Bingójátning 2013

Þann 15. mars síðastliðinn skilaði ég inn játningu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég játaði að hafa tekið þátt í framkvæmd ólögmæts bingóhalds. Fyrir tveim dögum, þann 9. júlí 2013, barst mér bréf með afstöðu ríkissaksóknara til þessa máls.

Það er afstaða ríkissaksóknara að „umrædd háttsemi kæranda, og eftir atvikum annarra sem stóðu að páskabingóinu, verði fyrst og fremst virt sem liður [í] stjórnarskrárvörðum rétti manna til tjáningar- og fundafrelsis, sbr. 73. gr. og 74. gr. stjórnarskrárinnar“.

Áður en ég lagði fram játninguna hugsaði ég út í mögulegar afleiðingar þess ef málið hefði lent fyrir dómstólum með ákæru. Líkurnar voru nokkuð lágar en áhætta sem ég var reiðubúinn til þess að horfast í augu við og reka málið áfram til enda, jafnvel með málarekstri fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem hefði líklegast dæmt mér í vil.

Þrátt fyrir að málið hafði ekki verið lokið á þann hátt er ég ánægður með útkomuna, enda er það núna yfirlýst mat bæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara að stjórnarskrárvarinn réttur fólks til tjáningar- og fundafrelsis vegur þyngra en rétturinn til að banna bingóhald á grundvelli helgidagafriðs. Vegna jafnræðisreglunnar á þetta mat einnig við um aðrar tegundir af skemmtanahaldi en bingó óháð því hvort peningar séu í spilinu eða ekki. Augljóslega á þetta mat eingöngu við um atburði sem annars hefðu verið leyfðir á þessum tilteknum helgidögum.

Vil samt setja fyrirvara um að það er samt ekki algerlega afgreitt þegar um er að ræða staði sem reiða sig á starfsleyfi eða önnur opinber leyfi. Þó ég telji að það sama gildir í slíkum tilvikum er samt sem áður gríðarlega mikil hætta á að fyrsti aðilinn sem heldur slíka skemmtun gæti lent í leyfissviptingu ef lögreglan telur þessa afstöðu ríkissaksóknara ekki eiga við um leyfisskylda starfsemi.

Hér eru helstu skjöl málsins svo almenningur hafi tækifæri til að meta niðurstöðuna á eigin forsendum:

Bingójátningarmálið 2013