Dagur einhverfra í dag

Í dag, 2. apríl, er dagur einhverfra og hefur Mamiko Dís gefið út lagið Skrýtin í tilefni dagsins.

Texti lagsins er nokkuð áhugaverður og snertir á mikilvægu atriði sem einstaklingar á einhverfurófinu þurfa að ganga í gegnum. Margir setja á sig andlega grímu sem gengur út á það að fela fyrir öðrum hvernig maður hagar sér náttúrulega. Tilgangurinn er einfaldur: að blekkja aðra til að halda að maður sé eins og allir aðrir.

Eitt af því sem fólk á einhverfurófinu er hrætt við er að vera álitið öðruvísi en annað fólk og fá mikla neikvæða athygli. Sumir á einhverfurófinu forðast af þeirri ástæðu að gera hluti sem gætu leitt til athygli því hún gæti orðið slæm, og stundum gengur það svo langt að viðkomandi reynir að einangra sig frá öllum samskiptum við aðra.

Hluti af boðskap lagsins er að kynna fyrir fólki að það er í lagi að vera skrítið. Væru allir eins myndi lífið vera nokkuð leiðinlegt. Ef eitthvað, þá þurfum við meira skrítið fólk og þótt því sé erfitt að trúa, þá eru margir sem laðast að því sem er öðruvísi. Alveg eins og fólk sækist í sjaldgæfa hluti, þá gildir það sama um persónueinkenni. Samkvæmt því græðir fólk félagslega á því að vera skrítið.

Eftir hverju ertu að bíða, vertu skrítin(n) frá og með núna!

Make-overs

Sumir kannast eflaust við hugtakið make-over en það er oftast notað þegar breyta á einhverju gríðarlega, aðallega útliti fólks. Ég hef farið í gegnum slíkt ferli og dugði þetta make-over bara í nokkra daga. Mig grunar að fæst make-over dugi í mikið lengri tíma en það. Þá langar mig að fara yfir nokkra punkta til þess að auka líkurnar á að slík make-over takist.

* Tryggið að persónan hafi áhuga á make-over
Þetta er afar mikilvægt þar sem samvinna er lykillinn. Hversu skemmtilegt er að draga einhvern frá búð til annarrar búðar sem virðist svo ekki hafa mikinn áhuga á því sem er verið að gera og hlustar með hálfum hug á öll þau ráð sem koma fram? Ekkert svo skemmtilegt. Það er miklu líklegra að ég hlusti á ráðleggingar einhvers ef ég er móttækilegur fyrir þeim frá upphafi.

* Takið smá skref yfir lengri tíma.
Það virðist vera algengt að make-overið fari fram á einum degi eða á nokkrum dögum. En hversu oft verða þau til þess að þeir sem fara í gegnum make-over viðhaldi því? Líklegast í afar fáum tilfellum. Í mínu tilfelli voru það aðallega þrjár ástæður: Mér fannst ég ekki vera ég, nýja útlitið krafðist gríðarlegs viðhalds, og ég sá ekki mikinn tilgang í því.

Ef breytingarnar eru of snöggar fær maður það á tilfinninguna að maður sé að þykjast vera eitthvað sem maður er ekki. Á endanum fær maður nóg og hristir af sér breytingarnar og fer í eiginlega sama farið og áður. Því skiptir máli að breytingarnar fari fram á lengri tíma en nokkrum dögum, helst á mikið lengri tíma en það. Markmiðið á að vera að þróa útlitið en ekki skipta því út.

Viðhaldið getur líka reynst manni ofviða, sérstaklega ef það eykst mikið eftir á. Setja hitt og þetta krem á þennan stað á þessum tíma dags, vera í þessari samsetningu fata en ekki hinni. Upplýsingaflóðið er svo mikið á stuttum tíma að allt endar í hrærigraut. Þegar maður er óvanur að gera eitthvað tekur það langan tíma en minnkar síðan eftir því sem á tímann líður. Þetta gildir um nær allt sem maður tekur sér fyrir hendur. Að byrja á mörgu í einu lætur mann halda að viðhaldið verði svona mikið til frambúðar, sérstaklega ef make-over fólkið lætur mann ekki vita af því. Þá er freistingin að gefast upp nokkuð mikil, sérstaklega ef maður sér ekki tilgang með því sem maður er að gera. Árangurinn verður sjaldan sýnilegur næsta dag og þarf hver og einn að gera sér grein fyrir því að það gæti tekið nokkra daga, ef ekki vikur eða mánuði, áður en hann verður sýnilegur.

