætla sér að viðhalda.

Lykilorðareglur Einkabankans

Í netbanka Landsbankans, Einkabankanum, má finna reglulegar áminningar um skipta ætti um lykilorð. Í tilefni af því að ég fékk mér forrit sem er sérstaklega hannað til að geyma lykilorð ákvað ég að breyta lykilorðinu mínu í Einkabankanum. Á lykilorðabreytingasíðunni rakst ég hins vegar á nokkrar reglur um það hvernig lykilorðin eiga að vera samsett.

  1. Lykilorð verður að vera minnst 8 stafir á lengd, hámarkslengd er 16 stafir.
  2. Lykilorð má ekki innihalda aðra stafi en bókstafi og tölustafi.
  3. Það má ekki innihalda séríslenska stafi (á, ð, é, í, ó, ú, ý, þ, æ, ö).
  4. Það má ekki innihalda eingöngu bókstafi.
  5. Það má ekki byrja á tölustaf.
  6. Sami stafur má ekki koma fyrir oftar en tvisvar í röð.

Hver sem hefur kynnt sér tölfræði ætti að geta séð að hér er um að ræða fáránlegar reglur og virðast sumar þeirra ekki þjóna neinum tilgangi. Aðaltilgangurinn með svona vörnum er aðallega sá að minnka líkur á að hægt sé að giska á lykilorðin með hreinni ágiskun og síðan koma í veg fyrir skipulagðar tilraunir til að komast að lykilorðunum. Í þetta sinn munum við hunsa auðkennislykilinn þar sem rökin koma honum ekkert við.

Eitt af því sem venjulega er hunsað er sá möguleiki að einhver óheiðarlegur komist inn í netþjóna bankans og nái eintaki af lykilorðum viðskiptavinanna. Þar sem lykilorðin eru geymd í dulkóðuðu formi þurfa ræningjarnir að annaðhvort afkóða lykilorðin eða nota „brute force“ aðferðir sem ganga út á að láta forrit athuga með hverja mögulega samsetningu tákna þar til þeir hitta á lykilorðið. Við gerum ráð fyrir að þeir þurfi að framkvæma þetta þannig að þeir þurfa að ná í dulkóðuðu skrárnar og brjóta lykilorðin hjá sér. Ef þeir reyna að millifæra peninga beint af netþjónum bankans mun komast upp um þá of fljótt og hagnaður þeirra verður miklu minni en ella.

Nú eru ræningjarnir með lykilorðaskrána og neyðast til að brjóta lykilorðin með ágiskunaraðferðinni. Hversu margar ágiskanir tæki það forritið sem þeir keyra áður en það hittir á hvert lykilorð? Skv. prófunum mínum í Einkabankanum skipta háir og lágir stafir ekki máli svo við munum gera ráð fyrir því fyrirkomulagi. Hver ágiskun prófar eina samsetningu af leyfilegum táknum og sér síðan hvort hún gengur upp. Hvernig það er staðfest fer eftir aðstæðum en oftast nær er það hægt án þess að reyna að tengja sig inn á Einkabankann. Því fleiri mögulegar samsetningar af táknum, því lengur tekur það ræningjana að brjóta lykilorðið.

Gerum ráð fyrir að efstu tvær reglurnar sé þær einu sem gilda og að allir viðskiptavinirnir noti 16 stafa lykilorð og í boði eru allir bókstafir í íslenska og enska stafrófinu auk tölustafa. Þetta væru þá 46^16 (46 í 16. veldi) mögulegar samsetningar af stöfum. Ræningjarnir þyrftu samt sem áður að prófa einnig allar samsetningar fyrir 8, 9, 10, 11, 12, 13, 14 og 15 stafi líka en í dæmunum er ekki tekið á því. Til að reikna það út þyrfti að margfalda 46^16 með 46^15 og svo framvegis niður í 8. veldi. Upp á besta samanburðinn miða ég við 16 stafa lykilorð.

Segjum að viðskiptavinir bankans fái síðan fyrirmæli um að þeir verði að breyta lykilorðunum sínum því þriðju reglunni var bætt inn og nú geta þeir ekki notað séríslenska stafi (á, ð, é, í, ó, ú, ý, þ, æ, ö) sbr. hér að ofan. Bara með þessari reglu fækkaði samsetningunum niður í 36^16 sem er um 1,98% af 46^16. Ef lengdir upp á 8 til 15 stafi séu einnig teknar með í útreikningana er óhætt að álykta að hlutfallið minnkar enn þá meira.

