Seinustu daga hef ég frétt af því að ýmsir frambjóðendur til stjórnlagaþings hafa fengið sendar spurningar frá Samtökunum ’78 en þótt leitt að ég skuli ekki enn hafa fengið þær. Hjörtur Smárason, frambjóðandi 9618, var svo elskulegur að senda þær áfram á mig svo ég geti svarað þeim jafnvel áður en formlega eintakið bærist. Spurningarnar eru þrjár sem ég mun svara hér opinberlega;
1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?
Viðhorf mín eru þannig að ég lít ekki til hinsegins fólks sem hinsegin og er það jafnvel orðalag sem mig langar helst ekki að nota. Ég lít á allt fólk sem manneskjur sem eiga sín réttindi og skoðanir.
2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?
Hugmyndir mínar fyrir téða grein eru þannig að mig langar helst að sleppa þessari upptalningu svo ekki þurfi að bæta sífellt inn atriðum sem verja á gegn mismunun. Reynist það ekki fýsilegt skal ég glaður styðja það að bæta inn kynhneigð í upptalninguna.
Síðan vil ég bæta við að spurningin er nokkuð leiðandi og hefði verið hægt að orða hana á betri hátt.
3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?
Já, ég er nokkuð jákvæður. Ég er fylgjandi því að allar manneskjur hafi jafnan rétt og ‚hinsegin fólk‘ er þar engin undantekning.
2 athugasemdir við “Spurningar frá Samtökunum ’78”