* Af hverju?
Við þurfum að gera okkur grein fyrir að make-over kostar peninga og vinnu. Eðlilega þarf mér að finnast að það sé tilgangur með þessu make-over, af hverju ætti ég annars að fara í gegnum það? Það er ekki nóg að segja að fólki muni líka við mann vegna breytinga á yfirborðinu, sérstaklega ef mér finnst ég ekki vera ég sjálfur. Líkar þeim þá við mig eða gervi-mig?

Þetta helst saman við ráðið um að taka þetta í smáskrefum. Er viðkomandi andfúll? Sannfærið hann um að (meiri) munnhirða er betri fyrir heilsuna. Er hann útsettur í bólum? Sannfærið hann um að hrein húð sé góð húð og heilsusamlegra. Ef þetta er gert í smáum og rólegum skrefum er miklu líklegra að árangurinn haldist. Þá skiptir máli að veita hrós þegar útlitið þróast til hins betra. Athugasemdir eins og „vá, þú ert myndarlegri núna en fyrir nokkrum vikum.“ geta skipt miklu máli upp á að hvetja einhvern til þess að halda áfram að bæta útlit sitt.

En einnig skiptir máli að sannfæra viðkomandi að breytingarnar séu persónulega góðar fyrir hann eða hana. Hann/hún á ekki að fara í alla þessa vinnu til þess eins að þóknast öðrum, heldur í þeim tilgangi að bæta sitt eigið líkams- og hugarástand. Margir segja að maður eigi að vera sátt(ur) við eigin líkama en það þýðir ekki að þróun til hins betra sé eitthvað slæm.

* Verið raunsæ
Ég er ekki að fara að breytast yfir í einhvern með fullkominn líkama á næstunni. Það myndi taka nokkuð langan tíma og mun mögulega aldrei gerast. Þegar fólk gerir sér grein fyrir því og er sátt við þann möguleika að það gerist líklega ekki, þá er ástandið orðið mun betra. Það er ekkert að því að vinna að því markmiði á meðan ekki er gengið of langt í framkvæmdinni. Setjið raunhæf markmið og vinnið að þeim og það er allt í lagi ef það mistekst á meðan þróunin er til hins betra. Haldið áfram og ekki gefast upp þrátt fyrir að hlutir fari ekki nákvæmlega eins og þið áætluðuð.

Opinber umfjöllun um Asperger

Fjölmiðlar hafa byrjað að ræða um einhverfurófið, og finnst mér mikil þörf á að taka upp þá umræðu opinberlega. Fyrst var rætt við Mamiko Dís Ragnarsdóttur, sem rekur bloggið sjalfhverfa.wordpress.com, í fréttatíma Stöðvar 2. Síðan ræddi mbl.is sjónvarp við mig. Í gær fjallaði Stöð 2 aftur um málið en í þetta sinn var rætt við Laufeyju Gunnarsdóttur.

Orsök Aperger heilkennisins eru ekki fullkomlega ljós en einkenni þess er að heilinn þróast öðruvísi en hjá öðrum, sem áfram leiðir til einkenna sem fólk upplifir í gegnum ævina. Rannsóknir benda þó til þess að Asperger heilkennið erfist þó ekki sé vitað um hvaða gen sé að ræða. Einu greiningartólin sem eru í boði þessa stundina byggjast á því að greina atferli og hegðun viðkomandi. Í fyrstu umfjölluninni var nefnt að um 1% fólks sé á einhverfurófi en í Bretlandi er hlutfallið 63 á hver 10 þúsund, sem sagt 0,63%. Séu bresku tölurnar færðar yfir á mannfjöldann á Íslandi er hægt að áætla að um 2 þúsund manns séu á einhverfurófi hér á landi (m.v. mannfjöldatölu Hagstofu fyrir 1. janúar 2011).

