Stjórnlagaráð hefur nú opinberað fyrstu drög sín að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og verð ég að segja að ég er í heildina afar vonsvikinn. Fyrst vil ég taka það fram að sumar tillögurnar sem koma fram eru afar góðar eins og t.d. greinin um upplýsingafrelsi. Sumar tillögur eru góðar en mættu ganga lengra og sumar aðrar gera hlutina verri en áður.
Þessi umfjöllun mín gildir um frumvarpsdrögin eins og þau voru þegar greinin var rituð og þau geta auðvitað tekið breytingum eftir því sem líður á þegar stjórnlagaráð vinnur frekar með þær. Ég hef ritað athugasemdir við hverja grein sem ég sá ástæðu til að setja athugasemd við svo stjórnlagaráð mun (vonandi) íhuga þær og að mínu leiti vona ég að það bæti drögin til hins betra.
Það er ekki ætlun mín að skrifa um hverja einustu grein þótt það gæti litið út fyrir það í upphafi. Best er að lesa greinina og hafa frumvarpsdrögin við hendina til að vita hvað ég á við í hvert sinn.
Aðfaraorðin
„Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.“
Skv. athugasemdum sem hafa borist um 4. gr. draganna er fólk að spyrja hvað margbreytileiki þýði. Eftir smá Google leit fann ég út að það merki að hér sé átt að virða það að enginn er alveg eins og ættum við að virða það. Betra orð í þessu tilfelli væri fjölbreytileiki. Ég hef ekki hugmynd hvaðan orðið margbreytileiki kemur.
Þótt textinn hafi eingöngu túlkunarlegt gildi þegar kemur að afgangnum af stjórnarskránni verð ég að gagnrýna ætlað hlutverk stjórnvalda til að efla menningu íbúa landsins. Af hverju ætti það að vera hlutverk stjórnvalda að gera það? Er ekki betra að íbúar landsins þrói sína eigin menningu án afskipta stjórnvalda?
Undirstöður
1. grein. Handhafar ríkisvalds
Sé að stjórnlagaráð treystir almenningi ekki fyrir því að kjósa framkvæmdavaldið beint. Einnig tek ég eftir því að það er sérstaklega nefnt að ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fari með framkvæmdavaldið ásamt forseta Íslands. En samt sem áður á forsetinn að hafa málskotsrétt (58. grein), sem er réttur tengdur löggjafarvaldinu. Sömuleiðis á forseti Íslands að stefna saman Alþingi og setja það hvert ár (44. grein).
2. grein. Yfirráðasvæði
Í greininni er hættulegt ákvæði sem nefnir að „[m]örk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin með lögum“. Samkvæmt þessu getur Alþingi ákveðið að minnka eða færa yfirráðasvæðið án þess að varnagli sé til staðar sem kemur í veg fyrir slíka umsýslan á því. Tja, nema forseti og þriðjungur þingmanna, en þeir varnaglar eru því sem næst gagnslausir. Lögin hljóta lagagildi þrátt fyrir synjun forseta (sem þýðir að yfirráðasvæðið breytist samt sem áður) og þótt lögin séu numin úr gildi myndi það þýða að áhrifin væru svo að við værum að taka yfirráðasvæðið aftur. Þriðjungur þingmanna (ef það fylgi næst) mun ekki hafa rétt til þess að skjóta frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu af ástæðum sem ég mun fara nánar í í tengslum við þá grein (þá 65.).
