Fer þjóðkirkjan enn eftir konungstilskipunum?

Ég hef verið að lesa gamlar tilskipanir um málefni tengd þjóðkirkjunni og ýmislegt forvitnilegt hefur komið í ljós. Þess ber að geta að þessar tilskipanir hafa enn lagagildi.

Kristniréttur Árna biskups Þorlákssonar:

11. Um forræði biskups á kirkjum ok eignum þeirra.
Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera.

Löngu hætt að framkvæma þetta.

Erindisbréf handa biskupum:

14. Enn fremur skulu meðhjálparar vera viðstaddir, þegar biskup eða prófastur koma, og skulu þeir allir spurðir, hvernig ástandið sé í söfnuðinum, hvort þar tíðkist nokkrir sérstakir ósiðir eða guðleysi, hvernig hver um sig ræki embætti sitt, og fái stoð til þess eða sæti tálmunum, og skal biskup eða prófastur eigi láta undir höfuð leggjast að áminna menn í því efni.

Áminna presta ef guðleysi tíðkast… hmmm…

Tilskipun um húsvitjanir:

4. Til meðhjálpara skulu útveljast þeir upprigtugustu, bestu og umhyggjusömustu menn í hverri sókn, og ber engum, hvort þeir eru hreppstjórar eða virðingarmenn frá þessu embætti undantakast, þá þeir eru þar til af prestinum útséðir, ekki heldur byrjar þeim þar fyrir að uppástanda, að fríast frá öðrum verslegum útréttingum.

Ég ætla að velja…forsætisráðherra og dóms- og mannréttindamálaráðherra. Þau yrðu fljót að afnema þetta ef það myndi reyna á þessi lög.

Þetta var annars bara hluti af því sem ég fann. Til hvers eru þessi lög annars enn í gildi ef það er varla farið eftir þeim? Af hverju er ekki nú þegar búið að fara í almennilega tiltekt á þeim?

Réttindi að forgörðum

Um daginn fékk ég að vita að margir þeirra sem leitað var hjá í tengslum við BitTorrent mál þann 1. desember síðastliðinn voru kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglunni og spurðu þeir mig ráða. Eitt aðalráðið sem ég gaf var að nýta réttinn til að þegja (svokallaður þagnarréttur) og það kom mér á óvart að þeir hafi ekki vitað af þeim rétt.

Í framhaldinu leit ég á lagaumhverfið í kringum þann rétt og verð að segja að það er ekki nógu gott. Hvergi er sagt beinum orðum að þagnarrétturinn sé eitthvað sem fólk hefur í skýrslutökum. Það er auðvitað viðurkennt að hann sé við lýði í dómsal en það efast ég ekki. 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu gefur þann rétt en hann er þó ekki nefndur berum orðum í greininni sjálfri heldur í gegnum túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur (því miður í þessu tilviki) ekki lagagildi hér á landi. Það næsta sem kemst þessum rétti í skýrslutökum er 64. mgr. laga um meðferð sakamála (lög nr. 88/2008). Það er samt ekki tilgangur greinarinnar að fara yfir það.

Því miður er það þannig að fólk hér á landi veit oftast ekki af þagnarréttinum eða öðrum réttindum eins og má sjá á nýlegri frétt á vefnum visir.is. Ekki nóg með að maðurinn hafi talað við lögregluna, heldur samþykkti hann húsleit þrátt fyrir að dómari hafi hafnað beiðni um húsleitarheimild. Hvað ef lögreglan hefði fundið eitthvað ólöglegt við leitina? Leitin hefði verið fullkomlega lögleg þar sem eigandinn leyfði þeim að leita!

Til hvers að hjálpa lögreglunni?
Sumir myndu spyrja á móti: „Ég hef ekkert að fela svo að hvers vegna ekki?“ og halda síðan að þeir hafi afgreitt málið. En málið er nær lengra en það. Gallinn er að fólk getur aldrei verið fullvisst um að ekkert ólöglegt sé á staðnum því það er aldrei að vita hvort annað fólk hafi skilið eitthvað ólöglegt eftir sem að lögreglan finnur. Reyndu síðan að segja lögreglunni að þú vissir ekki af hlutnum og athugaðu hvort hún trúi þér (spoiler: líklegast ekki).

Önnur rök sem ég hef heyrt með því að leyfa lögreglunni að leita sé til að tefja ekki lögregluna svo hún geti farið í önnur gagnlegri verk í staðinn fyrir að hanga í manni fyrir að neita að verða við beiðni lögreglunnar. Þau rök eru fáránleg þar sem leitin er miklu tímafrekari en tíminn sem það tekur að neita. Ef lögreglan myndi í alvörunni telja að það skipti svo miklu máli að leita í bílnum þínum eða húsinu, þá fengi hún leitarheimild. Síðan hey, hvernig væri að lögreglan myndi gera eitthvað gagnlegra en að biðja þig (sem ert væntanlega saklaus af því athæfi sem hún er að athuga með) um að leyfa sér að snúa öllu við í þínu lífi bara til að spara smá tíma. Sá tími sem það tæki að leita hjá þér gæti farið í að halda áfram leitinni annars staðar.

Af hverju að nýta þagnarréttinn?
Þagnarrétturinn er best þekktur í tengslum við 5. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar og aðallega í tengslum við hina frægu setningu „I plead the fifth“. Þagnarrétturinn er sá að allir eiga rétt á að sakfella ekki sjálfa sig. Það má því ekki neyða neinn til að játa glæp, hvort sem það er vitandi eða óafvitandi. Sá réttur er í gildi hér á Íslandi þó hann sé veikur.

Þá kemur aftur sú staðhæfing að maður hafi ekkert að fela og ætti því að vera óhætt að ræða við lögregluna. Þar er gallinn sá að það hafa allir eitthvað að fela. Sá sem segist hafa ekkert að fela er að ljúga. Við veljum öll hluti sem við segjum og hvað við ætlum ekki að segja. Með því að velja að segja ekki eitthvað er aðilinn að fela það. Næst þegar þú ræðir við einhvern ókunnugan, taktu eftir því hvort þú velur að halda aftur af staðreyndum um þig eða eitthvað annað. Þá ættirðu að komast að því að þú hefur víst eitthvað að fela.