Til að draga greinina ekki óþarflega á langinn með sífelldum útreikningum læt ég mér nægja að nefna að hver regla takmarkar fjölda samsetninga enn frekar. Eftir að hafa reynt að hugsa út í ástæðurnar fyrir hverri reglu datt mér ekki í hug nein réttlætanleg ástæða fyrir þessum takmörkunum. Tækninni hefur fleygt fram og er engin ástæða til þess að undanskilja séríslenska stafi og (nær) engin ástæða til þess að takmarka lykilorðin heldur við latneska bókstafi og tölustafi. Auk þess tel ég óhætt fyrir bankann að heimila lengri lykilorð en 16 stafi. Það mætti halda að bankinn sé enn á þeim tíma þegar Þjóðskráin hafði 32ja stafa hámark á nöfnum fólks í tölvukerfinu sínu (sem nú hefur verið hækkað í 256 stafi).

Kostir reglanna
Þó eru 1 þáttur í stefnunni sem ég get verið sammála en hann er lágmarkslengd lykilorða (8 stafir). Það tekur í mesta lagi nokkrar sekúndur á venjulegri heimilistölvu að brjóta lykilorð sem eru með færri en 8 stafi. Hinir takmarka mögulegar samsetningar að einhverju leiti. Önnur regla sem ég er hálfsammála er 4. reglan; Þó hún sé takmarkandi þá hefur hún þau áhrif að viðskiptavinurinn getur ekki notað þekkt orð eða skammstafanir en ég er þá ósammála henni vegna þess að reynslan hefur sýnt að notendur almennt setja einfaldlega tölustafi fyrir aftan venjuleg orð og forrit ræningjanna getur sett þau lykilorð í forgang.

Ókostir
Farið hefur verið ofan í útreikningana vegna 3. reglunnar sem virðist ekki vera byggð á neinni tæknilegri ástæðu. Þar sem lykilorðin eru geymd dulkóðuð ætti það ekki að hafa nein áhrif hvað varðar stafasett inn í lykilorðagrunninum. En tilgátan mín er sú, að fyrst háir og lágir stafir skipta ekki máli, að forritið sem tekur á móti lykilorðum breytir öllu lykilorðinu í lágstafi (eða hástafi). Íslensku stafirnir séu síðan bannaðir því forrit bankans notar innbyggða skipun til að breyta lykilorðastrengnum í lágstafi (eða hástafi). Sú skipun styður ekki íslenska stafi og forritararnir hafi einfaldlega ekki nennt að bæta við stuðningnum.

5. reglan er nokkuð heimskuleg og virðist ekki þjóna neinum tilgangi nema til að takmarka fjölda samsetninga. Af hverju mega lykilorð ekki byrja á tölustaf? Er það til að koma í veg fyrir að einhver geti sett lykilorð sem eru eingöngu tölustafir? Með því að hafa ekki slíka takmörkun væri bankinn að tefja ferli ræningjanna með því að láta þá prófa fleiri samsetningar en þeir þurfa. Ræningjarnir myndu auðvitað láta forritið prófa öll lykilorð sem reglurnar leyfa og þar á meðal lykilorð sem væru eingöngu tölustafir. Með því að setja þessa reglu hefur Landsbankanum tekist að auðvelda verk ræningjanna því það mun taka þá töluvert styttri tíma en ella. Til samanburðar myndi þessi regla orsaka það að ræningjarnir væru næstum helmingi fljótari að komast að 16 stafa lykilorði en ef reglan væri ekki í gildi.

Tilgangur 6. reglunnar er líklegast til að koma í veg fyrir of margar endurtekningar á sama staf. En eins og 5. reglan er hér bara um sýndaröryggi að ræða. Mögulegum samsetningum fækkar en þó má deila um það hvort það borgi sig fyrir ræningjana að innleiða þessa reglu en það fer aðallega eftir því hversu langan tíma hver tilraun tekur og hversu mikið vinnslan eykst ef reglan er innleidd í forritið. Þó er betra að eyða vafanum og láta ræningjana þjást aðeins meira.