3. grein. Ríkisborgararéttur
Afar góð grein en þó með túlkunarlegan galla sem ég kom á framfæri við stjórnlagaráð. Hann felst í því að fólk sem flyst til útlanda og er með íslenskan ríkisborgararétt eignast síðan börn. Ef þau hljóta ríkisborgararéttinn sjálfkrafa munu börnin þeirra jafnframt hljóta hann sjálfkrafa. Áhrifin eru að á endanum mun hver einasti jarðarbúi hafa íslenskan ríkisborgararétt. Þann vanda er hægt að leysa með því að hafa í lögum að þeir sem hafa íslenskt foreldri með lögheimili á Íslandi skulu sjálfkrafa hljóta ríkisborgararéttinn en þeir sem búa í útlöndum þurfi að sækja um hann sérstaklega. Á þeirri lausn er hins vegar sá galli að hún væri brot á jafnræðisreglunni (5. grein) þar sem bannað er að mismuna eftir búsetu.
Önnur lausn væri sú að hver og einn þurfi að sækja um ríkisborgararéttinn sérstaklega en slíkt myndi skapa rosaleg skriffinskuvandamál og umfangið væri nokkuð mikið. Þá væru stjórnvöld einnig komin í þá yfirburðastöðu að geta hafnað umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt. Hvað þá ef maður sækir um og síðan týnist umsóknin og maður gleymir því þar til maður þarf á honum að halda?
Mannréttindi
5. grein. Jafnræði
Er á móti því að tvíhnykkt sé á jafnrétti kynjanna í þessari grein. Bæði er kynferði sett fremst í upptalningunni í 1. efnisgrein en síðan er það sérstaklega nefnt í 2. efnisgrein að kynjajafnrétti sé í gildi. Þetta er þó ekki það mikið atriði að ég fari að hafna greininni vegna þess. Myndi þó vilja sjá kynvitund þarna inni en skv. Katrínu Oddsdóttur er breytingartillaga um að bæta því inn.
6. grein. Vernd réttinda
Skil alveg tilgang greinarinnar en svo virðist vera að yfirvöld skulu verja mannréttindi fólks gagnvart mögulegum ágangi sínum. Who watches the watchers?
7. grein. Mannhelgi
Hér tek ég undir marga þá sem hafa sent inn athugasemdir. Af hverju að taka kynferðisofbeldi sérstaklega fram þar sem ‚hvers kyns ofbeldi‛ er bannað? Síðan voru lagðar fram athugasemdir um að gera greinina almennari.
8. grein. Friðhelgi einkalífs
Þessi grein er að mestu óbreytt frá núverandi stjórnarskrá en þó með marklausum fegrunum með því að færa til hér og þar. Hér lagði ég til ákvæði sem gæti verið í staðinn fyrir 2. efnisgrein greinarinnar, sem yrði svona:
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, eða taka hluti eignarnámi án brýnna og réttmætra ástæðna og ávallt að undangengnum dómsúrskurði. Leitarheimildir skulu ávallt studdar sönnunargögnum sem réttlæta leitina og skulu eigi ganga lengra en nauðsyn krefur.
Þeir sem eru kunnir 4. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna ættu að kannast við þessa aðlögun. Hún gengur talsvert lengra en núverandi stjórnarskrá og veitir meiri vernd gegn yfirvöldum. Þá er sérstaklega tekið fram að leitarheimildir skulu vera eins takmarkandi og mögulegt er og studd sönnunargögnum.
11. grein. Skoðana- og tjáningarfrelsi
Í þessari grein er ein versta undanþága sem ég veit af þar sem hana má túlka rosalega vítt. Hún er sú að það má skerða tjáningarfrelsi „til verndar börnum“. Mikil ritskoðun fer fram í mörgum löndum Jarðar vegna barnanna. Netsíur hafa verið settar því börnin mega ekki komast í ákveðið efni. Í hverju felst þessi vernd? Ég skil að það eru til góðar ástæður fyrir því að sía ætti netsamskipti (t.d. barnaklám) en ég treysti bara alls ekki ríkisvaldinu til að taka ákvörðun um það hvað telst hæft börnum og hvað ekki. T.d. í Ástralíu er bannað að sýna ákveðnar kvikmyndir í kvikmyndahúsum „vegna barnanna“.