Lög landsins og reglugerðir og allur sá pakki er flókinn og veit ég ekki um eina einustu persónu sem ég þekki ágætlega sem hefur aldrei brotið nein lög. Það er ómögulegt að fara í gegnum lífið án þess að brjóta nokkur lög í því ferli. Fólk ætti ekki að vera svo öruggt með sig að halda að það geti talað við rannsóknarlögreglumann í nokkrar klukkustundir án þess að hjálpa honum að sakfella sig. Það sem þú segir í skýrslutökum (sem er annað orð yfir yfirheyrslu) er eingöngu notað gegn þér í dómsmáli en ekki með þér. Jafnvel þó þú sért saklaus af hinu meinta broti er samt hægt að sakfella þig byggt á einhverri vanhugsaðri yfirlýsingu sem þú lést frá þér og virðist saklaus á þeim tíma sem þú gafst hana. Til hvers að hjálpa lögreglunni að sakfella þig? Sjáðu hvaða sönnunargögn lögreglan hefur gegn þér og svaraðu fyrir þig í fyrsta lagi þegar málið fer fyrir dómstólana, ef málið fer svo langt.

Einn af þeim sem ég ráðlagði fyrir skýrslutökuna lét mig vita eftir skýrslutökuna að lögreglan hafði ekkert á hann og það leit út fyrir að þeir vonuðu að hann myndi sakfella sjálfan sig í skýrslutökunni. Hann gaf þeim ekki það tækifæri þar sem hann nýtti sér þagnarréttinn. Það borgar sig að nýta hann!

Frumvarp til laga um afnám sóknargjalda o.fl.

Í gær kláraði ég gerð frumvarps sem ég kom á framfæri við Hreyfinguna. Þessa stundina veit ég ekki hvort þau muni leggja það fram eða ekki en ég vona það svo sannarlega. Frumvarpið felst í því að afnema sóknargjöld ásamt því að leggja niður þrjá sjóði sem þjóðkirkjan ræður ein yfir.

Það sem ég vildi samt koma á framfæri var hversu lítill tími fór í það miðað við þann sparnað sem það hefur í för með sér. Ein kvöldstund fór í að finna allar lagagreinar þar sem minnst er á sóknargjöld og meta hverju þyrfti að breyta til að ná því fram. Síðan fór önnur kvöldstund í að skrifa frumvarpið og greinargerðina. Tvær kvöldstundir af mínum tíma í eitthvað sem gæti sparað ríkissjóð um 2,5 milljarða á ári. Ég er jafnvel óvanur frumvarpsgerð og dágóður tími fór í að yfirfara frumvarpið svo það yrði „á lagasniði“. Hvað í fjandanum er starfsfólkið í ráðuneytunum að gera?

Læt drögin fylgja í PDF svo þið getið metið vinnu mína. Ef þú ert þingmaður, endilega leggðu frumvarpið fram.

Frumvarp til laga – afnám sóknargjalda

Stjórnarskrárlegur aðskilnaður ríkis og kirkju

Á þjóðfundinum var greinilega rætt um aðskilnað ríkis og kirkju ef marka má niðurstöður hans og virtist hann vera á þeirri skoðun að aðskilnaðurinn ætti að fara fram. Áður en ég hef umræðuna hér vil ég nefna að aðskilnaður ríkis og kirkju er eitt helsta baráttumálið mitt enda er um mannréttindamál að ræða.

Til undirbúnings fyrir stjórnlagaþing (og af einskærum áhuga) hef ég verið að mæta á ýmsa fundi og fyrirlestra tengdum stjórnarskrármálefnum og þá hafa pælingar um aðskilnað ríkis og kirkju komið fram. Einhver ruglingur hefur komið fram á þessum vettvangi um framkvæmdina og ákvæði stjórnarskrárinnar sem snerta á þessu málefni. Vil ég fara í gegnum ferlið í von um að útskýra þetta.

Segjum svo að við ætlum að framkvæma aðskilnaðinn og breyta sem fæstum greinum í leiðinni (ef þetta væri eina málefnið á dagskrá). Rétta leiðin í þessu væri að breyta 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

  1. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
  2. Breyta má þessu með lögum.

Fyrri málsgreinin er sú sem við viljum í rauninni breyta með því að annaðhvort fjarlægja hana eða breyta henni til að innihalda eitthvað annað. Takið samt eftir 2. málsgreininni þar sem stendur að breyta megi 1. mgr. með lögum. Hvað þýðir það? Hér er einfaldlega um þá heimild að hægt sé að breyta þessu með því að setja einföld lög í stað hins venjulega ferlis til að breyta stjórnarskránni.

Ef við lítum á 79. gr. stjórnarskrárinnar eru tvær málsgreinar: Sú fyrri þar sem rætt er um almennar breytingar á stjórnarskránni og sú seinni er með sértilfelli með 62. gr. Þetta þýðir einfaldlega að aðskilnaður færi ekki í gegnum sama ferli og aðrar breytingar á stjórnarskrá. Venjulega (með fáum undantekningum) þegar breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar þarf að rjúfa Alþingi, boða til nýrra kosninga og síðan samþykkja frumvarpið óbreytt í nýskipuðu Alþingi. Breytingar á 62. gr. stjórnarskrárinnar fara hins vegar ekki í gegnum það ferli, heldur fer breytingartillagan í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem ákveður síðan örlög hennar.

Lausn?
Ein lausnin sem væri hægt að íhuga til að framkvæma aðskilnaðinn væri að halda atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána í heild eftir að Alþingi hefur samþykkt hina nýju stjórnarskrá eftir þingrof. Með því að gera það væri hægt að uppfylla kröfur 2. mgr. 79. greinar stjórnarskrárinnar og þá eðlilegu kröfu að stjórnarskráin sé samþykkt af þjóðinni.

Einnig væri hægt að fara strax í þessar breytingar í stað þess að bíða eftir að Alþingi afgreiði afganginn af tillögunum sem stjórnlagaþingið setur fram (ef það mælir með aðskilnaði). Samþykki þjóðin aðskilnaðinn má spara talsvert hærri útgjöld en þessi sér atkvæðagreiðsla myndi kosta ríkissjóð.

