Á þjóðfundinum var greinilega rætt um aðskilnað ríkis og kirkju ef marka má niðurstöður hans og virtist hann vera á þeirri skoðun að aðskilnaðurinn ætti að fara fram. Áður en ég hef umræðuna hér vil ég nefna að aðskilnaður ríkis og kirkju er eitt helsta baráttumálið mitt enda er um mannréttindamál að ræða.
Til undirbúnings fyrir stjórnlagaþing (og af einskærum áhuga) hef ég verið að mæta á ýmsa fundi og fyrirlestra tengdum stjórnarskrármálefnum og þá hafa pælingar um aðskilnað ríkis og kirkju komið fram. Einhver ruglingur hefur komið fram á þessum vettvangi um framkvæmdina og ákvæði stjórnarskrárinnar sem snerta á þessu málefni. Vil ég fara í gegnum ferlið í von um að útskýra þetta.
Segjum svo að við ætlum að framkvæma aðskilnaðinn og breyta sem fæstum greinum í leiðinni (ef þetta væri eina málefnið á dagskrá). Rétta leiðin í þessu væri að breyta 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
- Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
- Breyta má þessu með lögum.
Fyrri málsgreinin er sú sem við viljum í rauninni breyta með því að annaðhvort fjarlægja hana eða breyta henni til að innihalda eitthvað annað. Takið samt eftir 2. málsgreininni þar sem stendur að breyta megi 1. mgr. með lögum. Hvað þýðir það? Hér er einfaldlega um þá heimild að hægt sé að breyta þessu með því að setja einföld lög í stað hins venjulega ferlis til að breyta stjórnarskránni.
Ef við lítum á 79. gr. stjórnarskrárinnar eru tvær málsgreinar: Sú fyrri þar sem rætt er um almennar breytingar á stjórnarskránni og sú seinni er með sértilfelli með 62. gr. Þetta þýðir einfaldlega að aðskilnaður færi ekki í gegnum sama ferli og aðrar breytingar á stjórnarskrá. Venjulega (með fáum undantekningum) þegar breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar þarf að rjúfa Alþingi, boða til nýrra kosninga og síðan samþykkja frumvarpið óbreytt í nýskipuðu Alþingi. Breytingar á 62. gr. stjórnarskrárinnar fara hins vegar ekki í gegnum það ferli, heldur fer breytingartillagan í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem ákveður síðan örlög hennar.
Lausn?
Ein lausnin sem væri hægt að íhuga til að framkvæma aðskilnaðinn væri að halda atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána í heild eftir að Alþingi hefur samþykkt hina nýju stjórnarskrá eftir þingrof. Með því að gera það væri hægt að uppfylla kröfur 2. mgr. 79. greinar stjórnarskrárinnar og þá eðlilegu kröfu að stjórnarskráin sé samþykkt af þjóðinni.
Einnig væri hægt að fara strax í þessar breytingar í stað þess að bíða eftir að Alþingi afgreiði afganginn af tillögunum sem stjórnlagaþingið setur fram (ef það mælir með aðskilnaði). Samþykki þjóðin aðskilnaðinn má spara talsvert hærri útgjöld en þessi sér atkvæðagreiðsla myndi kosta ríkissjóð.