Stóra skönnunarverkefnið

Eftir talsverða vinnu er nú loks búið að ljúka skönnun á bindunum með hæstaréttardómum sem ég hef hér heima. Um er að ræða alls 134 dómabindi á tímabilinu 1920 til 1995 (bæði árin meðtalin).

Upphafið

Verkefnið hófst í kjölfar Facebook færslu Bókasafns Hafnarfjarðar frá 7. ágúst 2014 þar sem þau buðu upp á safn af dómabindum með hæstaréttardómum til sölu á 100 krónur stykkið, og fékk ég þá hugmynd að kaupa þau til síðari skönnunar. Þegar starfsfólk bókasafnsins heyrði um verkefnið ákváðu þau að láta bindin frá sér endurgjaldslaust. Aflaði ég mér þá liðsinnis Óla Gneista til að geyma bindin þar til ég myndi finna betri geymslustað. Vonin var þá að taka einn og einn kassa af bindum eftir því sem verkinu miðaði, en aðstæður leyfðu það ekki. Að endingu voru öll bindin í minni geymslu.

Framkvæmdin í grófum dráttum

Talið var að óraunhæft væri að skanna blaðsíðurnar með því að taka mynd af hverri blaðsíðu og vinna með þær myndir, sérstaklega þegar búið var að reikna út að blaðsíðurnar væru meira en áttatíu þúsund talsins. Ákveðið var því að skera dómabindin og nýta arkamatara sem finna má á venjulegum heimilisskönnum, og forðast þar að auki að nota flatskanna. Þessi aðferð myndi að endingu leiða til færri handtaka og einnig til tímasparnaðar.

Helstu erfiðleikar í skönnun

Ekki gekk allt snurðulaust fyrir sig þar sem ýmis vandkvæði voru í framkvæmd. Árið 2015 setti ég sumarmarkmið sem kvað á um að verkinu skyldi lokið það sumarið. Þá lenti ég í þeim mistökum að stórlega vanmeta þann tíma sem verkið myndi taka, og náði það ekki langt það sumarið. Taldi ég þá að betra væri að láta fagfólk sjá um að skera bindin og leitaði tilboða. Sanngjarnt tilboð barst og nýtti ég mér það. Nú voru öll bindin skorin og fór ég þá í að skanna.

Verkefnið var sett á sumarmarkmiðalista ársins 2016 en þrátt fyrir að ég hefði verið búinn að láta skera bækurnar ákvað ég að gera ekki þau mistök að gera mér þá hugarlund að ég myndi klára verkefnið það sumarið, og miðaði þá við tuttugu árganga enda gekk þá ágætlega hratt að skanna allt inn. Þegar sextán árgöngum var lokið bilaði skanninn og náði ég því miður ekki því setta markmiði. Verkefnið fór síðan aftur á sumarmarkmiðalista ársins 2017 en þá miðað við tíu árganga, og síðan uppfyllingarmarkmið sem kvað á um restina. Það sumarið náði ég að ljúka skönnun á nítján árgöngum.

Einn helsti tafvaldur þessa verkefnis hefur verið sá að skannarnir höfðu ekki verið sérstaklega langlífir. Annar mesti tafvaldurinn hefur verið sá að sumir af þessum skönnum hafa eingöngu getað skannað eina hlið í einu, er leiddi til þess að hvert dómabindi fór þá tvisvar í gegnum skannann í staðinn fyrir einu sinni. Sem betur fer voru tveir skannanna, þar á meðal sá er lauk verkefninu, gæddir þeim kosti að geta skannað báðar hliðar blaðsíðnanna í einni umferð.

Lokametrarnir

Í janúar 2018 keypti ég mér nýtt fjölnotatæki er hafði skanna með arkamatara sem gat skannað báðar hliðar í einni umferð. Til öryggis ákvað ég að passa sérstaklega upp á að ofreyna ekki skannann með því að vera stöðugt að skanna þegar ég væri heima. Ákvað ég því að setja á mig kvóta á þá leið að skanna að hámarki eitt dómabindi á dag, og myndi ég taka helming að morgni og annan helming að síðdegi. Þar sem ég hafði farið í gegnum nokkra skanna ákvað ég samt sem áður að gera ekki ráð fyrir að skanninn myndi endast.

Þegar ég taldi að þrjátíu bindi væru eftir ákvað ég að hefja niðurtalningu á Facebook án þess að láta fólk vita í hverju hún fólst. Hins vegar gerði ég frá upphafi þá undantekningu að ég myndi svara þeim forvitnu ef þau myndu spyrja mig auglitis til auglitis og jafnframt var í gildi undantekning frá þessari kröfu sökum landfræðilegrar fjarlægðar. Þar sem ég taldi niður einu sinni á hverjum degi hélt fólk að ég væri að telja niður daga, en ég ákvað að leiðrétta það svo fólk myndi ekki taka því sem sjálfsögðu og fara að kvarta ef ég skyldi ekki ná að klára bindi á tilteknum degi. Því miður þurfti ég að leiðrétta talninguna þar sem ég hafði gert þau mistök í birgðastöðunni að gera ráð fyrir bindi sem ég hafði ekki. Þegar ég taldi niður frá þrjátíu voru í raun tuttugu og níu bindi eftir. Með birtingu þessarar færslu fær fólkið loksins svarið við tilgangi þessarar niðurtalningar.

En hvað svo?

Eins og verkefnið er skilgreint setti ég forganginn í að koma bindunum á stafrænt form og er eftirvinnslan ekki hluti af þessu verkefni, heldur aðgreint verkefni. Óli Gneisti hefur unnið að eftirvinnslu fyrir sitt leiti, og má sjá árangurinn hingað til á dómasíðu Rafbókavefsins. Frekari eftirvinnsla er væntanleg og mun líklega ekki taka eins langan tíma og skönnunin sjálf. Búist er við að nánari yfirferð á skönnuðu eintökunum gæti leitt til þess að skanna þurfi sumar síðurnar inn aftur.

Dómabindin sem á vantar

Athugult fólk hefur væntanlega tekið eftir því að dómabindin fyrir þetta tímabil eru fleiri en 134, ásamt því að Hæstiréttur hefur gefið út dómabindi fyrir síðari ár en 1995, og er það rétt. Einstaka göt eru óhjákvæmilega á þessu safni og tel ég óþarft að fresta lokum verkefnisins af þeim sökum. Ef ég rekst á dómabindi sem á vantar geri ég ráð fyrir að skanna þau jafnóðum og þau komast í mínar hendur, og afgreiði ég þau sem aðgreind skönnunarverkefni.

Fyrir þau sem vilja vita hvaða dómabindi eru eftir, fylgir hér listinn eins og hann stendur þegar þessi færsla var birt:
1964 – öll bindin
1965 – 1. bindið
1985 – öll bindin
1996 og síðar – öll bindin

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.