Greining á Asperger þarf ekki að þýða endalok lífs manneskju, heldur veitir hún upplýsingar sem manneskjan vissi væntanlega ekki áður. Það er ekki eins og líkaminn breytist um leið og greiningin staðfestir heilkennið. Greiningin er tækifæri til þess að skoða líf manns og skilja betur af hverju það leiddi til manneskjunnar sem maður er núna. Hvað maður gerir í framhaldinu er undir manni sjálfum komið. Hvers vegna ekki að reyna að njóta þess sem eftir er lífsins?

Vill fólk lifa í blekkingum á Facebook?

Því meira sem ég er á Facebook, því oftar rekst ég á það þegar fólk notar þennan samskiptavef sem markaðstól fyrir sitt eigið líf. Stundum gengur það svo langt að það sættir sig ekki við það þegar annað fólk notar það fyrir aðra hluti.

Allt sem gerist á Facebook á að vera fullkomið og jákvætt og ekkert skal eyðileggja þá stemmingu. Ef eitthvað kemur upp sem virðist neikvætt, þá er tími til kominn að endurskoða Facebook vinasambandið. Þetta sama fólk virðist horfa á Facebook sem tómstundaiðju frekar en samskipta- og upplýsingatólið sem það var upprunalega hannað sem.

Þegar ég var þunglyndari átti ég það til að setja inn statusa sem fjölluðu um eitthvað sem ég taldi mig þurfa að koma frá mér, aðallega til að létta á mér. Þetta leiddi stundum til þess að fólk kvartaði í mér fyrir að koma með ‚leiðindastatusa‘. Jafnframt fékk ég á mig orð fyrir að koma með hluti sem fólki var sama um og að enginn vildi heyra ‚vælið‘ í mér. Þetta fékk mig ekkert til þess að vera glaðari með lífið, heldur þvert á móti olli því að ég tjáði mig minna.

Segjum að manneskja fremji sjálfsmorð. Þá spyrja þeir nánustu sjálfa sig af hverju þeir tóku ekki eftir neinum merkjum um að manneskjunni liði illa og gæti verið á sjálfsmorðsbrautinni. Líklegast einmitt út af manneskjum sem skamma aðra fyrir að ‚væla‘! Hvaða ástæðu hefur manneskja í sjálfsmorðshugleiðingum til þess að tjá tilfinningar sínar ef hún fær bara skammir fyrir?

En bíðum nú við, á Facebook ekki einmitt að vera samskiptatól þar sem makar/vinir/félagar/kunningjar/ættingjar o.s.frv. geta tjáð sig við aðra og leitað til þeirra þegar það þarf á hjálp annarra að halda? Er ekki eðlilegt að fólk með slík tengsli ætti að ganga í gegnum súrt og sætt eins og í venjulegum samskiptum? Ef einhver vill ekki hlusta á „vælið í mér“ getur hann einfaldlega hunsað það sem stendur og farið yfir í næsta lestrarefni. Sé viðkomandi ekki nógu tillitssamur til þess, er hægt að velja að fela allt í news feedinu sem kemur frá mér. Einnig er í boði að afvina mig ef út í það er farið.

/rant

Ég er með Asperger

Þessi grein gleymdist í greinakerfinu í um heilt ár. Fiktaði því í henni og birti núna.

Undanfarin ár hef ég verið fylgjandi þeirri speki að fyrsta skrefið í átt að lausn sé að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður eigi við vandamál að stríða. Þótt þetta sé eingöngu lítið skref miðað við allt ferlið í heild er þetta eitt erfiðasta skrefið sem þarf að taka. Eitt öflugasta tólið í baráttunni er að geta gagnrýnt sínar eigin gjörðir en láta þær ekki vera afskiptalausar. Kveikjan að þessari grein á rætur að rekja til vandamáls sem hrjáði mig og hrjáir mig enn. Það var ekki fyrr en fyrir um 15 mánuðum síðan að ég gerði mér grein fyrir alvarleika þessa vandamáls sem um ræðir. Sumir lifa með ákveðin vandamál í farteskinu til dauðadags án þess að viðurkenna tilvist þeirra fyrir sjálfum sér.

Mitt vandamál
Það sem hrjáir mig er að ég er með Asperger heilkennið. Í stuttu máli eru þeir sem eru með Asperger á einhverfurófi, þ.e. eru með ákveðin einkenni einhverfu en ekki eins alvarlegt. Þó ég hafði ekki hlotið formlega greiningu var nokkuð öruggt að ég væri með það. Til að forðast staðfestingarvilluna ráðfærði ég mig við aðra sem fóru síðan yfir einkennin og báru saman við líf mitt.

