Afgreiðsla skriflegra fyrirspurna á Alþingi

Eftir að hafa athugað stöðuna á stjórnsýslufyrirspurn sem ég var með hjá ráðuneyti einu og það hafði ekki tilkynnt mér um tafir á afgreiðslu þess datt mér í hug að kíkja á fyrirspurnir þingmanna á Alþingi og hversu dugleg ráðuneytin eru að svara þeim. Við það nýtti ég mér þau gögn sem ég hafði áður fengið aðgang að hjá Alþingi.

Svarfrestir fyrirspurna almennt
Samkvæmt lögum um þingsköp (nr. 55/1991) í 6. mgr. 57. gr. stendur:

Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið og skal það prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Takist ráðherra ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests sem ákveðinn er í þessari grein skal hann gera forseta Alþingis skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars til Alþingis.

Þetta þýðir að ráðherra hefur 15 virka daga til að svara fyrirspurnum, sem við skulum þýða yfir í 3 vikur (21 dag), til einföldunar. Það ætti ekki að koma að sök vegna takmarkaðs fjölda frídaga. Seinasta málsliðnum um að tilgreina skuli um ástæðu tafa og hvenær svars skuli vænta var bætt við í lok löggjafarþingsins árið 2011. Einnig var á sama tíma svarfrestinum breytt úr 10 virkum dögum í 15.

Framkvæmd
Hvernig er annars farið eftir þessu ákvæði á þessu löggjafarþingi (sem hófst núna í haust)? Samkvæmt gögnum Alþingis hafa á þessari stundu verið lagðar fram 145 skriflegar fyrirspurnir og af þeim hefur 97 verið svarað en 48 er ósvarað.

Af þeim fyrirspurnum til skriflegs svars sem hefur verið svarað (97 talsins) var 26 af þeim svarað innan lögmæltra tímamarka. Þetta þýðir að 71 fyrirspurn (um 73%) til skriflegs svars var útbýtt eftir að frestinum lauk. Þessi 15 virkra daga frestur er því frekar undantekning heldur en reglan. Eingöngu bárust tilkynningar um tafir vegna 9 þessara fyrirspurna sem er nokkuð lítið.

Bið eftir skriflegum fyrirspurnum sem hefur verið svarað:

  • Dagar = Fjöldi
  • 0-6 = 2
  • 7-13 = 6
  • 14-20 = 17
  • 21-27 = 25
  • 28-34 = 22
  • 35-41 = 7
  • 42-48 = 10
  • 49-55 = 6
  • 56-62 = 1
  • 63-69 = 0
  • 70-76 = 0
  • 77-83  = 1

Bið eftir skriflegum fyrirspurnum sem ekki hefur verið svarað:

  • Dagar = Fjöldi
  • 0-6 = 4
  • 7-13 = 2
  • 14-20 = 5
  • 21-27 = 16
  • 28-34 = 5
  • 35-41 = 1
  • 42-48 = 3
  • 49-55 = 2
  • 56-62 = 2
  • 63-69 = 1
  • 70-76 = 0
  • 77-83  = 3
  • 84-90 = 1
  • 91-97 = 2

Eins og kemur fram hér að ofan eru 14 fyrirspurnir sem hafa ekki hefur verið svarað skriflega þrátt fyrir að það séu liðnar 6 vikur eða lengur frá framlagningu þeirra. Af þeim fyrirspurnum hafa 4 tilkynningar borist um tafir. Það hlutfall er nokkuð lítið en eðlilega hefði átt að berast tilkynning um tafir vegna þeirra allra.

Hvað tefur?
Ástæður tafanna geta verið margvíslegar og getur það hæglega farið eftir efni fyrirspurnanna. Síðan er sá möguleiki að skráning Alþingis á þeim hafi misfarist, ráðherra hunsi fyrirspurnina viljandi, þingmaður dragi fyrirspurnina til baka eða jafnvel að þingmaðurinn fái óformlegt svar. Í þingsköpum er einnig getið þess að sé skipt um ráðherra í embætti falla allar fyrirspurnir til embættisins sjálfkrafa niður. Orsakir svaraleysisins geta verið margar og þarf hver og einn að túlka þær.

Samkvæmt tölfræðiupplýsingum sem ég setti upp eru margar skriflegar fyrirspurnir lagðar fram á hverju löggjafarþingi sem er ekki svarað. Það virðist því vera fastur liður á hverju löggjafarþingi að slíkt gerist. Vinnubrögðin eru því ekki einni ákveðinni ríkisstjórn að kenna en samt eitthvað sem má stórbæta. Til dæmis með betri skráningu á fyrirspurnum og betra aðhaldi með vinnslu þeirra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.