Betri skipting ríkisvalds

Eitt baráttumálið mitt á stjórnlagaþinginu er betri skipting ríkisvalds. Áður en við spáum í skiptingu ríkisvalds þarf að skilgreina hvað það er. Ríkisvald er hugtak yfir þau valdamörk sem fulltrúar þjóðarinnar hafa yfir málefnum hennar. Löggjafarvaldið hefur t.d. völd til að ákveða hvað má og hvað ekki sem það gerir með setningu laga. Framkvæmdavaldið hefur umboð til að framkvæma þau lög sem löggjafarvaldið setur. Dómsvaldið sér um að leysa ágreiningsmál í ljósi þeirra laga sem gilda. Öllum þessum hlutum ríkisvaldsins eru sett takmörk sem eru útlistuð í plaggi sem (venjulega) er stjórnarskrá þeirrar þjóðar. Þáttur stjórnarskrár er að tryggja að allar þessar greinar ríkisvaldsins hafi ekki of mikil völd með því að veita aðhald milli þeirra.

Stjórnarskrá Íslands er langt frá því að vera fullkomin hvað þetta varðar. Eitt augljósasta dæmið er hve samofið löggjafarvaldið er framkvæmdavaldinu sem veldur því að aðhaldið sem á að vera til staðar er meira og minna horfið. Ástæðan fyrir kverkataki framkvæmdavaldsins á Alþingi er sú að ríkisstjórnin er mynduð af þingmönnum. Fólkið í ráðherrastöðum lifir með meiri lúxus en hitt fólkið á þinginu. Þráin til að komast í ráðherrastöðu er nógu sterk til að halda þingmanninum stilltum og góðum í þeirri von að hann komist í lúxusinn síðar. Þar sem ráðherrastöðurnar eru (oftast nær) ákveðnar af þeim flokkum sem mynda meiri hluta þingsins, þá hafa þeir flokkar bæði framkvæmdavaldið og meiri hluta atkvæða á Alþingi.

Þegar skipting ríkisvalds er ákveðin þarf að ákveða í hverju valdið felst og hvaða mörk eru á því. Einnig þarf að passa að ein grein þess hafi ekki óeðlilega mikil völd miðað við hinar. Samkvæmt hugmyndafræðinni á hver grein ríkisvalds að sæta eftirliti a.m.k. einnar annarrar greinar. Þá skiptir máli að hver þeirra sé nógu sjálfstæð til að sjá um sín mál en sé slegin á puttana reyni hún að ganga of langt. Þetta jafnvægi á að vera skilgreint í stjórnarskrá.

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár Íslands er með beinum orðum ritað að Alþingis og forseti Íslands deila löggjafarvaldinu og einnig að forsetinn deili framkvæmdavaldinu með stjórnvöldum. Það þarf því ekki að fara langt til að sjá þessi óljósu mörk ríkisvalds og geta komið upp efasemdir hvort hann sé í hlutverki löggjafarvaldsins eða framkvæmdavaldsins í stjórnarathöfnum (dæmi: 24. gr. stjórnarskrárinnar). Einnig voru efasemdir um hvort forseti gæti nýtt málsskotsréttinn án atbeina ráðherra á sínum tíma.

Varðandi aðgerðir til að ná fram betri skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds eru til nokkrar leiðir. Ein þeirra er að festa forsetann í sessi sem höfuð framkvæmdavaldsins og láta hann ekki lengur deila löggjafarvaldinu með Alþingi. Síðan gæti hann annaðhvort ráðið ráðherra sjálfur (Alþingismenn og dómarar ekki gjaldgengir) eða tekið við embættishlutverki ráðherra eins og þau eru núna. Önnur leið er að losna við forsetaembættið og láta ráðherra vera kosna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó ég sé meira fylgjandi fyrrnefndu leiðinni er ég ekki búinn að útiloka þá seinni ef hún er vel útfærð. Aðskilnaður forseta frá löggjafarvaldinu þarf ekki að fela í sér að málsskotsrétturinn falli sjálfkrafa niður. Hann getur verið hluti af aðhaldi framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Einhverjir hafa verið með áhyggjur af fjárlögum ef aðskilnaður þessara greina ríkisvaldsins er framkvæmdur. Ef ráðherrar gætu ekki flutt mál á Alþingi væri enginn til að flytja fjárlögin hvert ár. Í umræðu Alþingis um skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram athyglisverð hugmynd sem myndi leysa þetta vandamál. Ef framkvæmdavaldið vill koma á lagabreytingum ætti það að koma þörfum sínum á framfæri við þá þingnefnd sem sér um venjulega um málaflokkinn og hún semur frumvarpið ef hún telur tilefni til þess. Kosturinn við slíkt skipulag er að nefndin er í betri aðstöðu til að beita gagnrýninni hugsun á því sem kemur frá framkvæmdavaldinu og hafa sjálfstætt vald til að meta það hvort þörf sé á lagabreytingu og hvernig það ætti að vera framkvæmt.

Undanfarna áratugi hefur ríkt nokkuð metnaðarleysi af hálfu Alþingis í garð lagafrumvarpa þar sem gagnrýnin er takmörkuð við þau frumvörp sem valda stærstu hneykslismálunum. Orku stjórnarandstöðunnar er oftast beitt í slíkum málum á meðan önnur frumvörp eru gagnrýnislaust gerð að lögum vegna ofríki flokksmaskínunnar. Til hvers að eyða tíma í að gagnrýna frumvarp sem nær í gegn hvort sem er vegna ítaka stjórnarflokkanna? Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds mun ná langt í að afnema þetta óréttlæti þar sem engin stjórn og stjórnarandstaða verður á Alþingi. Ekki er hægt að koma í veg fyrir bandalag flokka að neinu ráði en samstarf þeirra mun snúast frekar um málefni en ráðherrastöður.

Stjórnlagaþing mun hafa tækifæri á að breyta stjórnskipulaginu til hins betra hvað þetta varðar.