Leit að öðru áliti
Annað skrefið í lausn á vandamálinu er að geta viðurkennt vandamálið fyrir öðrum en sjálfum sér. Ég tel að fæstir hafa nægan viljastyrk til að fara í gegnum lausnarferlið án stuðnings annarra. Oftast nær tekur það gagnrýni frá öðrum áður en maður sér að eitthvað er að manni, því ef vandamálið er látið óáreitt er lítil ástæða til þess að halda að eitthvað er að. Ef enginn lætur mann vita þarf oftast neikvæð kaflaskipti í manns eigin lífi til að sjá það.

Mikilvægt er að leita til annarra þótt það sé ekki nema til þess að staðfesta að vandamálið sé örugglega til staðar en ekki of hörð sjálfsgagnrýni. Val á manneskjunni sem við leitum til skiptir samt miklu máli því við viljum ekki leita til einhvers sem er of harður í garð annarra og gerir of mikið úr vandamálinu eða einhvers sem gerir of lítið úr því – ef það er til staðar. Oftast nær er best að leita til einhvers sem mun veita heiðarlegt álit.

Leiðin að greiningunni
Það mætti segja að fyrstu einkenni Aspergersins hafi komið í ljós þegar ég var ungur krakki en í þeim fólst að ég talaði rosalega lítið og hreyfði mig klunnalega. Foreldrar mínir ákváðu að senda mig á stofnun, sem þá hét Greiningarstöð ríkisins, en þar var ég formlega greindur með lélegan talþroska og skort á fínhreyfingum, ein helstu einkenni Asperger. Þetta var samt á þeim tíma þegar greiningar á Asperger voru ekki algengar á Íslandi. Eftir reglulegar heimsóknir í eitt og hálft ár þar sem unnið var á fínhreyfingunum og talþroskanum var meðferðinni lokið án eftirmála.

Fyrir um tveim árum fór ég að spá hvort ég væri með Asperger eða ekki en þær pælingar náðu ekki langt. Þegar ég sá listann fannst ég mér uppfylla svo fá atriði á listanum að ég hugsaði ekkert frekar um þetta. Síðan var það ekki fyrr en í júní síðastliðnum að Harpa systir mín minntist á Asperger að ég tók málið aftur upp og viðurkenndi loksins fyrir sjálfum mér að ég væri með það. Næstu mánuðina framkvæmdi ég síðan sjálfsgreiningu til að gera mér nánar grein fyrir því vandamáli sem hefur hrjáð mig frá fæðingu en verið meira og minna óuppgötvað þar til í fyrra.

Líf eftir greiningu
Við það eitt að sjálfsviðurkenningin liggur fyrir breytist lífsviðurhorf manns mikið en er langt frá því lokið. Eitt það fyrsta sem gerist er að ég hef hugsað mikið út í það sem gerist í mínu lífi og spái mikið í hversu mikil áhrif Asperger heilkennið hefur haft á það sem gerist dags daglega. Einnig kemur reglulega fyrir að ég rifja upp atburði í fortíðinni og geri mér meiri grein fyrir því hvernig heilkennið hefur haft áhrif á það sem gerðist í fortíðinni. Til upplýsingar ætla ég að rifja upp frekari einkenni Asperger og koma með dæmi ef ég get.

Félagslegt líf
Eitt af því sem einkennir Asperger frá hreinni einhverfu er að fólk með Asperger þarf ekki endilega að forðast félagsleg samskipti, heldur þvert á móti sækist stundum eftir þeim en samt með mismiklum árangri. Jafnvel þótt það sé óhrætt við að nálgast annað fólk er ekki víst að það sé óhrætt við að taka til máls því sumir þaga venjulega þegar þeir eru nálægt fólki en geta haldið uppi löngum samræðum við aðra. Allt þetta á við mig.

