Þann 30. nóvember síðastliðinn ákvað ég, fyrst ég var rétt hjá, að skreppa í Þjóðskrá til að athuga trúfélagsskráninguna mína. Bjóst ég við því að þetta væri einföld athugun þar sem ég hafði fyrir fleiri árum síðan skráð mig utan trúflokka. Svo var ekki raunin og hafði ég skráð mig í „Fríkirkjuna Kefas“ þann 1. desember 2002 skv. starfsfólkinu.
Hvernig mátti það vera að ég var skráður í Kefas? Ég vildi komast að því af hverju á því stæði og lét því athuga það. Mig grunaði að þetta gætu hafa verið mistök eða einhver hafi falsað skráninguna. Þar sem manneskjan sem sér um skráningarnar var í mat þurfti ég því að bíða og síðan þurfti ég að bíða lengur eftir því að hún hafði upp á forminu sem ég fyllti út á sínum tíma. Á endanum þurfti ég að bíða í rétt yfir 30 mínútur þar til kallað var á mig.
Þegar ég kom að básnum sýndi manneskjan mér blaðið og stóð á forminu að ég hefði skráð mig utan trúflokka og spurði hún hvað væri að skráningunni minni. Ég benti á útprentað blað yfir trúfélagssögu mína þar sem ég var skráður í Kefas. Hún sá því strax mistökin og sagði að þetta yrði leiðrétt. Nefndi ég þá að ég vildi að þetta væri leiðrétt frá og með 1. desember 2002 en ekki 30. nóvember 2009 og var það sjálfsagt mál. Kvaddi ég því og lagði af stað heim. Á leiðinni heim tók ég á móti símtali þar sem leiðréttingin var staðfest.
Þá var ég forvitinn og vildi vita hvort það yrðu einhverjar frekari afleiðingar af þessum mistökum og hafði samband við Fjársýslu ríksins í tölvupósti þar sem ég spurðist fyrir um sóknargjöldin sem voru innheimt og úthlutuð sem afleiðing þessara mistaka. Málinu var vísað til Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og fékk ég það svar að mistökin voru leiðrétt alltof seint og því yrðu sóknargjöldin ekki bakfærð frá Kefas og Háskóli Íslands mun ekki sjá einn einasta eyri af þeim.
Þessi mistök (eða ásetningur) í innslætti orsakaði það að Háskóli Íslands varð af nokkrum tugum þúsunda á þeim 7 árum sem mistökin voru ekki leiðrétt. Það vekur auðvitað upp spurningar hvort fleiri mistök eru í kerfinu þar sem fólk eins og ég, sem treysti Þjóðskrá fyrir leiðréttingunni, er skráð í annað trúfélag en formið sem það skilaði inn. Traust mitt á stofnuninni var slíkt á sínum tíma að ég sá aldrei ástæðu fyrr en núna til þess að athuga hvort skráningin hefði skilað sér inn í tölvukerfið. Hversu margir eru núna að greiða sóknargjöld til annarra trúfélaga en það hafði í hyggju?
Forðast hefði mátt mistökin með einföldum aðgerðum. Ein af þeim er að gera ferlið rafrænt þar sem íslenskir ríkisborgarar geti leiðrétt skráninguna í gegnum netið. Sumar stofnanir hafa komið upp álíka ferli og má þá t.d. nefna Ríkisskattstjóra þar sem hægt er að skila inn skattskýrslum rafrænt og Neytendastofu. Þetta þýðir ekki að hver stofnun ætti að hafa sína eigin rafræna lausn, heldur mætti samræma ferlið og væri hægt að hafa allt á einu léni. Annar liðurinn væri að staðfesta skráninguna með því að senda tilkynningu til allra sem breyta trúfélagsskráningu sinni og þá nefnt að henni hefði verið breytt og jafnframt hver hún sé þá stundina.
Álit mitt á sóknargjöldum almennt þarf að bíða betri tíma.
Leiðinlegt að skráningin hafi verið röng. En eitt sem ég heyrði fyrir nokkru síðan, eru ekki sóknargjöld þeirra sem eru skráðir utan trúfélaga send í guðfræðideild háskólans? Eða rennur það beint og óskipt til Háskólans yfir höfuð ?
Ég skráði mig í Fríkirkjuna í Reykjavík, ekki vegna þess að ég sé kristinn, heldur vegna þess að ég þeirra skoðunar að Prestar á íslandi eru fégráðug svín, en einhvern vegin hefur Fríkirkjan verið utan velta í þeim efnum. þ.e.a.s Fríkirkjan rukkar ekki fyrir hverja eina og einustu athöfn, skírn eða annað sem er framkvæmd þar og telja þeir að þetta eigi að vera innifalið í sóknargjöldunum.
Ef það stenst að sóknargjöldin renni óskert til guðfræðideildar háskólans, þá er ég frekar fylgjandi því að fólk velji sér „uppáhalds“ eða þann trúarsöfnuð sem þeir/þau telja skástann.
Sóknargjöldin renna beint og óskipt til Háskóla Íslands.
Þau gerðu það þar til nýlega, nú renna þau óskipt í ríkissjóð.
Það er rétt hjá Hauki, lögunum var breytt seinasta sumar þannig að féð er notað í almennan rekstur hins opinbera.
Þegar féð fór til Háskóla Íslands fór það í ákveðinn sjóð þar sem hægt var að sækja um styrki úr. Enginn úr guðfræðideild, skv. mömmu minni, hefur fengið úthlutað úr honum.
Ég mætli annars með því að allir hagi skráningu sinni eins og hún sé réttust samkvæmt þeirra eigin sannfæringu. Þeir sem trúa ekki á það sem trúfélögin halda fram ættu að skrá sig utan trúflokka og hinir ættu að skrá sig í þann söfnuð sem þeir eiga best heima í.
Þegar ég skráði mig úr þjóðkirkjunni.. þá spurði ég einmitt um þetta með Guðfræðideildina .. afþví ég hafði heyrt um það líka.. og ég vildi sko ekki að allur peningurinn færi þangað. MEina, halló, ég var að skrá mig ÚR þjóðkirkjunni, afhverju ætti ég þá að vilja að allir peningarnir færu í guðfræðideildina…
Konan sagði mér að peningurinn færi bara til Haskólans í heild sinni. Ekkert ákveðið til einnar deildar. Það gladdi mig 🙂