Aðhald í fjármálum

Jafnvel þótt útgjöldin mín séu fá yfir mánuðinn má þar enn finna óþarfa. Því miður er ég ekki í vinnu vegna skólagöngu minnar. Nú bætist við hið slæma efnahagsástand og því mikilvægt fyrir mig að sýna meira aðhald í fjármálum en áður. Því hef ég tekið eftirfarandi ákvörðun sem gildir þar til fjármálin mín batna:

„Ég, Svavar Kjarrval, hef ákveðið að stofna ekki til nýrra útgjalda ef ég get forðast þau. Einnig mun ég ítrekað leita leiða til að fækka útgjaldaliðum eins og kostur er og leita ódýrari leiða til að ná sömu markmiðum ef ég þarf að annað borð að greiða fyrir eitthvað.“

Í framhaldi af þessu mun ég skila debetkortinu mínu í bankann á næstu dögum. Þó mun ég halda kreditkortinu upp á það ef eitthvað kemur upp á.

Einnig hef ég furðað mig yfir því að fólk hafi tekið hin svokölluðu myntkörfulán þegar íslenska krónan var sterk gagnvart þeim gjaldmiðli. Það er varla verri tími til að taka lán í erlendum gjaldmiðli. Tökum dæmi…

Siggi tekur 10 evru lán hjá Jóni og gengið á evrunni á þeim tíma er 50 krónur á móti hverri evru. Til einföldunar gerum við ráð fyrir því að myntbreytingin sé ókeypis og það séu engin önnur gjöld tengd láninu eins og lántökugjöld eða vextir. Jóni er nákvæmlega sama um gengi krónunnar og vill bara fá 10 evrurnar til baka. Siggi þarf samt að nota lánið til að greiða fjárhæð í íslenskum krónum og þarf því að taka lánspeninginn og breyta fyrst í íslenskar krónur. Nú hækkar evran gagnvart íslensku krónunni og er hver evra jafngild 100 krónum. Þetta veldur því að Siggi þarf að umbreyta 1000 krónum í evrur til að greiða Jóni. Upphæðin hefði auðvitað verið hærra ef við tökum vexti og önnur gjöld með í dæmið.

Rétti tíminn til að taka lán er þegar íslenska krónan er veik gagnvart gjaldmiðlinum. Ef þetta hefði verið öfugt í dæminu á undan hefði Siggi eingöngu þurft að borga 500 krónur til baka þegar hann fékk lán að jafngildi 1000 króna að þávirði. Því miður er erfiðara að fá slík lán á þeim tímum en þau eru talsvert hagstæðari gagnvart lántakandum ef íslenska krónan styrkist gagnvart þeim gjaldmiðli síðar. Af þessari ástæðu skil ég bara ekki af hverju maður er að heyra af því að fjármálaráðgjafar hafi verið að mæla með slíkum lánum þegar krónan var sterk.

Fyrirvari: Ég er ekki lærður viðskiptafræðingur eða með aðrar tengdar gráður. Hverjar aðstæður eru öðruvísi svo ég mun hvorki bera ábyrgð á því hvernig fólk fer eftir þessum ráðgjöf minni eða afleiðingum þess.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.