Helstu baráttumálin mín útskýrð nánar

Í framboðsyfirlýsingu minni tók ég fram helstu baráttumál mín á stjórnlagaþingi ef ég næði fram kjöri. Nú vil ég hins vegar skýra nánar þessi atriði svo þetta séu ekki eingöngu margræð stikkorð.

Fyrsta baráttumálið var betri skipting ríkisvalds en sú hugmynd var nánar útskýrð í samnefndri grein minni. Í stuttu máli felur hún í sér að aðskilja betur löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið þannig að um sé að ræða tvær mismunandi greinar ríkisvaldsins. Í greininni var þó lítið fjallað um dómsvaldið en í því tilfelli þarf aðeins sterkari tengingu á milli. Til að þrískipting valdsins gangi upp sbr. hugmyndafræðina þarf að vera jafnvægi milli allra greina valdsins en tengslin við dómsvaldið eru þannig að það hefur yfirhöndina. Hugmyndin er þó ekki að gefa hinum vald til að breyta dómum eða hafa óeðlileg áhrif á þá heldur gefa þeim aðhald svo þeir dæmi ekki út í bláinn eða eftir eigin geðþótta.

Við, ríkið
Í umræðum síðastliðin ár hefur bilið milli ríkisins og afgangnum af þjóðinni farið stækkandi. Kjósendur munu þá missa trúna á að ríkið sé að starfa fyrir þjóðina og óhlýðnast boðum þess (t.d. lögum). Háir skattar valda því að fólk er tregt til að tilkynna tekjur sínar til ríkisins og vinna svarta vinnu. Hið augljósa er að ríkið á að vinna fyrir okkur, ekki sjálft sig, og ákvarðanir þess eiga að vera teknar með almannahag í huga en ekki hag fárra útvaldra.

Ríkið á heldur ekki að vera sér fyrirbæri sem enginn nema innanbúðarfólk veit hvað er að gerast í. Sjálfgefna staðan á að vera sú að ríkið á að vera opið og gagnsætt. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar fyrir almenning nema augljósir (og sanngjarnir) hagsmunir séu gegn opinberun þeirra. Núna situr ríkið á heilu fjöllunum af upplýsingum sem eiga heima hjá almenningi og eru stundum seld afnot af þeim gegn gjaldi. Söfnun þeirra var greidd með almannafé en þær eru samt ekki aðgengilegar eða aðgengið sé bundið ósanngjörnum kvöðum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Eitt skilyrði fyrir trúfrelsi er að öll trúfélög starfi á jafnræðisgrundvelli og engu trúfélagi sé úthýst eða sett á hærri stall en önnur. Þjóðkirkjan er einmitt trúfélag sem fær gríðarlega fjármuni og önnur fríðindi frá ríkinu umfram önnur trúfélög. Réttlátt væri ef meðlimir hvers trúfélags sæju sjálfir um að styrkja það í stað þess að það sé gert með framlögum af hálfu ríkisins. Trúarbrögð byggjast á meðlimum, ekki kirkjum. Ef meðlimirnir vilja kirkjur, þá geta þeir greitt fyrir þær úr eigin vasa.

Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu
Sumir hafa tjáð þá skoðun að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar sé nokkuð góður en ég tel að hann gangi ekki nógu langt. Við skoðun á honum koma í ljós afar margar undantekningar og stundum er jafnvel gefin heimild til að setja inn fleiri undantekningar í lögum. Jafnvel þótt það sé skýrt tekið fram að það verði að ríkja mikilvæg ástæða fyrir hverri undantekningu er ekki hægt að sjá að farið sé eftir því í lögum landsins. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsið hefur 6 víðar undanþágur (3. mgr. 73. gr.). Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eru engar undantekningar nefndar.

Fyrir utan að skerpa á núverandi réttindum vil ég leggja fram fleiri tillögur að réttindum. T.d. vil ég sjá ýmis réttindi tengd stafrænu öldinni, t.d. það sem kallast network neutrality. Einnig vil ég sjá ýmis réttindi gagnvart dómskerfinu. Sum þeirra eru skilgreind nú þegar í almennum hegningarlögum en ég vil sjá sum þeirra í stjórnarskránni. Stjórnarskrár annarra ríkja innihalda margar hugmyndir að sjálfsögðum réttindum.

Hlusta á hugmyndir annarra
Stjórnlagaþingið á ekki eingöngu að byggjast á því að koma með sínar hugmyndir og berjast fyrir því að þær komist í gegn. Það skiptir miklu máli að hlusta á rök og hugmyndir annarra á stjórnlagaþinginu. Síðan má ekki gleyma því að það var þjóðin sem kaus mann á þingið og því vil ég einnig hlusta á það sem almenningur hefur að segja. Jafnvel þeir sem komast ekki á þing gætu haft hugmyndir sem eru vel þess virði að íhuga. Þótt ég komist ekki á þingið mun ég samt sem áður reyna að miðla minni sýn til stjórnlagaþingmanna.