Lykilorðastefna Landsbankans á heima í fortíðinni og óska ég hér með eftir hann taki upp vitræna stefnu sem fyrst.

Detox ruglið

Jónína Benediktsdóttir hefur verið í fréttum undanfarna daga vegna ásakana um að hún er að hvetja viðskiptavini sína til að hætta inntöku lífsbjargandi lyfja. Umræðan seinustu daga hefur einkennst af fram-og-til-baka ummælum Svans Sigurbjörnssonar og Jónínu Benediktsdóttur og greinargerð landlæknisembættisins um meðferð Jónínu.

Detox gengur út á, að nafninu til, að hreinsa líkamann af eiturefnum og er beitt nokkrum aðferðum. Aðferðin sem Jónína beitir er að lækka næringarinntöku niður í 500 hitaeiningar á dag, léttri hreyfingu og síðan hinni valkvæðu ristilskolun. Ádeilan snýst um það fyrst- og síðastnefnda auk þess að lofað er lækningu við hlutum sem hin venjulegu læknisvísindi hafa ekki læknað enn þann dag í dag. Í greinargerð landlæknis kemur fram að lofað sé að detoxið virki á þá sem þjást af krabbameini, þunglyndi, sykursýki II og MS-sjúkdóminum.

Er það ekki gott ef fólk læknast af þessu? Auðvitað er það gott en það er samt mikilvægt að hætta ekki inntöku einkennishamlandi lyfja án þess að sé fótur fyrir því. En þótt einkennin séu ekki sýnileg þarf það ekki að þýða að þau séu horfin með öllu. Tilgangur lyfja er að lækna sjúklinginn af því sem hrjáir hann eða, þegar það tekst ekki, að minnka áhrif einkennana. Þegar þessir sömu sjúklingar taka ekki lyfin er mikil hætta að einkennin komi aftur upp á yfirborðið og ef þau eru lífshættuleg eru talsverðar líkur á að viðkomandi láti lífið í kjölfarið. Að því leitinu til eru óstudd loforð um lækningu sjúkdóma mjög hættuleg.

Svanur vitnar til þess að hann hafi séð fólk á bráðadeild Landspítalans því það hafi hætt að taka inn verkjalyf í framhaldi þess að hafa farið í detox. Jónína segir í óbeinum orðum að það sé samsæri í gangi og að með umfjöllun sinni sé landlæknir þjónn lyfjageirans sem hefur engar trúverðugar rannsóknir sér að baki. Einnig sagði Jónína (á öðrum vettvangi) að engar vísindalegar rannsóknir hafi verið birtar því pólsku læknarnir sem hún ræddi við séu hræddar um að vera drepnir af lyfjafyrirtækjunum ef þær gera það. Hvorki Jónína eða Svanur hafa lagt inn frekari gögn til að styðja fyrrgreindar ásakanir.

Hins vegar beitir Svanur trúverðugari rökum en Jónína þar sem rökfærsla hans er ekki eins uppfull af rökvillum og málflutningur Jónínu einkennist af. Sem dæmi má nefna að Jónína sakar lækna um menntahroka vegna titils síns en segir síðan að hún sé íþróttafræðingur og ætti því að vita betur en þeir um orkuþörf líkamans. Vitnar hún síðan til þess að lækniseiðurinn sé kenndur við Hippókrates og telur þá komna út af sporinu því þeir viðurkenni ekki lengur kenningar hans þar sem hann sagði að innra með fólki sé kraftur sem geti læknað það. Hún gerir sér ekki grein fyrir því að læknisfræðin hefur þróast mikið í gegnum árin og er eiðurinn kenndur við Hippókrates því hann er faðir læknisfræðinnar frekar en að allt sem hélt fram hafi verið og sé enn þá rétt.

Í mörgum umsögnum um detox er minnst á að fólk tapi mörgum kílóum á að fara þangað. Það kemur auðvitað ekkert á óvart þegar fæðuinntakan er talsvert minni en lágmarkskröfur líkamans. Hann neyðist því til að taka af neyðarforðanum (fitunni) og/eða vöðvunum til að viðhalda sér. Fólk getur því léttilega orðið jafnþungt og það var áður eða jafnvel þyngra eftir meðferðina.

