Langtímaáherslurnar mínar & sumarmarkmiðalisti ársins 2019

Síðastliðinn janúar hóf ég undirbúning að sumarmarkmiðalista ársins 2019, sem verður fimmti listinn af því tagi sem ég geri, og fór ég þá yfir skýrslu sem ég gerði í kjölfar framkvæmdar lista ársins 2018. Eitt atriðið sem mér hnaut á um var ójafnvægi við úrvinnslu tillagna þar sem aðrir aðilar en ég væru ólíklegri til þess að vita hvers kyns tillögur væri verið að leitast eftir.

Sú hugdetta kom upp að ég ætti að bjóða upp á lista yfir langtímamarkmið og fólk gæti nýtt sér hann til þess að gera tillögu að markmiðum sem ætti að framkvæma á styttri tíma. Á móti kom að þá yrði of mikil hætta á að fólk færi að festast í þeim efnistökum sem langtímamarkmiðin næðu yfir, sem myndi fækka of mikið óvenjulegri tillögum sem gætu ögrað mér. Slík útlistun myndi einnig bjóða þeirri hættu á að fólk myndi velja eitthvað langtímamarkmiðið og leggja til að ég myndi „einfaldlega“ einbeita mér að því að klára það yfir sumarið.

Þróunin varð því sú að eingöngu væri um langtímaáherslur að ræða sem einar og sér myndu ekki gagnast sem sjálfstæð markmið. Hins vegar væri hægt að setja markmið út frá þeim og sjá hversu vel þau falla að langtímaáherslunum í heild, og þar af leiðandi hjálpa aðeins til við forgangsröðun þeirra.

Nú er opið fyrir tillögur að markmiðum fyrir sumarmarkmiðalista ársins 2019, fimmta sumarmarkmiðalistans sem ég set saman. Listinn yfir langtímaáherslurnar mun væntanlega gagnast sem uppspretta hugmynda að slíkum tillögum ásamt því að aðstoða mig við að vinna úr þeim tillögum sem berast.

Þó listinn sem slíkur leysi ekki fullkomlega úr því ójafnvægi sem varð uppspretta gerðar hans, þá tel ég hann vera til þess fallinn að bæta jafnvægið að einhverju leiti. Þar að auki takmarkast gagn hans ekki eingöngu við gerð og framkvæmd sumarmarkmiðalista, heldur hefur hann einnig almennt gildi fyrir mig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.