Hvað ef sama púrítanafólk kemst til valda og lét banna áfengi snemma á 20. öld og vill gera allt til að tryggja að börnin hljóti fullkomna vernd?
Einnig gagnrýndi ég í greininni að hana mætti skilja svo að fólk sem kæmi með skoðanir (sem reynast réttar) gæti verið refsað ef litið væri til 3. efnisgreinarinnar.
12. grein. Upplýsingaréttur
Vildi bara nefna að þessi grein er mikil framför og vonast ég til þess að henni verði ekki breytt frekar nema til að bæta réttindi almennings.
15. grein. Trúfrelsi
Greinin er góð fyrir utan eftirfarandi: „Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.“
Í hverju felst þessi vernd? Gegn hverju á að vernda? Af hverju eiga trúfélög og lífsskoðunarfélög að fá sérstaka vernd en ekki önnur félög? Dögg Harðardóttir nefndi í viðtali við Útvarp Sögu 13. júlí síðastliðinn að enginn í nefndinni sem tók þetta fyrir vissi í hverju verndin fælist. Þetta var líklegast tilraun til að fá ekki öll þessi félög til að mótmæla stjórnarskránni vegna sérstöðu þjóðkirkjunnar í henni.
16. grein. Kirkjuskipan
Er þetta í alvöru það sem við viljum sjá í stjórnarskrá á 21. öldinni? Að ríkið hafi ákveðna kirkjuskipan? Segjum að aðskilnaður ríkis og kirkju fari fram í kjölfar samþykktar þessa ákvæðis. Við munum samt þurfa að lifa við þetta forneskjulega ákvæði í stjórnarskrá þar til það er fjarlægt sérstaklega og það mun líklegast ekki gerast næstu tugi ára.
Önnur spurning sem ég vil koma á framfæri er: Í hverju felst þessi stjórnarskrárlega kirkjuskipan? Hvaða breytingar má gera á kirkjuskipan ríkisins, ef einhverjar, án þess að neyðast til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það? Má ríkið t.d. draga úr stuðningi sínu í formi fjármuna án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu komi? Ákvæðið er svo óljóst að það verður afar erfitt að framfylgja því rétt.
17. grein. Félagafrelsi
Greinin er að mestu óbreytt frá núverandi stjórnarskrá en gallar hennar frá fyrri stjórnarskrá eru þar enn. Þeir eru að hægt sé að skylda fólk til að vera í ákveðnu félagi svo það geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
Svona ákvæði ber að túlka alvarlega. Með því að skylda mann til að vera í félagi er maður t.d. skyldaður til að greiða félagsgjöld (eða iðgjöld) séu þau rukkuð. Engin trygging er fyrir því að stjórn félagsins sé í raun og veru að vinna fyrir þá sem eru í félaginu. Þá þarf að athuga hvort réttmætt sé að skylda fólk til að vera í ákveðnu félagi en ekki takmarka ófrelsið með því að skylda fólk til að vera í ákveðinni tegund af félagi. Ef fólk er ósátt með stjórn félags, gjöldin sem það greiðir til þess eða finnst það ekki sinna hlutverki sínu með metnaði væri fólk frjálst til að skipa yfir í félag sem býður betur.
Ef ég væri skyldaður til að ganga í ákveðið félag og ég myndi mótmæla því að fyrirkomulagið uppfyllti skilyrði stjórnarskrár að ég verði að vera í því vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra, myndi sönnunarbyrðin vera á mínum höndum að sannfæra dómstólinn um að svo sé ekki. ‚Réttindi annarra‛ er þar að auki afar erfitt að mótmæla og of vítt túlkað.
21. grein. Menntun
Bara ein viðbót. Leikskóli mætti einnig vera í boði án endurgjalds.