Í grunnskóla var það nokkuð augljóst að ég einangraði sjálfan mig frá félagslegum samskiptum. Gegnum skólaárin gerði ég ýmsa hluti sem höfðu þann eina tilgang að fá einhverja athygli frá hinum í árgangnum og sé ég eftir þeim flestum. Aðallega er um að ræða hluti sem ég hefði betur látið ósagða ef ég hefði ekki haft þá þrá að viðhalda samskiptum við skólafélaga mína. Þessir sömu hlutir ollu því að það var gert grín að mér, beint eða óbeint. Eitt af því sem ég sagði snerist um smokka og það var eitthvað fáránlegt. Ég lét sem ég trúði þessu fáránlega bara til að fá athygli. Í kjölfarið komu sömu einstaklingarnir aftur og aftur, til að spyrja mig út í fáránlega hlutinn, en í fylgd annarra krakka í hvert skipti. Ég vissi alveg að þeir höfðu verið í vinahópnum og sagt að ég trúði fáránlega hlutnum og hinir ekki trúað þeim. Þeir hafi síðan komið með þá til mín sem trúðu ekki til mín og spurt mig um fáránlega hlutinn. Það væri annars ágætt ef einhver frá þeim tíma lumar á því hvað þetta var því ég man þetta ekki nógu vel.

Mér líður annars illa á meðan ég er í hópi af ókunnugu fólki. Það fer síðan eftir gæðum umræðanna og fjölda manns hversu lengi ég endist áður en ég fæ höfuðverk af því að vera meðal þeirra. Einnig veldur kliður höfuðverk ef hann er of hávær. Hins vegar er minna mál að eiga í samskiptum við eina manneskju í einu eða tvær á sama tíma. Orsakasamhengið uppgötvaði ég ekki fyrr en ég rakst á ummæli annarra sem þjást af Asperger. Hún er sú að það tekur einhvern með Asperger meiri andlega orku að meðhöndla samskiptin sem eiga sér stað en venjulega manneskja. Þetta veldur því að einhver með Asperger verður fyrr andlega uppgefinn en venjuleg persóna og of mikil samskipti geta yfirkeyrt viðkomandi (og valdið því höfuðverk). Þetta getur einnig valdið því að einhver með Asperger mun ekki skilja strax hvað á sér stað í umræðunni og gæti misst af tækifærinu til að tjá sig um það.

Alvarlegast þykir mér skortur á tilfinningalegum böndum við þá sem ég ætti eðlilega að þekkja vel. Þar til stuttu eftir uppgötvunina átti ég enga vini, bara góða kunningja. Fólk sem ég hafði viðhaldið reglulegum samskiptið við í meira en 10 ár voru enn bara góðir kunningjar; Enginn var vinur minn. Ekki var það nóg að einangra mig frá fólki sem ég þekkti ekki, heldur einangraði ég mig líka frá fólki sem ég þekkti vel. Ég býst ekki við skyndilausnum á þessu sviði en ég vonast til að bæta upp fyrir þetta á næstu árum.

Tilfinningar
Eitt af því sem hefur verið ýjað að mér er að ég hafi ekki tilfinningar. Þetta er auðvitað rétt að einhverju leiti. Stundum á ég það til að vantúlka tilfinningar fólks og stundum finnst mér ég nema tilfinningar einum of vel. Það sama gildir með að upplifa þær: Oftast geri ég það afar illa og í öðrum of vel. Því miður eru þetta sjaldnast tilfinningarnar sem orsaka ánægju eða hamingjusemi. Sem dæmi get ég ekki nefnt eitt einasta atvik í mínu lífi þar sem ég hef upplifað hreina hamingju. Eina sem ég þekki er óhamingja eða ekki óhamingja.

Þröng áhugamál
Þröngt áhugasvið er eitthvað sem ég hef svo sannarlega upplifað. Felst áhuginn aðallega í því að viðkomandi hefur afar mikinn áhuga á mjög þröngu sviði án þess að hafa skilning á fræðisviðinu sjálfu sem heild. Eitt algengt dæmi er að safna upplýsingum um nöfn á höfuðborgum án þess að hafa aðra þekkingu á landafræði. Þetta er samt ekki einkennandi fyrir Asperger því þetta er eitthvað sem mörg börn fara í gegnum án þess að þau hafi heilkennið. Eitt af því sem ég fór í gegnum var að leggja á minnið forseta Bandaríkjanna án þess að hafa mikinn áhuga á því hvað þeir gerðu eða hvenær þeir voru við völd.

