Ég og Bónusvideo

Einhver útvarpsauglýsing er í gangi þessa dagana frá Bónusvídeó sem ég er bendlaður við. Því miður hef ég ekki heyrt auglýsinguna með eigin eyrum en hef fengið senda nokkra texta sem eiga að vera úr henni. Þeir eru nokkuð mismunandi en þeir gefa til kynna að minni fólks er ekki fullkomið. Þetta eru útgáfurnar (leiðrétti stafsetningu þar sem við átti):

1. „Svavar Lúthersson á torrent.is nær í sínar myndir á bónusvideó.is…“
2. „Svavar Lúthersson á torrent.is nær í myndirnar sínar löglega á bónusvideo.is enda topp náungi.“
3. „Svavar Lúthersson hjá Istorrent leigir myndirnar sínar löglega á bónusvideo enda topp náungi.“

Hver sem útgáfan var, þá frétti ég fyrst af þessari auglýsingu í dag enda var ég ekkert með í ráðum við gerð hennar. Einnig kannast ég ekki við að Bónusvídeó eða einhver annar hafi nokkurn tímann haft samband við mig til að fá að nota mig eða nafn mitt í auglýsingum.

Áður en ég spái mikið meira í þetta ætla ég fyrst að hafa samband við Bónusvídeó og heyra hvað þeir hafa að segja um málið.

——

Viðbót 24. júní 2008
Eftir að hafa kynnt skoðun mína við eiganda Bónusvídeó er auglýsingin ekki lengur í birtingu. Hann var almennilegur og þakka ég fyrir það. Að hans sögn fengu þeir góð viðbrögð frá almenningi í tengslum við auglýsinguna en rétthafasamtökin virtust ekki fylgja þeim straumi. Þá fékk ég í hendur hljóðskrá með auglýsingunni og ætti þetta því að vera réttur texti:

„Svavar Lúthersson á torrent.is nær í myndirnar sínar löglega á bónusvídeó.is, enda topp maður. Bónusvídeó.is.“

Því miður var ‘th’-ið í Lúthersson borið fram sem ‘þ’ en réttur framburður er þannig að áherslan er sett á t-ið og h-ið aðskilið en ekki saman. Mætti því segja að framburður þess gæti þýskra áhrifa. Á sömu nótum er Neanderthal komið úr þýsku og gildir það sama um ‘th’-ið í því heiti en grunsamlega margir bera þetta fram sem ‘þ’-hljóð.

Mótmæli mín við birtingu þessarar auglýsingu snúast ekki um rétt til greiðslu fyrir notkun nafnsins. Ég hef aldrei náð í myndir frá bónusvideo.is eða leigt þær með hjálp þeirrar vefsíðu. Mér þykir rangt að ég sé bendlaðir við að gera eitthvað sem ég hef ekki gert (enn þá). Ef nafn mitt er notað á opinberan hátt er rétt að almenningur geti treyst því að um sé að ræða sanna atburði og mína raunverulegu skoðun.

Þar sem auglýsingin er ekki lengur í birtingu og ég get ekki séð neinn skaða vegna hennar þessa stundina, þá sé ég enga ástæðu til að aðhafast neitt frekar í málinu.

11 athugasemdir við “Ég og Bónusvideo”

 1. reyndar er aldrei sagt í auglýsingunni „hjá Istorrent“ eða „á torrent.is“ en þetta neðsta er næst því. „Svavar Lúthersson nær í myndirnar sínar löglega á Bónusvideo, enda topp náungi.“

 2. Var að heyra þær í dag margoft í vinnunni. Fannst þetta einmitt eitthvað skrítið.

 3. Reyndar fannst mér þetta vera góð auglýsing,, heyrði hana fyrst fyrir svona viku,,

  var IsTorrent notandi í 2 ár og þekki því mikið til Torrent – málsins,, o.sv.frv

  Fannst þetta ekki vera neitt skot á Svavar,, því að hann var bara eigandi síðunnar,, hins vegar sóttu um 30 prósent ísendinga myndir og ofrrit og tónlist sína á síðunni,, og væri því gáfulegra að nota „IsTorrent notendur ná í…..“

  En að sjálfsögðu á að spurja fólk um leyfi , þegar nafn þeirra er auglýst svona..

 4. 30% – hvar lærðir þú að reikna? ég man ekki betur en það hafi verið 25.000 notendur á síðunni, þeas eitthvað í kring um 8% þjóðarinnar. Síðan þarf ekkert að vera að allir notendur hafi verið að sækja neitt ólöglegt, eða hafi verið að sækja eitthvað yfir höfuð.

 5. Haha mér finnst þetta nú bara fyndið! Svavar, eins og ég bjóst við þá ertu smám saman að verða goðsögn í þessu landi 😀

 6. mér finnst þetta ný bara gott mál að þú sért að fá jákvæða athygli beint í eyru landsmanna. sammála síðasta ræðumanni, þú ert smám saman að verða goðsögn í þessu landi ! og átt það svo sannarlega skilið, hefur staðið þig vel í deilunni við smáís. þeir stoppa nátturulega alldrei fyrr en þeir eru komnir undir græna torfu !

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.