23. grein. Dvalarréttur og ferðafrelsi
Stjórnlagaráð virðist ekki hafa lært mikið af Falun Gong málinu fyrir nokkrum árum þar sem fólki var hindrað inngöngu í landið án réttmætrar ástæðu. Ég myndi telja það rétt að taka fram að hindrun á inngöngu í landið skuli eingöngu vera með ákvörðun dómstóla eða brýnar ástæður séu fyrir henni (eins og hryðjuverkamaður sem hefur hótað að sprengja upp Ísland ef hann kemst þangað).
25. grein. Réttlát málsmeðferð
Greinin er ágæt þó hún gangi ekki eins langt og ég vildi óska. Læt fylgja hér viðbætur sem ég hefði óskað að væru þar inni líka:
Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í dómsmáli fyrir brot sem hann hefur verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum. Þó skal heimilt að taka mál upp að nýju á lokadómsstigi ef lokadómurinn var falsaður.
Í öllum sakamálum skal sakborningur hafa rétt á að gagnspyrja vitni sem bera vitni gegn honum, að kveða til vitna í hans þágu og njóta aðstoðar lögmanns honum til varnar.
Enginn skal neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér.
Fyrsta tillagan er tengd ‚double jeopardy‛ sem tryggt er gagnvart í helstu mannréttindasáttmálum. Önnur tillagan er byggð á 6. viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna og sú þriðja er byggð á þeirri fimmtu.
28. grein. Bann við herskyldu
Engin efnisleg athugasemd en vildi hamra á því, svo enginn misskilji greinina, að hér er átt við herskyldu en ekki herþjónustu. Ríkið getur stofnað her en má ekki skylda fólk til þess að fara í hann.
32. grein. Upplýsingar um umhverfi og málsaðild
Lögfræðingarnir í stjórnlagaráði hafa örugglega komist í þetta þar sem kveðið er á um að fara skuli eftir meginreglum umhverfisréttar. Hverjar eru þessar meginreglur? Síðan þróast meginreglur í takt við landslög sem þýðir að löggjafarvaldið mun hvort sem er móta þær. Af hverju er ekki bara skrifað að fara skuli eftir lögum og síðan getur Alþingi sett meginreglur umhverfisréttar í lög?
Mér finnst afar ljótt að sjá tilvísun í réttarframkvæmd sem er líklegast ekki byggð á beinum lagaheimildum, heldur dómvenjum. Þótt lög verði síðar sett um slíkar ákvarðanir stjórnvalda geta þau vísað til þess að í stjórnarskrá standi að þetta fari eftir framangreindum dómvenjum en ekki lögum.
Alþingi
36. grein. Alþingiskosningar
Ekki skil ég rökstuðning fólksins í stjórnlagaráði sem segir að það geti verið kjördæmaskipting en samt skuli atkvæði allra vega jafnt. Það gengur ekki upp nema sama hlutfall kjósenda mæti á kjörstað í hverju einasta kjördæmi. Því fleiri kjördæmi, því erfiðara.
Því miður breytti nefndin um stöðu í seinustu drögunum og tóku út ákvæði þar sem hægt var að bjóða fram 2ja manna lista og með því minnkað til muna þá möguleika fólks til að bjóða sig fram til Alþingis. Núna er það komið í gamla horfið þar sem fólk verður að bjóða sig fram sem hluti af fullmönnuðu framboði.
Samkvæmt drögunum er þingsætum eingöngu úthlutað til þeirra sem hafa a.m.k. 4% af gildum atkvæðum á landinu öllu. Samkvæmt útreikningum mínum koma flokkar ekki til greina við úthlutun þingsæta nema þeir hafi næg atkvæði fyrir þremur þingsætum. Þetta gerir nýjum framboðum erfitt að komast að og tryggir í sessi þá flokka sem eru nú við völd, nema nægur fjöldi ákveði að styðja eitt einstakt framboð. Ef fólki finnst að þáverandi þingflokkar standi sig ekki nógu vel og vilji spreyta sig inn á Alþingi í von um að bæta fyrir það sem því finnst að þeir hafi klúðrað þarf fólkið að stofna flokk til að koma sér að á þingi. Gallinn er sá ef nokkur ný framboð ákveða að bjóða sig fram í sömu kosningum. Fólk hefur þá litla trú á að eitthvað ákveðið framboð nái þessu 4% lágmarki og kýs þann flokk sem er skástur af þeim sem það telur að nái örugglega inn. Þetta kallast Lesser of Two Evils principle.
