Frumvarp stjórnlagaráðs fékk rússneska kosningu. Er það gott?

Alltaf þegar ég sé (næstum) einróma kosningar um stór deilumál renna á mig tvær grímur. Mörg deilumál áttu sér stað innan stjórnlagaráðs um útfærslur ýmissa atriða í frumvarpsdrögunum. Þegar deilumál eru afgreidd með einróma atkvæðagreiðslu sprettur alltaf upp orðið ‚hrossakaup‘, þ.e. að fólk hafi keypt eða selt atkvæði sín. Auðvitað eru ekki alltaf peningar í spilinu en ég tel þetta samt sem áður vera ávísun á spillingu.

Nú hef ég rætt málin við nokkra aðila og hef dregið nokkrar mögulegar línur fyrir því hvernig slíkt getur gerst. Hér er aðallega verið að ræða félagslegan þrýsting eða vanhugsaða afstöðu. Málið er auðvitað, þegar um er að ræða kjörna fulltrúa, að þeir kjósi í samræmi við sannfæringu sína en láti ekki undan þrýstingi annarra um að kjósa öðruvísi. Þeir hafa enga siðferðislega heimild til þess að haga atkvæði sínu í annan veg en þeir hefðu gert hvort sem er. Á þetta við sérstaklega við þegar valið er samkvæmt persónukjöri.

Auðvitað er alltaf pláss fyrir málamiðlanir. Fólk með öfgakenndar skoðanir getur auðvitað látið eftir sínum ítrustu kröfum þegar komið er til móts við þeirra málstað að einhverju mælanlegu leiti. Þá er ég ekki að mæla með því að fólk fari að hafna fínustu útfærslum þegar frábrigðin frá skoðunum manns eru smávægileg miðað við hverju var áorkað frá fyrri stöðu. Það þýðir samt ekki að fólk ætti að samþykkja hvað sem er ef það bætir stöðu þeirra að einhverju leiti. Breytingarnar þurfa að vera þess virði að framkvæma þær.

Fyrir stjórnlagaráð (og fyrir kosningu til stjórnlagaþings) var umræðan á þá leið að fulltrúar þess þurfi að vera sem mest sammála sinni eigin afurð til að Alþingi fái ekki færi á að hafna frumvarpinu eða ákveðnum greinum af þeirri ástæðu að fulltrúarnir væru ekki sammála um eitthvað. Þá var litið svo á að samstaða fulltrúanna ætti að vera sem mest í von um að frumvarpinu yrði ekki stungið undir stól.

Þetta getur orsakað það sem kallað er ‚Abilene þversögnin‘ (e. Abilene paradox). Það er að segja að stjórnlagaráðsfulltrúar komi með uppástungur sem enginn vill í raun og veru. Hins vegar eru allir aðrar hræddir við að gagnrýna hugmyndina vegna þess að þeir halda að allir aðrir séu fylgjandi henni. Í lokin er afurðin frumvarp sem enginn vildi í raun og veru en allir fulltrúarnir eru svo stoltir af sínu verki eða vilja ekki grafa undan samstöðunni og samþykkja afurðina. Þeir réttlæta fyrir sjálfum sér og öðrum af hverju þetta var það besta staðan í málinu og enginn fær það sem hann vill. Afurðin verður því frumvarp sem enginn vildi í raun og veru.

Vanhugsun stjórnlagaráðsfulltrúa olli því að fáir kusu í samræmi við þeirra eigin skoðun. Þeir voru greinilega hræddir um að ef þeir myndu greiða atkvæði gegn einhverri ákveðinni grein og mögulega fella hana myndu aðrir fulltrúar kjósa gegn öðrum greinum í hefndarskyni. Ef þetta er hugsað til enda er fáránlegt að halda slíku fram. Sé einhver stjórnlagaráðsfulltrúi staðinn að því að framkvæma slíkan hefndargjörning væri það honum að falli í opinberu lífi því slík hegðun er almennt viðurkennd sem barnaleg.

Þegar kosið var um hverja einstaka grein frumvarpsins átti hver og einn stjórnlagaráðsfulltrúi að hugsa með sér: „Er þetta grein sem ég persónulega myndi vilja sjá í stjórnarskrá Íslands?“ og kjósa samkvæmt því svari. Fulltrúarnir eiga ekki að hugsa um hvað aðrir kjósa eða hefðu kosið því við kusum fulltrúa í samræmi við þeirra skoðanir en ekki hvað öllum hinum finnst. Ef hann væri spurður um það síðar af hverju hann kaus á þennan hátt á hann að geta komið með góðan rökstuðning fyrir því. Hver myndi vilja heyra einhvern svara þessu að hann kaus á ákveðinn hátt vegna félagslegs þrýstings?

Fólk á að kjósa samkvæmt sinni sannfæringu en ekki annarra. Þetta þýðir ekki að fólk geti ekki vegið og metið stjórnarskránna í heild eftir að búið er að kjósa um hverja grein fyrir sig og hefur örugglega nægan þroska til að ákveða hvort það vilji standa með henni eða ekki þó það séu nokkur smávægileg atriði sem það er ósammála.

Rússnesk kosning eins og átti sér stað í stjórnlagaráði er alls ekki góð. Í raun og veru gerir hún kosninguna marklausa því hún er bara enn eitt merkið um að stjórnlagaráð stundaði atkvæðahrossakaup og er ekki gott fordæmi fyrir þjóðfélag sem á að hafa lært af fjármálahruninu 2008. Ég er nokkuð viss um að atkvæðahrossakaup hafi átt sér stað á Alþingi vegna ýmissa laga og lög sem hafi sýnst smávægileg fengið samþykki því þingmennirnir voru að kaupa samþykki á öðrum lögum sem viðkomandi þingmaður eða flokkur vildi fá í gegn.

Til að samfélagið geti þróast og (vonandi) þróuð umræða átt sér stað þarf fólk að skiptast á skoðunum og láta vita ef það er óánægt með eitthvað í stað þess að þegja. Fólk á fleiri skoðanabræður en það heldur en þeir geta varla komið fram ef enginn þeirra þorir að segja neitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.