Líkaminn tekur of snöggum breytingum ekki vel og því er ekki ráðlagt að taka of snögga kúvendingu á lífsstílnum. Á vef detox eru jafnvel leiðbeiningar um hvernig eigi að undirbúa meðferðina. Á þeim lista eru mörg heilsuráð, sum góð og sum ekki, og tengja fæstir árangurinn við undirbúning sinn fyrir meðferðina. Fyrir þann sem hreyfir sig lítið mun létt hreyfing vera af hinu góða og fyrir þann sem reykir mun vera betra fyrir hann að hætta að reykja.

En af hverju að mæta á detox þegar hægt er að framkvæma þetta allt á eigin vegum? Ástæðan er aðallega skortur á sjálfsaga og síðan er það sjálfsblekking. Játum það bara, það er hellingur af lífsbætandi hlutum sem við getum gert en gerum ekki vegna þess að við nennum því ekki eða einhver önnur fölsk afsökun sem við höfum beitt til að letja okkur frá því að gera það. Hér er komin ágætis afsökun til að breyta um lífsstíl með ‚kerfi‘ sem jafnframt launar okkur fyrir erfiðið með ýmsum lúxus eins og samveru með öðru fólki sem er að ganga í gegnum það sama ásamt nuddi, gufubaði, heitum potti og annarri slökun.

Sjálfsblekkingin gengur út á það að vantreysta ekki meðferðinni því annars missir hún gildi sitt. Viðkomandi vill ekki efast um ágæti hennar því annars er hætta á að hún virki ekki og gæti endað í sama gamla farinu. Því er ríghaldið í þá trú að meðferðin virki og mætir jafnvel reglulega til að viðhalda þeirri trú og vegna áframhaldandi skorts á sjálfsaga. Góður hluti dagskrárliðanna hjá detox stöðinni er eitthvað sem fólk getur léttilega stundað á eigin vegum án þess að greiða háar fúlgur.

Hvað er þá hægt að gera til að bæta lífsskilyrðin? Byggja upp nægan sjálfsaga til að framkvæma þessar lífsstílsbreytingar án þess að treysta á pakka eins og þann sem detox stöðin býður upp á.

Lærdómur vegna kosninganna

Niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna eru túlkaðar á marga mismunandi vegu og fer aðallega eftir því hvaða skoðun viðkomandi er haldinn hvernig þær eru túlkaðar. Sem flokksbundnum einstaklingi í Auða flokknum ætla ég að gefa mitt álit á niðurstöðunum í Reykjavík, þar sem þær virðast vera mest túlkaðar.

Fáum fyrst upp atkvæðatölur flokkanna í Reykjavík. Atkvæðatölurnar 2006 eru fengnar frá vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og tölurnar fyrir 2010 eru fengnar frá vef RÚV og stemmdar af þær sem eru á vef mbl.is.

B – Framsóknarflokkurinn
2006 = 4056 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 1629 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  2427 atkv. (59,84% fækkun)

D – Sjálfstæðisflokkurinn
2006 = 27.823 atkv. (7 fulltrúar)
2010 =20.006 atkv. (5 fulltrúar)
Mismunur =  7817 atkv.  (17,31% fækkun)

E – Reykjavíkurframboðið
2006 = Ekki til
2010 = 681 atk. (enginn fulltrúi)

F – Frjálslyndir og óháðir
2006 = 6.527 atkv. (1 fulltrúi)
2010 = 274 atkv. (enginn fulltrúi)
Mismunur =  6253 atkv. (95,80% fækkun)

H – Framboð um heiðarleika og almannahagsmuni
2006 = Ekki til
2010 = 668 atkv. (enginn fulltrúi)

S – Samfylkingin
2006 = 17.750 (4 fulltrúar)
2010 = 11.344 atkv. (3 fulltrúar)
Mismunur =  6406 atkv. (56,47% fækkun)

V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð
2006 = 8.739 atkv. (2 fulltrúar)
2010 =  4.255 atkv. (1 fulltrúi)
Mismunur =  4484 atkv. (51,31% fækkun)

Æ – Besti flokkurinn
2006 = Ekki til
2010 =  20.666 atkv. (6 fulltrúar)

Samtals (gild atkvæði)
2006 = 64.895
2010 =  59.523

Þegar tölurnar frá 2006 og 2010 eru bornar saman kemur ýmislegt fram. Allir flokkarnir sem buðu sig fram í báðum kosningum eiga það sameiginlegt að hafa fengið færri atkvæði 2010 en þeir gerðu 2006 og fengu jafnframt færri fulltrúa þrátt fyrir að kjörsókn var minni. Mismunurinn gefur til kynna þann lágmarksfjölda sem kaus flokkinn 2006 en kaus hann ekki 2010. Afgangurinn er væntanlega óályktunarhæfur þar sem við vitum ekki hversu margar kusu flokkinn 2010 en gerðu það ekki 2006.