Umfjöllun minni um þessa grein er ekki enn lokið en til að stytta greinina vil ég minnast á næstseinustu efnisgreinina, en það er svokallað kynjajafnréttisgrein. Þar er gefin heimild til að kveða á um í kosningalögum hvernig skuli stuðla að sem jöfnustu kynjahlutfalli á Alþingi. Einhver í nefndinni er staðráðinn í að halda þessari grein þar sem hún hefur farið í gegnum margar breytingar í meðförum hennar en ekki verið tekin út. Sú meginregla sem á að gilda í kosningum, hvort sem það er til Alþingis eða á American Idol, er að þau hæfustu eiga að vinna – óháð kyni. Kyn á ekki einu sinni að vera þáttur í kosningum. Þetta verður sérlega vandasamt í framkvæmd þegar fólk getur kosið þvert á listi í hálfgerðu persónukjöri.
38. grein. Kosningaréttur
Hver er tilgangurinn með því að takmarka kosningaréttinn við þá sem eiga lögheimili á Íslandi? Íslendingar sem búa í útlöndum eiga að vera jafnréttháir Íslendingum með lögheimili á Íslandi. Auk þess brýtur þetta í bága við jafnræðisregluna (5. grein) sem kveður á um bann gegn mismunun vegna búsetu.
39. grein. Kjörgengi
Hvað er óflekkað mannorð? Það er mikilvægt að svarið liggi fyrir þar sem það hefur áhrif á kjörgengi fólks til Alþingis.
Man að ég nefndi við nokkra meðlimi stjórnlagaráðs á hittingi einum (fyrir mörgum vikum síðan) að forseti Íslands geti boðið sig fram til Alþingis og sögðu þau að það myndi vera farið í það. Drögin gefa það ekki til kynna.
41. grein. Gildi kosninga
Þetta er framför frá eldra ákvæði þar sem Alþingi sjálft ákveður hvort kosning til þess sjálfs var gild. Já, núverandi ákvæði er nokkuð skrítið.
42. grein. Starfstími
Nú stendur í drögunum að Alþingi komi saman eigi síðar en tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar. Hvað ef úrslitin liggja ekki fyrir á þeim tíma? Hvað ef kosningin er úrskurðuð ógild?
45. grein. Eiðstafur
Á nokkrum stöðum í drögunum stendur að viðkomandi undirriti eiðstaf að stjórnarskránni þegar hann hlýtur kosningu eða embætti. Hverjar eru afleiðingarnar ef eiðstafurinn er brotinn?
47. grein. Friðhelgi alþingismanna
Sumir hafa gagnrýnt greinina því hún sé brot á jafnræðisreglunni, þ.e.a.s. að alþingismaður skuli fá friðhelgi gagnvart framkvæmdavaldinu í flestum málum en hinn almenni borgari hljóti ekki sömu vernd. Þessi vernd er talin réttlát til að framkvæmdavaldið ofsæki ekki þingmenn til að koma í veg fyrir t.d. að þeir kjósi um ákveðin mál eða geti hótað þeim um ákveðnar afleiðingar ef þeir hlýði ekki ákveðnum fyrirmælum.