Niðurhalsskattur STEF

Í Fréttablaðinu 8. október er sagt frá því að Eiríkur Tómasson hafi kynnt hugmynd á fundi hjá STEF um að setja gjöld á nettengingar á Íslandi gegn því að í boði verði svæði þar sem fólk getur náð sér í tónlistina löglega. Hugmyndin um gjöld á nettengingar er alls ekki ný en álíka hugmyndir hafa verið bornar upp af rétthafasamtökum erlendis. Þetta er þó í fyrsta sinn sem ég hef heyrt af þeirri útfærslu að samtökin bjóði upp á niðurhal í staðinn.

En hvað er að þessari hugmynd? Er ekki allt í lagi að borga smá gjald og í staðinn má niðurhala eins mikið af tónlist og maður vill? Misskilningurinn kemur fram í seinni hluta spurningarinnar. Meðal gallanna er sú staðreynd að ekkert mun breytast hvað varðar það niðurhal sem netverjar hafa stundað. Ef við ímyndum okkur það sem gerist ef þetta verður að veruleika, þá er það eina sem breytist er að netreikningurinn hækkar og í staðinn fáum við aðgang að svæði til að niðurhala tónlist. Það verður áfram ólöglegt að niðurhala tónlist frá öðrum stöðum. Í grunninn séð er verið að neyða okkur til að greiða fyrir þjónustu óháð því hvort við höfum nokkurn áhuga á að nota hana eða ekki.

Og hvað þýðir þetta? Neydd viðskipti. Allir nettengdir Íslendingar yrðu neyddir til að eiga viðskipti við STEF, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Hvernig litist þér á ef þú yrðir einnig neyddur til að greiða gjald til rithöfunda í hverjum mánuði ofan á nettenginguna þína? Ekki fá rithöfundar neitt í hvert sinn sem þú flettir upp á einhverju á netinu. Ef þetta verður að lögum er ríkið að blanda sér í mál sem það ætti ekki að snerta á.

STEF eru auðvitað ekki einu rétthafasamtökin. Um leið og við höfum samþykkt hugmyndina um að gjald sé sett á nettengingar vegna einna rétthafasamtaka, af hverju ættum við að hafna beiðni annarra samtaka ef þau óska eftir því að taka líka þátt? Gjaldið sem átti að vera lítið og nett er allt í einu orðið byrði á netnotendur. 500 króna gjaldið gæti orðið að 2000 króna gjaldi og gæti orðið að helmingnum af því sem netaðgangurinn kostar.

Samkomulagið yrði auðvitað nokkuð auðvelt fyrir STEF. Þeir bjóða nú þegar upp á sömu þjónustu gegn gjaldi og því væri lítið mál fyrir samtökin að efna sinn hluta af því. Núna eru þau að reyna að koma því í gegn að allir netnotendur á Íslandi séu neyddir til að greiða fyrir þjónustuna og auðvitað hlustar sokkabrúða þeirra, Katrín Jakobsdóttir, á rétthafasamtökin.

STEF er einnig á rangri leið, hugmyndafræðilega séð. Ef við ímyndum okkur fræðilegt hlutverk þeirra, þá á það að vera að vernda rétt höfundanna sem það samanstendur af. En núna virðast samtökin ætla að fara út í það að bjóða upp á niðurhal gegn greiðslu. Hver verndar rétt höfunda gagnvart STEF í þessum málum? Hvað um rétt höfunda sem vilja ekkert með þetta samkomulag að gera? Það á ekki að vera hlutverk samtakanna að fara út í slík viðskiptamódel. Hugmyndafræðin styður ekki að samtökin sjálf gerist dreifingaraðilar á verkum meðlima þess.

Nokkur ráð vegna samskipta við yfirvöld

Því miður er eitthvað um að fólk klúðri samskiptum við hið opinbera með því að nefna eitthvað sem hefði ekki átt að vera nefnt eða gert eitthvað sem hefði betur verið látið ógert. Í mörgum tilvikum valda þessi mistök miklum skaða. Í tilefni af þessu tók ég saman nokkrar ráð sem gætu gagnast fólki. Sum þeirra eru fengin frá erlendum samtökum en ættu að duga ágætlega hér á landi.

1. Haltu ró þinni og vertu kurteis.
Miklu máli skiptir að æsingur hafi ekki áhrif á samskipti þín við yfirvöld. Skiptir það sérstaklega máli þegar þau fara fram í eigin persónu eins og t.d. við lögregluna. Ef þú ert sýnilega æstur munu yfirvöld líta á þig sem andstæðing og líklegra að málið fari lengra.

Bréf og skjöl ættirðu ekki að skrifa á meðan adrenalínið flæðir um líkamann. Oftast nær færðu upp í 2 vikur til að svara og það er ágætt að nota nokkra daga til að slaka á áður en þú semur svarbréfið. Ef þú ert hræddur um að gleyma einhverju máttu auðvitað taka punkta. Mundu samt að fara yfir þá svo bréfið sýnist ekki of tilfinningaþrungið.

2. Þú hefur réttinn til að þegja.
Þetta er auðvitað íslensk þýðing á enska frasanum „You have the right to remain silent“. Gildir þetta ekki bara um samskipti við lögregluna, heldur líka við önnur yfirvöld. Þótt þú sért beðinn um eitthvað þarf ekki alltaf að þýða að þú verðir að verða við því.

Hins vegar eru aðstæður þar sem er betra að verða við slíkum beiðnum eins og t.d. ef lögreglan biður þig um ökuskírteinið þitt á meðan þú ert að keyra. Lögreglan hefur hvort sem er aðgang að upplýsingunum á því (það eru jú yfirvöld sem gefa þau út) og ættir þú ekki að hafa neinu að tapa með því að sýna það. Ef þú ert farþegi ertu ekki skyldugur til að hafa ökuskírteini.