Betri skipting ríkisvalds

Eitt baráttumálið mitt á stjórnlagaþinginu er betri skipting ríkisvalds. Áður en við spáum í skiptingu ríkisvalds þarf að skilgreina hvað það er. Ríkisvald er hugtak yfir þau valdamörk sem fulltrúar þjóðarinnar hafa yfir málefnum hennar. Löggjafarvaldið hefur t.d. völd til að ákveða hvað má og hvað ekki sem það gerir með setningu laga. Framkvæmdavaldið hefur umboð til að framkvæma þau lög sem löggjafarvaldið setur. Dómsvaldið sér um að leysa ágreiningsmál í ljósi þeirra laga sem gilda. Öllum þessum hlutum ríkisvaldsins eru sett takmörk sem eru útlistuð í plaggi sem (venjulega) er stjórnarskrá þeirrar þjóðar. Þáttur stjórnarskrár er að tryggja að allar þessar greinar ríkisvaldsins hafi ekki of mikil völd með því að veita aðhald milli þeirra.

Stjórnarskrá Íslands er langt frá því að vera fullkomin hvað þetta varðar. Eitt augljósasta dæmið er hve samofið löggjafarvaldið er framkvæmdavaldinu sem veldur því að aðhaldið sem á að vera til staðar er meira og minna horfið. Ástæðan fyrir kverkataki framkvæmdavaldsins á Alþingi er sú að ríkisstjórnin er mynduð af þingmönnum. Fólkið í ráðherrastöðum lifir með meiri lúxus en hitt fólkið á þinginu. Þráin til að komast í ráðherrastöðu er nógu sterk til að halda þingmanninum stilltum og góðum í þeirri von að hann komist í lúxusinn síðar. Þar sem ráðherrastöðurnar eru (oftast nær) ákveðnar af þeim flokkum sem mynda meiri hluta þingsins, þá hafa þeir flokkar bæði framkvæmdavaldið og meiri hluta atkvæða á Alþingi.

Þegar skipting ríkisvalds er ákveðin þarf að ákveða í hverju valdið felst og hvaða mörk eru á því. Einnig þarf að passa að ein grein þess hafi ekki óeðlilega mikil völd miðað við hinar. Samkvæmt hugmyndafræðinni á hver grein ríkisvalds að sæta eftirliti a.m.k. einnar annarrar greinar. Þá skiptir máli að hver þeirra sé nógu sjálfstæð til að sjá um sín mál en sé slegin á puttana reyni hún að ganga of langt. Þetta jafnvægi á að vera skilgreint í stjórnarskrá.

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár Íslands er með beinum orðum ritað að Alþingis og forseti Íslands deila löggjafarvaldinu og einnig að forsetinn deili framkvæmdavaldinu með stjórnvöldum. Það þarf því ekki að fara langt til að sjá þessi óljósu mörk ríkisvalds og geta komið upp efasemdir hvort hann sé í hlutverki löggjafarvaldsins eða framkvæmdavaldsins í stjórnarathöfnum (dæmi: 24. gr. stjórnarskrárinnar). Einnig voru efasemdir um hvort forseti gæti nýtt málsskotsréttinn án atbeina ráðherra á sínum tíma.

Varðandi aðgerðir til að ná fram betri skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds eru til nokkrar leiðir. Ein þeirra er að festa forsetann í sessi sem höfuð framkvæmdavaldsins og láta hann ekki lengur deila löggjafarvaldinu með Alþingi. Síðan gæti hann annaðhvort ráðið ráðherra sjálfur (Alþingismenn og dómarar ekki gjaldgengir) eða tekið við embættishlutverki ráðherra eins og þau eru núna. Önnur leið er að losna við forsetaembættið og láta ráðherra vera kosna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó ég sé meira fylgjandi fyrrnefndu leiðinni er ég ekki búinn að útiloka þá seinni ef hún er vel útfærð. Aðskilnaður forseta frá löggjafarvaldinu þarf ekki að fela í sér að málsskotsrétturinn falli sjálfkrafa niður. Hann getur verið hluti af aðhaldi framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Einhverjir hafa verið með áhyggjur af fjárlögum ef aðskilnaður þessara greina ríkisvaldsins er framkvæmdur. Ef ráðherrar gætu ekki flutt mál á Alþingi væri enginn til að flytja fjárlögin hvert ár. Í umræðu Alþingis um skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram athyglisverð hugmynd sem myndi leysa þetta vandamál. Ef framkvæmdavaldið vill koma á lagabreytingum ætti það að koma þörfum sínum á framfæri við þá þingnefnd sem sér um venjulega um málaflokkinn og hún semur frumvarpið ef hún telur tilefni til þess. Kosturinn við slíkt skipulag er að nefndin er í betri aðstöðu til að beita gagnrýninni hugsun á því sem kemur frá framkvæmdavaldinu og hafa sjálfstætt vald til að meta það hvort þörf sé á lagabreytingu og hvernig það ætti að vera framkvæmt.

