Ofkurteisi

Eitt af því sem ég tek reglulega eftir í verslunum er að eftir að ég hef greitt fyrir vörurnar er að afgreiðslufólkið spyr þá oftar en ekki: „má bjóða þér afritið?“. Ekki veit ég hvernig þetta byrjaði en að mínu mati eitthvað sem lengir málið að óþörfu. Ég er ánægður með að sumir spyrja einfaldlega „viltu afritið?“.

Í fljótu bragði dettur mér í hug tvær ástæður fyrir þessu: Sú fyrsta er að starfsfólkið er vant á það að vera kurteist við viðskiptavinina og einhverra hluta vegna dettur því í hug að lengra mál hljómi kurteisara. Önnur ástæðan er orðið „þér“ sem lætur spurninguna hljóma kurteisari þótt sú sé ekki raunin. Sumir skipta út „þér“ fyrir „yður“ en ég rekst sjaldan á það.

Það er allt í lagi að sýna kurteisi við viðskiptavinina en það er einnig hægt að fara of langt. Að spyrja hvort maður megi bjóða einhverjum afritið er algerlega óþarft aukaskref í þessum samskiptum. Ef við hugsum um þetta röklega séð gætu samskiptin verið svona;

Má bjóða þér… – Vill ekki afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Má bjóða þér… – Vill afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Viltu afritið? – Vill ekki afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Viltu afritið? – Vill afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Bæði afgreiðslufólkið og viðskiptavinirnar vita að efri tvö samskiptin hljóma fáránlega og er því ríkjandi sú stytting að svarið sem fylgir fyrri spurningunni er í raun svarið við þeirri seinni.

Mig langar að vita hvernig þetta hófst. Var einhver viðskiptavinurinn svo móðgaður yfir því að hafa verið spurður hvort hann vilji afritið að afgreiðslufólk spyr núna um leyfi til að bjóða honum það?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.