3. Gættu þín hvað þú segir.
Ef þú hefur horft mikið á CSI þáttaraðirnar ættirðu að hafa tekið eftir því að fólk segir eitthvað óvart sem kastar grun á það. Það lendir síðan undir rannsókn sem gæti eyðilagt æru þess varanlega og síðan kemur í ljós í þættinum að einhver annar framdi glæpinn. Þumalputtareglan er að hugsa út í afleiðingar þess sem maður er að fara að segja og hvernig það gæti verið túlkað. Þú hefur alltaf réttinn á að fá þér lögmann en ekki slaka á vörninni á meðan þú býður eftir komu hans.

Sumir halda að með því að kalla hluti eitthvað annað séu þeir saklausir af því að brjóta lögin. Eins og t.d. þegar einhverjir bjóða vörur eða fríðindi í skiptum fyrir lágmarksframlag. Í augum laganna er hér verið að ræða um viðskipti og er yfirvöldum nákvæmlega sama hvað aðrir kalla það. Það er undarlega algengt að einhverjir grípi til slíkra réttlætinga í samskiptum við hið opinbera í von um að bjarga sér í þeirri von að komast sem fyrst úr þessum aðstæðum.

4. Ekki samþykkja leitir.
Í samskiptum við lögregluna skiptir miklu máli að þú samþykkir ekki hvað sem er. Þá á ég sérstaklega við ef þú ert spurður hvort lögreglan megi leita í bílnum þínum. Sem betur fer er þetta ekki algengt á Íslandi en þetta er við lýði í Bandaríkjunum. Þumalputtareglan er að ef lögreglan þarf að spyrja þig um eitthvað hefurðu engu á að tapa með því að neita beiðninni. Þú þarft ekki að útskýra af hverju. Í Bandaríkjunum er fólk stundum gabbað til að verða við slíkum beiðnum með loforðum um að sleppa við sektir.

Jafnvel þótt þú hafir ekkert að fela ættirðu samt að neita slíkri beiðni. Þú hefur litla sem enga hugmynd um hvað fólk hefur skilið eftir í bílnum eða húsinu án þinnar vitneskju. Þér mun vera kennt um allt ólöglegt sem finnst við leitina. Þeir bera síðan enga ábyrgð á því að taka til eftir að þeir hafa lokið leitinni.

Ef einhver bankar hjá þér og segist hafa leitarheimild, biddu strax um lögmann til að gæta réttar þíns á meðan leitinni stendur. Farðu yfir leitarheimildina til að passa að allar upplýsingar séu réttar. T.d. hvort um sé að ræða rétt hús og/eða íbúð.

5. Má ég fara?
Ef samskipti við lögregluna á götunni eru að dragast á langinn, ekki vera hræddur um að spyrja hvort þú megir fara. Þú gætir notað „ertu að halda mér hér eða er ég frjáls ferða minna“. Ef þú ert frjáls ferða þinna, kveddu lögregluþjóninn og farðu burt. Ef svarið er á annan veg, spurðu hver sé ástæðan fyrir því.

Ef þér er haldið gegn vilja þínum, biddu strax um lögmann.

6. Ekki vera of öruggur með sjálfan þig.
Það er fátt sem öskrar sekur meira en „sannaðu það!“ því það er lítið annað en endurorðun á „ég er sekur en þú hefur ekki sannanir undir höndunum“. Þótt það sé ekki hrein játning munu yfirvöld reyna enn frekar að reyna að sanna sekt þína, sérstaklega ef þetta er sagt á hrokafullan þátt. Þess vegna borgar sig að hemja skap sitt og hugsa áður en maður tjáir sig.

Lögreglan er líklegri til að stoppa þig ef bíllinn ber merki um að þú sért vandræðagemlingur. T.d. eru stuðaramerki sem tjá stuðning þinn á einhverju vafasömu eða ólöglegu hvatning fyrir lögguna til að stoppa þig. Ef þú vilt forðast slíkt er betra að losna við allt sem sýnist grunsamlegt, hversu saklaust sem það er í raun.

7. Ekki veita nýjar upplýsingar.
Með öðrum orðum: yfirvöldum kemur ekki allt við. Haltu upplýsingagjöf í lágmarki ef þú þarft að svara yfirvöldum. Forðastu að veita nýjar upplýsingar án þess að ígrunda hvort hægt sé að nota þær gegn þér eða ekki. Það er samt þitt að meta hvort sé betra að veita þær eða ekki.

Ráðin eru meðal annars frá myndböndunum 10 Rules for Dealing with Police og BUSTED: The Citizen’s Guide to Surviving Police Encounters.

Fyrirvari: Ég er ekki lögfræðingur og tek enga ábyrgð á framkvæmd þessara ráða.

Skattar

Skattar eru oft til umræðu þessa dagana, aðallega vegna skattahækkana sem munu eiga sér stað ef Steingrímur J. Sigfússon fær einhverju ráðið. Ætla ég því að grípa tækifærið og ræða aðeins um eðli skatta.

Tilgangur skatta, að mínu mati, er eftirfarandi:
1. Fjármagna viðhald á kerfi sem sér um að staðla samskipti samfélagsþegna þess til að einfalda þau og svo þau fari sanngjarnlega fram.
2. Svo hið opinbera hafi fé til þess að veita almenningi nauðsynlega grunnþjónustu. Hún takmarkast við þá þjónustu sem hver og einn þegn landsins þarf á að halda en væri alltof dýr ef hver og einn útvegar hana sjálfstætt.
3. Leysa úr deilimálum sem aðilar samfélagsins eiga við hvern annan.

Þessir liðir eiga að falla undir þá grunnhugmynd að hér sé um að ræða útgjöld fyrir vörur og þjónustu sem samfélagið í heild sinni þarf á að halda. Hver og einn liður gæti auðvitað verið nánar skilgreindur en ég ákvað að binda ekki hendur mínar við of nákvæmar skilgreiningar. Þeir sem eru vel að sér í stjórnsýslunni sjá að liðirnir eru að vísa í löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið.

Hvert og eitt vald á samt eingöngu að ganga eins langt og er hagkvæmt fyrir samfélagið þegar lengra er litið. Löggjafarvaldið á t.d. ekki að semja lög um allt sem gæti farið fram á milli þegnanna eða stjórna öllu sem gerist í lífi þeirra. Sömuleiðis á enginn armur ríkisins að koma fram við alla á jafnræðisgrundvelli.