Undanfarna áratugi hefur ríkt nokkuð metnaðarleysi af hálfu Alþingis í garð lagafrumvarpa þar sem gagnrýnin er takmörkuð við þau frumvörp sem valda stærstu hneykslismálunum. Orku stjórnarandstöðunnar er oftast beitt í slíkum málum á meðan önnur frumvörp eru gagnrýnislaust gerð að lögum vegna ofríki flokksmaskínunnar. Til hvers að eyða tíma í að gagnrýna frumvarp sem nær í gegn hvort sem er vegna ítaka stjórnarflokkanna? Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds mun ná langt í að afnema þetta óréttlæti þar sem engin stjórn og stjórnarandstaða verður á Alþingi. Ekki er hægt að koma í veg fyrir bandalag flokka að neinu ráði en samstarf þeirra mun snúast frekar um málefni en ráðherrastöður.

Stjórnlagaþing mun hafa tækifæri á að breyta stjórnskipulaginu til hins betra hvað þetta varðar.

Framboð til stjórnlagaþings

Ég vil hér með tilkynna ætlað framboð mitt til stjórnlagaþingsins 2011. Stjórnarskráin er grunnplagg allrar þjóðarinnar og því mikilvægt að hér sé vel að verki staðið og það sé gert án mikilla hagsmunaárekstra. Með framboði mínu á stjórnlagaþingið set ég markið á að framfylgja þeirri hugsjón.

Umræðan síðastliðnu ár hefur sýnt fram á að stjórnarskráin er langt frá því að vera gallalaus og þá má sérstaklega nefna samblöndun löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Einnig þarf að tryggja að nýja stjórnarskráin sé tekin alvarlega og ekki ýtt til hliðar eftir hentisemi. Heiti ég því að reyna mitt besta til að gera góða stjórnarskrá.

Helstu baráttumál mín, nái ég kjöri á stjórnlagaþing:
* Betri skiptingu ríkisvalds.
* Ríkið á að vera ‚við‘ en ekki ‚þeir‘.
* Aðskilnað ríkis og kirkju.
* Aukin mannréttindi hins almenna þegns í landinu.
* Hlusta á hugmyndir annarra sem eru á þinginu og einnig á almenning.

Þessa stundina er ég að safna meðmælendum svo framboð mitt er ekki enn formlega skráð.

Nokkur ráð vegna samskipta við yfirvöld

Því miður er eitthvað um að fólk klúðri samskiptum við hið opinbera með því að nefna eitthvað sem hefði ekki átt að vera nefnt eða gert eitthvað sem hefði betur verið látið ógert. Í mörgum tilvikum valda þessi mistök miklum skaða. Í tilefni af þessu tók ég saman nokkrar ráð sem gætu gagnast fólki. Sum þeirra eru fengin frá erlendum samtökum en ættu að duga ágætlega hér á landi.

1. Haltu ró þinni og vertu kurteis.
Miklu máli skiptir að æsingur hafi ekki áhrif á samskipti þín við yfirvöld. Skiptir það sérstaklega máli þegar þau fara fram í eigin persónu eins og t.d. við lögregluna. Ef þú ert sýnilega æstur munu yfirvöld líta á þig sem andstæðing og líklegra að málið fari lengra.

Bréf og skjöl ættirðu ekki að skrifa á meðan adrenalínið flæðir um líkamann. Oftast nær færðu upp í 2 vikur til að svara og það er ágætt að nota nokkra daga til að slaka á áður en þú semur svarbréfið. Ef þú ert hræddur um að gleyma einhverju máttu auðvitað taka punkta. Mundu samt að fara yfir þá svo bréfið sýnist ekki of tilfinningaþrungið.

2. Þú hefur réttinn til að þegja.
Þetta er auðvitað íslensk þýðing á enska frasanum „You have the right to remain silent“. Gildir þetta ekki bara um samskipti við lögregluna, heldur líka við önnur yfirvöld. Þótt þú sért beðinn um eitthvað þarf ekki alltaf að þýða að þú verðir að verða við því.

Hins vegar eru aðstæður þar sem er betra að verða við slíkum beiðnum eins og t.d. ef lögreglan biður þig um ökuskírteinið þitt á meðan þú ert að keyra. Lögreglan hefur hvort sem er aðgang að upplýsingunum á því (það eru jú yfirvöld sem gefa þau út) og ættir þú ekki að hafa neinu að tapa með því að sýna það. Ef þú ert farþegi ertu ekki skyldugur til að hafa ökuskírteini.