48. grein. Hagsmunaskráning og vanhæfi
Hér myndi ég vilja fá skýringu á því hvað stjórnlagaráð var að hugsa þegar það ákvað að nefna sérstaklega að vanhæfi þingmanns hafi ekki áhrif á gildi settra laga. Hvað ef þingmaður laug eða hélt upplýsingum leyndum sem hefðu gert hann vanhæfan og atkvæði hans hefði úrslitaáhrif? Þetta myndi hvetja þingmenn til að halda þessu leyndu ef þeir vilja fá að kjósa um mál sem skiptir þá eða nákomna máli.
53. grein. Opnir fundir
Reglan ætti að vera að fundir þingnefnda ættu að vera opnir nema brýnur ástæður séu fyrir því að hafa þá lokaða.
55. grein. Meðferð lagafrumvarpa
Stjórnlagaráð er ekki með öllum mjalla. Fyrir 16. ráðsfund virtist stjórnlagaráð ákveðið í að framkvæmdavaldið gæti ekki lagt fram frumvörp en á téðum fundi virtist allt hafa snúið við og núna hafa þau lagt til að ríkisstjórnin geti lagt fram lagafrumvörp. Er stjórnlagaráð að klúðra þessum aðskilnaði rétt eins og aðskilnaði ríkis og kirkju?
Einnig benti ég á rökfræðilega betri orðaröð á seinustu efnisgreininni. Hún færi þá frá því að vera:
Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.
Yfir í:
Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu við lok kjörtímabils falla niður.
Mér finnst það hljóma miklu betur. Álíka tillaga var nefnd vegna sambærilegrar efnisgreinar í 56. grein.
58. grein. Staðfesting laga
Hér eru aðallega tvennir hlutir sem eru stórgallaðir. Sá fyrri er frá núverandi stjórnarskrá þar sem getið er að þrátt fyrir synjun forseta hljóta lögin samt lagagildi. Kosningar um lögin verða því um hvort afnema skuli lögin eða halda þeim í stað þess að ákveða hvort lögin hljóti gildi eður ei. Þá getur gerst að lögin kveði á um að veita einhverjum réttindi og ef lögin eru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu er ríkið skaðabótaskylt gagnvart þeim sem réttindin fengu. Möguleg skaðabótaskylda gæti haft áhrif á atkvæðagreiðsluna þar sem hún gæti snúist um það hvort það eigi að borga skaðabæturnar eða ekki.
Seinni stórgallaði hluturinn er ómálefnaleg takmörkun á málskotsrétti forseta. Þetta er vegna mýta og sögusagna sem fólkið í stjórnlagaráði hefur heyrt og telur betra að koma með víðtúlkanlegar greinar í stað þess að ráðast á vandann og takmarka eða koma alveg í veg fyrir að mögulegan skaða sem ótakmarkaður málskotsréttur veitir.
60. grein. Lögrétta
Sé fyrir tól sem hægt er að beita til að tefja mál en hins vegar er miklu minni hætta á að tafirnar valdi niðurfalli málsins þar sem lagafrumvörp falla ekki niður fyrr en við lok kjörtímabils hafi þau ekki verið afgreidd fyrir þann tíma. En þetta er samt öflugt tól við lok kjörtímabils.
63. grein. Málskot til þjóðarinnar
Greinilegt er að stjórnlagaráð ætlar hér að gefa Alþingi meiri völd en forseta til að beita málskoti til þjóðarinnar því ef þriðjungur þingmanna óska eftir málskoti fær frumvarpið ekki lagagildi nema það sé samþykkt við þjóðaratkvæðagreiðslu. Krefjist kjósendur málskots hljóta lögin samt lagagildi en verða auðvitað felld ef úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar kveða á um brottfall þeirra.
Hér hefði verið betra að gefa ákveðinn fastan frest til að safna undirskriftum til að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu áður en lögin hljóta gildi. Náist stuðningurinn hljóta þau ekki gildi nema þau séu staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu.
64. grein. Þingmál að frumkvæði kjósenda
Hér er of mörgum spurningum ósvarað. Af hverju er krafist 15% stuðnings við frumvarp? Alþingi hefur rétt á að breyta eða hafna frumvarpinu svo hér er ekkert verið að vega að sjálfstæði þess eða kveða á um að frumvarpið skuli vera óbreytt.