Til hvers er ég að nefna þetta?
Svarið er nokkuð einfalt: Skattfé er of oft notað í hluti sem hið opinbera ætti ekki að skipta sér að. Dæmi eru um að skattfé sé notað til þess að flytja fé frá einstaklingi A til félags/fyrirtækis B, hvort sem A, eða þjóðin í heild, hefur hag af því eða ekki. Sömuleiðis er skatturinn notaður til þess að stýra neyslu einstaklinga á ákveðnum vöruflokkum, oftast í þeim tilgangi að letja fólk frá því að kaupa vörur í ákveðnum vöruflokkum.

Um leið og skattur er settur á er mjög erfitt fyrir hið opinbera að afnema hann. Tel ég að ástæðan sé sú að um leið og einn skattur er afnuminn mun fólk byrja að efast um tilgang og æskileika annarra skatta. Um leið og málstaður hefur runnið sitt gildi vill alltaf svo til að einhver kemur upp á ræðupúlt og mælir með því að féð sé notað í annað en það málefni sem skatturinn var settur á fyrir og er hann þá endurskýrður. Síðan er fólk að kvarta yfir því að hópur einstaklinga mótmælir „smá aukaskatti“ og það kæmi varla á óvart ef kvartararnir sé sama fólkið og hefur hag af honum.

Sumum er alveg sama um álagningu skatts ef skatturinn lendir ekki á því sjálfu. Það virðist því miður vera ástæða þess að fólk er ekki gjarnt á að mótmæla þeim. Ef lagður yrði 1% auka tekjuskattur á þá sem hétu Jónharður væru mjög fáir sem myndu mótmæla honum. Um leið og skatturinn yrði víkkaður svo hann yrði settur á alla sem hétu Jón eða hefðu nöfn sem byrjuðu á Jón myndi ástandið vera allt annað. Afgangurinn af liðinu sem hefðu nöfn sem byrja á Jón myndu flykkjast inn og byrja að mótmæla. Almennt séð er fólki sama þar til óréttlætið lendir á því sjálfu. Óréttlæti er óréttlæti, sama á hverjum það lendir.

Áhrif skatta
Allir skattar koma öllum við þar sem hann gildir. Hver einasti skattur hefur áhrif á samfélagið í heild, hvort sem það er tilvist hans eða innheimta. Hátekjuskattur hefur t.d. áhrif á þá sem eru undir tekjumörkunum með því að letja fólk frá því að afla nóg til þess að fara yfir þau. Því er t.d. verið að refsa fólki fyrir að taka að sér meiri vinnu til þess að greiða niður skuldir. Einnig er verið að letja fólk frá því að afla meiri tekna af öðrum ástæðum, t.d. til þess að fjárfesta sem myndi annars halda efnahagnum gangandi. Sömuleiðis er algengara að fólk vinni svart svo það haldi meira af tekjum sínum vegna þess að því finnst það hafa greitt nógu mikið í skatta þá þegar.

Alþingisheimur virðist vera á öndverðri skoðun þegar kemur að fjárlögum eftir því í hvaða tilgangi skatturinn er settur. Tilgátan hjá þeim er greinilega sú að neysluskattar hafi þau áhrif að minnka neyslu vörunnar á meðan aðrir skattar hafi engin áhrif. Það virðist vera ríkjandi skoðun á Alþingi að allir skattar utan neysluskatts hafi engin áhrif á hegðun fólks. Þegar ræða á hækkun eða lækkun tekjuskatts er gert ráð fyrir því hver breytingin sé miðuð við þá upphæð sem tekjuskatturinn skilaði árið áður. Þeim virðist bara ekki detta það í hug að lækkun tekjuskatts gæti aukið þá upphæð sem skilast inn vegna hans.

Lærðu stjórnvöld af fyrri kreppu?
Þær skattahækkanir sem Steingrímur er að mæla með munu líklega auka á vandann, ef eitthvað. Efnahagurinn byggir á því að fólk treysti því að hann sé stöðugur og í gangi. Þegar kreppan skall á hér á landi, og annars staðar, á 20. öldinni var gripið til þess ráðs að ráða fólk í ýmis verk á vegum hins opinbera sem jók ráðstöfunarfé heimilanna. Fyrir þetta fé keypti fólk vörur og þjónustu sem þýddi að tekjur fyrirtækjanna jukust og í framhaldinu réðu þau fólk til starfa. Á endanum lagaðist efnahagurinn.

Í dag er staðan þannig að núna er verið að skera niður hjá hinu opinbera sem þýðir að stofnanir forðast það að ráða fólk í vinnu auk þess sem skattahækkanir eiga sér stað. Þau ættu að hafa lært af fyrri aðgerðum og aukið við sig í stað þess að draga saman. Önnur leið sem hægt væri að fara er að lækka skatta til að auka ráðstöfunarfé, aðallega tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt, og þá um meira en 5%. Fólk gæti notað féð sem það fær aukalega til þess að greiða niður skuldir eða nota sem auka neyslufé. Í báðum tilvikum flyst fé á milli handa sem eykur væntanlega flæði fés almennt. Verðtryggingin er ekki efni þessarar greinar en mig grunar að úr henni þurfi að bæta samhliða skattalækkuninni.

Aukaskattar
Aukaskattar eru einnig slæmir af annarri ástæðu, flókin skil á sköttum. Hver einasti sérskattur mun auka flækjustig skattakerfisins til muna og því ómögulegt fyrir hinn venjulega einstakling að gera sér grein fyrir honum. Í sumum tilfellum þarf fólk að ráða aðra í vinnu til þess að telja fram skattana fyrir það og sum fyrirtæki eru með heilan her af bókurum í þeim tilgangi að standa rétt í skilum á sköttum.

Í einhverjum tilvikum eru til heilu bækurnar um það hvernig eigi að standa í skilum á einum flokki skatta og nefni ég þá sérstaklega virðisaukaskattinn. Það kemur varla á óvart því það eru ótal undantekningar á því hvort eitthvað teljist til virðisaukaskattar eða ekki. Ef eitthvað telst til virðisaukaskatts eykst flækjustigið enn þá meira þar sem þá þarf að ákvarða í hvaða virðisaukaskattsþrep viðskiptin falla undir.

