Tölfræði íslenskra léna

Undanfarnar vikur hef ég unnið í því verkefni að safna í lista yfir .is lén. Þar sem ISNIC, af skiljanlegum ástæðum, vill ekki gefa út lista yfir .is lén neyddist ég til þess að standa sjálfur að söfnun hans. Hingað til hef ég eingöngu náð 70% af skráðum lénum en hins vegar er hægt að nota það úrtak til að áætla til um seinustu 30 prósentin.

Áhugaverðar niðurstöður eru þó komnar fram.

Á nafnaþjónamarkaðnum er 1984 ehf. með yfirburðarstöðu (a.m.k. 3405 lén) og má þar líklega þakka FreeDNS þjónustunni þeirra. Síðan kom á óvart hversu margir nýta nafnaþjónaþjónustu ISNIC en þeir bjóða upp á biðsvæði (a.m.k. 1790 lén) og áframsendingarþjónustu (a.m.k. 941 lén)

Lénaeigendur virðast velja ódýrari póstþjónusturnar en í fyrsta sæti er Google (a.m.k. 2202 lén), líklega vegna Google Apps þjónustunnar. Síminn hf. virðist vera með sér póstþjóna fyrir þjónustulínur svo erfiðara er að áætla samanlagðan fjölda léna sem þeir hýsa póst fyrir. Hann er líklegur í annað sæti en vinna þarf frekar úr tölunum áður en það er vitað fyrir víst.

Athygli er vakin á því að þrátt fyrir því að nafnaþjónar og póstþjónar séu vanalega boðnir í pökkum, þá eru þeir ekki allir notaðir. Þar sem ISNIC leyfir eingöngu 4 opinberlega skráða nafnaþjóna er skiljanlegt að fólk noti þá ekki alla, sérstaklega ef fólk vill dreifa hýsingu þeirra milli hýsingaraðila. Engin slík föst takmörk eru á fjölda póstþjóna (sem fólk hefur áhyggjur af) en samt er stundum stór munur á fjölda léna sem skráð eru á póstþjóna hvers hýsingaraðila. Aðalpóstþjónninn fyrir Google Apps er með a.m.k. 2202 lén á meðan sá næsti er með a.m.k. 2060 lén.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.