Upplýsingabeiðni um kirkjueignir – innanríkisráðuneytið

Þann 25. febrúar 2013 sendi ég upplýsingabeiðni til innanríkisráðuneytisins þar sem ég óskaði eftir gögnum um kirkjujarðasamninginn 1997, útfærsluna 1998 og þar að auki eintak af „öllum samningum og samkomulögum sem eru í gildi milli ráðuneytisins og Þjóðkirkjunnar, ásamt undirstofnunum hennar“.

Beiðnin:

„Í krafti upplýsingalaga og annara viðeigandi laga óska ég eftir því að fá eintak af lista yfir þær jarðir og kirkjueignir sem íslenska ríkið fékk við samning sinn við embætti biskups Íslands (Þjóðkirkjuna) sem undirritaður var 10. janúar 1997. Þá óska ég sérstaklega eftir þeim skjölum sem tengjast mati ríkisins á verðmæti fyrrgreindra jarða og kirkjueigna sem framkvæmt var skv. 15. gr. laga 94/1976.

Einnig óska ég eftir öllum skjölum sem liggja fyrir á ráðuneytinu varðandi fyrrnefndan samning ríkisins frá 10. janúar 1997 og sömuleiðis samning milli sömu aðila undirritaðan 4. september 1998. Þá eru meðtalin þau skjöl sem notuð voru við samningaumræðurnar, eins og dagbókarfærslur, vinnugögn, fundargerðir, minnisblöð og önnur samskipti milli málsaðila. Þá tekur beiðnin einnig til skjala sem gagnaðili hefur lagt fram. Sérstaklega er beðið um skjal sem Þorvaldur Karl Helgason segir að samninganefnd Þjóðkirkjunnar hafi lagt fram sem á að innihalda „ítarlega úttekt á þessum eignum, sem ekki var mótmælt af hálfu ríkisins“.

Jafnframt óska ég eftir eintaki af öllum samningnum og samkomulögum sem eru í gildi milli ráðuneytisins og Þjóðkirkjunnar, ásamt undirstofnunum hennar.

Sé beiðni minni að skjölum synjað í heild eða að hluta til óska ég eftir rökstuðningi fyrir synjuninni með vísan í viðkomandi lagaheimildir. Af gefinni reynslu í samskiptum mínum við ráðuneytið vil ég minna á ákvæði upplýsingalaga um málshraða.

Til að minnka pappírsnotkun kýs ég að fá skjölin á stafrænu formi sé það möguleiki.“

Að fá upplýsingarnar var alls ekki auðvelt þar sem ráðuneytið þrjóskaðist nokkuð við. Til að tryggja að málið yrði örugglega skráð, hringdi ég á eftir beiðninni og bað skjalavörð um að láta mig fá málsnúmerið um leið og málið væri skráð inn, sem var gjört. Samkvæmt upplýsingalögum fær ráðuneytið sjö daga til þess að taka afstöðu til beiðnarinnar og er lagalega skylt að svara henni á þeim tíma, annað hvort með afhendingu gagnanna eða synjun. Því leit ég svo á að mánuður var meira en sanngjarn tími til þess að bíða þar til ég myndi ítreka beiðnina. Þegar sá tími var liðinn hringdi ég reglulega í ráðuneytið þar sem ég spurði um stöðu málsins og kvartaði einnig reglulega vegna tafa á afgreiðslu beiðnarinnar.

Það var ekki fyrr en í júní, næstum 4 mánuðum síðan ráðuneytið fékk beiðnina, sem ég skilaði inn kæru til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Í júlímánuði fæ ég síðan A4 umslag með bréfi þar sem beðist er velvirðingar á töfinni ásamt skjölum sem falla undir beiðnina. Af hverju ráðuneytið gat ekki svarað beiðninni fyrr, þarf hver og einn að svara. Það var samt ekki fyrr en núna nýlega að ég fékk mér prentara og gat skannað þau inn.

Svarið við upplýsingabeiðninni ásamt skjölunum, skannað inn:
Upplýsingabeiðni – innanríkisráðuneytið – svarað 10. júlí 2013

Skjölin sem fengust vegna þessarar beiðni voru ekki eins ríkuleg og ég bjóst við. Eins og beiðnin var orðuð bjóst ég við að fá aðgang að meiri flóru gagna eða fleiri blaðsíðum en 75. Séu skjölin skoðuð er nokkuð stór hluti þeirra ýmis drög að samningi um prestssetursjarðir sem undirritaður var árið 2006. Hlutfall skjala sem snúa að jarðasamningunum 1997 og 1998 er nokkuð lítið, þrátt fyrir að um sé að ræða samning sem hefur kostað íslenska ríkið fleiri tugi milljarða frá árinu 1997.

Í bréfinu til mín er vísað til tilvist skjala í skjalasafni ráðuneytisins en þess ber að geta að í lögum er gert ráð fyrir að ráðuneyti haldi skjölum í skjalasafni sínum í 30 ár og skili þeim síðan til Þjóðskjalasafns Íslands. Af þeirri ástæðu geri ég ráð fyrir að ráðuneytið eigi að hafa skjöl um málið sem ná að minnsta kosti til ársins 1983. Þá er einnig getið þess að ráðuneytið þurfi að gæta að því að skjölin verði ekki fyrir óleyfilegri grisjun eða eyðileggingu. Ef við gerum ráð fyrir að ráðuneytið hafi reynt að rækja þá skyldu er fátækleiki skjalanna skýrður aðallega sem annaðhvort það að ráðuneytið hafi ekki látið mig fá öll skjölin sem ég bað um eða það hefur ekki talið sig þurfa að skrá mikið niður. Hið síðarnefnda myndi benda til málamyndagjörnings og/eða afar lélegrar skjalfestingar.

Svarið inniheldur þá staðhæfingu að ráðuneytið var ekki með lista yfir jarðirnar sem samningarnir 1997 og 1998 náðu yfir og hafði einnig enga lista yfir verðmæti þeirra. Svar fjármálaráðuneytisins við annarri upplýsingabeiðni minni, dagsett 10. janúar 2013, innihélt einnig sambærilega staðhæfingu. Hvorugt ráðuneytið segist því hafa haft undir höndum lista yfir það um hvaða jarðir var að ræða og þar að auki engar tölur um verðmæti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.