Tveggja ára frestur til að afgreiða frumvarpið er líka alltof langur og miðað við fjögurra ára kjörtímabil er vel hægt að svæfa afgreiðslu frumvarpsins í heil tvö ár svo það falli sjálfkrafa niður. Þetta úrræði væri því gagnslaust seinustu tvö ár kjörtímabilsins.
65. grein. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu
Þetta er eitt hættulegasta ákvæðið í öllum drögunum, sé virkni þess íhuguð í samræmi við önnur ákvæði. Ástæðan eru þær undantekningar á málskotsréttinum sem nefndar eru og mun ég nefna dæmi.
Fjárlög: Hræðileg fjárlög sem kveða á um of mikil útgjöld í hluti sem almenningur vill ekki að féð fari í eða of lítið útgjöld í hluti sem almenningur vill að meira fari í. Sérstaklega ef spillt Alþingi ákveður að skammta velunnurum sínum fé eða fríðindum.
Fjáraukalög: Sama ástæða og fyrir fjárlög.
Lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum: Ef helmingur Alþingis ákveður að samþykkja þjóðréttarskuldbindingu en lagaleg framkvæmd hennar gengur á borgaraleg réttindi ríkisborgara.
Skattamálefni: Á almenningur ekki að hafa neitt að segja ef ákveðið er t.d. að lækka skatta á fyrirtæki en hækka tekjuskattinn, svo tekið sé dæmi?
Ríkisborgararéttur: Þannig að ef Alþingi samþykkir lög sem veitir erlendum ríkisbubbum ríkisborgararétt gegn ákveðinni fjárfestingu má almenningur ekkert hafa neitt að segja um það?
Við hverju dæmi hér að ofan nefndi ég dæmi þar sem hver undanþága er tekin fyrir. Víðtækasta finnst mér ákvæðið með þjóðréttarskuldbindingum en þá getur Alþingi gengið að skuldbindingu að þjóðarrétti og samþykkt fáránleg lög sem Alþingi segist vera að setja til að framfylgja téðri skuldbindingu. Þriðjungur þingmanna, forseti og þjóðin skulu ekkert hafa um það að segja.
Önnur pæling sem ég hef er hversu mikill hluti samþykkts lagafrumvarps þarf að falla undir téðar undanþágur til að undanþiggja það málskoti? Er nóg að ein grein þess innihaldi grein um upptöku skatts? Eða þarf tvær? Hvað um helmingur hennar? Hvað um allar greinar nema eina? Eða þarf allt frumvarpið að fjalla um undanþegin málefni?
67. grein. Greiðsluheimildir
Hvað ef heimildinni er hafnað? Hvað gerist þá? Endurheimta féð? Hvað ef það er ekki hægt?
70. grein. Eignir og skuldbindingar ríkisins
Sbr. athugasemd mína við greinina, þá hvet ég stjórnlagaráð (eða einhvern annan) til að koma með dæmi um aðstæður þar sem ríkisábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum einkaaðila vegna almannahagsmuna er réttlát.
Ráðherrar og ríkisstjórn
84. grein. Ráðherrar
Í seinustu efnisgrein er sagt að enginn geti gegnt sama ráðherraembætti lengur en 8 ár. Þetta þýðir að fólk getur orðið rótgróið í ráðherrastól út ævi sína en þarf bara að skipta um stól á 8 ára fresti.
85. grein. Ríkisstjórn
Vildi bara nefna að ég tel málsliðinn „Bóki ráðherra andstöðu sína við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann ekki ábyrgð á henni“ afar mikilvægan þar sem það verður (vonandi) til þess að þeir sem gegni ráðherraembætti segi að þeir séu á móti ákvörðun ef þeir efast um réttmæti hennar.