Einfaldara skattkerfi
Eftir að hafa heyrt allt þetta, hvernig er hægt að einfalda skattkerfið? Svarið er eins einfalt og lausnin: Einfaldari skattar. Hugmyndin er sú að bara fáeinir skattar væru í gildi og hver þeirra væri upp á flata prósentu. Ef undantekningar eru nauðsynlegar eða eðlilegar, hafa þær fáar og einfaldar. Hvernig myndi þér lítast á það að greiða x% í tekjuskatt og ekkert meira. Það tæki væntanlega bara nokkrar mínútur á ári að klára skattframtalið. Skattkerfið yrði það einfalt að hægt yrði að spara stórar fjárhæðir á ári sem færi annars í að halda utan um það flókna kerfi sem er við lýði.

Annáll 2008

Ýmislegt og ekkert hefur gerst fyrir mig á árinu 2008. Það versta er að maður er ekkert að skrifa niður árið jafnóðum sem orsakar að sumir hlutir eru ekki nefndir en eiga það svo sannarlega skilið. Einnig vil ég minnist á hluti sem eru svo sannarlega þess virði að rifja upp.

Istorrent málið
Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á hið margumtalaða Istorrent mál sem ég er einna þekktastur fyrir. Málið hefur verið í gangi alveg frá því í nóvember 2007 og er því ekki enn lokið. Fyrsta umferð þess var í gangi þegar árið hófst og voru það rétthafasamtökin SMÁÍS, STEF, Framleiðendafélagið SÍK og Félag Hljómplötuframleiðenda (FHF) sem stefndu mér og fyrirtækinu sem ég stofnaði í kringum reksturinn.

Fyrsta krafa okkar var að vísa ætti málinu frá en kröfu okkar var hafnað í febrúarmánuði og hélt þá málið áfram. 11. mars var nokkuð viðburðarríkur dagur þar sem munnlegur málflutningur fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness og stóð hann frá kl. 9 og til um 16:30. Þann 27. sama mánaðar átti að lesa upp úrskurð í málinu. Þetta var stóri dagurinn og bjóst ég við því að þarna væri ákveðið hvernig málið færi en í stað þess var ákveðið að vísa málinu frá. Það kom nokkuð á óvart en mér var létt. Ég vissi það frá upphafi að málið myndi enda hjá Hæstarétti svo ég vissi sömuleiðis að þessi úrskurður væri ekki lokaorðið.

Innan við viku síðar var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar þar sem niðurstöðunni var auðvitað mótmælt. Við studdum auðvitað niðurstöðuna í megindráttum og sendum auðvitað okkar eigin greinargerð. Síðan gerðist það 8. maí að Hæstiréttur ákvað að vísa málinu frá hvað varðar SMÁÍS, Framleiðendafélagið SÍK og FHF en kröfum STEF yrði hafnað. Þetta var stór sigur fyrir Istorrent og var ákveðið að opna skráardeilingahluta vefsins aðfaranótt 16. maí ef ekkert stæði því fyrir vegi. Snæbjörn Steingrímsson gaf út þá tilkynningu að rétthafarnir myndu þá sjálfir krefjast lögbanns í eigin nafni en ekkert varð úr því.

Hins vegar vissi ég frá upphafi að þeir gætu gefið út nýja stefnu í þessu tilviki og vildi því ekki vera að byggja upp miklar vonir innra með mér – allavega ekki fyrr en fresturinn væri örugglega liðinn. Undirbúningur fyrir opnun fór samt fram ef það myndi gerast að þeir myndu ekki gera neitt. Ætlunin var að framkvæma ýmsar breytingar sem myndi krefjast þess að vefurinn myndi verða niðri en það gekk ekki svo vel. Það var því bæði fagnaðarefni og vonbrigði þegar stefna kom frá STEF.

Tafir urðu á flutningi málsins vegna sumarfría en á þeim tíma árs er réttarkerfið rosalega hægvirkt. Við kröfðust aftur frávísunar á málinu og fór málflutningurinn fram 3. september. Peter Sunde hafði samband við mig og minntist á að hann yrði á landinu og það vildi svo til að hann hafði lausan tíma til að fylgjast með málflutningnum. Hann var einn af þeim fáu sem mættu en það gerði lítið til þar sem hópurinn fór síðan á Dominos og ræddi um ýmsa hluti yfir flatböku.

Þann 26. september náðist einhver árangur hvað Héraðsdóm Reykjaness varðaði. Málinu var vísað frá að hluta til en hún fólst í 4 orðum í einni kröfunni og síðan kröfunni um staðfestingu lögbannsins. Ákveðið var að kæra þá hluta úrskurðsins sem var ekki vísað frá en við vildum ekki gera það nema STEF kærði þann hluta sem vísað var frá. Til að gera langa sögu styttri vísaði Hæstiréttur kærunni okkar frá en dæmdi í kæru STEF. Hann vísaði þó „sambærilega vefsíðu“-kröfunni frá en krafan um staðfestingu lögbannsins ætti að vera tekin fyrir hjá héraðsdómi. Í fyrirtöku í nóvember var ákveðið að munnlegur málflutningur í málinu færi fram 7. janúar 2009.

Bónusvídeó
Þeir ákváðu að nýta sér það að ég væri þekktur og létu útvarpa auglýsingu í júní þar sem nafn mitt var notað. Það var gert án samráðs við mig en sumir héldu að ég hefði samþykkt notkun þeirra á nafninu mínu. Þótt auglýsingin fór fögrum orðum um mig innihélt hún samt lygi og vildi ég að þeir tækju hana úr umferð. Eigandi Bónusvídeó bauðst til að láta mig hafa tvær fríar spólur en ég afþakkaði. Auglýsingin var síðan tekin úr umferð skömmu síðar. Frétt um atburðinn var síðan birt í Fréttablaðinu.