3. Gættu þín hvað þú segir.
Ef þú hefur horft mikið á CSI þáttaraðirnar ættirðu að hafa tekið eftir því að fólk segir eitthvað óvart sem kastar grun á það. Það lendir síðan undir rannsókn sem gæti eyðilagt æru þess varanlega og síðan kemur í ljós í þættinum að einhver annar framdi glæpinn. Þumalputtareglan er að hugsa út í afleiðingar þess sem maður er að fara að segja og hvernig það gæti verið túlkað. Þú hefur alltaf réttinn á að fá þér lögmann en ekki slaka á vörninni á meðan þú býður eftir komu hans.

Sumir halda að með því að kalla hluti eitthvað annað séu þeir saklausir af því að brjóta lögin. Eins og t.d. þegar einhverjir bjóða vörur eða fríðindi í skiptum fyrir lágmarksframlag. Í augum laganna er hér verið að ræða um viðskipti og er yfirvöldum nákvæmlega sama hvað aðrir kalla það. Það er undarlega algengt að einhverjir grípi til slíkra réttlætinga í samskiptum við hið opinbera í von um að bjarga sér í þeirri von að komast sem fyrst úr þessum aðstæðum.

4. Ekki samþykkja leitir.
Í samskiptum við lögregluna skiptir miklu máli að þú samþykkir ekki hvað sem er. Þá á ég sérstaklega við ef þú ert spurður hvort lögreglan megi leita í bílnum þínum. Sem betur fer er þetta ekki algengt á Íslandi en þetta er við lýði í Bandaríkjunum. Þumalputtareglan er að ef lögreglan þarf að spyrja þig um eitthvað hefurðu engu á að tapa með því að neita beiðninni. Þú þarft ekki að útskýra af hverju. Í Bandaríkjunum er fólk stundum gabbað til að verða við slíkum beiðnum með loforðum um að sleppa við sektir.

Jafnvel þótt þú hafir ekkert að fela ættirðu samt að neita slíkri beiðni. Þú hefur litla sem enga hugmynd um hvað fólk hefur skilið eftir í bílnum eða húsinu án þinnar vitneskju. Þér mun vera kennt um allt ólöglegt sem finnst við leitina. Þeir bera síðan enga ábyrgð á því að taka til eftir að þeir hafa lokið leitinni.

Ef einhver bankar hjá þér og segist hafa leitarheimild, biddu strax um lögmann til að gæta réttar þíns á meðan leitinni stendur. Farðu yfir leitarheimildina til að passa að allar upplýsingar séu réttar. T.d. hvort um sé að ræða rétt hús og/eða íbúð.

5. Má ég fara?
Ef samskipti við lögregluna á götunni eru að dragast á langinn, ekki vera hræddur um að spyrja hvort þú megir fara. Þú gætir notað „ertu að halda mér hér eða er ég frjáls ferða minna“. Ef þú ert frjáls ferða þinna, kveddu lögregluþjóninn og farðu burt. Ef svarið er á annan veg, spurðu hver sé ástæðan fyrir því.

Ef þér er haldið gegn vilja þínum, biddu strax um lögmann.

6. Ekki vera of öruggur með sjálfan þig.
Það er fátt sem öskrar sekur meira en „sannaðu það!“ því það er lítið annað en endurorðun á „ég er sekur en þú hefur ekki sannanir undir höndunum“. Þótt það sé ekki hrein játning munu yfirvöld reyna enn frekar að reyna að sanna sekt þína, sérstaklega ef þetta er sagt á hrokafullan þátt. Þess vegna borgar sig að hemja skap sitt og hugsa áður en maður tjáir sig.

Lögreglan er líklegri til að stoppa þig ef bíllinn ber merki um að þú sért vandræðagemlingur. T.d. eru stuðaramerki sem tjá stuðning þinn á einhverju vafasömu eða ólöglegu hvatning fyrir lögguna til að stoppa þig. Ef þú vilt forðast slíkt er betra að losna við allt sem sýnist grunsamlegt, hversu saklaust sem það er í raun.

7. Ekki veita nýjar upplýsingar.
Með öðrum orðum: yfirvöldum kemur ekki allt við. Haltu upplýsingagjöf í lágmarki ef þú þarft að svara yfirvöldum. Forðastu að veita nýjar upplýsingar án þess að ígrunda hvort hægt sé að nota þær gegn þér eða ekki. Það er samt þitt að meta hvort sé betra að veita þær eða ekki.

Ráðin eru meðal annars frá myndböndunum 10 Rules for Dealing with Police og BUSTED: The Citizen’s Guide to Surviving Police Encounters.

Fyrirvari: Ég er ekki lögfræðingur og tek enga ábyrgð á framkvæmd þessara ráða.