Svavar Kjarrval Lúthersson heiti ég og er frambjóðandi til stjórnlagaþings 2011. Ég vil þakka Stjórnarskrárfélaginu fyrir að veita mér þetta tækifæri til að kynna framboð mitt til stjórnlagaþings. Óhætt er að segja að baráttumálin mín séu mörg og fjölbreytt en vegna tímaskorts neyðist ég til að stikla á stóru.
Fyrst og fremst tel ég að bæta þurfi mannréttindakaflann. Bæta þarf núverandi ákvæði eins og t.d. tjáningarfrelsið sem í dag hefur 6 víðar undanþágur sem setja má með lögum. Til samanburðar vil ég nefna að Mannréttindasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna, sem Ísland skuldbatt sig til að fara eftir, gefur ekki færi á undanþágum. Einnig tel ég að uppfæra þurfi kaflann til að innihalda mörg önnur réttindi eins og þau sem tengjast stafrænu öldinni.
Breytingar á stjórnskipun ríkisins skipta mig einnig miklu máli og vil ég koma á betri skiptingu ríkisvalds. Jafnvægið milli þeirra þarf að bæta gríðarlega til að hver grein ríkisvaldsins sé ábyrg gagnvart hinum en þó án þess að tapa sjálfstæði sínu. Ein stærsta breytingin á þessu yrði aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Því væri hægt að ná með því að losna við flokksræðið og með því að ráðherrar séu ekki valdir meðal þingmanna. Hver og einn fulltrúi þjóðarinnar sé valinn beint af þjóðinni en ekki með tilstilli flokks sem mun áfram hafa völd yfir þeim einstaklingnum. Með þessu yrði hver og einn fulltrúi ábyrgari gagnvart kjósendum sínum en í dag og geta því eingöngu náð áfram á eigin verðleikum.
Eins og Ólafur Ragnar Grímsson nefndi fyrir nokkrum árum, þá er gjá milli þings og þjóðar. Mikilvægt er að fulltrúar okkar séu í raun og veru að starfa fyrir þjóðina en ekki vegna sérhagsmuna. Ríkið á ekki að vera ‚þeir‘ heldur ‚við‘. Við eigum að vita hvað er að gerast hjá þeim sem eru að vinna fyrir okkur. Með auknu gagnsæi og upplýsingaflóði má fylla vel upp í gjána í þeirri von að hún hverfi alveg eða verði svo lítil að hún skiptir varla máli.
Ég tel mikilvægt að það komi fram að þessar breytingar eru engin töframeðöl. Það mun taka bæði tíma og erfiði að leiðrétta mistök fortíðarinnar. Stjórnlagaþingið er mikilvægt skref í átt að þeim breytingum en hversu langt verður farið mun velta á því hvaða frambjóðendur þjóðin velur í verkið. Valdið er hjá þjóðinni.
Takk fyrir.