Hlutfallslega féll atkvæðafjöldi Frjálslyndra mest með 95,80% fækkun atkvæða á meðan atkvæðafjöldi Sjálfstæðisflokksins féll um 17,31%. Því er hægt að draga þá ályktun að af eldri flokkunum stóðst Sjálfstæðisflokkurinn ‚áhlaupið‘ best af öllum hinum í Reykjavík nema þegar kemur að fækkun borgarfulltrúa. Af nýju flokkunum er augljóst að Besti flokkurinn hlýtur vinninginn þar sem hann fékk flest atkvæði af öllum sem buðu sig fram.

Önnur túlkun þarf að bíða til betri tíma.

Gengi Auða flokksins

Sem áframhald greinar minnar þann 28. maí síðastliðinn um Auða flokkinn ákvað ég að athuga gengi hans víðsvegar á landinu. Tölurnar eru fengnar frá vef RÚV og eru eingöngu talin auð atkvæði en ekki ógild þar sem ástæður fyrir ógildingu geta verið ýmsar.

Sniðið er eftirfarandi:
Kjördæmi – Kjörsókn (hversu margir greiddu atkvæði) – Auð atkvæði –  Hlutfall auðra atkvæða af heildarfjölda

Höfuðborgarsvæðið:
Reykjavík – 63.019 – 3.238 – 5,14%
Kópavogur – 14.704 – 915 – 6,22%
Seltjarnarnes – 2.432 – 148 – 6,09%
Garðabær – 5.567 – 307 – 5,51%
Hafnarfjörður – 11.589 – 1.578 – 13,62%
Álftanes – 1.110 – 124 – 11,17%
Mosfellsbær – 3.939 – 268 – 6,80%
Kjósarhreppur – 149 – 2 – 1,34%

Reykjanes:
Reykjanesbær – 6.647 – 376 – 5,66%
Grindavík – 1.507 – 39 – 2,59%
Sandgerði – 911 – 0 – 0%
Garður – 793 – 0 – 0%
Vogar – 610 – 0 – 0%

Vesturland:
Akranes – 3.149 – 292 – 9,27%
Skorradalshreppur – Óhlutbundin kosning
Hvalfjarðarsveit – 384 – 10 – 2,60%
Borgarbyggð – 1.892 – 169 – 8,93%
Grundarfjörður – 554 – 8 – 1,44%
Helgafellssveit – Óhlutbundin kosning
Stykkishólmur – 729 – 26 – 3,57%
Eyja- og Miklaholtshreppur – Óhlutbundin kosning
Snæfellsbær – 983 – 0 – 0%
Dalabyggð – Óhlutbundin kosning

Vestfirðir:
Bolungarvík – 480 – 30 – 6,25%
Ísafjörður – 2.112 – 75 – 3,36%
Reykhólahreppur – Óhlutbundin kosning
Tálknafjörður – Sjálfkjörinn listi
Vesturbyggð – 508 – 37 – 7,28%
Súðavíkurhreppur – 108 – 0 – 0%
Árneshreppur – Óhlutbundin kosning
Kaldraneshreppur – Óhlutbundin kosning
Bæjarhreppur – Óhlutbundin kosning
Strandabyggð – 254 – 0 – 0%

Norðurland vestra:
Skagafjörður – 2.199 – 117 – 5,32%
Húnaþing vestra – 606 – 0 – 0%
Blönduós – 473 – 47 – 9,94%
Skagaströnd- Sjálfkjörinn listi
Skagabyggð – Óhlutbundin kosning
Húnavatnshreppur – 268 – 0 – 0%
Akrahreppur – Óhlutbundin kosning

