Er ekki lengur flokksbundinn Auða flokknum

Nú hef ég greitt atkvæði í öllum sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum síðan ég fékk kosningarétt og í öll skipti nema eitt hef ég skilað auðu. Merkingin á bakvið auða atkvæðið er sú að einstaklingurinn sýni að hann hafi fullan áhuga á að kjósa en enginn þeirra sem eru í boði eiga, að mati kjósandans, það skilið að hljóta atkvæði hans.

En núna er loksins kominn stjórnmálaflokkur sem ég mun styðja með atkvæði mínu: Píratar.

Í fleiri ár vissi ég af erlendum samtökum pírata erlendis og óskaði eftir að álíka flokkur myndi bjóða sig fram hér. Því varð ég nokkuð ánægður þegar ég heyrði frásagnir um að stofna ætti slíkan flokk hér á landi. Ekki nóg með það, ég reyndi að aðstoða eftir því sem minn einhverfi líkami leyfði mér og varð stofnmeðlimur. Síðan þá hef ég mætt á marga fundi og kynnst ágætum fjölda af vel þenkjandi fólki. Það kom mér annars ekkert á óvart að sjá marga sem ég hafði kynnst áður á lífsleiðinni.

Rætur pírata eru þær að verið er að mótmæla ígripum „hagsmunaaðila“ sem hafa hingað til fengið sitt í gegn með óheiðarlegum hætti og réttur hins almenna borgara laut almennt lægra haldi. Píratar um allan heim eru að reyna að sporna við þeirri óhappaþróun síðastliðnu áratugi með því að veita borgurum eitt besta vopn sem hægt er að beita: réttinn til að fá upplýsingar og miðla þeim áfram. Með þeim getur almenningur fengið tækifæri til að taka upplýstari ákvarðanir en áður og haft meiri að segja um ákvarðanir sem varða hann sjálfan.

Ætlun mín var þó eingöngu að hjálpa til í stöðu sem nyti ekki mikillar athygli og hafði ekki áhuga á framboði. Einn daginn tók ég á móti tímamótandi símtali þar sem ég var hvattur til að setja nafn mitt í kosningu fyrir framboðslista, sem ég gerði. Og núna er ég í 6. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Pírata. Þróunin getur verið nokkuð hröð. Fyrir nokkrum mánuðum hafði ég engan áhuga á neinum einstökum stjórnmálaflokki og núna er ég í framboði fyrir einn þeirra.

Dagur einhverfra í dag

Í dag, 2. apríl, er dagur einhverfra og hefur Mamiko Dís gefið út lagið Skrýtin í tilefni dagsins.

Texti lagsins er nokkuð áhugaverður og snertir á mikilvægu atriði sem einstaklingar á einhverfurófinu þurfa að ganga í gegnum. Margir setja á sig andlega grímu sem gengur út á það að fela fyrir öðrum hvernig maður hagar sér náttúrulega. Tilgangurinn er einfaldur: að blekkja aðra til að halda að maður sé eins og allir aðrir.

Eitt af því sem fólk á einhverfurófinu er hrætt við er að vera álitið öðruvísi en annað fólk og fá mikla neikvæða athygli. Sumir á einhverfurófinu forðast af þeirri ástæðu að gera hluti sem gætu leitt til athygli því hún gæti orðið slæm, og stundum gengur það svo langt að viðkomandi reynir að einangra sig frá öllum samskiptum við aðra.

Hluti af boðskap lagsins er að kynna fyrir fólki að það er í lagi að vera skrítið. Væru allir eins myndi lífið vera nokkuð leiðinlegt. Ef eitthvað, þá þurfum við meira skrítið fólk og þótt því sé erfitt að trúa, þá eru margir sem laðast að því sem er öðruvísi. Alveg eins og fólk sækist í sjaldgæfa hluti, þá gildir það sama um persónueinkenni. Samkvæmt því græðir fólk félagslega á því að vera skrítið.

Eftir hverju ertu að bíða, vertu skrítin(n) frá og með núna!