Endurteknar hreyfingar
Þeir sem þjást af Asperger lenda oft í því að framkvæma ósjálfráðar endurteknar hreyfingar. Oftast tekur viðkomandi ekki eftir því að hann sé að framkvæma þessar hreyfingar fyrr en einhver bendir á þær. Í mínu tilfelli eru þetta aðallega fóta- og handahreyfingar og fæ ég reglulegar ábendingar um þær. Stundum tek ég eftir þeim sjálfur eftir smá stund en nenni ekki að leggja það á mig að stöðva þær.

Viðbrögð annarra
Áður en ég skrifaði þessa grein bar ég ástand mitt undir aðra og komst að því að sumir móttaka fréttirnir á mismunandi hátt sem í kjölfarið hefur áhrif á samskipti mín við það fólk. Aðallega tók ég eftir að flestum virtist ekki vera sama um að ég sé með Asperger en virtust hins vegar ekki hafa neinn áhuga á að fræðast nánar um það, hvorki almennt séð né hvernig það hefur áhrif á mig. Í mínu tilfelli virðist það vera ríkjandi að fólk hefur ekki mikinn áhuga á augljósu ástandi eins og Asperger og afskrifa það sem eitthvað annað. Persónulega tel ég betra að láta fólk vita svo það geti haft þetta hjá sér ef eitthvað slæmt gerist milli mín og þeirra í von um að fólk muni skilja af hverju það gerðist. En þó er betra ef fólkið veit af eða kannast við einkenni Asperger svo það hafi betri skilning á þeim aðstæðum sem hrjá mann og gæti slíkur skilningur jafnvel komið í veg fyrir óþægilega hluti síðar meir.

Mannfólk getur verið afar ótillitssamt og er það eitthvað sem fólk með Asperger tekur gjarnan eftir. Til dæmis tók ég því illa þegar fólk hélt áfram að vanvirða óskir mínar þrátt fyrir að hafa nefnt að það væri ekki gott fyrir mig í ljósi Asperger heilkennisins. Ég er ekki að biðja um sérmeðferð vegna heilkennisins en það myndi varla saka ef fólk myndi virða það að ég hef Asperger og get því ekki gert allt það sem venjulegt fólk getur léttilega gert. Það sem fólk var að mæla með að ég gerði, og jafnvel hvatti mig sterklega til að gera, voru hlutir sem yrðu sérstaklega óþægilegir fyrir mig.

* Sumar upplýsingar eru byggðar á Wikipedia greininni um Asperger og er eitthvað af textanum endurskrifaður úr þeirri grein.

Hvaða týpa er ég?

Undanfarið hef ég verið að heyra frá kvenfólki um að ég sé ekki þeirra týpa og þá fór ég að hugsa: hvaða týpa er ég? Í tilraun til að glíma við þessa spurningu koma upp fleiri spurningar. Ein þeirra er „hvaða spurningar þarf að spyrja og hvers konar svör myndu svara þeirri spurningu?“ Í stuttu máli er óhætt að segja að þetta eru rosalega margar spurningar og ég get svo sannarlega ekki svarað þessum pælingum með einni grein.

Aðalvandamálið er að ég get ekki svarað þessari spurningu þegar um er að ræða mig sjálfan. Ástæðan er sú að ég er of hlutdrægur og myndi líklegast einbeita mér of mikið á annaðhvort jákvæðu hliðarnar eða þær neikvæðu eftir því í hvernig skapi ég er í. Svörin yrðu alls ekki fullnægjandi því þau færu einnig eftir skapinu og þeirri sjálfsmynd sem ég hef. Síðan sér fólk mann í mismunandi ljósi og ekki er maður sama týpan á öllum stundum; Vinnufélagar gætu séð mann t.d. í allt öðru ljósi en vinir manns.

Fyrst það er mat mitt að sitt sýnist hverjum hvað týpur varðar, af hverju er ég að spá hvaða týpur aðrir haldi að ég sé? Það er vegna þess sem ég kalla „innri týpa“ og „ytri týpa“. Innri týpan er sú týpa sem maður er í raun og veru en sú ytri það sem aðrir upplifa á hverjum tíma. Stundum endurspeglar ytri týpan þá innri en vandamálið felst í þeim tilvikum þegar svo er ekki. Álit annarra á týpu manns er mikilvægt til að vita hvort innri týpan nái að skila sér út til annarra. Sumir gætu haldið að maður sé oftast haldinn eiginleika X þegar innri týpan gefur til kynna Y. Með því að vita að fólk heldur að ég sé Y þá er gott að fá að vita af því svo hægt sé að leita að rót þess misskilnings.