88. grein. Stjórnarmyndun
Mér finnst skrítið að Alþingi kýs forsætisráðherra en samt skipar forseti Íslands forsætisráðherra í embætti og veitir honum lausn. Væri ekki réttara að nefna að Alþingi gegni því hlutverki?
Dómsvald
96. grein. Sjálfstæði dómara
Hér mæli ég með því að dómararnir sjálfir gegni ekki öðrum störfum á meðan þeir gegna embætti dómara. T.d. geti framkvæmdavaldið ekki ráðið dómara til að sitja í nefndum sem veldur vanhæfi þeirra ef málin koma til kasta dómstóla.
99. grein. Skipun dómara
Væri ekki rangt að segja að ráðherra veiti dómurum lausn ef þeim er ekki vikið úr embætti nema með dómi?
Viðbót: Þessu hefur verið svarað á þann hátt að ráðherra veiti þeim lausn ef þeir vilja sjálfviljugir fara úr embætti eða komist á aldur.
Meðferð utanríkismála
107. grein. Meðferð utanríkismála
Af hverju á forseti Íslands að vera háður ríkisstjórn í utanríkismálum? Í öðrum stöðum draganna virðist forsetinn vera æðsti partur framkvæmdavaldsins en í þessari grein er hann dúkkan þeirra og þarf að spila allt eftir stefnu ríkisstjórnar hverju sinni.
108. grein. Þjóðréttarsamningar
Stjórnlagaráð hlýtur að lifa í útópíu þar sem að þeirra mati virðast allir þjóðréttarsamningar snúast um að bæta réttindi okkar. Fyrst má ekki kjósa um þjóðréttarskuldbindingar og núna mega ráðherrar gera þjóðréttarsamninga án samþykkis Alþingis. Þetta ákvæði er hægt að misnota þar sem Alþingi getur valið úr þjóðréttarskuldbindingum sem ráðherra gerir, sem annars krefjast ekki breytinga á lögum, og samþykkt frumvarp þar sem meirihluti Alþingis segir að þeir séu að framfylgja samningnum (betur) með því að breyta lögum. Þá komast þeir hjá þjóðaratkvæði enn og aftur.
Stjórnlagaráð hlýtur að hata þjóðaratkvæðagreiðslur eða fulltrúar þess eru alls ekki að íhuga mögulega mistnotkun á þessum ákvæðum.
109. grein. Framsal ríkisvalds
Þá er komið að enn öðru slysinu og nægir mér að umskrifa athugasemd sem ég gerði við greinina: Samkvæmt greininni er hægt að fullgilda samninga um framsal ríkisvalds og gilda um þær sömu reglur og eiga við um breytingar á stjórnarskránni. Hins vegar kemur fram í 111. grein. að 5/6 hlutar Alþingis geti afnumið þjóðaratkvæðagreiðsluna og því gæti verið að þjóðin hafi ekkert færi á að kjósa um framsalið fyrr en það hefur verið sett í lög og mögulega framfylgt.
Lokaákvæði
111. grein. Stjórnarskrárbreytingar
Fyrsta efnisgreinin er fín en sú önnur er það ekki. Þar kemur fram, sbr. athugasemd við 109. grein, að hafi 5/6 hluta þingmanna samþykkt frumvarpið geti Alþingi ákveðið að fella niður þjóðaratkvæðagreiðsluna. Orðalagið er áhugavert þar sem það býður upp á að ef 5/6 þingmanna samþykkja frumvarpið er nóg að einfaldur meirihluti samþykki að fella niður þjóðaratkvæðagreiðsluna.
—
Eins og ég nefndi í upphafi eru gallar þessarar stjórnarskrár of margir til að ég geti samþykkt hana eins og drögin eru. Ég vona að stjórnlagaráð lagfæri hana svo Íslendingar geti fengið stjórnarskrá sem þeir geta verið stoltir af.