Norðurland eystra:
Akureyri – 9.357 – 310 – 3,31%
Norðurþing – 1.645 – 85 – 5,17%
Fjallabyggð – 1.297 – 50 – 3,86%
Dalvíkurbyggð – 1.060 – 49 – 4,62%
Eyjafjarðarsveit – 517 – 0 – 0%
Arnarneshreppur og Hörgárbyggð – 352 – 10 – 2,84%
Svalbarðsstrandarhreppur – Óhlutbundin kosning
Grýtubakkahreppur – Óhlutbundin kosning
Skútustaðahreppur – 248 – 4 – 1,61%
Tjörnes – Óhlutbundin kosning
Þingeyjarsveit – 549 – 17 – 3,10%
Svalbarðshreppur – Óhlutbundin kosning
Langanesbyggð – Óhlutbundin kosning

Austurland:
Seyðisfjörður – 488 – 5 – 1,02%
Fjarðabyggð – 2.347 – 147 – 6,26%
Vopnafjörður – 462 – 7 – 1,52%
Fljótsdalshreppur – Óhlutbundin kosning
Borgarfjarðarhreppur – Óhlutbundin kosning
Breiðdalshreppur – Sjálfkjörinn listi
Djúpivogur – Sjálfkjörinn listi
Fljótsdalshérað- 1.830 – 128 – 6,99%
Hornafjörður – 1.260 – 47 – 3,73%

Suðurland:
Vestmannaeyjar – 2.465 – 71 – 2,88%
Árborg – 4.164 – 372 – 8,93%
Mýrdalshreppur – 336 – 0 – 0%
Skaftárhreppur – 288 – 0 – 0%
Ásahreppur – Óhlutbundin kosning
Rangárþing eystra – 1.001 – 22 – 2,20%
Rangárþing ytra – 915 – 53 – 5,79%
Hrunamannahreppur – 422 – 16 – 3,79%
Hveragerði – 1.336 – 87 – 6,51%
Ölfus – 1.032 – 32 – 3,10%
Grímsnes – 268 – 0 – 0%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur – 324 – 0 – 0%
Bláskógabyggð – 501 – 0 – 0%
Flóahreppur – 351 – 0 – 0%

Hæsta hlutfall auðra atkvæða er í Hafnarfirði (13,62%) og eru 11 fulltrúar í bæjarstjórn. Þetta þýðir að Auði flokkurinn hefði náð a.m.k. einu sæti í Hafnarfirði ef hann væri alvöru stjórnmálaflokkur. Í fámennum kjördæmum eru 5 fulltrúar sem þýðir að Auði flokkurinn hefði þurft 20% atkvæða til að fá inn fulltrúa í þeim. En skoðum núna Reykjavík en þar eru 15 fulltrúar í borgarráði og er þá miðað við 6,67% atkvæða á hvern þeirra. Hlutfall auðra seðla þar var 5,14% og hefði hann því ekki fengið fulltrúa inn þar.

Þótt flokkurinn hafi fengið nokkuð góða kosningu hefði hann bara fengið inn einn fulltrúa og það í Hafnarfirði. Oddviti flokksins hefði örugglega sagt að hann hefði beðið afhroð en væri í sókn eftir Alþingiskosningarnar en þar fékk hann 3,2% greiddra atkvæða eða jafngildi tveggja þingsæta.

Auði flokkurinn og stefnuskrár stjórnmálaflokkanna

Nú fer að líða að sveitarstjórnarkosningum og fjölmargir flokkar bjóða sig fram í flestöllum byggðum. Allir sem bjóða sig fram eru með sín eigin stefnumál en í flokksbundnum kosningum er í boði svokölluð stefnuskrá sem á að vera sameiginlegur grundvöllur allra frambjóðenda sem vilja vera undir formerkjum listans. Þó er í því engin trygging að frambjóðandi sem er kjörinn með þeirri forsendu að fara eftir stefnuskránni fari eftir henni og gæti hann jafnvel tekið upp á því að skreppa yfir til annarra flokks sem er með allt aðra stefnuskrá en kom honum inn.

Seinast þegar ég kaus flokk í kosningum í sveitarstjórn fór mitt atkvæði til Samfylkingarinnar. Af hverju? Þegar ég lít til baka get ég með sanni sagt að ég man það ekki. Var það bara því ég sá mig knúinn til að velja eitthvað af því sem var í boði eða var eitthvað sem gerði Samfylkinguna að betri kost en alla hina flokkana? Þetta er ekki einu sinni illskásti flokkurinn að mínu mati í dag. Hvað var ég að hugsa?