Síðan er önnur ástæða fyrir því að ég vil vita það er sú að ég er að reyna að finna út hver ég er og þá meðal annars styrkleika og veikleika. Venjulega fer fólk þá leið að lágmarka veikleikana með því að einbeita sér að styrkleikum sínum eða lágmarka skaðann sem veikleikarnir geta valdið. Til þess að vita það þarf ég að vita hverjir styrk- og veikleikarnir eru en það fer venjulega saman við týpu manns.

Þrátt fyrir allar þessar pælingar er ég samt ekki nær því að svara spurningunni: „Hvaða týpa er ég?“

Að lýsa fólki

Af hverju þarf fólk oft að lýsa öðrum á svo klisjukenndan hátt? Svo virðist vera að ef ég bæði einhvern um að lýsa nýju kærustunni væri eitt það fyrsta sem hann myndi byrja á væri að nefna að hún sé falleg, fyndin og skemmtileg. Þetta eru nær gagnslausar lýsingar þar sem sitt sýnist hverjum. Ef ég myndi hitta hana gæti mér þess vegna fundist hún ljót, ófyndin og leiðinleg. Hvað ef hann gleymir að nefna að hún sé falleg? Á ég þá að gera ráð fyrir að honum finnst hún ljót eða í meðallagi?

Það væri skemmtilegt, en þó ekki skilyrði, ef fólk myndi leggja aðeins meira á sig hvað þetta varðar. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég á erfitt með að lýsa sjálfum mér og öðrum fyrir fólki; Ég vil helst ekki nota þessi klisjukenndu lýsingarorð og á því til að gefast strax upp ef einhver spyr.

Hvernig myndir þú lýsa sjálfum/sjálfri þér fyrir öðrum?

Smátal

Þegar ég lít yfir farinn veg hef ég tekið eftir því að ég hef alltaf verið í vandræðum með smátal (e. small-talk). Fyrir þá sem ekki vita er smátal sá hluti samtalsins þar sem ekkert umræðuefni er í gangi og hefur engan sérstakan tilgang. Tilgangur þess er að virka sem fylling milli umræðuefna eða til að ræsa og enda samtalið.

Vandræðin mín byggjast aðallega á tvennu: Of langt smátal og að komast út úr því. Þegar ég ræði við einhvern sem ég þekki ekki eða þekki lítið, þá á smátalið til með að vera of langt fyrir minn smekk. Eftir smá stund fer mér að líða verr því mér finnst eins og samtalið muni áfram vera innihaldslaust. Á ég þá til með að reyna að enda samtalið eins fljótt og ég get en reyni þó að undirbúa ágæta lendingu. En ef ég þekki manneskjuna og smátalið er orðið of langt og engin létt leið til að enda það, þá verð ég oft uppiskroppa með fyllingarefni.

Alla ævi mína hef ég verið langt frá því að vera félagslyndur og byrjaði því að læra smátal langt eftir 20 ára aldurinn. Á þeim tíma hef ég tekið eftir mörgu fáránlegu sem fólk tekur upp. Eitt dæmi um það er að spyrja hvernig mann líður þegar það er enginn augljós tilgangur með því. Fólk er svo vant að heyra ‘vel’ og ‘ágætt’ að setur enga merkingu í svarið. Ef ég myndi svara ‘Ágúst’ myndu sumir líklegast ekki taka eftir því og halda áfram með smátalið. Sumir jafnvel ljúga þegar þeir svara þessari spurningu og hef ég jafnvel gert það sjálfur. Þá hef ég svarað að mér líði vel eða ágætlega en í raun og veru liðið illa. Hins vegar er ég hættur þeirri vitleysu og haft það að stefnu að svara heiðarlega. Ef mér líður illa, þá segi ég það.