Síðar um árið lét Bónusvídeó gera aðra auglýsingu með nafni mínu en hún var heldur ekki gerð í samráði við mig eins og hin auglýsingin. Þar sem auglýsingin innihélt ekki lygi ákvað ég að gera ekkert í því. Auk þess grunaði mig að hún myndi njóta meiri athygli ef ég gerði það (og niðurstaðan væri álík Streisand Effect).

Dauðsföll
Stuttu eftir að auglýsingin frá Bónusvídeó var tekin úr loftinu gerðist sá sorglegi atburður að amma mín í föðurætt dó eftir langvær veikindi. Verð að játa það að jarðarförin var mjög sorgleg en ég var samt ánægður með það að þjáningum hennar væri lokið.

Skólaganga
Ég fór aftur í skólann í ágúst eftir að hafa tekið mér frí á vorönninni. Það mætti segja að sú önn hafi valdið því að ég hafi orðið að vera mikið meira upp í skóla en undanfarnar annir. Orsökin var sú að sumir kennararnir höguðu náminu þannig að það væri umfangsmeira en námsskipulagið gerði ráð fyrir. Þá voru margir nemendur í vandræðum með að anna álaginu og í framhaldi kvartana ákváðu kennararnir að minnka umfangið verulega. Það var þó ekki beint frí þar sem hinir kennararnir settu skiladaga á stórum verkefnum með stuttu millibili. Prófatímabilið hafi því verið frí í samanburði við það sem undan var. Niðurstaða hennar var sú að ég náði öllum áföngunum. Þá er að sjá hvað mun gerast á næstu önn.

Tanntakan
Einn sársaukafyllsti atburður lífs mín (til þessa) gerðist þann 26. ágúst en þá var vinstri endajaxlinn minn á neðri góm tekinn. Þar sem hluti af tönninni var undir þeirri næstu tók aðgerðin lengri tíma en áætlað var Þessar 50 mínútur sem aðgerðin tók voru mjög sársaukafullar og nefndi tannlæknirinn jafnval það að þetta væri ein erfiðasta tönn sem hann hefði þurft að taka út. Það kom mér á óvart að hann skuli hafa skrifað á mig pensillín en engin verkjalyf. Sem betur fer fékk ég verkjalyf heima sem höfðu samt því miður takmarkað gagn. Næstu daga hafði ég mjög litla lyst á mat en ef ég borðaði eitthvað, þá varð það að vera mjög mjúkt.

Kreppan
Fáir Íslendingar hafa ekki heyrt um slæma efnahagsástandið sem hafa dunið yfir í þjóðfélaginu. Sem betur fer var ég ekki með nein bankalán en féð hjá mér var samt sem áður af skornum skammti. Því ákvað ég í nóvember að taka á í fjármálunum og setja mér stefnu. Stefnan byggðist á því að skera á allt sem ég taldi óþarfa og stofna ekki til nýrra útgjalda ef ég gæti forðast þau.

Stjórnsýslukæra
Eftir að hafa sent inn beiðni um endurtöku í janúar og beðið án þess að fá svar, ákvað ég að senda inn stjórnsýslukæru. Hún var samin yfir margra mánaða tímabil þar sem ég lét ekki verða af því að senda hana inn. Í desember ákvað ég þó að láta til skarar skríða og gerði eitthvað í því. Fékk ég síðar bréf um að ráðuneytið teldi sig ekki hafa heimild til að skipa nefndinni fyrir en sendi samt áminningu til hennar. Ég á enn eftir að taka ákvörðun hvort ég eigi að ýta á eftir málinu á þessu stigi.

Önnur dauðsföll
Á árinu dóu því miður einstaklingar sem voru merkilegir í mínum augum. Læt ég mér nægja að tengja inn á Wikipedia síður um þá ásamt því að nefna í stuttu máli hvað þeir gerðu.
Gary Gygax – dó 4. mars – Þekktastur fyrir sinn þátt í hönnun Dungeons & Dragons spilanna. Mörg spil eiga uppruna að rekja til „D&D“.
George Carlin – dó 22. júní – Uppistandari sem var óhræddur við að nota þau orð sem hann lysti.
Horst Tappert – dó 13. desember – Horfði mikið á sjónvarpsþættina Derrick áður fyrr en hann lék samnefndan rannsóknarlögreglumann.
Robert James Fischer – dó 17. janúar – Fyrrverandi heimsmeistari í skák.

Áríð í heild
Hægt er að líkja bróðurhluta ársins 2008 við berfættan dans á þyrnirósum. Slæm reynsla getur samt einnig verið góð reynsla vegna lærdómsins sem við fáum út úr henni. Get þó ekki neitað því að það hafa ánægjulegir hlutir gerst yfir árið og er ég þakklátur fyrir það. Einhver þróun hefur átt sér stað í mínu lífi og er ég ánægður með að þær breytingar hafi átt sér stað. Skrefið er ekki fullstigið en ég vonast til þess að ganga lengra í þeim breytingum á nýju ári.

Næsta árið
Þetta er varla hluti af annálnum en það væri hægt að líta til baka og bera saman spá mína við raunverulega atburði ársins. Ég sé fyrir mér að úrskurður í Istorrent málinu muni líta dagsins ljós um mánaðarmótin janúar/febrúar (vika til eða frá) sem mun síðan vera kærður til Hæstaréttar (hver sem niðurstaðan verður). Ætli það taki ekki Hæstarétt 1-2 mánuði að komast að niðurstöðu svo hún ætti að vera birt í mars eða byrjun apríl. Ætla ekki að spá um niðurstöðuna á þessu stigi en ég vonast eftir sigri. Hef ekki ákveðið mig hvort ég opni Istorrent aftur ef sigur næst en það fer fyrst og fremst eftir niðurstöðu málsins og tíðarandanum.

Það er grafið djúpt í stein að ég mun taka vorönnina á tölvunarfræðibraut í Háskólanum í Reykjavík. Sumarið mun fara í að vinna en ekki liggur fyrir hvar eða við hvað ég mun vinna. Í ágúst mun ég hefja þriðja og síðasta árið mitt á tölvunarfræðibraut. Þegar líður á sumarið og út árið mun ég líklegast vinna í gæluverkefnum eftir því sem tími gefst til. Vonandi mun 2009 ganga betur en 2008.