Áður en lengra er haldið vil ég nefna að ég hata ekkert flokkinn algerlega og einstaka frambjóðendur eru fínir og jafnvel sumt sem flokkurinn hefur framkvæmt er ekki illt. Málið er bara það að stefnuskráin þarf mikla vinnu áður en ég væri tilbúinn til að gefa flokknum atkvæðið mitt.

Þegar fólk mætir á kjörstað og er að horfa á seðilinn blasa við nokkrir stjórnmálaflokkar sem það getur valið um. Hins vegar er einn flokkur í viðbót sem það getur kosið um en er ekki listaður á kjörseðlinum: Auði flokkurinn. Þetta er nafnið á því þegar fólk skilar auðum seðli. Í talningum á atkvæðum vantar hins vegar samanburð atkvæða þessa stjórnmálaafls við önnur. Það sem mig langar að vita er að ef Auði flokkurinn væri raunverulegur stjórnmálaflokkur, hvað hefði hann fengið?

Sumir kunna að spyrja sig: Af hverju skiptir þetta máli? Svarið við því er að leita uppi ástæðuna fyrir því af hverju fólk skilar auðum seðli. Fyrir mitt leiti er ástæðan einföld en hún er sú að ég vil ekki styðja flokkanna sem í boði er með mínu atkvæði. En af hverju sit ég þá ekki heima? Þótt að ég búi yfir fyrrnefndri skoðun tel ég mikilvægt að koma þessari skoðun á framfæri með kjöri mínu á Auða flokknum. Ef ég geri það ekki mun vera gert ráð fyrir því að mér sé sama um hver kemst til valda. Með kjöri Auða flokksins er verið að gefa til kynna að enginn flokkur sé í boði sem fengi atkvæði þessa fólks og gæti jafnvel verið merki um að þörf sé á öðrum stjórnmálaflokki.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna
Hver flokkur er með sína stefnuskrá og með sínar áherslur. Hins vegar er hinum venjulega kjósanda sama um stefnuskrár flokksins sem hann kýs heldur vill fá grófa hugmynd um hvað gerist ef flokkurinn kemst til valda. Bæklingur Samfylkingarinnar er t.d. upp á 32 blaðsíður (með for- og baksíðu) og munu líklegast fæstir nenna að lesa hvert einasta atriði sem kemur fram. Þetta er dæmi um bækling sem fer aðeins of nákvæmt í það sem á að gera.

En hvernig eiga stefnuskrár að vera? Hér eru nokkrir punktar:

  • Þær eiga að vera stuttorðar, þ.e. án málalenginga.
  • Taka á því sem skiptir máli fyrir sem flesta kjósendur.
  • Ekki festa flokkinn við ákveðna hugmynd eða útfærslu.

Einn gallinn við stefnuskrár nú til dags er að þær geta aldrei verið tæmandi og því veit ég ekki hvað flokkurinn gerir í þeim málaflokkum sem hann nefnir ekki. Ef flokkurinn óskar eftir að ræsa einhver stór mál, þá eiga þau heima á stefnuskrá. Stefnumál eins og „Vel ígrundaðar ákvarðanir“ og „Hafnarfjörður fyrir alla“ gefa kjósandanum mikilvægar vísbendingar um hvernig stjórn bæjarins verður hagað. Öll smærri mál eiga heima á öðrum vettvangi eins og í ræðum frambjóðenda eða jafnvel sýna orð í verki.

Eyðsla skattfés og Feministafélag Íslands

Enn og aftur er Feministafélag Íslands (FÍ) og undirlægjur þeirra að stuðla að eyðslu skattfés í eitthvað sem skilar litlu. Að auki er um óþarfa tímaeyðslu að ræða þar sem átakið mun án efa tefja frekari vinnslu á rannsóknarskýrslunni.

Fyrir nokkrum dögum var Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður (hah!) félagsins ráðin til fjármálaráðuneytisins til að sjá um kynjaða fjárlagagerð. Hún var ráðin án auglýsingar og sætir það furðu að hún hafi ekki krafist þess að starfið yrði auglýst svo að aðrir gætu sótt um. Það lítur út fyrir að besti einstaklingurinn hafi fengið starfið að hennar mati. Kveikjan að þessari pælingu var frétt um að það ætti að „kynjagreina“ rannsóknarskýrsluna, án efa framkvæmt af fjármálaráðuneytinu og þar af leiðandi af Katrínu.