Venjulega þegar fólk biður mig um eitthvað byrjar það oft samtalið á smátali sem er aðferð til að þykjast hafa meiri áhuga á mér en það hefur í raun eða mýkja mig svo það virðist ekki vera heimtufrekt. Þegar manneskjan gerir þetta aftur og aftur fer þetta að verða þreytt, sérstaklega þegar öll samskiptin enda á því að biðja mig um eitthvað. Það væri óskandi ef fólk hefði raunverulegan áhuga á mér en ætli ég sé bara ekki of ófélagslyndur til þess.

Þetta er alger vítahringur.

Ofkurteisi

Eitt af því sem ég tek reglulega eftir í verslunum er að eftir að ég hef greitt fyrir vörurnar er að afgreiðslufólkið spyr þá oftar en ekki: „má bjóða þér afritið?“. Ekki veit ég hvernig þetta byrjaði en að mínu mati eitthvað sem lengir málið að óþörfu. Ég er ánægður með að sumir spyrja einfaldlega „viltu afritið?“.

Í fljótu bragði dettur mér í hug tvær ástæður fyrir þessu: Sú fyrsta er að starfsfólkið er vant á það að vera kurteist við viðskiptavinina og einhverra hluta vegna dettur því í hug að lengra mál hljómi kurteisara. Önnur ástæðan er orðið „þér“ sem lætur spurninguna hljóma kurteisari þótt sú sé ekki raunin. Sumir skipta út „þér“ fyrir „yður“ en ég rekst sjaldan á það.

Það er allt í lagi að sýna kurteisi við viðskiptavinina en það er einnig hægt að fara of langt. Að spyrja hvort maður megi bjóða einhverjum afritið er algerlega óþarft aukaskref í þessum samskiptum. Ef við hugsum um þetta röklega séð gætu samskiptin verið svona;

Má bjóða þér… – Vill ekki afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Má bjóða þér… – Vill afritið:
AM: Má bjóða þér afritið?
VV: Já, takk.
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Viltu afritið? – Vill ekki afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Nei, takk.

Viltu afritið? – Vill afritið:
AM: Viltu afritið?
VV: Já, takk.

Bæði afgreiðslufólkið og viðskiptavinirnar vita að efri tvö samskiptin hljóma fáránlega og er því ríkjandi sú stytting að svarið sem fylgir fyrri spurningunni er í raun svarið við þeirri seinni.

Mig langar að vita hvernig þetta hófst. Var einhver viðskiptavinurinn svo móðgaður yfir því að hafa verið spurður hvort hann vilji afritið að afgreiðslufólk spyr núna um leyfi til að bjóða honum það?

Frí faðmlög

Í dag fór ég á Laugaveginn ásamt fríðu föruneyti (tveim dúllum) og buðum við vegfarendum upp á frí faðmlög. Alþjóðlega átakið ber nafnið „Free hugs“ og hófst það árið 2004 í Ástralíu en hefur það breiðst út til annarra landa. Það er regla að það má ekki stunda markaðsetningu samhliða átakinu þar sem faðmlögin eiga að vera merki um góðmennsku í þeim tilgangi að láta öðrum líða betur.

Við lögðum af stað frá Lækjartorgi rétt fyrir klukkan tvö í dag og fórum upp Laugaveginn og buðum fólki upp á faðmlög. Á leiðinni fórum við í litla jólaþorpið þar sem tekið var vel á móti okkur. Þaðan var ferðinni haldið áfram um Laugaveginn þar til við nálguðumst Hlemm en þá var klukkan að nálgast þrjú. Fórum við þá að leggja af stað tilbaka og byrjuðum þá að fara inn í búðir. Almennt tóku viðskiptavinir þeirra og starfsfólkið vel á móti okkur. Klukkan var síðan um hálf sex þegar við vorum komin aftur á Lækjartorgið. Átakið mun halda áfram að ári liðnu – eða jafnvel fyrr.

Þetta var nokkuð ánægjuleg reynsla og var skemmtilegt að sjá viðbrögð fólks þegar því var boðið upp á frí faðmlög. Sumir brostu út að eyrum og föðmuðu okkur og einhverjir föðmuðu okkur oftar en einu sinni á ferðalagi okkar. Yfirgnæfandi meirihluti vegfarenda tók boði okkar um faðmlög en sumir tóku ekki við því. Þeir vita ekki hverju þeir eru að missa af. 😀

Faðmlög eru dýrmæt, jafnvel þótt þau séu ókeypis.