Afmælisveislu minni árið 2020 er aflýst

Í ljósi komandi herðingar á sóttvarnaaðgerðunum til að bregðast við COVID-19 farsóttinni og farsóttarástandsins sjálfs tel ég rétt að aflýsa afmælisveislu minni þetta árið. Ef aðstæður leyfa mun afmælisveisla ársins 2021 fara fram með sama hætti og venjulega.

Frá því ég varð 30 ára árið 2013 hef ég haldið afmælisveislu á hádegi afmælisdags míns hvert ár með því að mæta á hádegishlaðborðið hjá Pizza Hut í Smáralindinni. Til að sporna vegna brostnum væntingum, m.a. sökum afboðana, er ég sá eini sem fær formlegt boð í veisluna. Öðru fólki er velkomið að mæta og snæða með mér ef það hefur áhuga (hver greiðir fyrir sig).

Engin krafa er að fólk láti mig vita hvort það mætir eða ekki, og í raun væri ákjósanlegast að fólk geri það ekki nema það sé rétt fyrir veisluna í þeim tilgangi að staðfesta að ég muni örugglega mæta eða upp á nánari tímasetningar. Þá eru heldur ekki væntingar gerðar um að fólk komi með gjafir eða þvíumlíkt. Ég hef viljandi stundað það að auglýsa ekki afmælisveisluna stuttu áður, og í besta falli læt ég vita stuttu eftir að henni er lokið það árið. Þau sem muna svo eftir fyrirkomulaginu (eða skrá áminningu hjá sér) vita þá hvenær hún verður næst.

Einhver álitaefni hafa komið mér til hugar síðastliðin ár um aðstæður sem gætu skapað vafamál um hvort, hvar og hvenær hún verður. Vil ég því grípa þetta tækifæri til að ávarpa nokkur þeirra:

  • Ég stefni að því að mæta eða vera mættur á staðinn kl. 12:00 og vera á staðnum í einhvern tíma, oftast fram yfir kl. 13:00. Mögulega lengur ef fleiri mæta.
  • Að jafnaði tilkynni ég ekki sérstaklega ef aðstæður leiða til þess að ég kemst alls ekki, en þá er fólki velkomið að njóta veitinganna í minni fjarveru ef það mætir. Líkt og kom fram áður er fólki frjálst að hafa beint samband við mig til að athuga hvort og hvenær ég muni mæta.
  • Þótt Pizza Hut í Smáralindinni hafi ekki hlaðborð að hádegi afmælisdagsins, þá mæti ég samt sem áður í hádeginu á þann stað, sé hann opinn á þeim tíma.
  • Ef staðurinn er lokaður á hádegi afmælisdagsins, þá reyni ég að finna annan hentugan stað eins nálægt og kostur er, og þau sem hafa áhuga geta svo spurt mig hvar veislan verður haldin það skiptið. Sé lokunin varanleg mun ég tilkynna opinberlega eins fljótt og unnt er hver hinn nýi staður muni verða þaðan af.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.