Í fréttinni er vísað í Ólaf Arason, ráðskonu vefhóps FÍ, sem auðvitað fagnar þessu átaki. Ég man fyrir nokkrum árum að hið sama félag gagnrýndi notkun orðsins ráðherra fyrir bæði kynin og lagði jafnvel fram tillögu til stjórnarskrárnefndar, ásamt öðrum félögum, á sínum tíma til að því yrði breytt við næstu yfirferð. Ég veit ekki af hverju félagið ákvað að hafa þennan titil en ég hefði haldið að það gæti sýnt gott fordæmi og sett kynlausari titil en ráðskona á þá einstaklinga sem eru í forsvari fyrir hópana fyrst það telur sig á annað borð hafa rétt á að gagnrýna þennan meinta karllæga titil.

Annar vinkill sem ég vil minnast á er hið undarlega val á manneskju sem á að vera í forsvari þessa fögnuðar félagsins. Eðlilegra hefði verið að talskona félagsins myndi sjá um samskipti þess utan við. Það er ekkert í fréttinni sem gefur til kynna af hverju hann henti betur fyrir utan að hann er karlmaður. Nú veit ég ekki hvort blaðamaður eða einhver innan FÍ sá um að velja hann sem talsmann félagsins í þessu tilviki en það vekur upp grunsemdir þegar einstaklingur í forsvari fyrir vefhópinn sé valinn til að gegna hlutverki talsmanns þegar það er talskona í boði.

Almennt um Feministafélag Íslands
Feministafélag Íslands virðist vera félag þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Því virðist vera sama um hvers kyns óréttlæti sem það veldur á meðan félagar þess halda að með því náist kynjajafnrétti á endanum. Af hverju ætti ég að treysta félagi sem hefur m.a. þetta á stefnuskrá sinni?:

  • Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Þetta eru atriði sem eru listuð undir helstu markmið félagsins. Engin atriði í þessum helstu markmiðum snúast sérstaklega um að bæta og styrkja hlut karla sem gefur til kynna að stefnuskráin hallast meira í átt að kvenrétti en jafnrétti. Hér eru jafnvel tillögur að endurorðun sem félagið getur notað og þar breyti ég einvörðungu því feitletraða hér að ofan. FÍ er velkomið að nota þessar tillögur.

  • Að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og jafna hlutfall kynja í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að koma á jafnvægi kynja í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.

Nú er loksins komið eitthvað sem er talsvert nær jafnrétti en áður þótt ég myndi ekki skrifa undir án þessa að endurorða meira. Þó ég telji mig ekki vera sammála útværum skoðunum FÍ er ég samt sem áður ekki karlremba. Það eru félög eins og FÍ sem valda því að ég vil ekki kalla mig feminista og því gríp ég stundum til hugtaksins jafnréttissinni. Það hugtak getur náð yfir meira en jafnrétti kynja heldur einnig yfir baráttu margra annarra hópa sem vilja njóta sama réttar og aðrir en sem dæmi má nefna jafnrétti vegna þjóðernis, búsetu og lífsskoðana.

Miðað við það sem ég hef séð af starfsemi félagsins virðist eini tilgangur félagsins vera að stunda forsjárhyggju, eitthvað sem Vinstri Grænir eru duglegir við að gera. Einnig styrkir félagið framapot stjórnenda þess til að koma að fáránlegum málum eins og að endurnefna götur í miðbæ Reykjavíkur, ýtt áfram af fyrrverandi formanni FÍ, í stað þess að reyna að redda fjármálum borgarinnar. Einhverra hluta vegna virðist forgangsröðun sumra meðlima FÍ ekki vera á réttu róli.

Lokaverkefnið mitt í tölvunarfræði

Hér er rannsóknarskýrslan sem ég sendi inn vegna lokaverkefnisins míns í tölvunarfræði hjá Háskólanum í Reykjavík.

Stutt lýsing:
Í þessu verkefni var málheildin Íslenskur Orðasjóður, sem samanstendur af u.þ.b. 250 milljón orðmyndum, mörkuð og þáttuð á vélrænan hátt. Þess konar greining hefur ekki verið framkvæmd áður á jafn stóru safni íslenskra setninga.

Research report – final