Eitt af því sem maður rekst undarlega oft á eru málvillur að ýmsu tagi en sér í lagi kjánaleg röðun setninga innan málsgreinar. Fólk skilur oftast nær hvað sé átt við en þegar hugsað er út í þær frá setningarfræðilegu sjónarmiði eru þær nokkuð rangar. Þær röðunarvillur sem ég hef rekist á snúast oft um að tengdar setningar eru ekki hafðar við hlið þeirrar setningar sem þær eiga við. Mun ég styrkja mál mitt með dæmum.
Áður en ég fer lengra vil ég nefna að það sem margir þekkja sem setningar kallast í raun málsgreinar og er hver málsgrein samansett af mörgum setningum og endar hún (oftast) á punkti. Það sem er skáletrað hér fyrir framan er ein málsgrein. Einnig vil ég taka fram að ég hef aldrei ýjað að því að hafa fullkomna stafsetningu og málfar; Ég er einnig stundum sekur um mistök að því leiti við og við.
Morgunblaðið er oft að koma með klaufalega setningaröðun í fréttum varðandi dóma;
Frétt um dómsúrskurð í Hæstarétti þar sem Hæstiréttur stytti fangelsisdóm:
„Maðurinn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi en Hæstiréttur sýknaði hann af tveimur ákæruatriðum.“
– 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi? Ekki margir sem myndu vilja húka þar svo lengi.
Frétt um mann sem dæmdur var fyrir vörslu barnakláms:
„Karlmaður um fertugt hefur verið dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu barnakláms í Héraðsdómi Reykjavíkur.“
– Héraðsdómur Reykjavíkur er greinilega syndabæli.
Aðrir íslenskir fréttamiðlar eru einnig sekir um svona villur;
Frétt Stöðvar 2 um hækkun grunnlauna grunnskólakennara:
„Þar af hækka grunnlaun kennara um 25 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. júní næstkomandi.“
– 25 þúsund króna hækkun grunnlauna á mánuði er rosalega góð. Ég hefði verið mjög ánægður með slík kjör. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að fjarlægja „á mánuði“ en það hefði mátt setja það annars staðar í málsgreinina. Þessi villa á rót að rekja til yfirlýsinga fólks um að „hafa X krónur á mánuði“ en er fyrir mistök notuð um hækkun launa.
Þessi texti er dómkrafa SMÁÍS, STEF, FHF og Framleiðendafélagsins – SÍK:
„Að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa.“
– Er eingöngu verið að meina efnið sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarréttinn að efninu án samþykkis rétthafa? Það hefði verið skemmtilegt að sjá þá sanna það.
Svona villur eru einum of algengar og er líklegast hægt að rekja þær til fljótfærnis textahöfundar eða hann sjái ekkert að textanum eftir að hafa komið textanum fyrir á föstu formi. Þessar villur finnast víða og stundum þarf að lesa textann yfir nokkuð nákvæmlega til að koma auga á þessar villur. Svo sýnist vera að þesar villur séu algengari eftir því sem upplýsingum er þjappað meira saman. Þótt hægt sé að færa rök fyrir því að meiningin sé augljós í hverju tilviki er þetta samt sem áður leiðinlegt að sjá þær.